Kraftaverkin gerast!

Ég reyndi eins og ég gat að koma krökkunum eins hratt fram úr og hægt er í morgun. Átta ára daman grét við matarborðið og sagðist ekki vilja fara í skólann. "Skólinn er ömurlegur, ég vil ekki fara, ég hata stærðfræði.." Ég horfið á hana og skellti því fram að í síðustu viku hefði stúlka í Afganistan verið skotin í höfuðið af því að hún var að berjast fyrir því að stelpur fengju að fara í skóla. Skóladaman mín snarhætti að gráta og horfði opinmynt á mig. "Hver skaut hana og af hverju fá stelpur ekki að fara í skóla?". Ég útskýrði að sum staðar í heiminum fengju stelpur ekki að fara í skóla af því að þær ættu helst að vera ósýnilegar heima hjá sér. "Geta þau ekki gengið í Evrópusambandið?", Spurði hún, ég vissi reyndar ekki að hún væri svona pólitísk (vissi að hún væri skynsöm reyndar..). Nei, Evrópusambandið væri of langt í burtu.

Ég sagði henni líka frá skólafélaga stóru systur hennar sem er í dönskum lýðháskóla. Hann heitir Abdollah og er frá Iran. Hann kom sem flóttamaður frá Iran þegar hann var ný orðinn 15 ára. Hann flúði fyrst með bíl fyrir landmærin en  eftir 25 daga náðist hann og var sendur aftur til Iran. Svo hélt hann aftur af stað en í þetta skipti labbaði hann yfir fjöllin. Eina sem að hann vissi var að hann vildi komast langt í burtu. Ferðin tók alls 3 mánuði, hann fór frá Tyrklandi til Grikklands þaðan til Ítalíu og frá Ítalíu til Frakklands svo Þýskalands og loks til Danmörku þar sem að hann náðist á strætóstoppustöð. Abdollah var hræddastur þegar hann var að sigla einn með ókunnugum til Grikklands. Þeir þurftu að sigla um nóttina og hafa öll ljós slökkt og hann hafði heyrt svo margar sögur af fólki sem að drukknaði á flótta. Abdollah er ekki viss um að fá að vera í Danmörku, hann þarf að endurnýja flóttamannastatus sinn. Þetta sagði ég við morgunverðaborðið. Hún væri heppin að fá að fara í skólann í dag.

Þá gall í fjögurra ára guttanum "en mamma er ég ekkert heppinn?". Jú, sagði ég honum því Abdollah hefur ekki heyrt í mömmu sinni eða fjölskyldu frá því hann flúði. hann á ekki land, hann hefur ekki fjölskylduna sína hjá sér og hann gengur ekki að vísri framtíð.  Þetta allt ætti hann.

Kraftaverkið er að við vöknum, öndum, elskum og erum elskuð, göngum til verka okkar og fáum að borða. Eigum land og heimili og getum sent börnin okkar í skóla án umhugsunar. Höfum starf og verkefni og njótum alls þess sem lífið hefur upp á bjóða. Krakkarnir fóru í leikskóla og skóla án þess að kvarta eftir þessa ræðu. Snátan mín sneri sér við þegar við fórum út úr dyrunum og sagði "mamma við þurfum ekki alltaf að vera að ferðast, ég vil ekki fara þangað sem er stríð".  Kraftaverkin gerast, það er ekkert stríð hér. Ferðalögin, hins vegar, eru nauðsynleg til að skilja betur meðbræður okkar annars staðar sem ekki eru eins heppin.


 


Unaðsvika!

Ég er í átaki! Það er svo sem ekkert nýtt, hef verið í yfir hundrað og fimmtíu átökum sem hafa farið misjafnlega vel, nenni ekki að hugsa um það meira. Ég er í viku átaki sem snýst um að njóta. Ég byrjaði í gær og fékk mér stórkostlega franska súkkulaðiköku með góðu kaffi og sat á kaffihúsi og skoðaði blöð og ljósmyndabækur með dýrðlegum myndum. Sat lengi og naut þess að taka tíma frá amstri dagsins. Fór svo um kvöldið og hitti vinkonur mínar og borðaði góðan mat og átti unaðslegar samræður.

Í dag er það nudd og lestur góðra bóka, kertaljós og stara út um gluggann á regnið sem lemur rúðurnar. Ég ætla að njóta þess að liggja í baði í tvo klukkutíma með bók og kertaljós. Ég er búin að setja upp dagskrá alla þessa unaðsviku. Sumt af því segi ég ekki frá... en ég á eftir að fara út að borða, í göngutúr um höfuðborgina með leiðsögn, hitta vini og vandamenn. Njóta samveru við margt skemmtilegt og gefandi fólk, fólkið mitt! Ég á eftir að fara í jóga og zumba. Ég mun lesa góðar bækur, vinna að skemmtilegum verkefnum. Fara í heilun og klippingu og klæða mig í öll fínustu fötin sem ég á og hengja á mig allt flottasta skartið sem ég finn. Ég mun skrifa um ævintýri og lifa ævintýri og svo mun ég líka fara út í búð og versla í matin. Elda unaðsmat, bleikju og lasagnia og fiskibollur og lambakjöt með ferskum kryddjurtum sem ég horfi á af græðgi. Ég mun njóta náttúrunnar og taka inn alla haustlitina, kannski fara í haustlitaferð á Þingvelli og bara anda! Ég mun horfa á börnin mín og hlutsta á þau. Ég mun njóta tónlistar og fara á söfn og ..... og .....

Komdu með mér í unaðsviku átak,  lífið er til að njóta þess.

unaðskveðja,

Árelía


Allt mögulegt!

Breytingar eru mér hjartfolgnar, bæði af því að ég hef stúderað breytingastjórnun og kennt það fag en líka af því að ég persónulega farið í gegnum margar breytingar. Það er svo skrýtið að við ætlum að lífið sé og verði alltaf eins en svo skellur á enn ein breytingaraldann. Einu sinni enn! Stundum er eins og maður ætli aldrei að komast upp á yfirborðið aftur. Fyrirtæki sem árið 2008 riðuðu til falls, eða féllu, eru nú sum hver að komast upp úr öldudalnum.

Ég hef verið svo heppin undanfarið að tala á mörgum ráðstefnum og innan fyrirtækja líka. Þegar ég spyr hvað undanfarin ár hafi kennt fólki svarar það oftast: "Við höfum þurft að endurskipuleggja allt, snúa öllum krónum og finna ný verkefni og vettvang." Sem sagt, neyðin kennir nakri konu að spinna. Fólk segir líka að það kunni betur að meta það sem það hefur.

Ég var að kenna á alþjóðlegri ráðstefnu í síðustu viku þar sem ég talaði um mikilvægar tvær spurningar til reglulegrar sjálfskoðunar. Þæru eru: "Hvað viltu? Og hvernig veistu hvenær þú ert búin að fá það sem þú vilt?" Ein kona rétti strax upp hendi og sagðist hafa eytt síðustu sex árum í að svara þessum spurningum fyrir sjálfa sig. Hennar niðurstaða væri að hún vildi fjölbreytni og að hún vissi að hún lifði fjölbreyttu lífi með því að gera mismunandi hluti. Mér fannst þetta gott svar.

Þegar breytingaldann skellur á, hvort sem er faglega eða persónulega, er gott að minna sig á það sem Angela Merkel hafði að segja - að maður ættii að vera í góðu formi þegar að því kæmi. Því þá er allt mögulegt (enska: You have to be fully fit at the right time. Then anything is possible).


Stefnumótun í eigin lífi.

Nú er verið að endurútgefa bókina mína: Móti hækkandi sól. Lærðu að virkja kraft vonar og heppni í lífi þínu. Það settti mig í þá stöðu að þurfa að lesa hana aftur! Ég var kvíðin, hafði ekki heimsótt þá bók síðan 2005. En, eins og með kvíða almennt, um leið og ég hóf verkið þá var reyslan ekki svo slæm. Eins og að hitta aftur gamlan vin og finna að þrátt fyrir að árin séu orðin mörg síðan við hittumst þá er neistinn og vináttan ennþá til staðar.

Í bókinni legg ég upp með kenningar um von og heppni og bendi á leiðir til að rækta sjálfan sig. Stoppa við og hugsa um hvort maður sé á réttri leið eða ekki. Ég hef sterkar skoðanir á því að maður eigi að líta á sjálfan sig eins og hvert annað fyrirtæki. Flestir stjórnendur vita að það er nauðsynlegt að fara í stefnumótun til þess að forgangsraða rétt. Grunnspurningarnar í stefnumótun eru: Hvar er ég? Hvert vil ég fara?  Og hvernig kemst ég þangað? Við ættum öll að gera það sama í okkar eigin lífi, gera stefnumótun reglulega. Hefjast svo handa og taka fyrstu skrefin í átt að því takmarki sem okkur dreymir um. Eitt skref í einu.

Við eigum það öll skilið, af okkur sjálfum, að gera það besta úr þessu lífi sem við fáum að gjöf. Eins og Richard P. Feynman, sem er Nóbels vinningshafi í eðlisfræði, segir þá er svo auðvelt að ljúga að sjálfum sér (The first principle is that you must not fool youself, and you are the easiest person to fool).

Eftir að hafa lesið bókina aftur, ákvað ég að breyta engu. Hún stendur bara fyrir sínu og þeir sem vilja líta í eigin barm og auka von sína og heppni með breyttum viðhorfum eða stefnumótun geta valið að fylgja leiðbeiningunum sem í henni eru. Sumt einfaldlega breytist ekki. Móti hækkandi sól í eigin lífi er takmarkið.

 

 


Sjálfsvíg.

Ég sat í Dómkirkjunni með öðrum aðstandendum þeirra sem höfðu tekið sitt eigið lif. Úti geysaði stormur sem var í samræmi við þann storm sem hafði geysað í lífi okkar þegar við misstum ástvin okkar. Hvort sem það var fyrir tuttugu og tveimur árum, ellefu árum eða á síðasta ári. Við fundum fyrir sorginni, missinum og söknuðinum eftir þeim sem kaus að yfirgefa okkur. Enn falla tár og munu falla áfram. Þannig er sorgin, hún brýtur okkur, mélar hjörtun smærra en nokkur getur séð. Ægivald hennar er slíkt að meðan á storminum stendur er hvergi skjól.

Mér varð hugsað til Epiketurs - einum af mínum upphaldsmönnum, sem var forn-grikki sem fæddist sem þræll en varð síðan mikil heimspekingur sem átti sinn eiginn skóla. Hann skrifaði (ég set það fyrst á Latínu af því mér finnst það svo smart....) Volentem fata ducunt, non lentem, frahunt. Örlögin leiða þann sem fylgir þeim viljugur, en draga hinn, er streitist á móti.

Hver sem hefur misst ástvin vegna sjálfsvígs hefur hugsað "af hverju komstu ekki til mín? Ég hefði átt að vita. Ég hefði átt að grípa inn í aðstæður. Ég hefði átt að....". En þrátt fyrir allt þá erum við ekki Guð almáttugur og kannski erum við, og höfum við verið, að streitast á móti örlögunum með því að ásaka okkur sjálf. Ef við látum örlögin leiða okkur þá leyfum við sorginni að méla hjarta okkar þegar hún skellur á.

Það eru ellefu ár síðan Kristín Gerður systir mín tók sitt eigið líf. Ég sakna hennar á hverjum degi, eins og aðrir ástvinir hennar. Þegar ég tjaslaði saman harta mínu varð það ekki samt. Ég varð aldrei söm en ég varð líka ný. Önnur en þá, áður en ég vissi að allt gæti horfið einn daginn án þess að ég gæti nokkuð við því gert.

Þegar ég leyfi örlögunum að leiða mig þá man ég betur kærleikan, hláturinn og gleðina sem systir mín gaf. Umburðarlyndið, endalausan stuðning og skilning.  Ég er hætt að halda að ég sé Guð almáttugur og leyfi mér að horfa á hvað þessi reynsla kenndi mér. Sorgin er erfiður kennari en ef við förum í gegnum hana þá verðum við ný.

Besta forvörnin gegn sjálfsvígum er að við sýnum hvort öðru nærgætni, góðmennsku og skilning.


Fimm atriði sem þú ert þakklát/ur fyrir.

Helstu trúarbrögð heimsins, heimspekingar og fræðimenn á sviði jákvæði- og hamingjufræða hafa sýnt fram á mikilvægi þess að vera þakklátur. Ömmur heimsins hafa því, enn og aftur, sannað sig með því að leggja áherslu á að kenna barnabörnum þakklæti.

Ég hef unnið með kenningar um jákvæðni og hamingju í yfir áratug. Skrifað bækur, kennt og verið með fjölda fyrirlestra um þetta efni. Samt sem áður gleymi ég mér og er oft algjörlega ómeðvituð um hvað ég hef það gott.

Í þeirri bók sem ég nú vinn að fjalla ég um vana og vanabundna hegðun. Þegar ég fór að kynna mér þetta efni síðasta haust sá ég fljótt að það væri sniðugt að gera þakklæti að vana. Í þeim tilgangi að auka jákvæðni og hamingju mína. Ég setti því nýjan vana eða reglu af stað á heimilinu: Þegar við borðum kvöldmat, sem við gerum saman á hverjum degi, þá segjum við hvert og eitt frá fimm atriðum sem við erum þakklát fyrir. þetta hefur mælst vel fyrir og það er ótrúlegt hvað fjögurra ára piltur er djúpur í sínum þankagangi, "ég er þakklátur fyrir mömmu og pabba og afa og ömmur mínar og sveitina og ferðalagið og vini mína." Stundum segist hann vera þakklátur fyrir systkini sín og heimili og stundum vill brenna við að það sé eitthvað sem er efst á baugi þá stundina "þakklátur fyrir dráttavélina sem ég sá, þakklátur fyrir að ég lagaði til í herberginu." Átta ára skvísan segist oftast vera þakklát fyrir "Mosa, köttinn, mömmu og pabba og fjölskylduna og systkini, skólann minn og kennarann. ég er þakklát fyrir að ég var ekki óþekk í skólanum o.fl." Stundum ef þau hafa rifist þá taka þau fram að þau séu ekki þakklát fyrir hvort annað. Eitt kvöldið þegar mikið var rifist við matarborðið og átti sú stutta eitthvað erfitt með að sofna. Loks kom hún æðandi fram og sagði "ok, mamma ég er þakklát fyrir að eiga hann fyrir bróður þó að hann sé stundum óþolandi!".

Í sumarfríinu datt þessi vani stundum upp fyrir því við borðuðum iðulega með öðrum og stundum var talað annað tungumál við mataborðið. Því hefur brunnið við núna að við gleymum okkur. Þá minna börnin mig á þegar ég á síst von á. Ég er kannski að flýta mér að setja matinn á diskinn eða hlusta á kvöldfréttir eða hugsa um eitthvað allt annað. "Heyrðu, mamma eigum við ekki eftir að segja af hverju við erum glöð?". Þá munum við eftir þessum góða vana.

Núna langar mig að búa til fleiri þakklætisvana. Til dæmis þegar ég opna hurðina heima hjá mér að minna mig á að vera þakklát fyrir heimili mitt. þegar ég sest niður við skrifborðið mitt að vera þakklát fyrir vinnuna mína og verkefni. þegar ég tannbusta mig að minna mig á að vera þakklát fyrir heilbrigði mitt, þegar ég sofna að vera þakklát fyrir fólkið mitt.

Ég hvet þig til að búa til þakklætisvana í lífi þínu og finna hvernig maður lærir að njóta betur hins hversdagslega - láta dagana skipta máli.


Þegar að ...

Það voru margir sem minntu mig á, eftir síðasta pistil, að það var Þyrnirós en ekki Mjallhvít sem svaf í heila öld. Svo kom hin ungi konungsson og vakti hana blíðlega upp af hundrað ára svefni. Það eru margir sem bíða eftir því að prinsinn komi og vekji sig með kossi. Þessi bið eftir hinum unga prins kristallast í ákveðnu heilkenni sem kallast "þegar að..".

Ég hef verið að glíma við þetta heilkenni undanfarið. Eftir að hafa hreiðrar um mig í heimilisfriði þá settist ég niður til að gera það sem ég starfa við núna; skrifa. Heilkennið lævísa tók strax að vaxa í huga mér og hvíslaði "þegar að þú ert búin að kaupa þér nýja tölvu þá getur þú byrjað að skrifa." Ég fór strax á netið og skoðaði tölvur af áhuga, komst fljótt að því að ég hefði ekki efni á að kaupa tölvu núna. "Þegar að þú ert komin í gott form og ferð reglulega í líkamsrækt ÞÁ muntu skrifa mun betur." Hvíslaði heilkennið næst að mér. Ég fór á netið og kíkti á allar líkamsræktarstöðvar sem er að finna á landinu (ekki alveg viss hvernig ég ætlaði að stunda líkamsrækt á Akureyri þar sem ég bý í Reykjavík). Eftir að hafa skoðað myndirnar af hoppanndi, glöðu fólki með allt á hreinu, í líkamsrækt, settist ég niður og fékk mér súkkulaði. "Þegar þú verður orðin hoppandi, glöð og með allt á hreinu þá munu bækurnar koma til þín án fyrirhafnar.." Hélt heilkennið áfram að röfla í mér. Þá fékk ég nóg!

Það er ekkert vit í þessu - hausinn á okkur getur nefnilega verið okkar versti óvinur ef við látum þetta heilkenni hafa áhrif á okkur. Ég hafði verið eins og Þyrnirós, sofandi með því að hlýða heilkenninu og eyða dýrmætum tíma í að skoða það sem það skipaði mér. Á meðan tikkar tíminn og ekkert skrifast af sjálfu sér. Þyrnirós svaf sínum svefni og var ávallt ung, rjóð blómarós, meira að segja þurfti hún ekki að kyssa nokkra froska áður en hún fékk prinsinn. En það er ævintýri. Í hinu hversdagslega lífi þá verðum við eldri, kyssum froska og þurfum að hafa fyrir hlutunum. Bækur skrifa sig ekki sjálfar og ég get alveg notað gömlu tölvuna og ég þarf ekki að fara í líkamsrækt á hverjum degi til að skrifa ég meira segja get skrifað án þess að vera með allt á hreinu því það er það hvort sem er enginn!

Núna er ég með miða sem á stendur: Ekki trúa hugsunum þínum og skrifaðu, þú ert ekki Þyrnirós!


Fantasíur mæðra um óslitin svefn!

Ég fann fyrir miklum sálarfriði í morgun þegar yngsta kynslóðin var komin í skóla og leikskóla. Eftir ferðalög sumarsins tók ég upp úr töskum í þögn! Þögn! .. það hefur ekki ríkt þögn í kringum mig síðan í byrjun júní. Ég fann hvernig ég gat allt í einu hugsað eina hugsun til enda - alveg til enda án þess að gleyma neinu. Ég gat sinnt tölvupósti, sett í vél og unnið óáreitt um tíma. Mér varð hugsað til Mjallhvítar sem svaf í hundrað ár. Hvaða móðir sem á ung börn hefur ekki fantaserað um að verða Mjallhvít (og þá meina ég ekki vegna búninganna í nýjustu myndinni sem ég sá í einhverri flugferðinni...). Svo er verið að gefa út bók um kynlífsfantaseríingar kvenna á Íslandi. Hvernig væri að gefa út bók fyrir mæður ungra barna, eftir sumarfrí,  með titlinum: Fantasíur mæðra um óslitin svefn og undirtitill: Hvernig maður kemst einn á klósettið! Þær leiðir sem mætti benda á í bókinni væru: Fangelsisvist (bæði óslitin svefn og ein á klósett), sjúkrahúsdvöl, maður er nú ekkert að biðja um einhvert stórkostlegt Spa. Eftir ferðalög og námskeið sumarsins er hvort sem er allur peningur farin úr pyngjunni.

Starfsfólk leikskóla og skóla eru upphaldsfólkið mitt núna. Þær mættu okkur með bros á vör og sögðust hafa saknað barnanna sem gerði okkur náttúrulega ægilega stolt. Yngri börnin skottuðust inn og ég finn hvernig ég hreiðra mig um í rútínunni eins og malandi köttur. Haustið er minn tími! Þá finnur maður hvað reglan heldur vel utan um lífið. Vorið er líka yndislegt því maður er orðin svo þreyttur á rútínunni og langar svo að leika sér eins og kú sem sleppt hefur verið út eftir langann vetur. Andstæðurnar eru málið og óslitin svefn!

 

 


Vín, ostar og leiðtogar.

Vín, fólk og ostar verða oft betri með tímanum. Það á við um margt fleira. Leiðtogar verða oft betri með tímanum. Frægt er dæmi um Winston Churchill en hann var ungur rísandi stjarna í breskum stjórnmálum en vegna mistaka og hreyksli féll stjarna hans.  Hann varð í kjölfarið vonlítill og þunglyndur. Á fjórða áratug síðstu aldar varð Churchill hins vegar sá pólitíski leiðtogi sem stóð harðast gegn nasismanum og sigraði að lokum Hitler. Þá var hann reynslunni ríkari og komin um sextugt. Annar breskur stjórnmálamaður sem öðlaðist frægð snemma var William Hague, sem var kosin á þing 28 ára og varð ráðherra 35 ára og í kjölfarið formaður íhaldsflokksins. Hann var gjörsigraður af Tony Blair árið 2001. Hague gleymdist en hann sinnti ýmsu sem hafði setið á hakanaum, spilaði á píanó og gaf út bók. Árið 2010 komst hann aftur í sað og varð utanríkissráðherra rétt um fimmtugt.

Jóhanna okkar Sigurðardóttir er íslenskt dæmi um sambærilega sögu. Bæði forseti og forsætisráðherra okkar íslendinga eru komin yfir sjötugt.

Oft höldum við að ef við séum ekki búin að "meika það" þegar við erum rúmlega þrítug þá séum við dæmd til að sitja á varamannabekknum það sem eftir er. En ekkert er fjarri sannleikanum. Góðar hugmyndir taka tíma sinn að verða til en ekki síður er mikilvægt að gera sér grein fyrir að góðar hugmyndir verða sjaldan að veruleika á undir áratug. Já, ég sagði áratug! Bók sem kemur út og verður vinsæl hefur oft tekið langann tíma að mótast. Arnaldur okkar Indriðason var orðin eldri en þrettán vetra þegar hann skapaði Erlend. Yrsa hafði líka víða komið við áður en hún skapaði sínar sögur. Þau hafa eflaust fengið hugmyndina mun fyrr - ég myndi veðja að hugmyndin hafi fæðst svona sirka áratug áður. Fyrirtæki eins og Marel varð til á teikniborðinu upp í Tæknigarði við Háskóla Íslands löngu áður en það varð að fyrirtæki. Það tók tíma sinn að byggja það síðan upp og á fyrstu árunum var oft tæpt á því hvort það lifði.

Kári, okkar, hlaupari sem nú keppir í London fljótlega er ungur að árum en hann hefur verið að hlaupa frá því að hann var í barnaskóla. Hann á langann ferill framundan og er komin í fremstu röð með því að leggja á sig ómælda vinnu.

Árangur krefst vinnu (alveg óþolandi staðreynd....). Við lifum á spennandi tímum þar sem frelsi okkar (hér) er ótakmarkað til að láta drauma okkar rætast. það er bara spurning um að nýta ímyndunaraflið, leyfa sér að dreyma og gera svo eitthvað í málunum. Mistök sýna eingöngu að fólk hefur reynt ýmislegt.

Muna að gera ráð fyrir því að hlutirnir taki áratug en ekki ár! Við náum miklum árangri á áratug en oft ekki svo miklum á ári. Hugsa langt fram í tímann og láta ekki mistök eða áföll verða hindrun. Ekki frekar en Jóhanna þegar hún sagði :"Minn tími mun koma." 

Við erum alltof stressuð í því að finnast við þurfa að fá allt núna! Og ef ekki, þá erum við bara búin að tapa... (hverju?.) Betra að slappa af og hugsa í áratugum en ekki árum.


Sá einn veit er víða ratar.

Sá einn veit: er víða ratar: og hefir fjöld um farið, stendur í Hávamálum. Bara svona rétt til að rifja upp þá eru Hávamál kvæði úr eddukvæðum. Hávamál merkir mál hins háa, en hinn hái er Óðinn og er kvæðið lífsspeki hans, og inniheldur hvortveggja hvunndagslegar ráðleggingar og háspekilegt efni.

Spekin er þar af leiðandi arfur okkar Íslendinga um hvernig eigi að haga sér og ná árangri í lífi og starfi. Nú staðfesta vísindin það sem við vissum allann tímann - ferðalög eru góð fyrir okkur. Heilastarfseminn í okkur verður virkari ef við ferðumst og sköpunarkrafturinn eykst heilmikið. Nýjir staðir, nýjir litir, nýtt fólk, nýjar leiðir og nýr matur laðar fram það besta í heilastarfsemi okkar.

Nú er aldeildis tíminn til að ferðast. Blessuð sólinn kyssir okkur dag hvern, á Íslandi. Ekki nóg með það heldur skín hún glatt um miðnæturbil eins og til að minna okkur á að fara ekki of snemma að sofa á fögrum sumarkvöldum. Fuglarnir syngja "dýrðin, dýrðin.."   Það þarf ekki að fara langt, þó að það sé líka skemmtilegt, maður getur skroppið dagstund. Eða lengur. Ferðalag niðrí fjöru með flöskuskeyti sem fara á fjarlæga strönd gæti verið nóg. En svo er líka hægt að fara í heimsreisu. það er kostur að prófa eitthvað nýtt - reyna að finna hvað hver staður hefur upp á að bjóða. Hvort sem er lítlil vík á Íslandi eða stórborg erlendis, kríugarg á útskeri eða iðandi mannlíf á fjölmennari stöðum. Festast ekki í sama farinu, nýta sumarið til að safna minningum og d-vítamíni fyrir hin langa vetur. Þá er gaman að rifja upp.... "sjáiði fjallið þarna fór ég".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband