Hvað vantar í líf þitt?
4.2.2014 | 11:31
Ég hitti oft fólk sem er svo þreytt að það getur varla hugsað sér að mæta í vinnuna daginn eftir eða þann dag eða nokkra daga, en fer samt. Hugsunin um að fara í ræktina eða hitta vini sína verður algjörlega yfirþyrmandi, örmagna þegar stungið er upp á einhverju sem þarf smá fyrirhöfn. Eins og að fara á listasafn, syngja eða dansa. Oft verða slíkir einstaklingar mjög reiðir yfir lífinu, eða bara í búðinni eða yfir ríkisstjórninni. Sérstaklega finnst þeim fólk sem hugsar um sínar eigin þarfir óþolandi. Stundum finnst þeim að heimurinn sé á þeirra herðum og allir aðrir skilji það ekki. Þessar tilfinningar eru einkenni á kulnum í starfi.
Ég spyr oft fólk sem er komið svona nálægt kulnun í starfi: Hvað vantar í líf þitt? Ef að líkamlega einkenni hafa komið fram: Hvað er líkami þinn að segja þér? Hvað vantar líkama þinn til að þú getur heilað eða grætt hann?
Svörin eru fjölbreytt en oftast er kemur fram þessi mikla ábyrgðakennd og skyldurækni. "Ég get ekki tekikð frí!!", "ég get ekki hætt að ferðast svona mikið". "Ég get ekki farið í nudd eða líkamsrækt eða tekið tíma til að mála". Stundum eru svörin afdrifaríkari: "Ég verð að hætta í vinnunni minni, eða skipta um verkefni", "Ég er ekki á réttri hillu". Jafnvel: "ég verð að sleppa takinu á því að sjá um mömmu, pabba eða vera alltaf með börnin." Eða þá "peningamálin eru í skralli, ég verð að vinna svona mikið."
Reglulega verðum við að finna hvað það er sem vantar í líf okkar og hlusta á hina innri rödd sem við höfum öll aðgang að. Við lendum öll á óæðri endanum í lífinu af og til og verðum að standa upp og horfa í spegilinn og segja við okkur sjálf: "Ég finn að það er eitthvað sem vantar í líf mitt, hvað er það?"
Hlusta á svarið og byrja, hvert ferðalag hefst á einu skrefi...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eru of þung/ur? Losaðu þig við nokkur kíló
22.1.2014 | 17:03
Endur fyrir löngu var ég með megrúnarklúbb sem hét: Njótum lífsins. Það var mjög skemmtileg reynsla og við skemmtun okkur hið besta og margir losuðu sig við mörg kíló. Þannig er að mörg okkar eru alltof þung, á brún og brá. Ef þú vilt þá getur þú losað þig við mörg kíló af röngum hugmyndum.
Ég er í sjálfsskaparvinnu (með áherslu á að skapa..) þessa dagana. Ég vinn að því að losa mig við kíló af þessum og hinum viðhorfunum sem hafa þyngt mig. Hér eru dæmi. Eitt kíló af því að finnast ég þurfa að gera, hitt og þetta. Annað kíló af því að vera með allar heimsins áhyggjur á herðunum og finnast að ef ég sé ekki til staðar 150% prósent þá muni heimurinn hrynja til grunna. Kíló af því að vera alltaf að og annað af því að finnast allt vera "hinum" að kenna.
Ég hef lært að ég þarf alltaf af og til að létta á mér og létta mig af þessum fyrirframgefnum hugmyndum. Hugmyndum um sjálfa mig sem ekki eru lengur þess virði að burðast með. Ég legg mig fram um að finna hvaðan þær spretta og oftast eru þær sprotnar frá sjálfri mér. Sumir ganga tólf sprorin til létta á sér, aðrir finna einhvern göngufélaga og stuðningsaðila til að létta undir með sér.
Ég kokka upp ástríðuna og finn hvernig kærleikurinn vex með hverri nýrri uppskrift. Ég veit nefnilega, eftir að hafa verið með megrunarklúbb, að það er alltaf best að létta á sér með umhyggju og kærleik. Ég elda eftir nýjum uppskriftum og krydda með nýjum hugmyndum. Á sjö ára fresti endurnýjar líkaminn sig allur, hver fruma líkamans, allar saman, takk fyrir takk, verða nýjar. Við getum líka endurnýjað hugmyndir okkar umh hvað við getum. Sérstaklega eftir að hafa losað okkur við kíló af sársauka, kíló af kvíða og þungum þönkum. Við getum.
Ég græði og græði, sjálfa mig, af takmarkandi hugsunum. Legg inn og veit að ég er örugg, elskuð og að allt er eins og það á að vera. Hver þumlungur af sjálfri mér breytist reglulega og ég get breytt þankagangi mínum. Kíló fyrir kíló. Það getur þú líka. Prófaðu bara :-).
Heilum og græðum garðinn okkar fyrir vorkomuna :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ertu með pung?
16.1.2014 | 12:43
Þegar ég keyri á milli staða, með börnin með mér, vilja þau gjarnan hlusta á útvarpsstöð sem er ætluð yngri hlustendum. Ég hef gaman af því að hlusta á nýjustu lögin og oft gaman af þáttastjórnendum sem eru frjálslegir. Stundum þarf ég að slökkva á tækinu því umræðuefnið eða orðaforðinn er bannaður inn á sextán, í mínum bíl, en oftast hækka ég í tónlistinni og við syngjum eð Jay-Z, eða Jennifer, Eninem og fleirum.
Eitt sem ég hef tekið eftir er að þáttastjórnendur eru flestir karlkyns og þeim er gjarnt á að spyrja hvorn annann þessarar spurningar "Ertu með pung - eða?" Ég hef lagt mig fram um að skilja spurninguna því ég hélt í einfeldni minni að allar karlkyns lífverur væru með pung. Eins og ég skil þetta þá vísar þessi spurning til þess hvort þeir séu hugrakkir eða karlmannlegir eða þori? Ég er ekki viss. Ég veit þó að það er mikilvægt að hafa hugrekki en ég held að það eigi við um bæði kynin. Eftir að hafa legið á netmiðlum í hálfan dag um daginn, þegar ég var að fresta því að byrja að skrifa fræðilega grein, hugsaði ég með mér hvort að það væri kannski auðveldara að vera með pung. Netmiðlar eru fullir af allra handa upplýsingum um hvernig hægt er að breyta sér, bæta sig, verða fullkomnari og allt á nýju ári. Allir eru sammála um að það sé til betri leið að því að verða fullkomnari. Mér sýnist (án vísindalegrar athugunar) að oftast sé lögð áhersla á útlit kvenna en heilsufar karla. Gömul saga en ekki ný.
Kannski þurfum við að hafa pung til þess að finnast við vera ágæt eins og við erum og hugrekki til að skoða okkur sjálf með umhyggju. Hafa pung til að stefna að því njóta hversdagsins enn betur í hinum hversdaglega janúarmánuði. Án þess að vera með brjálað samviskubit yfir því að vera svona. Bara svona. Síðan er alveg hægt að finna leið til þess að gefa sköpunarkrafti og gleði útrás með því að elda dýrindis mat eða hreyfa sig - svona rétt eins og í febrúar og mars og ágúst. Pung, til þess að horfa fram hjá keppnum í hinu og þessu og hugsa bara "ég er með pung (eða píku) til að velja mína leið. Þarf ekki frægð eða að vinna neitt, þannig fæst ekki hin svokölluð hamingja. Hlusta bara á Eninem syngja "the monster" sem fjallar um þrá hans eftir frægð en hvernig uppfylling á þrá hans, eða frægðin, blés upp egó hans. "What I gave up to get was bittersweet, it was like winning a huge meet, ironic because I think I am getting so big, I need a shrink ..." Lauslega þýtt; það sem ég fórnaði var sætt sem er kaldhæðnisleg þar sem ég held ég þurfi sálfræðing. Viðlagið talar um að vingast við skrýmslið undir rúminu og skrýmslið inni í hausnum á manni.
Maður lærir margt af því að hlusta á þátttstjórnendur á útvarpsstöðum, það segi ég satt og samt er ég ekki með pung og kannski misskildi ég þetta allt saman þar sem ég slökkti í miðri setningu sem byrjaði á "fo.."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tíu ráð um áramótaheit
30.12.2013 | 12:44
Ég er búin að liggja í bókum, konfekti og saltpækli undanfarið, eins og þjóðin öll. Mér fannst ansi gaman að uppgötva að æska mín er orðin að "sögulegri ættarsögu" en Jón Kalmann Stéfansson skrifar skemmtilega um Keflavík æskunnar, hann er næstum jafngamall og ég. Ég varð óþarflega miðaldra við lesturinn en hafði gagn og gaman af. Minningarnar læddust um á sama tíma og konfektið rann ljúflega ofan í mig.
Ari, söguhetja bókarinnar gefur út bækur sem allar bera heitið "Tíu ráð.." Við Jón Kalmann eigum greinilega fleira sameiginlegt en bernskuár í Keflavík því það skín í gegn álit hans á tíu ráðum. Mér hefur alltaf fundist merkileg þessi árátta okkar að vilja setja allt niður í tíu ráð, sem er sambærilegt við að líkja skyndikynnum við áratugalöng hjónabönd.
Þess vegna, svona í gamni, ælta ég að setja niður tíu ráð um hvernig á að nálgjast áramótaheitin...
Ráð eitt - ekki setja þér áramótaheit sem er sprottið af saltpækli og konfektári undanfarna daga. Hugsaðu fram í tímann. Ef þig langar til að breyta vana þínum geru ráð fyrir vinnu og aftur vinnu. Hindrunum og að lokum sigri en ekki láta skyndilausnir villa þér sýn. Aldrei setja markmið nema eftir mikla sjálfsskoðun - hvað hentar þér einni eða einum? Miðaðu við það en ekki nýjasta nýtt.
Ráð tvö - Gerðu eitthvað allt öðruvísi á þessu ári. Endurnýaðu sköpunarkraft þinn með því að keyra á mótorhjóli, fara í sjósund eða dansa. Búa til silfurskartgripi, fara á nautaat á Spáni, fótboltaleik á Englandi. Eða ganga á Hornstrandir, eða læra að tefla, læra nýtt tungumál. Læra á sjálfan þig.
Ráð þrjú - Gerðu eitthvað með öðrum. Farðu og finndu hópinn þinn. Er það fjölskyldan? Eða Læons, hlaupahópur eða prjónaklúbbur. Saumaklúbbur eða matarhópur, eða er það kannski ferðafélagar? Langaði þig alltaf í skátana? Björgunarsveitina? Starfsmannaklúbbinn? Leshópinn? Finndu hann, hópinn þinn, á nýja árinu.
Ráð fjögur - Vertu kynvera - ef þú ert orðin átján ára. Ekki gefast upp á ástinni þó að einhver hafi einhvern tímann svikið þig. Eða þú ert búin að vera ein eða einn í tuttugu og fimm ár. Eða gift í þúsund ár. Haltu áfram að rækta kynveruna, læra nýtt. Maður þarf ekki að fara á Tantra námskeið til að hugsa um að halda sér aktívum á þessu sviði. Stærsta kynfærið er á milli eyrnanna. Og bæ the way, það skiptir ekki máli hvað þú ert gömul eða gamall - ástin getur verð jafn ástríðufull á níræðisaldri og um tvítugt. Bara aðrar aðferðir eins og við allt annað. Hleyptu villimeyjunni eða peyjanum út á næsta ári...
Ráð fimm - Gerðu eitthvað á nýju ári sem engum myndi detta í hug að þú hafir áhuga á. Eins og að leysa Suduokó eða krossgötur, rækta græna fingur, stunda jóga eða hugleiðslu. Eða Cross-fit eða hekla.
Ráð sex - Láttu ljós þitt skína og njóttu þess. Finndu leið til að verða enn betri í því sem þú nú þegar ert góð eða góður í.
Ráð sjö - Haltu áfram að læra. Bara eitthvað, læra um lífið og læra á lífið.
Ráð átta - Ekki láta fortíð þína hafa of mikil áhrif á hvernig þér líður núna. Hugsaðu samt um framtíðarsjálf þitt. Hvað er gott fyrir framtiðarsjálfið? Augljóslega allt sem skaðar heilsu þína er ekki gott. Augljóslega er það að styrkja sjálfan sig gott fyrir framtíðarsjálfið. Augljóslega náin sambönd núna við þá sem í kringum þig eru.
Ráð níu - Hugsaðu um markmið sem munu koma þér út úr þægindahringnum. Okkur líður svo vel þar sem við þekkjum okkur og þurfum ekki að hafa fyrir hlutunum. En eina leiðin til að þroskast er að setja sér nýjar áskoranir. Ég ætla til dæmis að fara sem farastjóri til Spánar í maí í fjallgöngur í hálfan mánuð á pílagrímaleið. Það er algjörlega út úr mínum þægindarhring - mjög langt út úr honum svo langt að mig langar að hætta við... en það er ekki hægt, búin að lofa .. (mun segja ykkur frá því í maí hvort ég kemst á leiðarenda...)
Ráð tíu - brjóttu öll ráðin og gerðu ettttta á eigin forsendum.
Ég þakka samfylgdina og ég þakka lesturinn á þessu dásemdarári sem nú er að renna sitt skeið. Um leið óska ég þér blessunarríks nýs árs. Megir þú skapa margar gleði- og ævintýrastundir, njóta og lifa lífinu til fulls á því herrans ári 2014.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólabörn
16.12.2013 | 17:16
"Ég er ekkert jólabarn", sagði hann maðurinn sem kom að gera við hjá okkur. "Auk þess eru margir sem eiga bágt núna..", bætti hann við. Ég varð aðeins varkárari og sagði en það væri nú léttir að ljósin væru farin að lýsa upp skammdegið. "Ég veit það nú ekki - það þarf að taka þetta niður.."
Enn á ný var ég minnt á að þessi tíma tilhlökkunar er oft svo blendin af erfiðum tilfinningum. Þeir sem ekki eiga fyrir jólunum, þeir sem hafa misst ástvini og þeir sem eru að syrgja það sem ekki verður, eða varð. Ég bauð honum þó upp á kaffi og við áttum indæla stund saman. Þrátt fyrir að hann sé ekkert jólabarn.
Það sem gerir þennan tíma svo undursamlegan er hvað við erum öll varnarlaus fyrir alls konar... alls konar tilfinningum sem bærast í brjóstum okkar allra. Við erum eitthvað svo varnarlaus því barnið í okkur er svo nærri í sinni. Einmannaleikinn getur orðið nýstandi, gleðin svo hástemmd, blankheitin svo stingandi og kærleikurinn svo heitur. Sorginn svo dökk og missirinn svo átakanlegur. Því jólin eru að koma. Barnsandinn svífur yfir vötnum og gerir okkur svo ósköp sönn. Lagið í útvarpinu fær tárin til að streyma eða þá að maður dansar af gleði.
Þannig eru þau jólin. Þar sem við sátum við eldhúsborðið, ég og maðurinn sem kom til að gera við, áttum við yndæla stund þar sem við töluðum saman af einlægni um þá sem eiga erfitt um jólin. Hann sagði mér hluta af sögu sinni og jólaljósin úr glugganum mýktu okkur að innan. Nú er um að gera að eiga sem nánustu samveruna við hvort annað. Meðan við erum í góðum tengslum við barnið í okkur, og börnin í kringum okkur, þá erum við ekkert að þykjast. Þeir sem eru svo ósköp glaðir geta umvafið umhverfi sitt eins og tindrandi jólastjörnur sem lýsa upp fyrir þá sem ekki eru eins glaðir. Svo tökum við niður jólaljósin seinna og göngum inn í fullorðins sjálfið, það er nógur tími fram að því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvenær er nóg, nóg?
7.12.2013 | 14:24
"Ertu að fara að læra meira, ertu ekki búin að læra nóg?" sagði hún og brosti fallega. Ég var svo heppin að fara í gegnum Fríhöfnina og hitta mína gömlu vakt, á leiðinni til að læra meira. Ég vann í Fríhöfninni í "gamla daga" með námi og finnst ég alltaf vera komin heim þegar ég fer í gegn.
Ég settist upp í vél og hugsaði um það sem þessi gamla samstarfskona sagði við mig. Hvenær er maður búin að læra nóg. Ég var líka að huga að jólunum, hugsanir um hvað ég ætti eftir að gera svömluðu um í huga mér þar sem vélin bjó sig undir að lyftast frá jörðu. Hvenær er ég búin að gera nóg? Jólagjafir, jólamatur, jólakort, jólahittingur. Hvað er nóg?
Stundum segir maður "ég er alveg búin að fá nóg....(oftast með argi og gargi ..)" En tökum við mark á því þegar þessi tilfinning hellist yfir? Sumir sérfræðingar halda því fram að við eigum eingöngu að hlusta á tilfinningar okkar en ekki hugsanir. Í hugsunum okkar búa nefnilega meiriháttar skrýmsli sem vilja stundum ná sér niðri á okkur. Þegar við másandi og móð þeytumst milli staða og stunda án þess að finnast það vera nóg þá er tilfinningin oft nægilega skýr en hugsunin segir (þú þarft að standa þig... þú átt að halda áfram... .þetta er ekki nóg..).
Við erum mjög misjöfn að upplagi um hvenær okkur finnst vera nóg komið. Ég fæ til dæmis aldrei nóg af lærdómi, aldrei nóg af innihaldsríkum samræðum, nýjum hugmyndum o.s.frv. En aðrir fá nóg af því að lesa tvær blaðsíður í bók. Ég fæ nóg af því að horfa á fólk hreyfa sig mikið en aðrir fá aldrei nóg af því að hreyfa sig. (Auðvitað aldrei nóg af súkkulaði en það er mitt vandamál að vita hvenær nóg er komið...)
Á þessari aðventu, á þessari stundu spurðu þig: "Hvað er ég búin að fá nóg af?" Ef það er komið nóg af því að þurfa að gera eitthvað sérstakt fyrir jólin. Hættu þá, þvingaðu fram bros og segðu upphátt "Ég stend með sjálfri mér og er hætt - búin að fá nóg (alla vega í bili) ". Eða að hafa símann stöðugt við hendina, eða vera of mikið á fésinu eða baka eða þrífa eða drekka eða borða eða sinna öðrum .....
Mundu bara að þú ert nóg :-), allir aðrir eru nóg eins og þeir eru, akkúrat svo mikið eins og þeir eru. Þegar við erum búin að fá nóg og berum virðingu fyrir því þá getum við svo miklu betur gefið öðrum (og okkur sjálfum) tækifæri til að vera. Bara vera. Það er nóg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að samgleðjast.
26.11.2013 | 10:08
Nú streyma inn jólablöðin þar sem allir eru svo sætir og fínir og baka svo margar sortir og eiga svo fallegar jólahefðir. Ég sat með kaffibollann yfir blaðinu og horfði á dýrðina og áður en ég vissi af var ég farin að hugsa "ohhhhh... það eru engar sniðugar jólahefðir hjá okkur.. Ég er alveg hætt að baka... ég vona að ég komist í jólakjólinn.." Í stað þess að samgleðjast fólkinu á myndunum var ég ósjálfrátt farin að bera mitt smákökujólahefðasnauða líf saman við þau. Ég hrökk við, sló sjálfa mig utan undir (í huganum) og minnti mig á að stærsta synd mín (samkvæmt mínum boðorðum) er að samgleðjast ekki fólki.
Í nýlegu viðtali við Jack Welch, fyrrverandi forstjóri General Electrics í Bandaríkjunum, og núverandi frægasti fyrverandi forstjóri segir hann: Það sem skiptir mestu máli þegar stjórnendur eru ráðnir eru að þeir kunni að samgleðjast fólki. Ef þeir kunna það ekki þá látast þeir stjórnast af öfund og eru líklegri til að ráða fólk í kringum sig sem eru lélegri en þeir sjálfir. Þeir eru líka líklegri til að halda aftur af fólki sínu og vilja sýnast bestir og mestir. Þeir sem kunna að samgleðjast vilja sjá fólkið sitt blómstra. Þessir stjórnendur njóta þess að ýta undir aðra og hafa fólk í kringum sig sem er klárt og kann jafnvel meira en það sjálft. Þeir stjórnendur sem kunna að samgleðjast eru oftast forvitnir, auðmjúkir og reyna að laða það besta fram í fari annarra.
Ég er svo sammála Jack og vildi bæta því við að þeir vinir sem kunna raunverulega að samgleðjast manni eru sannir vinir. Þeir sem þola að maður láti ljós sitt skína og standa með manni þegar vel gengur með raunverulegu vinaþeli en ekki öfund eru sannir vinir. Það er auðveldara að finna til með fólki þegar illa gengur en þegar vel gengur. Þar skilur á milli þeirra sem kunna að ýta undir aðra og hinna sem láta öfundina stjórna sér.
Ég horfi nú á alla jólagleðina í blöðunum og "ég geri svona rjúpur og þessa rétti og hefðirnar eru hundrað ára gamlar og allir eru hamingjusamir um jólin" (ekkert allt á síðustu stundu og öskra á krakkana.. hvernig á að redda síðustu jólagjöfinni...) með gleði í huga. Ég samgleðst innilega öllum (og sjálfri mér líka) jólabörnum. Samgleðst þeim sem láta ljós sitt skína og samgleðst þeim sem kunna að leita velgengina uppi. Dásamlegar fyrirmyndir okkar um það sem hægt er að gera. Eins og baka margar sortir og vera búin að því. Fabílös!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sólarvakning og skömm
19.11.2013 | 10:38
Ég er enginn morgunhani og á þessum árstíma finnst mér að vinnudagurinn eigi ekki að byrja fyrr en í fyrsta lagi klukkan 10. Bætum við roki, éli og kulda og þá fáum við niðurstöðuna að byrja á hádegi... En það er alveg sama hvað mér finnst (lífið er ekki sanngjarnt og allt það) hversdagurinn byrjar klukkan 7 allt árið um kring. Þess vegna fékk ég mér vekjaraklukku sem er eins og sólarljósið. Ljósið byrjar mjög veikt en eftir hálftíma er ljósið orðið sterkt og þá kveikir hún á útvarpinu. Maðurinn minn, aftur á móti, er nokkuð hress á morgnana og er því meinilla við þessa klukku (hjónaband er ekkert nema komprimí..). Eftir að klukkan hafði verið inn í skáp í langan tíma samdi ég um að nú væri komin tími til að leyfa henni að senda sólargeisla sína inn í herbergið (halló, nóvember..). Hann féllst á rök mín og setti varasólina í samband og fann greinilega bara einhverja útvarpsstöð til að vekja okkur.
Í gær, þar sem ég lá hálfrænulaus hrökk sólarútvapið í gang og áður en ég gat opnað annað augað þrumaði suðræn enskumælandi rödd yfir mér "I am an alcoholic and before I thought I was bad but now I know that I have a disease.." Þar sem ég hlustaði á John frá suðurríkjum Bandaríkjanna þruma þá fékk ég svona aha-augnablik! Og mundi eftir konu sem ég hitti fyrir nokkru síðan.
Brené Brown er rannsakandi sem hefur rannsakað skömm í áratugi. Hún hefur orðið mjög þekkt eftir að hún flutti fyrirlestur á ted.com. Brené heldur því fram að skömm sé ein erfiðasta tilfinningin sem við upplifum vegna þess að þegar við skömmumst okkar þá finnst okkur, við ekki vera tengd öðrum. Við upplifum að við séum ein á báti. Svona "nú ætti ég að skríða í mína holu tilfinning..."
Ég fór að hugsa um það sem alkinn John var að segja um skömmina. Hann gat tekið á sjúkdómnum eftir að hann hætti aði skammast sín. Um leið og hann tendist öðrum hafði hann kjarkinn og sá að hann var ekki einn með sína líðan. Skömmin er svo erfið af því hún einangrar okkur hvort frá öðru. Því þurfum við að finna fyrir henni og viðurkenna veikleika okkar sem er erfiðara en nokkuð annað. Til þess þurfum við slatta af kjarki, eins og John. Þar sem ég opnaði hitt augað hugsaði ég með mér að það væri mikilvægt að finna leið til þess að allir skólar, vinnustaðir og heimili væru laus við skömm. Að umhverfi þar sem ekki væri verið að skammast út í hvort annað væri það besta (eigum við eitthvað að ræða athugasemdarkerfin í netheimum..). Að við gætum hætt að segja við börnin okkar "skammastu þín". Samfélag þar sem við viðurkennum vanmátt okkar og veikleika og höfum kjark til að stíga inn í skömmina til sð breyta. Breyta okkur til hins betra án þess að skammast okkar. Ég ætla að fara að lesa Bréne aftur, hugsaði ég og drattaðist á fætur.
Segir svo ekki máltækið: Morgunstund gefur gull í mund :-). Ég bæti hér við að sólarútvarp getur gert daginn betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað gerðir þú í dag sem þér fannst erfitt?
10.11.2013 | 16:09
það eru margir sem hafa komið að máli við mig og talað um vanlíðan ungmenna. Ég hitti vin minn sem er skólastjóri í framhaldsskóla um daginn. Hann talaði um að það hefði komið sér í opna skjöldu hvað mörg ungmenni væru kvíðin, þunglynd og ættu við erfiðleika að stíða. Ég hitti vin minn sem er prestur sem sagði að mörg fermingarbörn væru leið. Ég hef verið að hugsa um þetta í vikunni. Ég heyrði líka í fréttum, í dag, að aldraðir væru oft illa haldin af depurð.
Satt best að segja hef ég hugsað meira um þessar staðreyndir en hagtölurnar. Velsæld sem er eingöngu mæld í hagtölum stendur ekki undir nafni (vel-sæld). Fyrsta sem kom upp í hugan var að við værum að missa nándina. Mörg fermingabörn kvarta undan því að foreldrarnir séu stöðugt í símanum og tölvunni. Vinir talast ekki lengur við í síma heldur senda kveðjur á fésbókinni. Aldraðir tala um að fólk hafi ekki tíma til að kíkja í heimsókn. Ég fékk smá nostalgíukast yfir eldhúsumræðum fortíðarinnar. Þar sem setið var í eldhúskrókum og sötrað kaffi og sagðar sögur og fréttir. En svo hugsaði ég um gildi núttímans. Hið hversdagslega er alveg hætt að vera "inn". Allir eiga að skara fram úr með einhverjum hætti. Minni áhersla er lögð á að þeir sem skara fram úr leggja hart að sér. Mjög hart og þurfa að vinna að árangri með því að leggja sig fram á hverjum degi. Hversdagsleikinn og erfiðið er ekki hafin til skýjanna. Árangur strax er ekki raunhæfur kostur í flestum tilfellum.
Ég fór í íþróttaskólann með drenginn sem er að verða sex ára og horfði á foreldra leiða börnin sín í gegnum æfingarnar og hugsaði mitt. Kannski leggjum við ekki nægilega áherslu á að börn upplifi það sem er erfitt (standa í röð og fylgja leiðbeiningu eða bara að detta og standa upp aftur) ein og óstudd. Mín kynslóð (sem er flest öll komin með fullorðin börn) var alin upp við að fara ein á íþróttaæfingar og kóræfingar eða leika sér út,i ein og óstudd. Það mætti enginn á æfingar, tónleika eða leiki og þótti ekkert skrýtið. Við ákváðum að gera þetta öðruvísi og höfum verið sérstakur stuðningsaðili barnanna okkar frá því að þau fæðast. "Þetta er frábært", segjum við þegar þau sýna okkur listaverkin sín. "Þú ert æði", eða þegar við förum á íþróttaæfingarnar þá höldum við í hendur þeirra og lyftum þeim upp á hestinn því þau komast ekki. Við klöppum fyrir þeim og segjum þeim að þau séu fæddir snillingar (ég ýki aðeins...). Getur það verið að við séum að búa til minna þol fyrir því að takast á við lífið með þessu framferði okkar? Lífið er erfitt. Meira að segja mjög erfitt á köflum.
Ég hef tekið upp eina reglu á heimilinu, í kjölfarið á þessum hugsunum, sem er að spyrja fjölkskyldumeðlimi við kvöldverðaborðið "hvað gerðir þú í dag sem þér fannst erfitt? Svörin hafa verið margbreytileg: Ferð til tannlæknisins, fara í próf, detta úr rólunni, takast á við átök á vinnustað (stóra fólkið), blóðsýnataka og stríðni. Með þessu vona ég að við lærum þrautseigju. Ég held líka áfram að spyrja: Fyrir hvað ertu þakklát/ur? Fimm atriði (ohhhhhhhhh mamma .... þurfum við endilega ...)
Sameinumst um að hugsa vel um ungmennin okkar - þau eru framtíðin. Hugsum líka vel um aldraða, þeim eigum við að þakka tilveru okkar og velsæld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimm sé
6.11.2013 | 22:08
Indra Nooyi er forstjóri Pepsí. Hún var stödd hér á landi í síðustu viku á afmælishátið Ölgerðarinnar. Indra er fædd og uppalin í Indlandi en flutti til Bandaríkjanna til að mennta sig frekar. Hún varð forstjóri og starfandi stjórnarformaður fyrirtækisins 2006. Hún hefur lagt áherslu á félagslega ábyrgð fyrirtækja og hefur náð miklum árangri sem leiðtogi eins stærsta fyrirtækis í heiminum. Hún þakkar þeim árangri að hún leiði með hjartanu og hafi sín eigin gildi að leiðarljjósi í starfi. Ég hlýddi á hana í Þjóðleikhúsinu og hafði gagn og gaman af. Hún var spurð að því hvað hún legði áherslu við ráðningu á leiðtogum Pepsí. Indra var fljót að taka til hin fimm C. sem eru höfð að leiðarljósi við val á leiðtogum.
Í fyrsta lagi forvitni (curiosity). Grundvallaratriði í fari stjórnanda þar sem þeir þurfa stöðugt að vera að huga að næstu skrefum. Ef fólk er forvitið er það líklega til að vera auðmjúkt sem er annar mikilvægur eiginleiki í fari leiðtoga.
Í öðru lagi sköpunargleði (creativty). Ég er langt komin með bók um sköpunargleði því ég er sannfærð um mikilvægi þess að stjórnendur framtíðarinnar muni verða að rækta með sér sköpunarkraft. Eins og Indra leggur áherslu á.
Í þriðja lagi hugrekki (courage). Enginn nær að virkja sína innri krafta nema hafa hugrekki til þess að koma verkum sínum í framkvæmd.
Í fjórða lagi samskiptahæfni (communication). Leiðtogar verða að geta leitt hóp sinn áfram og til þess þurfa þeir að vera flínkir í samskiptum. Jack Welch sem kom hér fyrir mörgum árum kallaði þetta "to energize" eða að gefa öðrum orku.
Í fimmta lagi að vera fyrirtækinu hollur (commitment). Þeir sem hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi í stað sinna eigin eru bestu leiðtogarnir.
Indra er alveg með þetta. Sannar þarna að munurinn á kunnáttu og visku er reynslan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)