Hvað á ég að gera þegar ég verð stór?

Um þessar mundir spyrja mörg ungmenni sig þessarar spurningar: Hvað á ég að gera þegar ég verð stór? Fólk veltur þessu fyrir sér þegar það er að hefja nám og velja sér vinnu. Þar sem ég er oft spurð þessarar spurningar eftir að bókin mín: Á réttri hillu, kom út þá ætla ég að svara þessari spurningu hér - ef það gagnast einhverjum.

í fyrsta lagi er mikilvægt að velta fyrir sér - hverju hefur þú ástríðu fyrir? Hvað hefur þú haft áhuga á síðan þú varst barn? Hver er köllun þín? Hvaða bíómyndir, bækur, þættir og tímarit kveikja hjá þér áhuga? Hvað gætir þú talað um út í hið óendalega. Hvaða fög fannst þér skemmtilegust í skóla? Hvað finnst þér svo létt að gera að þú myndir aldrei kalla það vinnu?

Í öðru lagi - skaltu leita að framtíðar"trendum", lesa þér til og gúggla, rannsaka og greina hvaða starfstéttir munu verða ráðandi eða eru að koma inn á vinnumarkað. Við vitum að líftækniiðnaður er vaxandi, matvælaiðnaður og framleiðsla, ferðamálaþjónusta. Hátækniiðnaðurinn mun áfram vera vaxandi og eins og orkuiðnaðurinn. Afþreyingariðnaðurinn mun blómstra og menntun verður mikilvægari og fleiri sækja sér menntun, öldrunarfræði er vaxandi grein. Góðir greinendur og þeir sem eru skapandi, á öllum sviðum, munu lifa góðu lífi og þeir sem eru í gagnasöfnun og kunna að greina gagnasöfn. Kíktu á þetta og þú munt verða hissa hvað það er dásamlegt úrval af komandi störfum.

í þriðja lagi, ekki vera feimin við að gera mistök. Heimurinn ferst ekki ef þú byrjar í námi sem þú síðan finnur þig ekki í. Reglan er að maður þarf að prófa sig áfram og vita hvað maður vill EKKI til að finna hvað maður vill.

í fjórða lagi, stór hluti af okkur, veit hvort sem er aldrei hvað hann vill verða þegar hann er orðin stór og heldur áfram að leita fram eftir allri ævi.

í fimmta lagi lestu þér til um námsval og farðu í eins mörg manngerðapróf og persónuleikapróf og þú mögulega getur. Já og lestu bókina: Á réttri hillu :-) - og aðrar bækur sem fjalla um sambærilegt efni. Þú þarft að leggja á þig smá rannsóknavinnu til að geta tekið svona mikilvæga ákvörðun. 


Persónuleg boðorð

Hin kristnu boðorð eru tíu. Þau eru listi yfir trúarlegar og siðfræðilegar reglur sem samkvæmt biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga, voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí. Í þeim birtast grundvallar gildi kristinna manna. Þið munið væntanlega eftir að hafa lært þau í fermingarundirbúninginum. Hið fyrsta er: Þú skalt ekki aðra Guði hafa og hið síðasta; þú skalt ekki grinast konu náunga þíns o.s.frv.

Trúarlegar og siðfræðilegar reglur eru grunnurinn sem við byggjum samfélag okkar, stofnanir þess og samskipti á.

Í ljósi þess varð mér hugsað til þess að allir ættu að hafa sín eigin boðorð sem ættu að stýra daglegu lífi okkar á. Ég setti upp eftirfarandi boðorð sem eru byggð á hamingju- og jákvæðni rannsóknum og eigin reynslu.

Hér kemur fyrsta uppkastið:

1. Þú skalt ekki taka lífinu svona alvarlega, þú lifir það hvort sem ekki af.

Þetta þýðir að daglega fara yfir óþarfa áhyggjur og hreinsa burt. 

2. Þú skalt elska lífið og fólk eins og það er.

Ó, Ó hvað það er oft auðvelt að reyna að breyta öðrum en ekki sjálfum sér. Eða vilja hafa aðstæður öðruvísi. Minna sig á að lífið er núna en ekki seinna og sjá það góða í öðrum. Þið vitið þetta með að sjá bjálkann í eigin augum en ekki flísina í annarra..

3. Þú skalt vera hugrökk og prófa reglulega eitthvað nýtt.

Gera það sem ég er hrædd við og til að virkja sköpunarkraftinn vera dugleg að prófa nýtt. Kynnast nýju fólki, nýtt áhugamál, smakka nýjan mat, prófa að búa á nýjum stöðum, prófa að sjá annað sjónarhorn. Prófa ný verkefni o.s.frv. 

4. Þú skalt gefa eins mikið og þú getur fyrir sjálfan þig og ekki ætlast til þess að fá viðurkenningu eða verðlaun fyrir.

Vera dugleg að gefa öðrum eftirtekt, gefa peninga þegar ég get, gefa tíma og gefa þeim sem minna mega sín. Gefa "dót" sem ég hef ekki þörf fyrir og gefa mig í verkefni. Passa mig á því að gefa ekki til að aðrir sjái hvað ég er góð stelpa heldur þegar mig langar til sjálf.

5. Þú skalt þakka fyrir allt sem þér öðlast, líka þegar á móti blæs.

Vera meðvituð, á hverjum degi um þær dásemdargjafir sem manni veitast. Kærleikurinn er þar stærstur. 

6. Þú skalt láta drauma þína rætast.

Amen. 

7. Þú skalt gera ráð fyrir því besta og treysta því að allt fari vel. Sleppa takinu.

Reyna eins og ég get að vera bjartsýn og jákvæð - það er svo miklu skemmtilegra. Sleppa takinu og leyfa guði, eins og sagt er. 

8. Þú skalt fylgja þinni innri rödd.

Stoppa við og hlusta, áður en ég framkvæmi (ekki alltaf auðvelt). 

9. Þú skalt ýta undir, stuðla að og njóta fegurðar.

Njóta lista, lifa fögru lífi, vera í náttúrinni, hafa fallegt í kringum mig. Sjá fegurðina í fólkinu mínu,  leggja áherslu á hið fagra (og kaupa af og til fallega skó...).

10. Þú skalt taka þátt af ástríðu og njóta þess. 

Taka þátt í lífi vina minna og fjölskyldu, taka fullann þátt í verkefnum mínum. Reyna að þiggja og vera með í skapandi verkefnum. Láta ástríðuna vera leiðandi afl.

 

Þetta er nú ansi langur pistill en ég hvet þig til þess að setja þín eigin boðorð. Væri gaman að heyra af því. Kær kveðja, 


Upprisa!

Ég vatt mér fram úr í morgun og sá að sólin var að læðast á loft, þrátt fyrir þá þrálátu tilfinningu að ég þurfi að sofa meira dreif ég mig fram. Síðan tók þessa hefðbundna eftir hátíðarar streð við að koma krökkunum fram úr sem mótmæltu og sneru sér á hina. Eftir að hafa skóflað þeim út tók ég mig til og týndi til vinnuflíkurnar en viti menn eitthvað hafa þær skroppið saman um hátíðarnar - aftur! Enn á ný! Halló... þessi þvottavél er dularfull eða kannski er það þurrkarinn! Eftir töluverða umhugsun um þvottaveröld mína ákvað ég að stíga á .... vinkonu mína vigtina... slæm ákvörðun og alls ekki til eftirbreytni. OOOOOhhhhhh.... arg, garg.. þar sem ég sat á rúminu mínu og vorkenndi mér fyrir að fæðast ekki með grönnu genin eða snefill af íþróttaáhuga eða bara með súkkulaðiofnæmi þá kíkti ég í skápinn minn aftur. Ég fann eitthvað á endanum og hef verið að vorkenna mér í allann dag!

Nú skal taka það fram að ég kann ALLT um markmiðsetningu, jákvæðni og réttu viðhorfin en SAMT er ég búin að vorkenna mér í ALLANN dag! Enn og aftur! Aumingja ég ... fórnalamb páskaeggja! Aumingja ég!

Þá mundi ég allt í einu eftir því að páskarnir eru, í huga kristinna manna, táknrænir fyrir upprisu, sigur lífsins yfir dauðanum. Nýtt líf - þess vegna borðum við páskaegg (já - ég er sannkristin kona og gerði þetta af skyldurækni...). Eggið er táknrænt fyrir möguleika framtíðarinnar.

Nú er ég því komin á kunnuglegan stað, aftur, vortiltekt í matarræðinu, aukin hreyfing og þá gildir slagorð Nike - Just do it! Ég er að hugsa um að dusta rykið af öllum þeim heilræðum sem ég hef lesið og prófað í gegnum tíðina við tiltekina. Um leið og ég er búin að vorkenna mér dálítið.

Hvað er það sem þú vilt rísa upp úr núna í vor? Ég held við getum þetta saman með réttu viðhorfunum, skrefi fyrir skref aðferðinni og slatta af sjálfsumhyggju.


Vertu sólarmeginn í lífinu

Andew Carnegie var fæddur í Skotlandi árið 1835 en flutti með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna sem unglingur og varð ríkasti maður sinnar samtíðar. Hann hagnaðist m.a. á járnbrautunum en eftir dauða hans er hann frægastur fyrir hvað hann gaf en ekki hvað hann átti. Carnegie stofnaði og gaf almenn bókasöfn um Bandaríkin og Bretland því hann trúði á mátt lærdóms og bókalestrurs. Allir mikilir leiðtogar eru lestrahestar, sagði hann einhverju sinni. Myndin sem hann lét standa yfir dyrum á fyrsta safninu sem hann gaf almenningi var mynd af sólinni með orðunum "let there be light." 

Af lífi hans, eins og svo margra annarra leiðtoga, er margt hægt að læra enn í dag ekki síst um hvað viðhorf okkar eru mikilvæg í sköpunarverki lífs okkar. "A sunny disposition is worth more than a fortune. Young people should know that it can be cultivated; that the mind like the body can be moved from the shade into the sunshine." Ég bara varð að hafa þetta beint eftir honum karlinum, sem sagt við getum lært að breyta viðhorfum okkar alveg eins og við getum flest hreyft líkamann.

Þetta er mikilvægustu skilaboð allra tíma, það er hægt að læra að verða vongóður, bjartsýnn og jákvæður. Ef maður nær að létta lund sína, og annarra í leiðinni.  Þá er ekki þar með sagt að lífið verði auðvelt. Hins vegar hvílir maður í vissunni um að það sé ekki lengur spurning um hvað kemur fyrir mann í lífinu.  Heldur hvernig maður velur að hugsa um það sem fyrir mann kemur, eða taka því sem að höndum ber.

ég er sammmála Carnegie um það að þessi skilaboð þurfa að komast til ungs fólks. Ég segi stundum við nemendur mína að þeir séu ráðnir út á það hvað þeir kunna en reknir fyrir það hver þeir eru. Fólk getur verið með allra handa prófgráður en ef það er ekki hægt að vinna með því, eða þá að það er svo neikvætt að það drepur niður menningu fyrirtækja. Þá er einfaldlega ekki annað hægt en að láta það fara! Stundum er það ekki hægt og þá þjást allir.

Á Íslandi hættir okkur til þess að kalla þá sem eru glaðlyndir; yfirborðskennda eða Pollýönnur eða skýjaglópa. Ég hef oft fengið slík viðurnefni sjálf - en þá bara kýs ég að horfa beint í átt að sólu og huga að því að strá í kringum mig ljósi frekar en dimmu. Við getum kosið viðhorf okkar, það er okkar mikilvægasti valkostur.

Prófum þessa vikuna að segja við okkur sjálf "lát verða ljós." Rannsóknir sýna að ef maður brosir bara með andlitinu (þ.e. raunverulegt bros nær til augna líka) þá eykst hamingja okkar. Ef maður hlær þá margfaldast hamingjuhormónin. Ef maður hugsar jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir þá er maður líka svo miklu skemmtilegri! 

Svo er líka að koma vor og þá erum við bara sólarinnar börn - öll saman :-). 


Hesturinn ógurlegi

Ég man ennþá hvað ég skammaðist mín mikið að komast ekki yfir hestinn í leikfiminni í gamla daga. Íþróttakennarinn raðaði okkur upp í röð og é fann hverngi hjartslátturinn magnaðist innra með mér eftir því sem hver íþróttaálfurinn hoppaði léttilega yfir. Þegar svo loks kom að mér í röðinni var ég orðin sannfærð um að ég kæmist aldrei yfir og auðvitað lenti ég svo flöt á bevítans hestinum en aldrei yfir hann. Þetta olli mér mikilli sálrænni baráttu og ævilangri (ó)meðvitaðri ótta í leikfimisölum sem nú heita eitthvað annað.

Ég hef s.s. haft þær hugmyndir um sjálfan mig að ég sé algjör lúði þegar kemur að því að stökkva yfir hesta í leikfimissölum! Þar sem ég hef ekki þurft að stökkva yfir marga leikfimihesta undanfarna áratugi hef ég verið nokkuð fótviss. Það læðist samt að mér gamla hræðslutilfinningin þegar ég þarf að stökkva yfir læki eða annað sem verður á vegi mínum. Enda hef ég oft lent í lækjum og skurðum, margfaldur íslandsmeistari í að lenda ofan í en ekki yfir. Aftur!

Mér varð hugsað til þess að við eigum flest einhverja hindrun sem við réðum ekki við sem börn sem varð til þess að við ákváðum að við værum svona eða hins segin. Sumir fóru í ræðustól og gátu ekki komið upp orði og hafa ekki farið síðan, sumir gátu ekki lært stærðfræði og hafa sniðgengið allt sem hefur með tölur að gera (nema fatnað). Sumum var strítt af því að þeir voru stórir, litlir, feitir, mjóir með gleraugu o.s.frv. Ég man eftir strák sem var kallaður "stóri" en um leið og við vorum fermd þá varða hann meðalmaður. Ég man líka eftir einum sem var kallaður "litli" og hann varð líka meðalmaður. 

Ef við horfum á skapandi máta á þetta þá segja kenningar um sköpunargleði (e.creatvity) að við verðum fyrst skapandi þegar við lendum á hindrun eða vegg. Ég varð akkúrat ekkert skapandi við að lenda á hestinum en núna þegar ég er að komast á seinna kynþroskaskeið - sem er rétt að nálgast breytingaskeiðið þá sé ég að nú er komið að því að hætta að láta hestinn skilgreina mig lengur. Ég sé mig í anda svífa yfir hestinn eða alla vega að sættast við leikfimisalinn aftur :-). 

Tallíhó 


Að bíða eftir strætó í vesturbænum

Ég hef oft beðið eftir strætó í vesturbænum og samkvæmt vísindarlegum niðurstöðum mínum þá er reglan sú að annað hvort kemur enginn eða þrír í einu! Alveg ótrúlegt, hafið þið tekið eftir því að tækifærin eiga það tl að haga sér eins í lífi manns almennt. Stundum þarf maður að bíða alveg endalaust eftir að eitthvað sem mann langar gerist en svo þegar það gerist þá koma mörg tækifæri í röð. Jafnvel svo mörg að maður verður að láta þau fram hjá sér fara, alveg eins og maður getur ekki tekið þrjá strætó frá vesturbænum. Maður verður að velja einn!

Lífið hefur tilhneigingu til að taka hina og þessa beygjuna, eins og strætóar, og stundum veit maður ekki alveg hvort maður tók rétta vagninn. Ég hef oft haft fólk í ráðgjöf sem segir mér að það besta sem hafi komið fyrir það hafi verið að vera sagt upp eða skilja eða farið í gjaldþrot. Þetta er ótrúlegt og oftast hafa liðið nokkur ár áður en fólk kemst að þessari niðurstöðu. Ástæðan er einföld, fólk var bara í sínum venjulega strætó og fór alltaf sömu leiðina án þess að taka neitt sérstaklega eftir henni en svo hætti sá strætó að ganga og allt í einu þurfti að finna nýjan vagn. Sumir hafa þurft að bíða lengi og finnst þá eins og það muni ekki koma nokkur vagn og hvað þá á réttum tíma.

Ég hef kennt, skrifað um og fundið á eiginn skinni, að maður verður að hætta að bíða eftir strætó og kynna sér leiðarvísinn eða jafnvel slá inn leit á vefnum. Eftir því sem við sinnum betur leiðtogahæfni eða forystu í eigin lífi þeim mun betur komum við í veg fyrir biðina. Eftir því sem við þekkjum betur hvert við viljum fara þeim mun meiri líkur eru á að við komust þangað! Eftir því sem við leggjum á okkur að vera tilbúin þegar vagninn mætir á stoppustöðina þeim mun meiri líkur eru á að við náum honum. Síðan koma oft stundir þar sem maður þarf að hlaupa til að ná honum. Stundum missir maður af honum og ég hef lent í því að vera komin upp í Mjódd þegar ég ætlaði að fara í Kringluna, bara soldið niðursokkin í annað.

Þegar lífið krefst þess að þér að þú bíðir eftir strætó mundu þá bara að þegar maður bíður eftir strætó í vesturbænum þá kemur annað hvort enginn eða þrír í einu. Þá er um að gera að hoppa upp af kæti! 


Bréf sem fundust í skúffu Abrahams Lincoln

Um þessar mundir er verið að sýna kvikmynd um síðustu daga Lincolns bandaríkjaforseta. Myndin fjallar um baráttu hans til að aflétta lögum um þrælahald undir lok borgarastyrjaldarinnar. Lincoln er dáðasti forseti Bandaríkjanna fram á þennan dag, samkvæmt könnunum. Í myndinni kemur vel fram hæfileiki hans til að heilla fólk með orðum en hann var orðheppinn maður og þekktur fyrir að beita því bæði í ræðu og riti. Hann var líka kænn sögumaður.  Í myndinni er dregin upp mynd af manni sem er í senn mildur og föðurlegur í afstöðu sinni til manna og málefna, maður knúin áfram af hugsjónum sínum.

Lincoln var ekki alltaf svo hófstilltur í lífi sínu. Hann byrjaði snemma að æfa sig að tala fyrir fólk, þegar hann var aðeins barna að aldri safnaði hann saman vinum sínum og stóð svo upp á tréstúf og hélt yfir þeim ræður. Þegrar hann var ungur maður fór hann gjarnan á krár þar sem fóru fram rökræður og æfði sig í að setja fram mál sitt. Hann hafði ekki mikla formlega skólagöngu en lagði á sig að vera vel lesin og kynnti sér meðal annars svo vel rit Shakespears að hann gat þulið upp sögur hans. Hann unni góðum sögum og kunni þá list að segja þær vel.

Á sínum yngri árum var hann mjög gagnrýnin og þekktur fyrir að fara illa með andstæðinga sína ef til rökræðna kom. Árið 1840 varð frægt atvik þar sem hann hæddi mann að nafni Jess Thomas sem andmælti honum á stjórnmálafundi. Hann fór svo illa með hann að Thomas grét á endanum undan honum. Þetta atvik er kallað "the skinning of Thomas." Það var ekki nóg með að hann hefði andstæðinga sína að háði og spotti í tali heldur átti hann jafnvel til að skrifa um þá níðgreinar undir fölsku nafni. Eitt sinn, árið 1842 skrifaði hann í blað undir nafninu Rebecca, níðgrein um James Shields, en sá hin sami varð eðlilega reiður og heimtaði að fá uppgefið hver hefði skrifað greinina. Þegar kom í ljós að það var Lincoln skoraði Shields hann á hólm. Áður en þeir gengu á hólm náðu þeir að sætta málin sín á milli. Talið er að þessi atvik hafi haft mikil áhrif á Abraham Lincoln og upp úr því fór hann að beita vopni sínu, orðum og sögum með öðrum hætti. Hinn mildi og orðheppni leiðtogi var í mótun.

Hann hafði sjálfsaga til þess að verða hófstilltari með árunum og náði eftir það mun meiri árangri sem leiðtogi á erfiðum tímum.  Hans er meðal annars minnst sem manns sem sýndi miskun og mildi í garð þeirra sem gagnrýndu hann harðast í forsetatíð hans. Þrátt fyrir að hafa sýnt miskunarleysi á sínum yngri árum. Það kom í ljós eftir dauða hans að í skúffu í skrifborði hans var fullt af bréfum þar sem hann úthúðaði og fór illum orðum um þá sem gagnrýndu eða reittu hann til reiði. Þessi bréf voru hins vegar ósend og höfðu aldrei farið neitt lengra en í skúffuna. 

Abraham Lincoln lærði, sem sagt, að þegar þú ert reiður þá ferðu með þá flottustu ræðu sem þú munt nokkru sinni sjá eftir að hafa flutt. Kannski islenskir leiðtogar geti lært af þessu - og við öll hin 


Malandi köttur!

Við fjölskyldan erum svo lánsöm að eiga kött, hann Mosa. Reyndar færir hann okkur reglulega fugla og mýs og þá er ekki eins og lánið leiki við okkur, en samt. Ég dáist að Mosa. Sagt er að hundar passi upp á eigendur sína en Mosi situr um heimilið og ef það nálgast önnur dýr þá gefur hann frá sér hljóð sem gætu komið úr barka fullorðins karlmanns. Hann sefur alltaf upp í hjá yngstu prinsessu heimilsins og ef einhver lokar hurðinni hennar á kvöldin þá bara krafsar hann í hana og vælir þangað til einhver nennir að standa upp úr sófa og hleypa honum inn. þá leggst hann værðarlega upp á sængina hjá henni og gætir hennar í draumaheimum. Ef hún er ekki heima lætur hann prins heimilisins duga, ef allt þrýtur og ekkert barn er heima skríður hann upp í hjá okkur fullorðna fólkinu. Við erum síðasta sort!

Hann vill gjarnan hafa okkur heima og þegar við komum heim, eftir að hafa verið að heiman, þá kemur hann hlaupandi og strýkur sér um fætur okkar og sést einhvers staðar nálægt og malar eins og gufuvél. Ég horfði á hann í gær þar sem hann lá malandi og hugsaði með mér að það er fátt sem er eins afslappað í heiminum eins og malandi köttur.

Ég ætla að taka Mosa til fyrirmyndar næstu dagana og mala eins og köttur reglulega, mala yfir því hvað ég á gott að einhver er komin heim, mala yfir góðum mat. Mala yfir vellíðan í eigin kroppi. Þessum lifandi, mjúka kroppi sem gefur mér færi á að strjúka, kyssa, knúsa, borða og .... hlaupa og ganga. Mala yfir birtunni og mala yfir myrkrinu. Teyja úr mér og mala. Mala af vellíðan út af engu nema því að vera á lífi akkúrat núna.

Við mannfólkið gerum nefnilega ekki nógu mikið af því að gera ekki neitt! Þegar við mölum eins og kettir eykst sköpunargáfa okkar. Við skiptum um heilahvel, í hugsunum og vinnsluminni, og innsæi eykst. Prófið bara að mala eins og köttur og þið munið finna alveg nýjan flöt á öllum heimsins vandamálum. 


Algjört beib!

Ég átti vin fyrir mörgum árum sem skipti oft um kærustur. Við vorum ung og það var alvanarlegt að fólk prófaði sig áfram með maka. En hann var mikill bílaáhugamaður og við vinir hans söguðum að "Jón" væri komin með nýja sem passaði í bílinn. Hann hafði áhuga á fallegum hlutum og bílum, var alltaf á nýjum bílum meðan að við hin áttum flest ekki bíla. Ég hef ekki heyrt af honum í mörg ár en síðast þegar ég heyrði hafði hann fundið sér nýja.

Sumir sjá konur sem hluti, klámiðnaðurinn gengur út á það. Ung stúlka vann keppni um að komast áfram og láta taka myndir af sér í Playboy. Hún veit að það verður horft á hana eins og nýjan bíl. Gott húdd, fallegur skrokkur, sterk vel og bakendinn rennilegur. Sumir karlar sjá konur sem hluti til að eignast. Hárgreiðslukona sem ég þekki fékk einhverju sinni símtal frá brjáluðum eiginmanni sem var óður því hún hafði klippt konuna hans í styttra lagi. Hann var ósáttur með sinn hlut.

Mér varð hugsað til alls þessa þegar ég horfið í gær á franskan þátt um kynjaskiptingu heimilisverka. Ég hafði þvingað manninn minn til að sitja hjá mér. "Sko..." En allt í einu þyrmdi yfir mig og ég hugsaði með mér að ég væri að verða fjörtíu og sex ára og þetta væru sömu staðreyndirnar og þegar ég var fimmtán ára og reið yfir því að kynin hefðu ekki sömu möguleika á að afla sér viðurværis.

Það var prófessor í þættinum sem sagði að karlar leggðu allt í starfsframan en ekki heimilið eða vini og fjölskyldu. Þeir leggja á sig fyrir fjölskylduna í flestum tilfellum. Ekkert nýtt þar en allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Hvað ef allar konur leggja jafn mikið á sig til að jafna hlut kvenna á vinnumarkaði og styttu hver aðra til metorða? Í stað þess að leggja það á sig að líta út eins og beib? Eða vera fullkomnar húsmæður? Þá er ég ekki að mæla móti því að við leggjum upp úr fegurð og því að líta vel út. Útlitsdýrkun er ákveðið fangelsi, það er alltaf hægt að gera betur og alltaf hægt að leggja meira á sig á þeim vettvangi. Hlutir hafa tilhneigingu til að missa sjarma sinn eftir stuttann tíma. Í hvert sinn sem ég kaupi mér skó þá finnst mér þeir fallegasta parið sem ég hef eignast en svo fölnar fegurð þeirra og ég er farin að horfa á nýja áður en ég veit. Bílar missa verðgildi sitt um leið og þeir komast á götuna úr glugganum. Eitt er að karlar líti á konur sem hluti kannski er það hluti af þeirra genatík en f við konur lítum okkur sjálfar sömu augum og hluti þá erum við að efast um okkar eigið gildi. Hver einasta manneskja er hafsjór af óendalega jákvæðum möguleikum til að blómstra í víðasta skilningi þess hugtaks.

Við sögðum gjarnan um "Jón" vin okkar "bíddu bara þangað til hann kemst að því að þær fara á klósettið og reka við og ropa eins við hin." Hann var oftast búin að skipta áður en hann komst að þessu. Blæðingar, fæðingar með blóði og kúk og ælupestir voru ekki í boði. Ég legg mikið upp úr því að líta vel út. Einhverju sinni spurði minn heittelskaði; "Hvað kostaði klippingin þín?" (Við vorum nýbyrjuð saman..). þegar hann fékk svarið varð hann orðlaus (gerist sjaldan), ég leit á hann og svaraði því til hvort hann héldi að það væri ókeypis að líta út eins og ég! Hann hefur ekki minnst á þetta einu orði síðan. En ég legg líka mikið upp úr því að læra, öðlast visku og vera með sömu laun og jafningar mínir. Ég hef alltaf barist fyrir kvenréttindum og lagt mikinn tíma í að byggja mig upp. Tl þess að ná árangri á vinnumarkaði þá verður maður að leggja mikið á sig og kannski enn meira ef maður er kona. Það hjálpar manni ekki í launtékkanum að vera beib.

Hvað varðar karlmenn sem vilja fá nýjustu útgáfuna af beibinu sem passar í bílinn þeirra. Forðist þá! Hlaupið í burtu ... Sá sem þarf hluti til að púkka upp á sjálfsvirðingu sína er líklegur til að vilja drottna yfir honum.


Hvað get ég gert í dag sem ég hef frestað hingað til?

Ég viðurkenni það, ég fresta oft því sem hægt er að fresta til morgundagsins. Á morgun er ansi oft mantran mín. Sérstaklega þegar mér þykja verkefnin leiðinleg eða erfið...

Ég fell þar með í flokk þeirra 95% einstaklinga sem fresta eða eru með frestunaráráttu svo að við nefnum þetta einhverju fínu nafni. Ég er mjög fegin að vera ekki ein um þetta. En vissuð þið að frestunarárátta hefur aukist samkvæmt rannsóknum? Dr Piers Steel er helsti fræðimaður á sviði fresturnaráráttu, rannsóknir hans benda til þess að frestunarárátta aukist vegna þess að við höfum fleiri og fleiri valkosti til að ýta undir frestunaráráttu. Sjónvarpsgláp í stað þess að taka til í bílskúrnum, flakka um í netheimum í stað þess að gera skattframtalið, hanga á fésinu í stað þess að ljúka við verkefnin (ekki að ég kannist við nokkuð af þessu..). Aukin tækni og nútímaþægindi verða til þess að við föllum í sófann eða stólinn fyrir framan skjái og aftengjum okkur. Líkaminn situr á sínum stað en hausinn er einhvers staðar fjarri og hefur engann tíma til að takast á við það sem hægt er að fresta! Frestunaráráttann er því eins og lítill skrattakollur sem hoppar út úr búri sínu um leið og við gefum færi á því. ... og þannig frestast það sem við ætlum alltaf að gera og tíminn líður og aldrei verður neitt úr því að gera það sem ég ætlaði að gera..." Æji - geri það á morgun!"

Ég er að kenna í MBA námi Viðskiptadeildar HÍ, í valkúrsi á öðru ári, hluti af námsefninu er að læra um frestunaráráttu. Verkefni þessarar viku, og næstu, er að spyrja sig á hverjum degi: Hvað get ég gert í dag sem ég hef frestað hingað til? Í þeim tilgangi að gera eitthvað í dag sem maður hefur frestað hingað til. Ég er að sjálfsögðu ekki undanþegin þessu verkefni. Ég hef þessa vikuna spurt mig þessarar spurninga og í kjölfarið gert ýmislegt. Sem dæmi má nefna; uppfært ferilskránna mína, eldað nýja rétti, flokkað leikföng, undirbúið greinaskrif og rannsóknir, sótt námskeið, lært að tengja tölvugræjur, hringt í ömmu, uppfært Linkedin síðuna mína, farið í göngutúr og fleira og fleira...

Sannleikurinn er að ég á næg verkefni út árið sem ég hef frestað hingað til - þannig að kannski verður þetta bara árið sem ég hætti að fresta! Eða ætti ég kannski að fresta því fram á næsta ár?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband