Gjöf hins smáa

Þegar maður fer í burtu, að heiman, þá saknar maður þess hversdagslega. Að elda kvöldmat meðan gamla gufan mallar fréttirnar. Að strjúka nýklipptum drengjakoll. Að kyssa ástvin sinn. Að drekka nýlagaðan kaffibolla og lesa blöðin. Að Að ganga sömu götuna og taka eftir árstíðarskiptum. Að setjast niður við kvöldverð með fjölskyldunni. Að raða þvotti í skápa. Að kveikja á kertum í vondu veðri og horfa á vindinn leika sér um tré og veröld alla. Að leggjast til hvílu á sinn kodda.

Þegar einhver kveðjur þá saknar maður þess smáa. Bros og glettni, knús og litur augna. sameiginleg sögubrot sem alltaf er hlegið að. Peysan sem manni þótti ljót eða sérstakur talandi. Símtöl og langar samræður, gönguferðir og það sem gert var í hversdeginum.

Hið hversdagslega er eins og öryggisnet sem leggst yfir tilveru okkar og við tökum ekki eftir fyrr en við förum úr þeim aðstæðurm. Eins og fiskur í vatni þá gerum við ráð fyrir því sem er eins dag eftir dag. Stillum vekjaraklukkuna og vöknum á sama tíma við sömu daglegu athafnirnar. Hver dagur er eins og bútur í mósaíkmynd sem myndar hið stórkostlega eða líf okkar. Hver bútur svo mikilvægur en samt gleymum við að þakka fyrir hið hversdagslega. Það er ekki fyrr en við verðum eins og fiskur á þurru landi sem við gerum okkur grein fyrir því sem mestu máli skiptir: Hið smáa.

Nú þegar nóvember kuldinn og myrkrið leggst yfir er gott að huga að því að gera hið smá á eins fagran máta og unt er. Dúka borð, kveikja kerti. Nota fína stellið, fallegu rúmfötin og silfrið og klæða sig í fínu (og hlýju) klæðin sín. Safnast saman og njóta. Gefa eins og maður lifandi. Gefa tíma og athygli, gefa bros og gefa hlýju á köldum degi. Hlú að og næra það sem á að vaxa í vor.

Gera hvern bút í mósaíkmyndinni fagran og skínandi sérstakan, á sinn hversdagslega máta.    


Lífsins krossgötur

Lífsins krossgötur eru margar og þegar maður kemur að þeim þá veit maður stundum ekki hvort maður á að fara til vinstri, hægri eða beint áfram. Oftast gefur lífið manni ekki tækifæri til að fara aftur á bak (sem betur fer).

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga á þessum krossgötum:

 

1. Taktu þér tíma til að blása úr nös.

2  Farðu eftir innsæi þínu. Þú hefur innri áttarvita sem vísar allaf veginn í rétta átt.

3  Reyndu að sjá fyrir þér áfangastaði á hverri leið. Hvernig er venjulegur þriðjudagur á hverri leið?

4  Spurðu þá sem á undan hafa gengið.

5  Hvað á best við þig? Leiðin að hafi, fjöll, flatlendi? Þú hefur ástríður og langanir sem er einstakar.

6  Þú getur ekki stytt þér leið. Þá flækir þú málin enn frekar.

7  Það er ekki hægt að láta aðra bera sig. Þá hægir á báðum.

8  Prófaðu þig áfram. Það koma alltaf aðrar krossgötur.

9  Labbaðu með öðrum það er skemmtilegra.

10  Ekki fara af stað fyrr en þú hefur fundið svarið sem gefur nægilegan innri drifkraft til að drífa að næstu krossgötum.  

Að lokum, það er ekki hægt að sitja að eilífu á krossgötunum og fá valkvíða. Lífsins krossgötur eru til að læra af þeim - það versta sem maður gerir er að fara bara til baka og labba sama veginn aftur og aftur án þess að læra. Þroska fylgir alltaf sársauki en sársaukinn við að velja ekki nýjan veg er líklega mun verri en sá sem fylgir því að velja og koma sér af stað. Betra er að fara af stað og lenda á blindgötu aftur og aftur, þá veit maður hvaða leiðir virka ekki.  Skoppaðu bara af stað og treystu því að það koma alltaf nýjar krossgötur.


Alveg ónotuð

Ég hitti fyrrum starfsfélaga mína í sumar, sem er ekki í frásögur færandi, nema hluti af hópnum eru íþróttakempur miklar. Þar sem við sátum og spjölluðum um daginn og veginn kom í ljós að flestir þeirra iðka skíði. Ég sagði ekki farir mínar sléttar af skíðaiðkun.

Eina skiptið sem ég hef farið á skíði var þegar ég fékk vélsleðagalla lánaðann hjá frænda mínum til að fara í Bláfjöll í skólaskíðaferð sjöundabekkjar. Þegar ég kom í fjöllin í appelsínugula vélsleðagallanum, eins og Michelin maðurinn, nema appelsínugul þá vatt ég mér með vinkonu minni í skíðalyftuna. Eina vandamálið var að við vorum ekki með skíði á fótunum og þegar áfangastaður nálgaðist jókst angistin yfir að komast ekki úr lyftunni nema með skíði á fótunum. Svo við stukkum niður... (ég held að vélsleðagallinn hafi bjargað miklu). Hef ekki farið á skíði síðan!Ekki hef ég nú heldur verið neinn íþróttaálfur, meira svona bókaormur sem grúfði og grúfir sig yfir bækur með súkkulaði á kantinum. Ég taldi þess vegna að ég myndi ekki fara á skíði á næstunni.

"En þú heppin" sögðu fyrrum samstarfsmínir sterkir og stæðilegir karlmenn sem áður voru frægir kappar í boltaíþróttum. Ég leit hissa á þá og hélt að þeir hefðu drukkið of mikið... "Þú ert alveg ónotuð" sögðu þeir svo með aðdáun í augum. "Ónotuð?" Þeir útskýrðu fyrir mér að þeir væru búinir að fara í liðþófa (það er eitthvað í hnéskelinni) aðgerðir og axlar aðgerðir og mjaðmirnar væru orðnar ansi tæpar. Skíðaferðirnar, hlaupin og boltinn var allt farið að valda sársauka (ég tek fram að þeir eru nokkrum árum yngri en ég - sem sagt á besta aldri).

Eftir þessa ræðu varð ég fyrir vitrun! Við sem sátum á varamannabekknum (ég var mjög þaulsetin þar í körfunni í gamla daga) eigum séns núna! Meðan þeir sem kepptu fyrir okkar hönd í íþróttunum eru aðeins "notaðri" en við. Þannig að nú geng ég eins og kempa um allt og er búin að bóka fjallgönguferðir vinstri og hægri og segi við sjálfa mig á leiðinni upp: Þetta er ekkert mál ég er alveg ónotuð og næstu fimmtíu árin geta farið í að nota það sem hefur verið ónotað hingað til! Svona er maður nú alltaf heppin.  


Systur

Eðlilegur samanburðarhópur hverrar konu eru systur hennar eða systir. Í dag á mín kæra systir afmæli og ég gleðst yfir því að eiga systur. Ég man hvað við eldri systurnar vourm glaðar þegar hún kom í heiminn. Síðar þegar hún fór af stað og við þurftum að passa hana gat það alveg komið fyrir að við værum þreyttar á kraftinum í henni. Hún var stöðugt ofan í klósettskálum og í símanum eða týndist við að uppgötva heiminn. Eftir því sem árin hafa liðið hefur komið betur og betur í ljós hvers megnug hún er. Stundum er ég alveg ósammála henni en alltaf er ég stolt af henni. 

Systur eru mikilvægur hluti af lífi okkar kvenna. Þær eru viðmiðunarhópurinn um hvernig við munum lifa lífinu ef þær eru eldri. Stundum geta þær verið viðmiðunarhópur um hvernig eigi ekki að lifa lífinu (ég æltla rétt að vona að mín systir endurtaki ekki öll mín mistök). Þær styðja okkur þegar við þurfum mest á því að halda, snýta og þurrka tár. Hjálpa við barnapössun og hver er betri til að skilja mann þegar maður er alveg ótrúlega fúll útí foreldrana... Systur eru líka óþolandi þegar þær koma með athugasemdir um hvernig maður á að haga sér eða í hvaða fötum maður á að klæða sig eða hvernig maður á að ala upp börnin sín. Fáír geta sært eins mikið og fáir eru eins megnugir um stuðning og væntumþykju.

Af því að maður getur ekki átt margar systur (nema örfáir) þá á maður líka sálarsystur sem eru manni eins og systir. Þær minna mann á ef maður er komin af leið og mynda plóg gegn lífsins þrautum. Þær gefa manni yl þegar manni er kalt og finna manni skjól. Sálarsystur geta hlegið með manni af mistökum og glaðst yfir sigrum. Þær hvetja og segja manni sannleikann þegar maður vill helst ekki heyra hann. Síðan eru starfssystur sem geta staðið saman þegar á þarf að halda og blása hver annarri hugrekki í brjóst. 

Systraþel er eitt af þessum fallegu íslensku orðum, en nú stendur yfir leit af fallegum íslenskum orðum.Kvenfélög Íslands hafa byggt upp og staðið við mikilvæg málefni m.a.er Landspítalinn byggður fyrir þeirra verknað. Þannig er systraþel. Taka ber fram að bræður eru líka dásamlegir  - nógu dásamlegir til að setja í annan pistil :-).

Þegar systur (bæði blóðtengdar og aðrar) eru nánar þá er lífið léttara. Nú er um að gera næra sambandið við sytur sínar.  Fagna systraþeli.

 


Hverjum er að kenna?

"Það vantar leiðtoga, okkur vantar leiðtoga á öllum sviðum!" Sagði konan, sem ég hitti í boði, eftir að hún vissi hvað ég starfa. Ég horfði á hana og spurði hvernig leiðtoga hún vildi fá. "Bara almennilega leiðtoga" var svarið. 

Ég kenni leiðtogafræði og velti mér upp úr stjórnun og leiðtogafræðum á næstum hverjum degi. Leiðtogar eru margir og mismunandi en ég get þó fullyrt að enginn þeirra nær árangri í umhverfi vantrausts og þar sem fólk er tilbúið til að ásaka og kenna hvort öðru um allt á milli himins og jarðar. Það eru fimm ár frá því að "hrunið" varð á Íslandi og vantraust, eftirlit og það að finna hverjum var að kenna hefur einkennt þessi fimm ár. Nýsköpun og frjór jarðvegur fyrir leiðtoga er einfaldlega ekki til staðar og hefur ekki verið til staðar. Í slíku umhverfi þurfa þeir sem taka að sér leiðtogastörf að vera tilbúnir til að missa æruna og vera hafðir að háði og spotti. Ástæðan er að ekkert getur orðið til þess að traust komist á nema við sjálf og hvernig við fóstrum leiðtoga. Hvernig fjallað var um Jóhönnu Sigurðardóttur eða nú nýlega Björn Zoega sýnir sitt um hvað það er sem fólk þarf að leggja á sig.

Sköpunarkraftur og vellíðan þarf ákeðinn jarðveg. Við vitum það úr rannsóknum. Við þurfum að finna til öryggis og trausti og láta af því að kenna öðrum um - þrátt fyrir að margt hafi farið misgörðum. Við þurfum að finna fyrirgefningu, vilja til að læra af mistökum og halda áfram.

Ég legg til að við styðjum Páll Mattíasson, starfandi forstjóra LHS, styðjum ráðherra hans og ríkisstjórn (hvar sem við stöndum í pólítik, það koma aðrar kostningar...). Við styðjum stjórnendur okkar, í okkar fyrirtækjum og styðjum hvort annað eins mikið og kostur er. Með þeim hætti fáum við "réttu" leiðtogana.

Í alkafræðunum stendur að þegar fíflunum fjölgar í kringum þig þá sé tími til að líta í eiginn barm. Kannski er komin tími til að renni af okkur vantraustið. Nýjir og betri tímar eru framundan!

 


Hann mun ekki breytast

Í bók um kvenheilann, fjallar Louann Brizendine um kvenheilann. Bókin hefur opnað augu mín fyrir ýmsu...

 Öll fóstur eru til að byrja með kvenkyns en í kringum 18-21 viku af meðgöngu kemur alda testrósteróns sem breytir samsetningu á drengjaheilum (ég vissi að þeir væru öðruvísi....)  Kvenheilinn heldur áfram að þróa samskipta- og nærandi (e.nurturing) stöðvar heilans. Þegar stúlkur fæðast eru þær með eðlislæga hæfni til að  lesa andlit, tilfinningar og blæbrigði raddar. Stúlkur hafa því, strax á fyrsta degi, hæfni til að horfa á andlit móður (og þeirra sem horfa beint á hana). Strákar eru líklegri til að festa augu á því sem er á hreyfinu. Þegar stelpur verða tveggja til tveggja og hálf ára gamlar kemur alda estrógen inn í systemið og þær verða ákveðnari. Eftir það er hormónapása fram að kynþroskaskeiði. Flestar stúlkur, frá 2 og hálfs fram til sirka 9.ára ganga þá inn í rólegheita tíma sem einkennist af því að tengjast öðrum stúlkum í leik sem oft byggir á samskiptahæfni þeirra. Samningaviðræður einkennast af .. "okkas.., viltu vera memm..."(strákarnir eru úti að keppa og rífa af hvor öðrum, með hávaða og læti...)

Þegar kemur að kynþroskaskeiði þá fá stelpur áhuga á því hvernig þær líta út (útskýrir af hverju klósett á heimilium unglingsstúlkna eru ávallt upptekin.) Brizendine gengur svo langt að halda því fram að það skipti engu máli hvort það séu þvengmjóar ofurfallegar konur framan á tímaritum, unglingsstúlkur séu prógrammaðar af heilanum til að gera tvennt: Hugsa um útlit sitt og tengjast vinkonum sínum. Þær búa oft til klíkur og geta ekki verið án þess að tala við hvor aðra tímunum saman. Kemur í ljós að þau börn sem lifa af í heilisbúa heiminum (sem stjórnar enn heila okkar) eru þar sem konur tengjast sterkum böndum. Strákar eru aðeins seinna en þeirra kynþroskaskeið einkennist af miklu testrasteróni, sem er nítjan sinnum hærra en hjá konum og nær hámarki um átján til nítján ára aldur. Þá einfaldlega geta þeir ekki hugsað um neitt annað en kynlíf (við vissum þetta svo sem..).

Nema hvað ... síðan taka við ár þar sem konur eru stöðugt með samviskubit yfir því að vera ekki nægilega góðar mæður (aftur er hin oftur næmi næringar- og samskiptahluti heilans að verki) og að vera ekki að standa sig á vinnumarkaði (hér er að verki tilhneiging kvenna til að hafa áhyggjur). Konur eru líkegri til að vera þunglyndar og daprar en karlar - allt er þetta heilanum að kenna (ekki endilega Honum..). Þegar karlar upplifa streitu þá vilja þeir meira kynlíf en þegar konur eru stressaðar vilja þær nánd (ég skil reyndar ekki hvernig náttúran gat gert þetta svona flókið..).

Bara svona af því að þessi pistill er að verða allt of langur þá er best að gera langa sögu stutta er það er ekki fyrr en eftir breytingasskeiðið sem konur fara að lifa lífinu á sínum eigin forsendum en ekki eftir forskrift heilans. Halló, þetta var allt prógrammer-að. 

Mæli með þessari bók - eitt gott ráð er að horfa á karlheilann eins og hann er og ekki gera ráð fyrir að hann breytist!

ps - Allt eru þetta meðaltöl og eiga ekki endilega við um alla 


Að hugsa ekki skýrt!

Ég stóð í eldhúsinu og var að stússast. "Ég vil ekki fara til sálfræðings," sagði vinkona, litlu minnar, en hún er á svipuðum aldri. "Af hverju ekki?" spurði mín. "Ég er ekki geðveik" sagði hin. "Issssss það er ekkert mál, veistu hvað er að vera geðveik?" Spurði mín og horfið opinmynt á vinkonu sína. Vinkonan svaraði neitandi. "Það þýðir bara að maður hugsar ekki skýrt!".

Ég gat ekki annað en dáðst af þessari skilgreiningu, það er bara að hugsa ekki skýrt. Ég sjálf hugsa stundum ekki skýrt og marga daga er ég á jaðrinum á því sem skilgreinist sem geðveik (eigum við eitthvað að ræða mánaðarlegar sveiflur helmings mannkyns hér...).  Í fyrsta sinn sem ég kom á Klepp var til að fara á fjölskyldufund vegna systur minnar sem um þær mundir hugsaði ekki skýrt. Mér fannst þetta allt saman framandi og þegar Kristín Gerður, heitin, sagði mér sögur úr vistinni gat ég ekki annað en brosað í gegnum tárin. Eftir að systir mín tók sitt eigið líf hef ég verið duglegri að heimsækja þá sem hugsa ekki skýrt um tíma og þurfa að leita á spítala sér til aðstoðar. Ég vissi nefnilega ekki áður að geðdeildin væri eins og aðrar deildir spítalans, þó að hún sé læst. Ég hélt að maður ætti ekkert að vera að þvælast þangað í heimsókn nema á fjölskyldufundi. Síðan þá legg ég mig fram um að kíkja í heimsókn á geðdeild, rétt eins og hjartadeild, lyflæknadeild og krabbameinsdeild og aðrar deildir sem fólk í kringum mig fer inn á.  Það verður samt að segjast eins og er að það er ekkert sérstaklega vinarlegt herbergið sem fólk fer inn á þegar það er í sjálfsvígshugleiðingum. Hvítir veggir, rúm og ekkert annað því að það má ekkert vera sem hægt er að skaða sig með. Varðmaður eða kona fyrir framan til að passa viðkomandi. 

Þegar maður hugsar ekki skýrt þá þarf maður á því að halda að hafa fegurð í kring um sig. Ég er svo ánægð með að kraftaverkakonurnar á allra vörum skuli sameina krafta okkar til að gera þeim sem um tíma hugsa ekki skýrt kleift að njóta fegurra og mannbætandi umhverfis. Sameinumst um það! 


Ungt og leikur sér og setur öryggið á oddinn

Mín kynslóð ólst upp við kjarnorkuvá. Við vorum alin upp í skugga kalda stríðsins og ég man eftir að hafa hugsað mjög dimmar hugsanir um hvernig lífið á jörðinni yrði þegar kjarnorkusprengjan "myndi" falla. Við lærðum um ógnina og skynjuðum hana sterkt. Lífið var viðkvæmt og ástandið hættulegt.  Þegar við urðum unglingar þá tók ungt fólk að deyja úr undarlegum sjúkdómi. Alnæmi umræðan varð mjög áberandi og margir urðu skelkaðir enda þarna ekki komin fram þau lyf sem nú eru til. Ég man eftir að hafa farið sem fulltrúi "ungu" kynslóðarinnar í Kastljós, heill þáttur fjallaði um alnæmi eða AIDS eins og það var þá nefnt. Ég fór ekki vegna þess að ég stundaði svo villt kynlíf heldur líklega vegna félagsmálaþátttöku í Kvennó. Við sáum að það yrði að selja öllum þá hugmynd að nota smokkinn.  Allt í einu varð smokkurinn ekki lengur eingöngu getnaðarvörn heldur vörn gegn lífshættulegum kynsjúkdómum. Mín kynslóð varð að læra að nýta smokkinn. Þeir sem voru frægir á þessum tíma voru fengnir til að auglýsa smokkinn á veggspjaldi sem vakti mikla athygli. 

Þetta útskýrir kannski af hverju mín kynslóð er soldið að flýta sér að lifa lífinu ... kjarnorkuvá og alnæmisvá vofðu yfir okkur á viðkvæmum aldri! En ég er ekki sálfræðingur og get ekki farið svona djúpt.

Ástæðan fyrir því að ég fór að hugsa um þetta er að á leið minni í vinnuna einn daginn urðu tveir notaðir smokkar, tveir! Á sitt hvoru horninu .. ja, hérna, hugsaði ég með mér þar sem ég var hokin í herðum að berjast móti vindi.. ætli manni verði ekki kalt af því að nýta þetta svona undir berum himni? En svo brosti ég út undir annað og hugsaði að barátta okkar fyrir því að smokkurinn yrði nýttur sem best hefði greinilega borið árangur. Þetta er ungt og leikur sér með öryggið á oddinum. Þannig á það líka að vera! Það mætti hins vegar kasta honum að loknu ánægjustundinni en það er önnur Ella og líklega næsta barátta okkar: Plastnotkun og endurvinnsla.

Eigið góðar stundir og setjið öryggið á oddinn! 


Full, án þess að drekka áfenga drykki...

Við erum svo miklu, miklu öflugri en við höldum. Alveg satt. Ég ætla að nefna tvær skemmtilegar rannsóknir sem sanna mál mitt (nú kemur fræðimaðurinn upp í mér...). 

Richard Wiseman, breskur prófessor og félagar hans, gerðu rannsókn þar sem háskólanemum var skipt í tvö lið á bar, rautt og blátt. Þetta var tilraun þar sem mæld voru hversu nákvæm, hversu minnug og einbeitt þau voru fyrir og eftir drykkju! (Sem sagt drauma tilraun hvers háskólastúdents - ókeypis drykkja). Það kom í ljós að það var ekki munur á rauða og bláa liðinu. Þau urðu öll háværari, döðruðu meira og minnið varð gloppottara eftir því sem leið á kvöldið. Eini munurinn í raun var sá að annað liðið fékk ekki áfenga drykki en héldu að þau væru að drekka áfenga drykki! Þau urðu "full" af því að þau héldu að þau væru að drekka áfengi. Líkami þeirra sýndi sömu áhrif eins og um áfengi hefði verið að ræða.

Ellen Langer, bandarískur prófessor, og félagi hennar gerðu fræga rannsókn þar sem þær mældu líkamlegt ástand skúringafólks á hótelum. Þær skiptu hópnum upp í tvennt, en hópurinn samanstóð af hreingerningafólki frá sjö hótelum. Báðir hópar voru að vinna mjög líkamlega erfiða vinnu, þrifu sem svaraði um fimmtán herbergi á dag. Þær voru hins vegar ekkert endilega meðvitaðar um að þær voru að hreyfa sig mikið.  Langer og félagar vildu kanna hvort það að verða meðvitaður um hversu mikið þær væru að reyna á sig myndi hafa áhrif á þyngd og blóðþrýsting. Annar hópurinn fékk mikla fræðslu sem gékk út að að segja þeim hversu margar hitaeiningar það tæki að búa um rúm, að skúra, þrífa klósett o.s.frv. Þær fengu skriflegar upplýsingar um áhrif hreyfingar í daglegum störfum þeirra og settar voru sambærilegar upplýsingar á töfluna þar sem þær drukku kaffi. Hinn hópurinn fékk almennar upplýsingar. 

Í ljós kom að eftir mánuð höfðu einstaklingar í  hópnum sem fékk "vá en hvað þú ert að hreyfa þig mikið á hverum degi" skilaboðin, bæði lést og blóðþrýstingurinn hafði lækkað hjá þeim. Þau höfðu ekki breytt neinu öðru.

Líklega er því ódýrast að ímynda sé að maður sé að drekka og hugsa mikið um hvað hver hreyfing eyðir mörgum hitaeiningum!..... hugsi, hugs.. 

Ps - þetta heitir "placebo" - áhrifin svo að þú skalt vara þig á hvað þú ert sannfærð eða sannfærður um!!! 


Full, án þess að drekka áfenga drykki.....

Við erum svo miklu, miklu öflugri en við höldum. Alveg satt. Ég ætla að nefna tvær skemmtilegar rannsóknir sem sanna mál mitt (nú kemur fræðimaðurinn upp í mér...). 

Richard Wiseman, breskur prófessor og félagar hans, gerðu rannsókn þar sem háskólanemum var skipt í tvö lið á bar, rautt og blátt. Þetta var tilraun þar sem mæld voru hversu nákvæm, hversu minnug og einbeitt þau voru fyrir og eftir drykkju! (Sem sagt drauma tilraun hvers háskólastúdents - ókeypis drykkja). Það kom í ljós að það var ekki munur á rauða og bláa liðinu. Þau urðu öll háværari, döðruðu meira og minnið varð gloppottara eftir því sem leið á kvöldið. Eini munurinn í raun var sá að annað liðið fékk ekki áfenga drykki en héldu að þau væru að drekka áfenga drykki! Þau urðu "full" af því að þau héldu að þau væru að drekka áfengi. Líkami þeirra sýndi sömu áhrif eins og um áfengi hefði verið að ræða.

Ellen Langer, bandarískur prófessor, og félagi hennar gerðu fræga rannsókn þar sem þær mældu líkamlegt ástand skúringafólks á hótelum. Þær skiptu hópnum upp í tvennt, en hópurinn samanstóð af hreingerningafólki frá sjö hótelum. Báðir hópar voru að vinna mjög líkamlega erfiða vinnu, þrifu sem svaraði um fimmtán herbergi á dag. Þær voru hins vegar ekkert endilega meðvitaðar um að þær voru að hreyfa sig mikið.  Langer og félagar vildu kanna hvort það að verða meðvitaður um hversu mikið þær væru að reyna á sig myndi hafa áhrif á þyngd og blóðþrýsting. Annar hópurinn fékk mikla fræðslu sem gékk út að að segja þeim hversu margar hitaeiningar það tæki að búa um rúm, að skúra, þrífa klósett o.s.frv. Þær fengu skriflegar upplýsingar um áhrif hreyfingar í daglegum störfum þeirra og settar voru sambærilegar upplýsingar á töfluna þar sem þær drukku kaffi. Hinn hópurinn fékk almennar upplýsingar. 

Í ljós kom að eftir mánuð höfðu einstaklingar í  hópnum sem fékk "vá en hvað þú ert að hreyfa þig mikið á hverum degi" skilaboðin, bæði lést og blóðþrýstingurinn hafði lækkað hjá þeim. Þau höfðu ekki breytt neinu öðru.

Líklega er því ódýrast að ímynda sé að maður sé að drekka og hugsa mikið um hvað hver hreyfing eyðir mörgum hitaeiningum!..... hugsi, hugs.. 

Ps - þetta heitir "placebo" - áhrifin svo að þú skalt vara þig á hvað þú ert sannfærð eða sannfærður um!!! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband