Síðsumarsgleði
26.8.2013 | 10:39
Þá læðist það að síðsumarið, skríður yfir Esjuna hér sunnan heiða, og leggst hljóðlega yfir borgina. "Nú er mitt frí að bresta á", sagði sex barna móðir ungra barna sem ég hitti um daginn. Ég brosti með mín tvo yngstu hlaupandi í kringum mig, í léttri sykurvími sumarsins. Nú er okkar tími komin! Maður fer í vinnuna og kemst á klósettið án þess að einhver hangi á dyrunum eða heimti að koma með! (það hefur alla vega enginn viljað það á mínum vinnustað...).
Þvílík dásemd að labba með krílunum á þeirra stað í skóla og leikskóla. Krílin snar hægja á ferðinni, enda bara hafragrautur í morgunmat hversdags, dauðfegin að komast í rútínuna og alveg jafn glöð að losna við foreldrana í smá stund.
Besti tími ársins fer í hönd, að mínu mati, tími kertaljósa, tími til að kynnast nýjum nemendum, tími þar sem lyktin af nýju strokleðri og tómum stílabókum liggur í loftinu. Tóm stílabók sem bíður eftir að maður fylli á hana af visku og skemmtilegheitum. Tískan er líka lang flottust á haustin, það fer reyndar illa með budduna, og rómantískir göngurtúrar geta endað í berjamó eða vitleysu þess vegna. Það er ennþó nógu mikið eftir af sumrinu til að njóta þess að þurfa ekki að taka úlpuna og vettlingana fram. Síðast en ekki síst, rútínan umfaðmar mann. Sagt er að ef maður fylgi reglunni þá muni hún varðveita mann. Ég ætla að setjast niður núna og búa til nýjar haustreglur - alveg í hreint dásamlegum friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Seinna kynþroskaskeið
27.6.2013 | 12:25
Það er soldið fyndið að lesa blöð sem ætluð eru fólki um og yfr fimmtugt. Fyrirsagnir eins og "stunda enn kynlíf" og "það sem ekki má klæðast eftir þrítugt.." "Hvernig á að halda vextinum og heilsunni." Ég get ekki annað en hlegið upphátt og hrist höfuðið. Þvílík tímaskekkja!
Það er eins og markaðssérfræðingar hafi enn ekki áttað sig á að hópurinn sem nú fyllir fimmtugt er stærstur, ríkastur og öflugasti markaðshópurinn. Fólk um fimmtugt eyðir meira í tæki og tól, heilsudót og snyrtivörur, heimilsdót og annað heldur en yngri hópurinn. Fólk um fimmtugt lífir líka alveg jafnmiklu kynlífi (ef ekki meira því oftast eru ekki lítil börn að trufla, svo eru líka margir búnir að skipta út maka og komnir með rétta eintakið......). Fólk um fimmtugt ferðast meira og lengra, fólk um sextugt er á fleiri námskeiðum en aðrir og fólk um sjötugt er á fullu í menningunni. Áttræðir einstaklingar í fullu fjöri eru líklegri til að skella sér í siglingu en þeir sem eru um þrítugt.
Horfið á BBC og erlenda fréttaþætti og þið sjáið fréttahauka á öllum aldri. Lesið blöð (bæði pappír og netið) og þaulreyndir fréttamenn túlka heiminn. Blaðamenn, sem starfa hjá fréttamiðlum, hér á landi eru yfirleitt í yngra kantinum. Sú þróun hefur átt sér stað að undanförnu að fólk fer ekki að heimann fyrr en undir þrítugt. Þannig er barndómurinn eða ungdómurinn að lengjast og "fullorðins" ár að lengjast í aðra áttina líka. Heilbrigt fólk verður ekki gamalt fyrr en eftir áttrætt og jafnvel lengur ef það hefur lifað heilbrigðu lífi og hefur góð gen.
Ef einungis fulltrúar yngsta hópsins eru á fréttablöðum og í fjölmiðlum, eða á þingi þá erum við ekki að fá raunsanna mynd af því hvernig hjarta þjóðfélagasins slær.
Það er nefnilega þannig að á árunum 45-55 förum við í gegnum seinna kynþroskaskeið þar sem við lítum í eigin barm til að svara spurningunni: Hver er ég? Í stað þess sem við gerðum á fyrra kynþroskaskeiði en þar horfðum við á hópinn og spurðum svo: Hvernig get ég passað inn í hópinn?
Eins og eftir fyrra kynþroskaskeið þá fer allt af stað í hausnum og likamanum á okkur. Það þarf ekki að fjalla sérstaklega um að fólk um fimmtugt megi ekki klæða sig í leðurbuxur, það hlustar hvort sem er ekkert á hvað það má eða má ekki gera! Þetta fólk gerir nákvæmlega það sem það langar til að gera!
Nú er komin tími á sumarið og sumarfrí :-). Njótið sumarsins, hvers annars og lífsins í botn - já og stiliið tónlistina svo hátt að allar sellur líkamans hrópa á fjör!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Utan þjónustusvæðis
18.6.2013 | 14:37
Eftir að hafa staðið í stórræðum undanfarið m.a. flutt milli hverfa, finn ég hvernig streitan læðist hægt og bítandi aftan að manni. Það merkilega við þreytuna og streituna er að hún kemur yfirleitt fram eftir að mesta álaginu líkur.
Margir stjórnendur, sem eru hjá mér í ráðgjöf, eru undir gríðarlega miklu álagi. Það er ekki óalgengt að þeir verði veikir fyrstu vikuna af frítíma sínum. Rétt ná að setjast í flugvélasætið (ef þeir fara af landi brott..) og um leið hellist flensan yfir. Þess vegna er oft gott að gera ráð fyrir þremur vikum samfleytt án truflana í fríi - ef maður er þreyttur og streittur. Það er eins og líkaminn þoli álagið á meðan á því stendur en um leið og hann getur þá sendir hann öll merki um þreytuna og álagið fram og segir hingað og ekki lengra!
Merkilegt er að þó að maður kunni þetta allt saman þá fer maður ekki endilega eftir því sem maður kann! Sérstaklega þegar maður er streittur og þreyttur. Þegar ég verð of stressuð þá týni ég öllu mögulegu, tönnunum og hausnum þar með talið - þ.e. ef það væri ekki fast upp í mér. Á sama tíma kemur öll gömul vanabundin hegðun til baka. Allt í einu er ég farin að segja já við öllu mögulegu og set enginn mörk. Ég veit ekki af fyrr en ég reyni að gera öllum til hæfis en á sama tíma geri ég engum til hæfis. "Ég sem hélt að ég væri orðn svo meðvituð...", hugsa ég alveg ringluð.
Margir, konur sérstaklega, eiga erfitt með að setja sínar þarfir í forgang og verða þar með óþolandi í umgegni. Þá koma upp svona "ég er nú búin að gera svo margt fyrir þig..." eða "ég sem alltaf er til staðar fyrir þig..." Ástæðan er líklega að við verðum að vera meðvitaðar um þarfir barna okkar svo þau lifi af. Hins vegar kemur þessi hæfileiki okkar oft í koll - alla vega mér. Sérstaklega þegar ég reyni að vera öllum allt! Þess vegna er ég að hugsa um það núna að vera utan þjónustusvæðis í nokkra daga og koma svo alveg eldhress til baka. Kannski þarf ég ekki nema nokkra klukkutíma .. eða hálfan sólarhring... utan þjónustusvæðis ummmmmm... Enda rignir bara og rignir. Svo kemur sumarið og þá er maður til í allt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Plantaðu fræjum
12.6.2013 | 13:04
Þeir sem að hausti, eða í vor, settu niður fræ njóta nú uppskerunnar í litadýrð blómanna. Sumir njóta þess að borða sínar eigin matjurtir og grænmeti, beint frá móður jörð. Eins og við vitum þá grær ekkert nema því sé plantað. Það þarf fræ til að líf kvikni.
Þegar ég er orðin stór þá ætla ég að verða svona kona með grænar fingur (í flottum hanska, hörkjól og með barðstóran hatt...) og planta niður allra handa fræjum í garðinn minn.
Ég hef ekki verið með græna fingur hingað til en ég hef verið dugleg að planta draumum og þráum, en ekki blómum og grænmeti. Það er alveg nákvæmlega sama aðferð sem maður beitir, held ég. Finna drauminn (fræið), hlú að honum með réttri mold. Í þeirri mold þarf að vera hlýja og virðing og slatti af umhyggju. Þá er líka gott að sletta yfir vilja til að gera mistök. Nauðsynlegt er að minna sig á að það er ekki auðvelt að ná markmiðum og draumum sínum. Draumabanar geta til dæmis komisti í tæri við drauminn. Þeir spúa vantrú og öfund, jafnvel reyna þeir að spilla fyrir. Þess vegna verður að setja yfir drauminn gott plast gert úr hugrekki og von. Síðan leggur maður á sig hörku vinnu og þegar að maður heldur að nýjasta hretið hafi alveg gert út af við uppskeruna þá bara setur maður undir sig hausinn og gerir það sem þarf að gera.
Vááááá... hvað maður nýtur þess, þegar að markinu er náð og uppskeran er í húsi. Ummmmm... það er eitthvað einstakt við það sem maður sjálfur hefur ræktað hvort sem það er draumur, markmið eða bara gulrætur.
Nú er það bara grænir fingur í geggjuðum garðhönskum....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allir á róló!
6.6.2013 | 11:40
Ég hef verið ótrúlega heppin með leikskóla barnanna okkar og dáðst að góðu starfi þeirra. Ég sat á kynningu hjá nýjum leikskóla, í vikunni, sem drengurinn okkar er að fara á og hugsaði með mér "en hvað ég vildi að ég væri að fara í leikskóla..." Ég er víst fjörtíu og sex ára og kemst ekki inn á leikskóla en ég get hins vegar stuðlað að því að hver vinnustaður verði líkari leikskóla. Ástæðan er:
!) Allir fá kórónu þegar þeir eiga afmæli (og á þessum leikskóla flagga þeir með leikskólastjóranum..), mynd af sér frammi á sal og söng sér til heiðurs.
2) Matardagskráin er fyrirfram skipulögð með heimabökuðu brauði.
3) Skapandi starf er í öndvegi þar sem hvert og eitt barn fær að njóta sinna styrkleika.
3) Kennararnir spyrja opinna spurninga um barnið og læra af því hvernig á að eiga bestu samskiptin við þau.
4) Það er reglulega dansað.
5) Það er reglulega sungið.
6) Það er reglulega farið út í náttúruna.
7) Umhverfið er gert sem fallegast og skipt um reglulega
8) Hver og einn er látin gera sína persónumöppu þar sem eru myndir af börnunum og foreldrum, ömmum og öfum og fjallað um barnið sjálft. Bæði foreldrar og kennarar skrifa og skrá sögu barnsins.
Á heildina litið þá gæti vinnustaðurinn lært að sýna hverjum og einum athygli og skrá það niður. Við köllum það hæfinsmat í stjórnun. Stjórnendur gætu sýnt hæfni í að ýta undir skapandi starf með því að gera alltaf eitthvað sem fær fólk til að skipta um heilahvel (vinstra heilahvel er það sem leysir hið óleysanlega...) og starfsmenn væru ekki svona þreyttir og teygðir ef þeir dönsuðu aðeins í vinnunni svo ég tali nú ekki um að fara saman út og skapa saman. Hver og einn fengi kórónu á afmælisdeginum og fyndi þar með hversu miklu máli hann eða hún skiptir á vinnustaðnum.
Í grunninn þá er það málið að hver og einn finni til sín og vitið að starf sitt skiptir máli og að hópurinn, og stjórnandinn, kunni að meta það sem starfsmaðurinn hefur fram að færa. Kryddið það með sjálfstæði og sköpun og þá erum við komin með vinningsuppskiftina! Góður vinnustaður laðar að sér besta fólkið.
Lærum af leikskólunum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sálin í handverkinu
27.5.2013 | 14:16
Thomas Moore rithöfundur, sem þekktastur er fyrir bókina sína: Care of the soul, segir að maður næri sál sína með að vinna með höndunum eða líkamanum. Þegar maður hamast við að þrífa, eða vinnur í garðinum eða gerir við heimili sitt nærir maður, samkvæmt Moore, sálina með því að endurtaka og gera við það sem í kringum mann er.
Ég er búin að hamast við að þrífa og mála undanfarið og get vitnað um að Tómas hefur rétt fyrir sér. Það er ótrúlega skemmtilegt að mála, til dæmis. Mitt starf sem kennari ber oft ekki árangur fyrr en eftir langann tíma. Í ráðgöfinni veit ég stundum ekki hvort vinnan ber árangur fyrr en löngu seinna. Meðaltími minn í að vinna bók er þrjú ár! Birting á rannsókngrein getur tekið eitt til tvö ár. En að mála vegg, þvílík gleði - hipp, hopp bababrella, árangur strax. Flöturinn verður svo dásamlega fallegur strax! Herbergið fær upplyftingu og sálin brosir sínu blíðasta eftir því sem verkirnir í skrokknum aukast. Þegar maður lætur sig loksins súnka niður í heitt bað eftir langann dag við líkamlega vinnu er eins og sálin komist í himnahæðir. Sjálfstraust mitt hefur líka aukist til muna, strax! Núna finnst mér ég geta næstum hvað sem er fyrst ég get málað. Ég get örugglega líka farið í bólakafa á garðvinnu og gert við stóla og gömul húsgögn.
Með því að hlúa að því gamla, hvort sem það er að endurnýja og nýta hluti, eða endurfæða herbergi þá er maður að hlúa að sjálfum sér í leiðinni. Nú er tími vorverka og sálin brosir sínu blíðast um leið og líkamann verkjar. Hipp, hopp barbrella og blómin brosa líka framan í okkur í beðunum og gefa okkur ástæðu til að gleðjast þegar við tökum svo langþráða pásu eftir átökin með kaffibolla í hönd. Sjáiði beðin þarna var ég! Hvet ykkur til að prófa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsta sæti í hverju?
16.5.2013 | 09:54
Hetjur keppa og vinna. Í keppnum er alltaf einhver sem vinnur og einhver sem tapar. Þríþraut, maraþon, járnmaðurinn, söngvakeppni, fitness, metsölulisti, keppni í fegurð. Viðtöl við fólk í fjölmiðlum endurspegla þessa keppni. Það er spurt um hvernig þeir æfa, hvenær þeir æfa, hvað þeir borða og hvaða vörur þeir noti. Hver og einn getur síðan búið til sína ímynd á facebook þar sem við setjum fram þá mynd sem við viljum sýna. Keppum jafnvel um að vera frábærir foreldrar, eða sýna á okkur einhverja þá hlið sem við erum stolt af. Hættan við keppni er að þegar við náum fyrsta sætinu og stöndum með verðlaunagripinn í hönd þá læðist að sú hugsunin "hvað næst?" Fyrirsagnir eins og "ég bara stóð upp úr sófanum og fór að keppa" eru algengar. Ég spyr hvað er að því að vera í sófanum? Eitt er ekki betra en annað, þrátt fyrir einstaklingshyggju samtímans.
Það er gott að sinna ástríðu sinni og eyða í það tíma og fjármunum. Algjörlega frábært en það er líka hægt án þess að keppa. Gallinn við samfélag sem er að keppa er að við gleymum því að við erum öll mensk. Hetjur eru ekki menskar. Við eigum öll okkar ömulegu stundir þar sem okkur finnst við vera algjörir lúserar sérstaklega í samanburði við ALLA sem eru með etttta... Af hverju get ég ekki verið meira eins og þessi eða hin hetjan hljómar í hausnum á okkur. Ég væri svo miklu betri ef ég gæti keppt í einhverju, bara einhverju.... Sérstaklega eru ungmenni okkar viðkvæm fyrir samfélagi sem þessu. Íslenskt samfélag á met í hversu mörg ungmenni eru á geðlyfjum, miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir. Litlar sálir sem líða illa. Það er ekki keppninni að kenna en það væri gott að við felldum grímuna og sýnum ungu fólki að við erum öll með sár og sárindi og að þrátt fyrir að við keppum þá séum við bara mannsveskjur! Við verðum að hefja hið hversdagslega upp því þar liggur hamingja okkar.
Hið hversdagslega er það sem við söknum þegar við veikjumst eða förum í burtu. Þegar unglingar og börn voru spurð að því hvað þau vildu gera með foreldrum sínum í stórri rannsókn á Íslandi voru niðurstöðurnar þessar: "Fara í sund, borða saman á kvöldin, spjalla, elda, baka, hjóla, tjilla.. Vera heim og vera hjá þeim." Hið hversdagslega er það sem skiptir máli í því er enginn keppni og sumt af því sem gert er á þessum lista er í sófanum :-).
Ég hef sérstakan áhuga á að lesa minningargreinar (ég veit - nörd) . Maður lærir hvaða áhrif fólk skilur eftir sig hjá þeim sem minnast hins látna. Í einni minnistæðri minningargrein skrifaði fullorðin maður um ömmu sína: "Hvergi hef ég verið eins öruggur og elskaður eins og hjá ömmu." Amman hafði greinilega gefið honum nærver sína, hlustun, kærleik og virðingu. Tengingu við fortíðina og almennt verið til staðar fyrir hann.
Rannsóknir hafa sýnt að ef við upplifum okkur örugg og elskuð þá er ónæmiskerfi okkar miklu sterkara út allt lífið. Þessi amma hafði því gefið ömmubarni sínum betri heilbrigði með því að kveikja þessra tilfinningar með sínu hversdagslega stússi. Jafnvel hefur hún haft áhrif á næstu kynslóðir með því að vekja með honum öryggi og kveikja þar með á ákveðnum genum. Nýjar rannsóknir sýna að líkami okkar "kveikir" á mismundi genum eftir því m.a. hvernig okkur líður.
Ég tek orð ungmennana mér í munn og endurtek að það sem þau vilja er að tjilla! Tjillum meira og slöppum af, lífið er ekki svona alvarlegt. Enginn mun spyrja að því við gullna hliðið hvað þú hafir unnið marga verðlaunagripi. Ég held að amman, sem ég las um, hafi hins vegar flogið inn á vængum kærleika hennar.
Ég ætla í sófann í kvöld með fjölskyldunni og tjilla með Eyþóri Inga. Áfram Ísland, og ég á líf :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Segðu mér sögu
8.5.2013 | 09:11
Við fórum í göngutúr með fimm ára syni okkar í gær. Eftir að hafa klifrað í trjánum settumst við á trjástubba og hann leit á mig og bað mig að segja sér sögu. Ég brást að sjálfsögðu við og sagði honum sögu af álfadreng. Sögur gegna lykilhlutverki í þróun okkar manna. Þær eru mikilvægar til að við getum skilið okkur sjálf og einnig til að hver kynslóð geti skilað af sér menningar- og fjölskylduarfinum. Við Íslendingar erum stolt af þjóðararfi okkar og upplifum okkur í gegnum fornsögurnar. Þannig erum við meðvituð um þau sterku gildi sem koma fram í þeim sögum sem við lærum mann fram af manni.
Skáld og skemmtikraftar, leikritaritara, sjónvarpsséríur og fésbókin eru meðal annars þeir miðlar sem við upplifum samtíman í gegnum. Rannsóknir hafa sýnt að þeir leiðtogar sem eru snjallir í að segja sögur ná betri árangri í að tengjast starfsmönnum. Ekki síst ná þeir árangri í að setja fram framtíðarsýn sem aðrir fylgja og trúa á.
Ég er svo heppin að vera alin upp í fjölskyldu þar sem er rík sagnahefð. Í sveitinni voru sagðar margar sögur af samferðafólki og liðinni tíð. Sumir ættingar mínir eru snillingar í að segja sögu og herma eftir fólki. Amma var alin upp á Flateyri og hafði þann starfa að fara og hlusta á útvarpið hjá þeim sem áttu slíkt undratæki, sem þá voru fá í þorpinu. Þegar heim var komið þuldi hún upp það sem hún heyrði. Þannig þjálfaðist hún frá unga aldri upp í því að hafa sögur rétt eftir. Hún segir enn margar sögur þar sem tími rafmagnsleysi og þess tíma þar sem formæður og feður höfðu fátt annað til lyfta sér upp nema sögur. Sögur af hamförum og harðræði íslenskrar náttúru standa manni lifandi fyrir augum. Sögur af skemmtilegum atburðum og atburðir aldanna verða skýr eins og þeir hefðu gerst í gær. Ekki svo sjaldan hlóum við svo mikið að einhverri sögunni að amma sagðist vera að pissa á sig eftir hláturrokuna. Ég lærði það snemma að þeir sem sagðar voru sögur af voru þeir sem settu mark sitt á samfélag sitt. Bændur og búalið sem höfðu átt alveg ógleymanleg augnablik í gagnverki samfélag þess sem þá var. Þannig eru reglulega rifjaðar upp sögur af fólki sem löngu er gengið á vit feðra sinna en ég þekki vel vegna þess að það lifir enn í munnmælum. Ég lærði líka að það er hárfín lína að segja sögu af fólki af virðingu en ekki þannig að lítið væri gert úr því.
Sagan um álfadrenginn sem fór út í hin stóra heim og villtist og fann svo álfakóng sem prumpaði mikið eftir að hafa sofnað grátandi vakti lukku hjá drengnum. Hann horfði kankvís á mig spurði hvort að álfakóngurinn væri ekki pabbi sinn en það var eftir að álfakóngurinn bjargaði hinum villt álfadreng. Ég horfði á hann og var nokkuð ánægð með augnablikið því hann hafði strax lært að allar sögur eru um okkur sjálf. Lífsbaráttuna og leit okkar að fjársjóðnum við enda regnbogans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Besta vinkona mín
30.4.2013 | 09:12
Rannsóknir hafa sýnt að vinkonur lækka streitustuðull kvenna! Vinkona er ein besta hamingjufjárfesting sem um getur, í lífi hverrar konu. Eitthvað hefur það með þá staðreynd að gera að vellíðunarhormónar flæða við nánar samræður kvenna en ekki milli karla og kvenna, alla vega í sama mæli. Þannig eru konur, konum bestar :-). Ef við þýðum þetta yfir á hversdaginn þá er mun líklegra að konum líði betur ef þær tala við vinkonu sínar um þau mál sem liggja á hjarta hennar heldur en að snúa sér að mönnunum í lífi sínu.
Ég er svo heppin að eiga góðar vinkonur sem ég hef hringt í á öllum tíma sólarhrings þegar krísurnar hafa bankað upp á í lífi mínu. Ég get alltaf treyst á að þær komi þegar ég kem mér ekki af stað sjálf. Ég hef líka verið svo heppin að geta glaðst með þeim og tekið að fullu þátt í lífi þeirra og fjölskyldu þeirra. Við höldum reglulega krísufundi og líka bara venjulega fundi. þegar ég hef gert eitthvað af mér skamma þær mig og ef ég fer fram úr mér þá koma þær mér á réttan stað. Saman erum við svo miklu sterkari.
Ég á líka góða karlkyns vini og þeir eru auðvitað líka mikilvægir, á sama hátt og karlar eru góðir vinir hvors annars.
Á heildina litið er gríðarlega mikilvægt að rækta og eiga góða vini. Vinir eru eins og demparar sem mýkja lífið þegar maður keyrir yfir lífsins fjallvegi.
Ræktum, nærum og styðjum vinkonur og vini okkar eins og við lifandi getum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver hefur sinn djöful að draga
23.4.2013 | 19:09
Þegar maður er manneskja, en ekki mús, hefur maður veikleika sem manni geðjast, öllu jafna, ekkert sérstaklega vel að. Maður vill ekki kannast við að fresta öllu fram á síðustu stund eða taka gagnrýni illa. Hvað þá að maður drekki of mikið eða sjái alltaf lífið þannig að grasið sé grænna hinum megin við lækinn. Maður horfist ekki í augu við að vilja ganga í augun á öllum heiminum og þá tilfinningu að maður passi aldrei inn, hvar sem er og hvenær sem er.
En allir hafa sinn "djöful" að draga. Galdurinn er að hætta að draga hann á eftir sér. Hann getur verið svo þungur í taumi! Fyrsta skrefið í því ferli er alltaf að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að maður drattist með eitthvað á eftir sér sem er að verða of þungt í taumi. Taka ábyrgðina á því að vera með þennan skrattakoll í eftirdragi!
Þeir stjórnendur sem ná lengra en aðrir eru oft þeir sem ná að horfast í augu við skrattakolla sína og þora að sýna að þeir hafi veikleika. Maður treystir þeim betur sem þora að vera þeir sjálfir. Enn betur treystir maður þeim sem hafa sætt sig við og unnið með veikleika sína því þá getur maður slappað af í návist þeirra!
Næsta skref er að horfa framan í skrattakollinn. Viðurkenna að maður hafi, sem dæmi, mikla þörf fyrir viðurkenningu annarra eða þoli illa gagnrýni. Þá getur maður farið að gera eitthvað í málnum. Næst þegrar að maður hefur þörf fyrir að gera eitthvað eingöngu til að þóknast öðrum þá hefur maður val um að framkvæma samkvæmt vana og skemmta þar með skrattakollinum. Eða - gera sér grein fyrir af hverju það er óþægilegt að upplifa höfnum og halda svo áfram. Sumir hafa nefnt þetta að bjóða skrattakollinum upp í lífsrútuna okkar og vita af honum en láta hann ekki stjórna för. Svona eins og þegar maður gerir sér grein fyrir að maður drekki of mikið þá getur maður ákveðið að fara í meðferð, eða hætt. Um leið og maður er hættur og þar með búin að bjóða skrattakollinum upp í rútuna þá stjórnar hann ekki lengur.
Það er bara þetta með að horfast í augu við sjáflfan sig sem getur verið soldið flókið......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)