Sundlaugarperri!
6.7.2012 | 20:04
Ég er alltaf á leiðinni í fjallgöngu en einhvern veginn þá er ég alltaf á leiðinni en ekki á leiðinni upp neitt fjall. Mér varð hugsað til þess þegar ég keyrði fram hjá Esjunni nokkrum sinnum í röð að þegar ég kæmist á toppinn þá væri örugglega einhver búin að fara á höndum upp á topp eða hoppa á öðrum fæti. Kannski meðan ég tölti upp þá fari einhverjir tuttugu ferðir upp og niður... Ég keyrði sem sagt fram hjá en gékk, hins vegar í björg í nokkra daga. Reglulega tek ég nokkra daga í einangrun þar sem ég er ein með bókunum mínum, tölvunni og skrifa og skrifa. Ég kalla það að ganga í björg eins og Huldukona.
Þegar ég geng inn í svona skriftar"bjarg" þá gerist tvennt: Í fyrsta lagi verð ég mjög utan við mig. Til dæmis fór ég í sund í Borgarnesi til að þvo af mér mesta skítinn og gékk beint inn á ... kviknakta karlmenn. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem ég geng inn í karlaklefa og átta mig ekki á því fyrr en slátrið sveiflast framan í mig. Nú ber að taka fram að mér líkar vel við nakta karlmenn og finnst fátt fallegra en það er kannski óþarfi að vera orðin þekktur sundlaugarperri um allt land. Nema þetta sé vegna þess að ég sé orðin miðaldra og sjái svona illa - veit ekki.
Hitt sem gerist er að ég smelll tuttugu (reyndar líklega þrjátíu..) ár aftur í tímann. Bang, beint inn í ritgerðasmíð námsáranna og allt í einu langar mig að reykja eins og strompur og fátt verður meira aðkallandi en súkkulaði. Það er sama hvað ég segi sjálfri mér að það sé mun hollara að fara í fjallgöngu.. eina sem system kallar á er..kaffi, sígó og súkkulaði! Í þetta sinn sagði ég mér að lífrænt súkkulaði væri örugglega hollt og að ég myndi borða það hægt. Well... áður en ég vissi af var allt hið lífræna súkkulaði horfið ofan í mig þar sem ég sat sakbitin og reykti eina og lofaði sjálfri mér að næst myndi ég ekki taka með mér neitt sem byrjar á S. Ekki sígó, ekki súkkulaði og ég myndi líka skrá mig á 52 tinda á næsta ári.
Það vill svo til að ég er að koma að kaflanum í nýju bókinni minni sem fjallar um vana og hvernig maður nær að breyta vana. Næsti kafli á eftir fjallar um frestunaráráttu svo að ég er sannfærð um að ég fari að hætta öllum S-um, hætta að áreita nakta karlmenn og klífa alla þá tinda sem á vegi mínum verða. Hvernig var þetta batnandi konu er best að lifa - ekki satt. Verið batnandi! Mér veitir alla vega ekki af...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Engill augnabliksins í háloftunum.
26.6.2012 | 16:06
Ég settist niður í flugsætið, á leið frá Akureyri, þreytt eftir tveggja daga fundareið um Norðurlandið, samstarfsmaður minn settist við gluggann. Ég hugsaði um allt sem ég ætti eftir að gera þegar ég kæmi heim.."Ertu frá Akureyri'", ung björt og glöð kona í sætinu fyrir framan mig vakti mig upp úr hugsunum mínum. "Nei" svaraði ég. "Hvenær komstu? Er þetta maðurinn þinn?" Ég sagði henni að ég hefði komið í gær og farið á Húsavík og Mývatn og maðurinn væri ekki minn. "Vááá... keyptir þú þessa eyrnaloka þar?", hún sneri sér að vinkonu sinni, "sjáðu hvað eyrnalokkarnir eru flottir..."."Ég held með Þór en þú?", ég hugsaði mig um enda ekki mikil íþróttaálfur, "ÍBK" svaraði ég. "Ertu þaðan?"
Um leið og komið var að flugtaki, svona nokkurn vegin á því andartaki sem ég fylltist kunnuglegri ónotatilfinningu, þá æptu vinkonurnar í sætinu fyrir framan sig .."vvvvvííííí... við erum að fara á loft, váá sjáðu hvað húsin eru lítil..". Svo sneri hún sér við og sagði mér að hún væri á leiðinni í sumarbúðir á Laugarvatn. Eftir að bjallan hringdi og aflétti þar með sætisólarhafti okkar, sneri hún sér aftur við, ljómaði öll í framan og tilkynnti mér að nú fengjum við kaffi og súkkulaði með! Flugfreyjan kom að vörmu spori, spáin reyndist rétt, við fengum hvortu tveggja. "Þetta er besta kaffið sem ég hef nokkru sinni smakkað" sagði hún flugfreyjunni. Eftir það sneri hún sér að okkur og sagði "sjáið þið" og í sömu andrá leit hún út um gluggann og þuldi upp heiti á jöklum, vötnum og fjöllum. "Þarna er Skorradalur, hvar er þá Húsafell?" "Hvað eigum við langt eftir? Kannski við ættum að renna okkur í gegnum göngin, ha, ha..." Aftur horfði hún á mig og sagði "Það er svo miklu skemmtilegra að flúga heldur en keyra.", Ég hafði nú ekki alltaf verið sammála henni. Ég heyrði hana tilkynna vinkonu sinni að hún væri orðin hundleið á ástarmálum sínum, hver er það ekki reglulega, hugsaði ég. Rétt áður en við lentum voru vinkonurnar reglulega spenntar og týndu til öll kennileiti sem þær þekktu og svo var það "Víííííí vííííí.... við erum að lenda!! Um leið og lent var klöppuðu þær saman höndum og Engill augnabliksins leit á mig og sagði "velkomin í borg óttans!", ég var eitt spurningamerki í framan "já, það er Reykjavík".
Ég gékk úr vélinni, eftir þessa kennslustund, hjá Engli augnabliksins. Hún hafði kennt mér að njóta þess sem er núna! Gleyma ekki kraftaverki augnabliksins eins og í flugvél, að komast á loft og aftur niður og njóta þess sem fyrir augu ber. Hún hafði kennt mér að njóta þess hversdagslega eins og að drekka kaffi og borða súkkulaði í flugferðinni og finnast það vera besta kaffið í heiminum, af því að hún var viðstödd í augnblikinu. Ég sem venjulega flýg með það eitt í huga að komast niður og halda áfram að sinna þúsund verkefnum fékk kennslu frá Engli auganbliksins þessa flugferðina. Hún hefur rétt fyrir sér, kannski er borg óttans það ástand að vera aldrei staddurí nútíðinni, alltaf fortíð eða framtíð.
Ég náði ekki að kveðja hana enda var hún svo spennt að komast í næsta ævintýri að hún hefði ekki haft tíma til að tala við mig. Engill augnabliksins hafði hins vegar snert mig djúpt með kennslu sinni í að njóta augnabliksins óttalaus. Maður mætir englum og kennururm alls staðar - líka í háaloftunum. Ég vona að þú hittir einhverja fljótlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Betri eða bitrari.....!
19.6.2012 | 15:38
Á seinna kynþroskaskeiði okkar, sem er á mðjum aldri, þá verðum við annað hvort betri eða bitrari. Ég er viss um að þið þekkið einhverja sem hafa orðið bitrari með aldrinum. Draumar sem ekki rættust, vonir og væntingar sem fengu ekki farveg, geta orðið til þess að fólk verður stöðugt beiskara og bitrara (lesist annað fólk - s.s. ekki við...). Þeir sem nota tækifæri þessa seinna kynþroskaskeiðs til að hlusta eftir því sem unglingurinn innra með þeim er að hvísla í eyru þeirra hafa tækifæri til að verða betri.
Stundum er þetta tímabil kallað grái fiðringurinn og mikið grín er gert að karlmönnum sérstaklega sem kaupa sér mótorhjól og þeysast þvert um Ameríku, eða kaupa sportbílinn sem þá dreymdi alltaf um, já eða yngja upp... En mér finnst að það eigi ekki að gera grín að þeim sem láta drauma sína rætast. Karlmenn sem hafa eytt síðustu áratugum í að ala önn fyrir fjölskyldu sinni eru loksins komnir á þann stað í lífinu að geta leyft sér það sem þá dreymdi um sem strákar. Konur sem eru komnar á miðjan aldur þyrstir oftast í ferðalög, frelsi, nám og gleði. Allt sem unglingsstúlkuna dreymdi um ... að bjarga heiminum með því að fara til Afríku og vinna meðal munaðarlausra, að læra spænsku eða að fara í skóla, í kór eða bara keyra ein hringinn í kringum landið.
Núna er tími töfra að ganga í garð þar sem álfar og tröll hafa gaman af því að kynda undir drauma og þrár, sumarsólstöður eru samkvæmt þjóðtrú töfrandi tími. Það er gott að nýta tímann í að gera sér óskaspjald eða alla vega láta sig dreyma um hvað það er sem þú vilt nú láta rætast í lífi þínu. Það er nefnilega ákvörðun að verða betri en ekki bitrari! Betri.... takk. Eftir að hafa skoðað líf margra afreksmanna og kvenna hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem verða betri nýta seinni huta lífsins í að verða betri og enn betri. Meira um það seinna. Eigið töfrandi viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gallalaust heilbrigði.
12.6.2012 | 10:39
Það er stórhættulegt að skrifa pistla! Ég hef rekið mig á að það sem ég skrifa um, hverju sinni, hefur tilhneigingu til að poppa upp í lífi mínu þá vikuna. Í síðustu viku skrifaði ég um að vera miðaldra og viti menn áður en ég vissi af var ég orðin galla - og gallblöðrulaus. Ég fékk, sem sagt, gallsteinakast en það er þegar gallsteinar eru komnir í gallblöðruna, eins og hjá um 40% kvenna yfir fertugt. Fór á bráðdeild, sjúkrabíl, aðgerð og allt og allt. Var orðin "eign ríkisþvottahúsins" áður en ég vissi af mér. Það er alveg heill heimur út af fyrir sig að vera á spítala. Vakin klukkan sex að morgni og konan sem mældi í mér hitastig, blóðþrýsting og allt það sagði að ég væri með "fínar tölur", ég var mjög stolt. Rétt áður en ég fór inn á skurðarborðið kom læknir í grænum skrúða með grænan hatt og spurði "er þetta.... svo kom eitthvert latneskt heiti.." og benti á mig. "Nei, þetta er gallblaðra", svaraði hjúkrunarfræðingur róleg. Eina sem ég "gallblaðran" sagði var, "ég ætla að biðja þig að kljúfa mig ekki í herðar niður eða taka af mér fótinn..". All gékk vel og eftir að ég var komin aftur á minn stað komu krakkarnir mínir að kíkja á mömmu sína, að sjálfsögðu með blóm úr garðinum. Þegar sjúkraliðinn, yndisleg kona, var að taka til eftir þau tiltók hún hvað þau væri yndisleg við ÖMMU sína að koma með blóm............ hún var heppin að ég var með allskonar í æð!
Þannig að nú er ég orðin gallalaus og mun fjalla um gallalaust heilbrigði svo að þessa vikuna uppskeri ég ekkert nema heilbrigði og ungræðishátt. Gallalaust heilbrigði er það sem við gerum ráð fyrir og veltum ekkert sérstaklega fyrir okkur af því ekkert amar að þá stundina. Gallalaust heilbrigði er að finna ekki til og geta hreyft sig án vandamála, að geta dansað og hlegið og verið þekkt með nafni en ekki sem einkenni :-). Gallalaust heilbrigði er að geta borðað það sem manni langar í og verða ekki illt af. Gallaust heilbrigði er að vera nokkuð bjartsýn og vongóð um að lífið færi manni gjafir og tækifæri. Gallalaust heilbrigið er að skapa tækifæri úr vonbrigðum og að finna leiðir til að opna nýjar dyr þegar einar lokast. Gallalaust heilbrigið er að kunna að meta það sem maður hefur en vera óhræddur við að sækjast eftir nýjum draumum. Gallaust heilbrigið er að finna sér leiðir til að standa með sjálfum sér eins og fjögurra ára sonur minn syngur allann daginn núna. "Stattu upp fyrir sjálfum mér..."!
Nú er ég orðin galla- (og gallblöðrulaus) og finn að lífið verður gallalausara eftir því sem tíminn líður. Njóttu hins gallalausa sumars.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðaldra.
5.6.2012 | 14:36
Carl Jung
Ég hef átt í ástarsambandi við hugtakið miðaldra núna í nokkur ár (kannski af því að ég er samkvæmt skilgreiningu á þessu aldurskeiði). Ég er búin að viða að mér svona u.þ.b. þrjátíu, fjörtíu bókum. Mannfræðingar, félagsfræðingar, sálfræðingar, skvísur og ekki skvísur, æfingakerfi og andleg kerfi. Been there - dön it! Ég held að ég sé að verða orðin nokkuð góð alfræðiorðabók um hormóna, krísur og gjafir þessa aldurskeiðs...
Ég mun á næstu árum skrifa bækur, greinar og hella mér út í að miðla og dreifa þekkingu... get ekki annað! Svona er ég bara..! anyways það sem er merkilegt við þetta aldurskeið er að það er NÚUPPGÖTVAÐ.. alveg þangað til fyrir rúmlega hundrað árum þá var fólk einfaldlega ung og svo gamalt! Ekkert þar á milli........ miðaldra konur voru taldar vera kynþokkafyllstar, þess vegna var þessi tíska með stórum rass í upphafi tuttgustu aldar, (kjólar með ýktum rass..) til að líkja eftir líkama miðaldra kvenna.
En nú er tíðin aldeildis önnur. Konur og karlar trúa því að það sé slæmt að eldast og gera ALLT sem hægt er til láta ekki bera á aldrinum. HALLÓ hversu ruglað getur það verið? Halló.. í fyrsta skipti í sögunni erum miðaldra einstaklingar stærsti, öflugasti og ríkasti hópurinn á vesturlöndum og það er komin tími til að við njótum þess sem þetta aldurskeið hefur upp á að bjóða. Ég mun gera mitt til að leysa okkur úr álögum þess að hrukkulaust og aukakílóarlaust líf sé það sem skiptir öllu máli.......... eins og Jung segir við erum ung og dauðinn er mjög fjarlægur, lífið blasir við J. Njótum þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vangadans.
30.5.2012 | 15:06
Ég hef verið svo heppin að ferðast á tvo ólíka staði með stuttu millibili undanfarið. Í apríl fór ég til New York og er núna nýkomin frá Valencia á Spáni. Það er ótrúlegur munur á milli þessa staða, bæði í efnslegum skilningi þess orðs. Háhýsi, bílar, hraði og allt á fullu einkenna annan staðinn (hvort heldur þú..) en gamlar byggingar, torg og kirkjur hinn. En það er ekki bara í útliti sem staðirnir eru ólíkir.
New York er borg sem sefur aldrei, búðir og þjónusta er opin næstum allann sólarhringinn. Meðan ég var að slæðast um í miðborg Valencia, fyrsta daginn, þá lokuðu allt í einu allar búðir um miðjan dag. Ég, sem var á íslenskum hraða ennþá, skildi ekkert í neinu og fór að litast um. Allar búðir lokaðar og þegar ég rýndi í skilti á glugganum sá ég að þær opnuðu aftur rétt fyrir kvöldmat, á mínum tíma. Síesta, tími til að hvíla sig og endurnærast yfir miðjan daginn var skollinn á. Spánverjarnir voru að hvíla sig og lengra nær málið ekki. Hvort sem það eru viðskiptavinir sem bíða - eða ekki. Á kvöldin þegar við fórum út að borða opnuðu veitingastaðir oft ekki fyrr en um átta og þeir eru opnir lengi fram eftir miðnætti því Spánverjar fara ekki út að borða til að borða í flýti. Þeir sitja á veitingastöðunum og borða og spjalla í nokkra klukkutíma. Oft um helgar fara fjölskyldur og vinir út að borða upp úr níu og koma heim um klukkan tvö að nóttu. Saddir og sælir. Maður sá fólk með börn úti allt kvöldið þegar íslensk börn eru löngu farin að hátta. Kaffihúsin gera ekki ráð fyrir að maður taki kaffið með sér í pappírsglösum heldur drekkur maður kaffið á staðnum í alvöru bollum. Í New York taka allir með sér mat og kaffi og eru í símanum á sama tíma!
Það er ekki vafi í mínum huga hvor lífsmátin er meira afslappaður og mannlegur. Það að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða án þess að vera hlaupandi um af því að það er alltaf eitthvað sem þarf að klára eða gera á næstu mínútu og helst að gera nokkra hluti í einu er ekki eftirsóknarvert. Ég læt hér fylgja með ljóð upp á enska tungu eftir barnasálfræðinginn David L. Weatherford sem minnir okkur á að njóta stundanna okkar vel. Ég kalla það vangadans en þýði það ekki, það eru aðrir betri í því.
Slow dance
Have you ever wathced kids
On a merry-go-round?
Or listened to the rain
Slapping on the ground?
Ever followed a butterfly´s erratic flight?
Or gazed at the sun into the fading night?
You better slow down.
Don´t dance so fast.
Time is short.
The music won´t last.
Do you run through each day
On the fly?
When you ask: How are you?
Do you hear the reply?
When the day is done,
do you lie in you bed.
With the next hundred chores
Running through you head?
You better slow down.
Don´t dance so fast.
Time is short.
The music won´t last.
Ever told you child,
We´ll do it tomorrow?
And in you haste,
Not see his sorrow?
Ever lost touch,
Let a good friendship die
Cause you never had time
To call and say, "Hi"?
You better slow down.
Don´t dance so fast.
Time is short.
The music won´t last.
When you run so fast to get somewhere
You miss half the fun of getting there.
When you worry and hurry through you day,
It is like an unopened gift thrown away.
Life is not a race.
Do take it slower.
Hear the music
before the song is over.
Ég vona að þú hlustir á tónlistina og vangir við lifið í sólinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Skammast mín fyrir að vera hamingjusöm."
18.5.2012 | 23:22
Ég hitti kunningjakonu mína um daginn, "heyrðu, sagði hún, þú ert alltaf að skrifa þessa pistla þína. Þú hefur ekkert skrifað um það að vera hamingjusöm og skammast sín fyrir það. Hvað er það eiginlega? Þú verður að skrifa um það...".
Ég geri náttúrulega það sem ég er beðin um og ekkert kjaftæði. Það vill svo til að ég var á ráðstefnu um daginn í New York sem fjallaði um hamingjuna. Þar komu leiknir og lærðir og fjölluðu um hugtakið af mestu elju. Ég sat á fremsta bekk og drakk í mig fróðleikinn. Fræðimaðurinn (eða konan..) Brené Brown hefur helgað sig rannsóknum á skömm. Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu, eins og kunningjakona mína, að við erum oft ofurseld skömm. Skömminn er mun sterkari og erfiðari tilfinning en samviskubit en fólk ruglar þeim oft saman. Þegar maður er með samviskubit þá finnst manni sem maður hafi gert/ eða ekki gert, eitthvað sem er rangt. Hins vegar ef maður skammast sín þá finnst manni sem maður sé ómögulegur, ógeðslegur eða hræðilegur. Margir hafa farið í gegnum erfiða lífsreynslu og lært að skammast sín sem börn og sú tilfinning fylgir þeim og jafnvel stjórnar þeim þangað til fólk tekur á því. Hins vegar finnum við öll fyrir skömm, hvernig svo sem aðstæður hafa verið í uppeldi okkar. Við lærum smám saman, í gegnum samfélagið, fjölskylduna, vinina, kennara og aðra að skammast okkar.
Til dæmis er mér sagt að ég eigi að skammast mín fyrir að fara ekki reglulega í Braselíuvax og að ef að það séu einhver óviðeigandi hár hvort sem er neðra eða efra þá sé það alls ekki við hæfi. Þetta var nú útúrdúr en sum sé svona lærum við að skammast okkar fyrir allt milli himins og jarðar.
Af því að skommin er svo erfið tilfinning þá gerum við allt til að deyfa okkur fyrir henni, við eyðum, borðum, drekkum, vinnum of mikið eða gerum hvað sem er til að finna ekki til skammar. Skömmin gerir okkur lítil og okkur finnst eins og við tilheyrum ekki og viljum einfaldlega láta okkur hverfa. En um leið og við deyfum okkur fyrir skömminni þá deyfum við okkur fyrir öllum tilfinningaskalanum. Ekki gott.
Kunningarkona mín hafði rétt fyrir sér því ef við finnum fyrir hamingju þá verðum við oft hrædd um að eitthvað hræðilegt komi fyrir. Þetta er mannlegt. Við horfum á börnin okkar og fyllumst ást og um leið verðum við svo berskjölduð að við reynum að tryggja okkur með því að finna ekki þessa sælutilfinningu. Þannig geti guðirnir ekki hrifsað frá okkur neitt... Skömmin yfir því að hafa eitthvað sem aðrir hafa ekki, eða geta ekki, eða eiga ekki, getur líka leitt til þess að við trúum því að það sé betra að láta ekki ljós sitt skína. Skömmin er ekki góður fylgisveinn neins, við verðum að taka eftir því hvort skömmin gengur með okkur eða stekkur fyrir framan okkur. Við verðum að draga úr mætti hennar og helst af öllu vingast við hana.
Þegar stjórnendur og foreldrar segja "skammastu þín" þá hefur það mun alvarlegri afleiðingar en við mætti búast.
Svarið til kunningjakonu minnar er því í stuttu máli: Það er mannlegt að skammast sín, finndu fyrir tilfinningunni og afvopnaðu hana og haltu svo áfram að vera bullandi hamingjusöm. Því við hin viljum svo gjarnan vera í kringum þig þegar þú ert það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjö ráð til að vera yngri, grennri, fallegri og ríkari....
10.5.2012 | 21:05
"Það getur vel verið að við hér inni trúum því sem þú segir, en ekki fólkið hér fyrir utan þetta herbergi.." Hann leit á mig og hristi höfuðið, ég vissi ekki hvort hann væri að hrista höfuðið yfir vitleysunni í mér eða þeim þarna fyrir utan.
Í fyrirlestri mínum talaði ég um að það sem væri best til þess fallið að selja okkur eitthvað væri, fyrir konur eitthvað sem sneri að útlitinu en fyrir karla að standa sig! Ef ég segi konum nógu oft að það sé eitthvað að útliti þeirra ef þær eru ekki, ... ungar, grannar, háar, ljóshærðar, dökkhærðar eða rauðhærðar .. nú þá get ég selt eitthvað til að "laga málið". Oft þegar fjallað er um tískuna þá er sagt að "nú sé allt leyfilegt..", það þýðir á mannamáli að ef þú ferð eftir reglum dagsins í dag þá er í lagi með þig. Ef ekki þá.....
Í sama fyrirlestri var ég að tala um að ytri þættir eins og staða, völd, peningar og útlit hafi ekki mikil áhrif á hamingju eða velferð okkar sem einstaklinga.
Þrátt fyrir að vera of feit (miðað við hvað..), of gömul (miðað við..) og ekki falleg (miðað við..) og eiga takmarkaða peninga ..(munurinn á þeim sem á 50.000 bandríkja dali og þeim sem á 500.000 varðandi hamingju og vellíðan er mjög lítill..). þá getum við lifað fínu lífi. Alveg satt, barasta hreint frábæru og skemmtilegu og góðu lífi.
ps - ef þú vildir fá sjö ráðin þá biðst ég afsökunar á titlinum en heimasmíðuð væru þau:
1. Hættu að fókusa á útlitið og einbeittu þér að því að líða vel.
2. Ekki setja nærsýnisgleraugu á þig þegar þú horfir í spegilinn.
3. Hentu vigtinni, miðaðu við föt og konur í þinni fjölskyldu (genin) þegar þú hugsar um hvernig þitt vaxtalag er. Horfðu á hvernig mamma þín, amma, systur og frænkur eru og þá veistu svona nokk hverju þú átt von á og hvað er eðliegt fyrir þig.
4. Nærðu sál, líkama og anda. Líkamann með því að hreyfa þig eins og þú kannt best við, næra þig með góðum mat sem hentar þér og hvíla þig vel. Sálina með fegurð, með því að njóta samveru við aðra, njóta lista, njóta þess að eiga þinn stað í tilverunni. Andann með því að gera eitthvað nýtt reglulega.
5. Vertu þakklát.
6. Gerðu öðrum gott með því gerir þú þér sjálfri gott og hættir að einblína á hvað er að þér!
7. Aldrei, aldrei setja út á útlit annarrar konu eða setja út á foreldrahæfni hennar - þar erum við konur veikastar fyrir.
Tallíhó, Árelía Eydís
Bloggar | Breytt 11.5.2012 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sögur við eldhúsborðið.
1.5.2012 | 12:42
Okkar dýpsta þörf er að tilheyra hópnum og þar með hvort öðru. Vísindamenn hafa komist að því að þetta er ekki einungis félagsþörf heldur er heilinn á okkur hannaður til þess að tilheyra. Þegar við tilheyrum ekki hópnum eða hvort öðru er hætta á að við veikjumst alvarlega. Samkvæmt þessum rannsóknum erum við ekki eitt heldur erum við hluti af öllum öðrum. Stærsta gjöfin sem við gefum er að gefa öðrum hlutdeild af sögu sinni því þannig getum við endurspeglað hvort annað og lært af hvort af öðru.
Þegar við sitjum við eldhúsborðið og segjum sögur erum við að seðja þessari þörf okkar og styrkja tengingar í heilanum sem gera okkur heilbrigðari.
Ég ólst upp við að það voru alltaf einhverjar konur í heimsókn og þær sátu við eldhúsborðið og spjölluðu saman um lífið og tilveruna. Fengu sér kaffi og sígó og þegar maður kom inn þá var strax sagt "farðu upp að læra..." uppeldisfræðingar vita vel að þetta er ekki rétta leiðinn en einhvern veginn leiddist mér ekkert því ég fór bara upp í stiga og hlustaði á konurnar ræða hitt og þetta. "Í alvöru.." og "ég bara átti ekki orð..". Hláturgusur og hvísl. Nú á dögum gerum við þetta í gegnum fésbókina en áttum okkur kannski ekki á því að heilinn þarfnast mannlegrar örvunar til að tilheyra. Fésbókin verður aldrei eldhúsborðið og í stað þess að eyða miklum tíma í rafræn samskipti verðum við ríkari ef við fjárfestum í samskiptum við hvort annað. Kíkjum í kaffi og segjum sögur af lífinu við eldhúsborðið, tökum þátt í lífi hvors annars því við tilheyrum hvort öðru og heilinn á okkur verður líka svo miklu glaðari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framtíðarvinnumarkaðurinn - verður þú með?
25.4.2012 | 11:46
í bók Michio Kaku, sem er eðlisfræðingur, fjallar hann um hvernig við munum lifa lífinu árið 2100. Hann spáir því að tölvur, eins og við þekkjum þær munu hverfa, við munum ávallt vera nettengd í gegnum augnlinsur og úrin okkar. Ekki nóg með það við munum eiga samskipti við netið og hluti með hugsunum okkar. Róbótar munu taka við skipunum í gegnum hugsanir og þar með erum við næstum komin með guðlegt vald. Við munum ferðast á flugbílum í loftinu, geta farið með lyftu út í geiminn og orkuþörf okkar verður svalað frá stjörnunum. Við munum skapa fullkomna líkama í gegnum háþróaða líftækni og við munum skapa lífverur sem aldrei hafa gengið á jörðinni áður.
Samkvæmt Kaku og fleirum erum við á leiðinni á næsta stig í þróunarsögu mannkynsins. Þetta hefur að sjálfsögðu bæði kosti og galla.
Framtíðarfræðingar eru heillandi fræðimenn sem nýta sérþekkingu sína til að sjá fyrir þróun, bæði í tæknilegum og eðlisfræðilegum skilningi og um leið reyna þeir að sjá fyrir um hvernig við mennirnir munum haga okkur. Hvaða þarfir við munum hafa eftir 50 ár eða 100 ár? Ég var að koma frá New York og á margan hátt má segja að þegar maður labbar á Manhattan meðal skýjaklljúfanna í mannmergðinni líði manni eins og maður sé í vísindaskáldskap. Það eru allir í símanum - þá meina ég allir.. það eru allir talandi í símann eða að skoða eitthvað í símanum. Flestir eru einir með símanum og mat í hönd. Nýjustu íbúðir á Manhattan eru ekki með eldhúsum því fólk er hætt að elda. Mínar heittelskuðu bókabúðir eru orðnar færri og það sem mátti fara; Macdonalds finnst varla á Manhattan lengur en í staðinn úir og grúir af heilsubitastöðum.
Í öllum þessum breytingum spyr maður sig; en hvaða færni þarf til að lifa af á framtíðarvinnumarkaðnum? Svarið er einfalt, sköpunargleði, upplýsingalæsi, hæfni í mannlegum samskiptum og "common sense" sem sagt það sem róbótar geta ekki gert.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)