Konan með eitt brjóst
15.1.2013 | 23:30
Ég var að leggja grjónagrautinn á borðið, litlu krílin mín sátu við borðið og biðu eftir að fá þennan fína eftirjólarétt. "Ég var óþekk í sundi í dag" tilkynnti sú stutta. Þetta er nú frekar venjuleg tilkynning á mínu heimili svo ég kippti mér ekki upp við þetta. "Kennarinn skammaði mig af því að ég vildi ekki gera eins og ég átti að gera með fæturnar en ég sagði henni að ef ég væri í sjónum myndi ég sökkva." Ég kannast við svona erfiðleika með íþróttakennara því pabbi minn er gamall íþróttakennari og honum finnst ég ennþá ekki fara alveg eftir fyrirmælum.
"Mamma, ég var líka soldið lengi að klæða mig því að ég horfið svo mikið á eina konuna." Nú, sagði ég um leið og ég stráði kanilsykrinum yfir. "já, hún er nefnilega með eitt brjóst." Ég veit sem er að mín er soldið hvatvís og segir oft það sem ekki á að segja svo ég beið eftir framhaldinu. "Ég spurði hana af hverju hún væri með eitt bjóst og hún sagði mér að hún hefði fengið brjóstakrabbamein." Já, svoleiðis gerist, sagði ég um leið og ég lagði diskinn á borðið. Hún horfði hugsandi á mig, "já, hún var sextíu og eins árs þegar brjóstið var tekið en núna er hún sjötíu og tveggja. Hún var líka með svona poka utan á sér sem maturinn fer í en ég spurði ekki um hann." Hún renndi niður grautnum og horfi svo á mig hugsandi og sagði "mamma mikið er gott að hún gat gefið börnunum sinum brjóst en ég gleymdi að spyrja hana hvað hún ætti mörg börn."
Ég er þakklát fyrir þessa sundferð þessarar stuttu, ekki af því að hún var óþekk í sundkennslunni heldur af því að hún lærði eitthvað mun mikilvægara. Hún lærði á þessum degi að sumar konur eru með eitt brjóst og fara samt í sund og hún lærði að sumar konur eru með poka utan á sér sem maturinn fer í og fara samt í sund. Hún lærði að brjóstakrabbamein er ekki dauðadómur. Hún lærði að við erum ekki öll eins og að við konur getum verið sterkar, flottar og stoltar hvort sem við erum með eitt eða tvö brjóst. Hún lærði líka að þakka fyrir það sem þessi kona hafði getað gert meðan hún hafði tvö brjóst, nefnilega gefið af sér þegar hún hafði tækifæri til (ef hún á börn því hún gleymdi að spyrja að því...).
Ég er líka þakklát konunni með eitt brjóst að móðgast ekki þegar littlel miss forvitin horfir og spyr hana spurninga. Sumar konur eru einfaldlega svo flottar! Það eru nú reyndar íþróttakennarar líka sem þurfa að fást við stelpur sem skilja ekki hvernig þær geta flotið um leið og fæturnir fara upp!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tuttugu og einn dagur!
7.1.2013 | 11:18
Nú er tími til að gera það sem hægt er að gera í stað þess að einblína á það sem þarf að laga. Hugsa sér allt sem er mögulegt á þessu herrans ári. Nýjar hugsanir, ný ævintýri og ný ferðalög, nýjar hugmyndir um sjálfa þig.
Ég hef oft sett sömu markmið og finnst þá stundum eins og það sé fáranlegt að setja þau aftur nema mér hafi tekist að ná þeim. Hugsanir eins og "þetta er tilgangslaust, ég er búin að reyna svo oft.." fara á kreik. Þá minni ég mig á eftirfarandi tilvitnun sem ég einhver staðar týndi upp: "Okkar stærsta stund er ekki það að tapa aldrei heldur að rísa upp eftir hvern ósigur." Persónuleg breyting, hvort sem maður vill skifta um vinnu eða hætta að reykja, skrifa bók, auka hreyfingu eða létta sig, er langtíma þróun sem maður stjórnar ekki alltaf með stífu tímaplani.
Ég var að kenna hópi nema í síðustu viku, sem ég kenndi síðast fyrir rúmu ári. Við vorum að tala um vana og vanabundna hegðun þegar einn nemandinn sagði að hann hefði farið að ráði mínu þegar hann hóf líkamsrækt. Ég hrökk í kút því ég á það til að ráðleggja eitt í dag og annað á morgun og mundi ekkert hvað ég hafði lagt til! Nemandi minn hafði fengið sér einkaþjálfara og eftir að hafa heyrt mig tala um að það tæki tuttugu og einn dag að festa ákveðna hegðun í sessi þá ákvað hann að fara í ræktina á hverjum degi í tuttugu og einn dag. Á hverjum degi! "Eftir að ég fór á hverjum degi í tuttugu og einn dag þá var ekkert mál og svo létt að fara í kjölfarið bara þrisvar í viku." Sagði viðkomandi sem hefur stundað sína líkamsrækt þrisvar í viku, í eitt og hálft ár síðan.
Ég hugsaði með mér að ég hefði kannski verið ansi sniðug í ráðleggingunum í þetta sinn. Það er hægt að breyta vanabundinni hegðun á tuttugu og einum degi. Ég er að hugsa um að byrja á því að vera GREAT á hverjum degi í tuttugu og einn dag.
G - gefa af sér (e. give),
R - reyna að tengjast öðrum (e. relate),
E - elska að hreyfa sig (e. exchercise),
A - athygli (e. attent to the world around),
T - tosast í eitthvað nýtt (e. try someting new).
Hvað vilt þú gera í tuttugu og einn dag?
kveðja,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kynt undir áramótaheitabrennu
28.12.2012 | 15:13
Það vellur konfekt út úr eyrunum á mér... ég hef ekki hreyft mig neitt um jólin nema til að rétta út hönd í yfirfullar skálar af konfekti, belgísku súkkulaði og Makintoss. Búin að lesa um það bil fjórar jólabækur hver annarri betri. Ég lagðist í flensu fyrir jólin svo að ég gat ekki annað en látið jólaundirbúningin fram hjá mér fara, það sem átti eftir að gera. Jólin eru í mínum huga, súkkulaði, jólabækur, jólaboð og leti, dásamleg leti. Tek heimilisköttinn mér til fyrirmyndar og ligg á meltunni, borða, sef, les og er með fjölskyldunni.
Þetta líferni hefur mikil áhrif á áramótaheitin því að þegar ég lít upp úr sykurvímunni þá sé ég mig fyrir mér tágranna í hlaupaskóm á leið í maraþon sumarsins. Skelli hausnum aftur í bókina og lít upp og bæti við draum um skiplagða konu, núna í gönguskóm í réttri litasamsetningu á tindi einhvers fjalls sem er svakalega hátt. Ég sé mig í anda með göngustafina, rjóða í kinnum með hnetur í vasanum. Ég gref andlitið aftur ofan í bókina og gleymi mér um stund og er orðin ósjálfráð með Auði Jónsdóttur, dásamleg bók sem gleður mig. Ég hlæ upphátt, orðin spretta upp af bókinni, ummmm... "allir verða að eiga sína mömmu.." Lít upp og sé að það eru að koma áramót. Árinu er að ljúka. Ég fæ nostalgíu kast, öll ferðalögin, allar uppákomurnar, vinafundir og ást og kossar.
Ég er áramótabarn í mér, finnst ómótstæðilega mystískt að horfa yfir farin veg og gera upp árið sem við síðan kveðjum með hátíðarbrag. Allar þess gleði og sorgir, búmmmm.. upp í loft með þetta, búmmm, sprengjum það allt í loft upp, búmmm... Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.
Á þessum tíma læðast þrár okkar og draumar um á svellköldum nóttum og skemmta sér við að daðra við okkur. Þá er um að gera að ganga til móts við þá, óuppfylltu draumana með opið fangið. Ég set alltaf upp markmið, fyrir hvert ár á gamlársdag, ég set upp markmiðalista og geri óskaspjöld. Finn mig knúna til að leika mér með draumana eins og krakki að uppáhaldsleikfangi sínu.
Á síðasta ári setti ég mér það að markmiði að vera í launalausu leyfi frá vinnustað mínum og prófa að leggja aðrar áherslur. Það besta við það var að uppgötva að ég sakna vinnustaðarins og hlakka nú til að hefja störf aftur á nýju ári. Ég setti mér það að markmiði að ferðast, eins og ég gæti, og hef gert það svona eftir efnum og aðstæðum. Ég ætlaði líka að verða tágrönn á árinu en ekkert varð af því en ég fór að stunda jóga. Ég ræktaði garðinn minn og týndi upp það illgresi sem þurfti burt og gróðursetti ýmislegt sem á næsta ári mun stinga upp höfðinu.
Galdurinn við að gera áramótaheit er að hafa þau eins SMART og hægt er, þ.e. sértækt, mælanlegt, á allra færi (á þínu færi), réttlátt og tímatengt. Kynda svo undir áramótaheitabálinu með því að vera vongóð eða vongóður. Ef maður er vongóður þá sér maður fyrir sér hindranir áður en maður fer af stað og síðan hvernig maður ætlar að fara fram hjá þeirri hindrun (skrifaði heila bók um þetta: Móti hækkandi sól).
Ekki velja augljósustu markmiðin sem sykurvíma jólanna stillir upp fyrir framan þig! Hvernig væri að stefna að því að fara út úr þægindarammanum á nýju ári. Gera eitthvað nýtt, finna nýja hæfileika og leika sér á nýjan hátt. Tengjst á nýjan og dýpri hátt og hreyfa við öllum þeim vöðvum sem ekki hafa verið virkjaðir áður. Finna ástríðuna og uppgötva ný lönd og nýjar lendur. Elska heitar og gefa meira, hugsa nýjar hugsanir og um leið velja að koma fram við sjálfan sig af umhyggju, alúð og feiki kærleika. Kasta því á bál sem ekki á við í lífi þínu núna, sleppa takinu á því sem þarf. Gömlum hugmyndum um sjálfan þig Brenna öll vonbrigði á brennunni, setja upp lærdóminn af mistökunum og prófa upp á nýtt. Þú getur það! Þú hefur það sem þarf til! Þú ert á réttum stað á rétum tíma til að nákvæmlega þetta markmið logi glatt allt næsta ár.
Þannig er ég sannfærð um að ég muni á nýju ári verða mun grennri, mun skipulagðari og mun ævintýragjarnari og muni skrifa marga nýja kafla og bækur. Finna nýja staði og flytja á nýjan stað í verunni. Tilveran er dásamleg og ég bið um að þú munir kynda undir áramótaheitabrennunni með mörgum nýjum markmiðum sem verða drifkrafturinn að algjörlega fabílös nýju ári. .......... Ótrúlega ævintýraár 2013 hér kem ég fagnandi!
Gleðilegt nýtt yndisár.
Árelía Eydís
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Endalaust vesen á þessum kellingum!
20.12.2012 | 14:18
Ég sat með hópi karla og lét lítið fyrir mér fara, hlustaði á spjallið. "það er endalaust vesen á þessum kellingum, ætli maður þurfi ekki að fara setja upp einhverja seríu einu sinni enn." "já" hnussaði í öðrum "maður er aldrei búin." Þeir fóru svo að ræða um mikilvægari mál eins og pólitík og gjaldeyrishöftin. Ég hitti seinna kunningjakonu mína sem sagði þreytt á svip "ég sætti mig bara ekki við að kallinn skrifi enginn jólakort þrátt fyrir að við höfum verið saman í næstum tuttugu ár, óþolandi."
Enn á ný er ég minnt á hvað við erum ólík. Á þessum tíma árs þá erum við flest föst í viðjum vanans, bæði af því að við veljum það en líka af því að ómeðvitað viljum við gera allt eins og það var eða eins og það á að vera. Við yljum okkur við bernskuminningar um jólin eins og þau voru og við bætum síðan í pottinn hvernig jólin eiga að vera. Allir eiga að vera glaðir og ánægðir, allir eru fínir og vel til hafðir og þeir sem ekki fá nýja flík fara í jólaköttinn. Kallinn á að skreyta og konan á að vera búin að "öllu." Allir fá þá eitthvað fallegt ... Gjafirnar eiga að vera í samræmi við það sem við gáfum og við viljum gjarnan að börnin hagi sér eins og englar. Við eigum ekki að vera veik eða einmanna, þreytt stessuð eða vonsvikin. Við viljum líka gjarnan að hann eða hún hagi sér eins og manni sjálfum finnst rétt.
Þrátt fyrir að ég viti að um jólin, eins og alla daga, þá sé mikilvægt að taka hlutunum eins og þeir eru en ekki eins og ég vil að þeir séu, þá dett ég líka í þennan gír. Lífið og jólin eru eins og þau eru núna. Þegar ég upplifi þreytu þá upplifi ég hana og þannig er það. Þegar ég upplifi vonbrigði þá upplifi ég þau og þannig er það. Þegar ég upplifi streitu þá er það þannig. Þegar ég upplifi sársauka, söknuð og depurð þá er það þannig. Þegar ég upplifi gleði og hamingju, heillagleika jólanna og viðkvæmni þá er það þannig. Það er mótstaðan við að upplifun okkar sem veldur meiri vandræðum heldur en tilfinningarnar sjálfar. Þá fara hugsanir af stað eins og "þetta er ósanngjarnt, af hverju ég ..." Tilfinningar og hugsanir eru eins og öldur sem rísa og stíga, um leið og þær lenda á strönd raunveruleikans þá brotna þær og verða lygnar. Því er mótstaðan við tilfinninguna verri en tilfinningin sjálf. Á sama hátt þá eru hugsanir okkar um hvað allir aðrir eiga að gera tilgangslausar því eina sem við raunverulega stjórnum er okkar eigin upplifin (óþolandi staðreynd).
Ég óska þér raunverulegrar jólagleði, þakklæti yfir því sem þú átt en ekki þrá eftir því sem þú hefur ekki. Ég óska þér hamingju yfir því hver þú ert núna, hvort sem þú ert sjúklingur, heilbrigður einstaklingur, ungur eða gamall. Ég óska þess að þú getir glaðst yfir því litla og því stóra. Ég óska þess að þú hlustir á þrá þína og drauma á jólanótt, sem og aðrar nætur. Ég óska þér töfrum jólanna sem felast í að stjórna engu nema sínum viðbrögðum og njóta þess að vera hér og nú. Ég óska þér friðar í sálina.
Megir þú eiga og njóta þess að undirbúa jólahaldið með kærleik og án þess að setja á þig, eða aðra, óraunhæfara kröfur. Megi jólahátíðin þessa jól ylja þér um ókomna tíð.
Gleðileg jól.
Árelía Eydís
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sæt, sexí, sjarmerandi og fleiri esss
6.12.2012 | 19:42
Sjálfsumhyggja (e. self compassion) hefur sterk áhrif á sjálfstraust. Sjálfsumhyggja felst í því að vera sinn besti vinur. Í því felst að koma fram við sjálfan sig eins og maður kemur fram við sinn besta vin. Þegar vinur manns á erfitt þá er ekki líklegt að maður segi "þú ert nú meiri auminginn, hættu að vorkenna sjálfrum þér og drullastu til að vera almennilegur..." En ef þú lítur í eigin barm þá er ekki ólíklegt að þú segir slíkt við sjálfan þig þegar þér finnst eitthvað vera athugavert við frammistöðu þína.
Á Íslandi er sterk einstaklingshyggja, eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hún lýsir sér í því að það versta af öllu er að vera venjulegur. Við viljum gjarnan að börnin okkar skari fram úr og að við sjálf séum sæt, sexí, sjarmerandi, klár og rík svo fátt eitt sé nefnt. Þegar fólk er spurt hvort það sé fyrir ofan meðallag á ýmsum sviðum svarar mikill meirihluti okkar að við séum það. Þetta þýðir að við erum ekki hæf til að meta okkar eigin getu því okkur finnst við vera sætari, meira sexí og sjarmerandi, hæfileikaríkari og klárari en aðrir. Um leið og okkur finnst við vera "betri" en aðrir þá erum við líklegri til að dæma aðra hart. Það kemur í ljós að þeir sem dæma aðra hart dæma sjálfa sig enn harðar.
Ef ég þarf á því að halda að finnast ég vera sætari, klárari og betri en aðrir til að mér líði betur þá er það soldið eins og að borða sykur þegar ég er þreytt. Maður borðar sykur og finnur vellíðan í smá stund en skömmu síðar þá verður maður enn þreyttari þegar blóðsykurinn fellur.
Annað sem vinnur gegn okkur er að finnast aðrir vera öðruvísi en við og því rétt að dæma þá harðar. Karlmaðurinn sem veittist að krökkum af asískum uppruna fannst greinilega að hann væri öðruvísi en þau. Sumum finnst hommar og lesbíur öðruvísi, geðveikir öðruvísi, feitt fólk er öðruvísi eða þeir sem búa annars staðar o.s.frv. Þessu fylgir einangrun og tortryggni.
Ef við getum sýnt okkur sjálfum skilning og verið okkar besti vinur þá skiljum við að við erum öll eins og öll eitt. Við förum í gegnum sambærilega reynslu, við þjáumst og gleðjumst og við elskum og okkur er hafnað og það er sársauki í lífi okkar allra. Hvort sem við erum geðveik, samkynhneigð, svört, gul eða rauð.
Ef við sýnum okkur skilning og samhug þegar við erum stressuð á aðventunni eða döpur, glöð, kvíðin eða kannski allt þetta. Þá finnum við leiðir til að staldra við og tala fallega til okkar, taka utan um okkur sjálf og dáðst að því hvað við og allir aðrir eru "fabílös".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óþolandi en alltaf þarf að hafa fyrir öllu
29.11.2012 | 12:05
Það er erfiðara að ná árangri á einu ári en við höldum. Margar kenningar sem kenndar eru við sjálfshjálp bjóða upp á aðferðir til skyndilausna þar sem kraftaverkin gerast á stuttum tíma. Stjórnunar- og leiðtogabækur eru sumar í anda þessa. Fyrstu hundrað dagarnar í starfinu er titill á vinsælli leiðtogabók þar sem gert er ráð fyrir að leiðtoginn verði að ná árangri strax.
Hins vegar hefur komið í ljós að oftast tekur u.þ.b. þrjú ár fyrir stjórnendur að ná tökum á starfi sínu. Þeir sem nú eru á þingi ættu að vera nýkomnir inn í starfið að fullu nú þegar þeir standa í prófkjörsslagi fyrir næsta þing. Afburðaíþróttamenn æfa sig í mörg ár áður en árangur næst. Rithöfundar hafa oftast skrifað lengi áður en þeir ná árangri. Stundum er meira að segja talað um að það sé erfitt ef að fyrsta bók verði metsölubók því þá sé sá árangurinn alltaf viðmiðið og því erfitt fyrir viðkomandi að "keppa" við sina fyrstu bók. Þeir sem slá í gegn ungir standa oft ekki undir því álagi sem slík velgegni færir þeim.
Það er hægt að ná miklum árangri á áratug en litlum á ári! Lífið er langt og ef maður er meðvitaður um að maður þurfi að hafa fyrir árangri og að allt taki sinn tíma þá hagar maður sér öðruvísi. Heppni er þar sem undirbúningur og tækifæri hittast. Óþolandi staðreynd að maður þarf alltaf að hafa fyrir öllu því sem óskað er eftir. Til þess að vinna hægt og þétt að því sem maður vill þá verður við að vita að hverju stefnt er. Þannig er hægt að taka undir með þeim sannleika að hamingjan sé að vita hvað maður vill og vilja það sem maður fær.
Vona að þú eigir góða, dimma desember daga og hafir eitthvað ljós að lýsa þér.
kveðja, Árelía
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sölumaður af guðs náð
21.11.2012 | 20:35
Fólk segir oft um þá sem eru flinkir í að selja að þeir gætu selt ömmu sína (hver vill annars selja ömmu sína sem eru eitt það verðmætasta sem maður á?) Maður þekkir þá sem hafa ástríðu fyrir sölu á löngu færi. Ef maður fer á markaði erlendis þá eru það þeir sem leggja bæði hug og hjarta í að lokka mann til sín með "special price for you my friend" línunni. Þeir sem ná tökum á mér eru oftast þeir sem fá mig til að stoppa og hlusta á sögu sína. Þegar ég var á Tenerife náði ein afríkukonan mér til þess að setja fléttur í hár dóttur minnar. Hún sagði mér að amma sín væri 105 ára gömul og væri enn á lífi í Senegal. Á meðan hún fléttaði á fullu þá sagði hún mér frá sonum sínum sem væru í Sorbonne háskólanum í París og dætrum sem væru hjá ömmunni. Þegar ég borgaði henni fyrir flétturnar þá lét hún armband upp á handlegg mér sem amma hennar hefði gert (vel gert hjá gömlu konunni..). Ef ég myndi kaupa armbandið yrði ég hamingjusöm og rík og maðurinn minn myndi aldrei líta á aðra konu. Hið hógværa verð sem hún bað um fyrir armböndin borguðu fyrir synina o.s.frv. Hún seldi sem sagt ömmu sína nokkuð vel.
Ég hef skrifað bók um fólk sem er á réttri hillu í lífinu (bókin heitir sama nafni svo ég reyni nú að selja hana) og hef stúderað það í mörg ár hvaða hæfileika fólk hefur og hvernig þeir nýtast sem best. Ég hef unun af því að sjá fólk starfa við ástríðu sína. Þegar ég sé sölumann í ham veit ég að ég er nærri ákveðinni náðargáfu. Þetta er fólk sem þorir að tala við alla, fólk sem hefur áhuga á öðrum og hlustar. Góður sölumaður hlustar af ákefð því hann veit að hann verður að bregðast við viðskiptavininum til að ná "dílnum". Þeir hafa ánægju af því að "setja á svið" og dramatísera það sem þeir eru að selja. Fasteignasali sem kann sitt fag selur fólki ævintýri lífs þess. Góður sölumaður bíla selur fólki drauma. Góður sölumaður í búð selur manni fegurð og sölumaður í skóbúð selur manni hamingju. Góðir sölumenn eru góðir sagnameistarar.
Á sama hátt er jafn ömulegt að fylgjast með þeim sem eru á röngum stað og hafa ekki áhuga á sölunni. Ég fór um daginn í stórverslun og var að versla buxur, "drengurinn" sem afgreiddi mig tók buxurnar sem voru með brotum og krumpaði þær saman. Ég horfði með skelfingu á hann og spurði hvort hann ætlaði ekki að brjóta buxurnar saman. Hann horfði á mig sljóum augum og sagði "hmmmm..", ég spurði hann hvort hann kynni það ekki. "ahh.. nei", ég horfi í kringum mig og sá eftir langann tíma annan starfsmann. Ég dró hann að borðinu og sagði "hann kann ekki að brjóta saman buxur!" Síðan var hlegið soldið. Ég hugsaði með mér að það væri ekki skrýtið að fólk færi erlendis og gerði öll sín innkaup þar. Við verðum að bera virðingu fyrir hæfileikum þeirra sem eru fæddir sölumenn og leyfa þeim að þjálfa þá sem eru að vinna í þeirra stað um helgar.
Hvert og eitt okkar hefur eitthvað sérstakt að færa heiminum og góðir sölumenn eru sagnafólk sem hafa ástríðu fyrir því að þjóna þeim sem þeir selja. Prinsippið í sölu er þjónusta, góð saga og að finna þarfir þeirra sem þeir hlusta á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrjár spurningar í minningagrein
13.11.2012 | 14:05
Vinkona mín sem er prestur segir að það sé sér hollt að jarða reglulega. Ekkert minnir mann eins á mikilvægi lífsins eins og að kveðja einhvern úr þessari jarðvist. Ég fór á jarðaför í vikunni og varð hugsað til þessara orða hennar.
Ég hef kennt í MBA-námi frá því að byrjað var að kenna slíkt nám hér á landi, sem sagt, lengur en elstu menn muna! Ég hef í mörg ár látið nemendur mína gera "ímyndaða" minningargrein um sig sjálfa. Þá sjá þeir fyrir sér hvað vinir, fjölskylda og aðrir muni skrifa um þá eftir fráfall þeirra. Flestum finnst þetta vera erfið æfing en eftir að heyra að verkefnið sé metið til einkunna þá skila þeir því af sér.
Ég legg þetta verkefni fyrir því það leiðir í ljós gildi okkar, fyrir hvað við viljum standa og hvernig við ætlum að vinna að því. Það sem við skiljum eftir í þessum heimi er ekki það sem mölur ryð fá grandað heldur það sem skilið er eftir í hjörtum þeirra sem eftir lifa.
Helstu heimspekingar heimsins hafa lagt á það áherslu að það sé mikilvægar að spyrja réttu spurninganna frekar en að svara spurningum. Hér eru þrjár slíkar sem hægt er að svara í ímyndaðri minningargrein: Í fyrsta lagi; sýndi ég kærleik í verki? Hér er mikilvægt að svara hvort maður sjálfur hafi elskað heitt og sýnt kærleik EKKI hvort aðrir hafi elskað mann eða sýnt manni kærleik. Ef maður er fastur í þeirri villu að setja mælistikuna fyrst á aðra en ekki sjálfan sig þá er kærleiksljósið alltaf sett í skugga. Í öðru lagi; Lifði ég til fulls? Hér verður hver og einn að skilgreina fyrir sig hvað það þýðir. Í þriðja lagi; Skipti ég máli? Hafði líf mitt áhrif til góðs? Hvernig metur maður það? Aftur svari hver og einn fyrir sig.
Ég var svo heppin að jarðaförin sem ég fór í var ánægjuleg í alla staði. Þrátt fyrir söknuðinn og sorgina þá var fólk þakklátt fyrir það sem þessi einstaklingur hafði skilið eftir í hjörtum þeirra. Svörin við spurningunum þremur hér að ofan voru augljós, hann hafði sýnt öðrum kærleik, lifað til fulls og skipt máli í lífi annarra. Er hægt að biðja um meira?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stigvaxandi jólakvíði.
5.11.2012 | 09:45
Okkur vantaði einn ljósakúpul um helgina svo við fórum í tvær stórverslanir sem bjóða upp á slíkt. Jólaskreytingar mættu okkur við dyrnar og drengurinn fjögurra ára varð stóreygur. "Jólatré, jólatré... hvenær koma jólin?" Ég var að hugsa um að segja honum að Frostrósirnar kæmu með jólin en ákvað að vera ekkert að flækja málin. Við hittum marga kunningja og vini, spjölluðum og skoðuðum allra handa ljós. Í spjalli flestra komu jólin upp og undirbúningur þeirra enda blöstu þau við okkur í búðunum. "Jólakvíðin" farin að gera vart við sig sagði ein góð kona við mig.
Undirbúningur jólanna færist stöðugt nær á dagatalinu, og í búðunum, sem hefur sína kosti og galla. Flestir hafa gaman af því að sjá ljósunum fjölga. Það er eitthvað við það að lýsa upp mesta skammdegið hér á Íslandi sem er ótrúlega mikilvægt yfir dimmasta veturinn. Það eru margir sem byrja líka fyr að kvíða fyrir jólunum og jólahaldinu. Allt sem þarf að gera og allt sem ekki er hægt að gera. Hnútur í maga yfir því sem maður hefur ekki efni á og öllum þeim sem maður "þarf" að sinna eða öllum þeim sem maður getur ekki sinnt. Þungi yfir brjósti yfir þeim sem eru farnir og því sem ekki varð. Tak í baki yfir allri gleðinni sem á að ríkja en ríkir kannski ekki innra með manni. Auglýsingarnar þar sem allir eru stórkostlega fallegir og glaðir með allt á hreinu, í einni ákveðinni tegund af fjölskyldu, getur ýtt við öllum þeim kvíðaröskunum sem hægt er að finna.
Væntingar okkar um hvernig lífið eigi að vera eru harður húsbóndi. Ekkert ýtir eins við okkur eins og hefðirnar í lífi okkar og hvernig þær "eiga" að vera. Hvernig væri að breyta þessum væntingum og skilja að það sem er mögulegt og hægt að gera og hitt sem er ógerlegt. Teikna nýja mynd þar sem maður "þarf" hvorki að taka eldhúsinnréttinguna í gegn né mæta á viðburði sem eru of dýrir fyrir mann eða kaupa frá sér allt vit sem endar í febrúar blús. Væntingar um tíma þar sem maður getur notið þess að gera það sem veitir manni gleði, kærleik og góðar stundir. Væntingar um að maður breyti því sem maður vill breyta en haldi hinu sem veitir frið og friðsæld. Aðventan er einn upphaldstími minn og þegar ég tek móti henni afslöppuð en ekki með lista af því sem ég "þarf" að gera þá er ég og fjölskylda mín mun líklegri til að taka inn boðskap jólanna. Verum ekki að þessu stressi! Þó að búðirnar og auglýsingarnar séu farnar að ýta við okkur! Set hér að neðan æðruleysisbænina til að minna mig á og að mínu mati eru seinni tvö erindin ekki síðri en það fyrsta "njóta hvers andartaks fyrir sig...". Njótum, njótum og njótum!
Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann
og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þérþegar að eilífðinni kemur.
Amen
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skapandi pása og skór.
27.10.2012 | 17:39
Í dag er ég í skapandi pásu frá öllu öðru. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við tökum okkur pásu frá því sem við venjulega erum að fást við verðum við meira skapandi fyrir vikið. Mig langar að verða enn meira skapandi svo ég tók daginn frá til að taka skapandi pásu. Ég fór í bæinn til að dást að bókinni minni nýendurútgefnu; Móti hækkandi sól, í bókabúðunum. Skemmtilegt að sjá sköpunarverk sitt í búðunum og ég brosti innra með með mér og vonaði að allir sem fengju sér eintak yrðu glaðari. Ég hélt áfram með pásuna mína og hitti vinkonu mína í kaffi og með því. Dagurinn er fullkomin því rigningin gerir það að verkum að maður nennir ekki neinu stórkostlega. Pásann gékk vel ... eina vandamálið er að ég hélt áfram að labba um í bænum og sá ...SKÓ!
Ég fann hvernig að adrenalínið rann af auknum styrk um æðar mér er ég leit þá, yndislega fallegir og alveg "ég". Ég dró vinkonu mína með mér í búðina og mátaði og hún sagði mér að ég yrði að kaupa skóna því þeir væru svo mikið "ég" (vinkonur eru svo mikilvægar í lífi hverrar konu). Rétt áður en ég setti bílinn upp í til að eiga fyrir þeim náði taki á sjálfri mér og í staðinn fyrir að borga hugsunarlaust og reyna að heyra ekki hvað þeir kosta þá sagðist ég ætla að hugsa málið.
Síðan er ég lítið búin að hugsa um annað en þessa skó! Tók til í fataskápnum og fór í huganum yfir hvað mig vantaði akkúrat þessa skó við það sem ég á. Settist niður og kíkti í kerlingablað þar sem ég sá að skórnir eru akkúrat í þeim lit sem er mest í tísku núna. Ég yrði sem sagt alveg með þetta ef ég keypti þessa skó, hugsaði ég. Ég hef litið á klukkuna af og til og hugsað "hvenær lokar aftur búðin.?." Þetta er dæmi um hvað hugurinn er sjálfstæður, ef maður sleppir dýrinu lausu þá sér maður það alls staðar fyrir sér það sem hugurinn girnist. Um leið og maður kaupir sér einhverja bíltegund eru allir aðrir á sömu tegund þó að maður hafi aldrei tekið eftir þeim fyrr. Um leið og maður ákveður að eitthvað sé leiðinlegt þá er það staðfest. Ef maður sér ekkert annað en bólu á andliti sér þá stendur hún út hvenær sem maður lítur í spegil. Þegar maður sér fallega skó þá sér maður ekkert annað en að manni vanti skó.
Skapandi pásan mín hefur farið fyrir lítið í að hugsa um skó, þegar ég átti að vera að tæma hugann svo að eitthvað nýtt kæmist í kollinn á mér. En eftir á að hyggja þá komst eitthvað nýtt í hann; nýjir skór!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)