Af hverju ég hélt með Þýskalandi

Það var á föstudagseftirmiðdegi í júni að ég ákvað að kaupa pizzu fyrir fjölskylduna. Ég var þreytt og dálítið döpur, nýkomin úr erfiðri heimsókn, hafði ekki orku til að elda. Um leið og ég settist upp í bílinn til að panta flatbökuna hugsaði ég um hvað lífið væri stundum erfitt (vorkenndi mér smá, ég viðurkenni það..). Ég keyrði extra hring til að fá smá stundarfrið en fór síðan inn á pizza staðinn til að ná í pöntunina. Ég var heldur snemma á ferðinni, eftir að hafa borgað settist ég niður í þungum þönkum. Við vorum u.þ.b. fimm sem sátum og biðum og allir horfðu eitthvað annað en á hvort annað þennan fallega sumardag. Ungur maður sem sat við hliðina á mig rauf allt í einu þögn biðgestana og leit á mig glettin á svip "hefur þú áhuga á HM". Ég leit hissa á hann og sagðist ekki hafa mikinn áhuga. "Ég elska HM hélt hann áfram og mitt uppáhaldslið er Þýskaland."

Svona hófust samræður okkar og eftir nokkrar mínútur var ég búin að komast að því í hvaða framhaldsskóla hann er, hvar hann býr, hvaða er uppáhaldsveitingastaðurinn hans og af hverju hann heldur með Þýskalandi. Ég vissi líka að hann var að fara að borða með mömmu sinni og njóta leiksins sem var þetta kvöld í sjónvarpinu.  Hann brosti hringinn og þegar biðfólkið týndist út gat það ekki annað en kvatt okkur með brosi því allir voru farnir að taka þátt í þessum áhugaverðu samræðum. Hann fékk sína pöntun á undan mér og við kvöddumst með virktum, framhaldsskóladrengurinn og ég. Ég horfði út í vorblíðuna og gat ekki annað en brosað yfir því hvað það væri yndislegt að hitta svona skemmilegan mann og að það væri mjög líklegt að Þýskaland myndi vinna. Depurðin og þreytan hafði látið undan síga af því að ókunnugur maður hafði smitað mig af lífsgleði sinni á biðstöð pizzunnar. Fyrir það var ég þakklát. Við höfðum öll svo mikil áhrif og oft án þess að gera okkur grein fyirr því.

Þess fyrir utan, þá hélt ég með Þjóðverjum af því að þeir hafa kosið Angelu Merkel, minn uppáhaldsleiðtoga þrisvar sinnum og af því að þeir framleiða fallega og sterka hluti. Vinnumarkaður þeirra er aðdáunarverður og það er fallegt í Þýskalandi og Berlín er ein af mínum uppháhaldsborgum.  Þeir eru með fótbóltalið sem leggur áherslu á samheldni hópsins en ekki stjörnur og af því að þeir hafa gert heiðarlega tilraun til að líta í eigin barm eftir erfiða og sársaukafulla fortíð.

Strákurinn á pizzastaðnum hafði rétt fyrir sér í júni, þýska liðið vann. Nú er bara að halda áfram að fylgjast með boltanum svo ég geti spjallað við áhugamenn um fótbolta ef þeir skyldu vekja mig upp úr döprum hugsunum í framtíðinni. Ég er þakklát fyrir að hann góndi ekki bara á símann sinn heldur hafði kjark til að beiða bros yfir andlit okkar sem sátum og biðum saman.  


Fjárfestingar

Warren Buffet er einn af mínum upphaldsmönnum. Hann er helsti og þekktast fjárfestir heimsins og ef hann fjárfestir í einhverju fylgja aðrir á eftir. Hans megin regla er einföld fjárfestu í því sem þú skilur og til lengri tima. 

Fjárfestingar snúast þó ekki bara um peninga heldur aðrar bjargir líka. Það er mikilvægt að huga að því hverju maður fjárfestir í. Sumt gefur manni arð til framtíðar en annað ekki neitt. Dæmi um slæmar fjárfestingar af minni hálfu eru: Mjög hælaháir skór keyptir í þeirri von um að ég myndi verða mun glæislegri 15 cm hærri, þó að ég viti að ég geti ekki notað þá. Vítamín keypt þegar ég er orkulaus og sannfæri sjálfa mig um að ég muni taka þau, á hverjum degi þó að ég viti að ég hafi hingað til aldrei haldið það út nema í þrjá daga í senn. Hlutabréf sem ég skildi ekkert í. Tími á netinu og fésbók þó að ég viti að ég muni ekki fá neitt út úr því nema "hangs". Það er svo auðvelt að falla í... gildru samskiptamiðla sem er sú að "allir hinir eru að meika það og haupa á fjöll og eiga fallega fjölskyldu og eru hamingjusamir alla daga..." Eða fjárfesting í að lesa hitt og þetta á netinu. Hjónabandsráðgjöf sem bendir manni á að fá sér unga elskuhuga ef maður er ekki ánægður í hjónabandinu. Ég bara spyr hvenær á maður að hafa tíma til þess? Milli þess sem maður stingur í þvottavélina og svæfir? Er ekki bara einfaldara að fjárfesta í að lappa upp á hjónabandið eða fara út úr því ef maður er ekki ánægður...?  Eða ráðleggirnar í megrunarkúrum sem benda á að ef maður borðar aldrei sætt þá léttist maður. Já - en er það eitthvað gaman? Innsæi manns er alltaf besta ráðleggingin þó að það sé skemmtilegt að lesa sér til.

Fjárfesting á tíma sínum er sú fjárfesting sem skilar mestum arði eða ekki neinum.

Fjárfestingar sem hafa skilað sér í mínu tilfellii eru; Þekking, hreyfing, að taka til, tími með fjölskyldu, með vinum og ekki síst tími einhveru þar sem maður getur melt lífið í rólegheitum. Það er ekki góð fjárfesting að bölva veðrinu á Íslandi. Mun betri að þvo þvotta eða hreinsa skápa. Það er góð fjárfesting að baka en léleg að horfa á sjónvarp. Það skilar sér vel að fylgjast með öðrum af samkennd og gleðjast eða taka þátt í lífi annarra. Það er mun betri fjárfesting en að velta sér upp úr vandamálum sínum. 

Warren, vinur minn, Buffet hefur rétt fyrir sér í því að ef maður ætlar að eiga í viðskiptum til lengri tíma mega skammtímahagsmunir og græðgi ekki villa manni sýn. Hann margleggur á það áherslu að heiðarleiki er grunnurinn að góðum viðskiptum. Ég held að heiðarlegi í viðskiptum manns við sjálfan sig sé lika grunnur að góðri fjárfestingu á tíma sínum. Fjárfesta í því sem maður veit að skilar sér til lengri tíma, fjárfesta í framtíðinni. Náin sambönd tróna, þrátt fyrir allt, efst á toppi þess sem gefur arð til allrar framtíðar.. Allt sem maður gefur af kærleik vex og dafnar til meiri kærleika. Ekki flókið og nú er best að setja í þvottavél (það skilar sér í hreinum fötum í næstu viku...). 


Ertu í réttu leikriti?

Ég sat rjóð í kinnum fyrir framan vin minn sem hafði fullyrt að "enginn breytist nokkru sinni nema til hins verra.." "Nefndu dæmi" kallaði hann fram í fyrir ræðunni sem ég lét dynja á honum. Mér varfðist tunga um höfuð en eftir smá stund mundi ég bara eftir teiknimyndaheitjum (sem hann er of gamall til að þekkja). Næst þuldi ég upp ævintýri sem hann myndi þekkja, Hans og Grétu o.s.frv. Raunveruleg dæmi! Kallaði hann mjög óþolinmóður.. uhhhh... Þessi hafur nú hætt að drekka og hin hefur hætt að reykja og hann Jón tók sig nú til og fór að yrkja. Gunna varð allt í einu svo góð og fór að gefa góðgerðasamtökm.

Hann fussaði, er eitthvað betra að hætta að drekka eða reykja eða gefa góðgerðasamtökum? Nú var ég komin í verulegan ham... Auðvitað er betra að ... svo kom mjög löng ræða um gildi þess að hætta, næstum öllu!

Eftir á að hyggja er vandinn sá að við vitum ekki alltaf hvernig á að breytast til hins betra. Það er auðvelt að horfa á þá þætti sem blasa við eins og hvers við neytum, hvernig við lítum út en raunverulega hvernig vitum við hvort einhver hefur breyst til hins betra?

Ég hef lagt persónuleikapróf fyrir hunduði manna og mín eina niðurstaða er að ef fólk er "í réttu leikriti" í lífi sínu þá er það nokkuð lúnkið við að breytast og aðlagast. Þegar horft er til þess hvaðan hvati fólks kemur þá er til dæmis miklar líkur á að ef fólk vill sækjast eftir völdum en er hins vegar ekki að stjórna í störfum sínum þá er það í röngu leikriti. Ef fólk vill vinna með öðrum og hefur mikla þörf fyrir mikil félagsleg samskipti þá er það í röngu leikriti ef það starfar eitt. Þeir sem hafa gaman af átökum eru í réttu leikriti þar sem er at og læti en hinir sem forðast átök eru það hins vegar ekki.

Þegar maður er í röngu leikriti þá veldur það oft því að orkan til að breytast til hins betra er ekki til staðar. Alveg eins og í teiknimyndinni; Frosin, þá er prinsessan fyrst í eigin fangelsi því hún hræðist krafta sína (eða hvata sinn)  en síðan brýst hún út en hefur ekki vald yfir kröftum sínum og einangrast. Þegar hún hefur loks náð valdi á kröftum sínum getur hún lifað með þeim. Ég segi og skrifa, lífsins speiki má finna í teiknimyndum og það er hægt að breytast til hins betra.


Pílagrímur

Ég er nýkomin úr pílagrímagöngu um norður-Spán, eða nánar tiltekið um Jakobsstíginn sem liggur til Santiago de Compostella. Þangað hafa pílagrímar gengið í gegnum aldirnar til að þess að öðlast syndaraflausn og reyna sig í leiðinni. Pílagrímur er sá sem ferðast af trúarlegum ástæðum eða einfaldlega sá sem er ferðalangur. 

Við vorum þrjátíu og fimm íslenskar valkyrjur, allar yfir 45 ára gamlar sem gengum saman gegnum súrt og sætt. Nokkrar misstu táneglur, aðrar fundu fyrir mjöðmum á nýjan máta. Sumar döðruðu við aðra pílagríma á leiðinni en aðrar voru í innri íhugun og tóku ekkert eftir þeim körlum sem gengu með. Pílagrímar sameinast einhvern veginn á stígnum þannig að maður var farin að þekkja samferðamenn. Við vorum að sjálfsögðu orðnar þekktar á stígnum sem "þessar íslensku", þóttum háværar á kvöldin, og jafnvel ekki alveg "ekta" því við gistum ekki alltaf á hostelum.

Maður lærir margt um manninn og leiðina á pílagrímaför. Skildum ýmislegt eftir á stígnum, sorgir og vonbrigði voru flæddu út með svitanum. Á Fyrirgefninga fjalli fyrirgáfum við og síðan mættum við okkur sjálfum. Í jóganu endurókum við þreyttar "ég elska þig mjaðmir", og síðan féllum við örþreyttar í svefn og dreymdum fótakrem og "second skin" plástra. Allar komu þó aftur og enginn þeirra dó - meira segja komum við sterkari til baka, líkamlega og andlega. Það er einhver kraftur í hópi kvenna sem tekst á við verkefni saman.

Hér er það sem ég lærði ef einhver æltar í pílagrímagöngu:

Það er nauðsynlegt að ganga skó til - annars er hætta á að missa nokkrar táneglur.

Skór eiga að vera stórir - líka brjósthaldarar, annar fer mann að verkja undan þeim.

Mjaðmir munu kvarta - ekki hlusta.

Hné munu væla - verkatölfur eru himnasæla stundum.

þegar maður hugsar "hvernig datt mér þetta í hug..." þá segir maður upphátt við heila sinn, hættu nú! .. og labbar áfram. 

Ef maður hefur ekki borðað í nokkra klukkutíma og er orðin svangur á göngu þá gæti maður orðið uppvís af ofbeldisverkum.

Nauðsynlegt er að drekka kaldan bjór þegar maður er búin að ganga í hita í marga, marga klukkutíma.

Fjöll eru til að sigrast á þeim. Ef maður bara heldur áfram þá kemst maður oftast á leiðarenda.

Spænskir kílómetrar eru lengri en íslenskir. 


Grái fiðringurinn - Já takk!

Fyrir nokkrum árum var Economics með sérblað sem fjallaði um það sem við á íslensku myndum kalla: Gráa fiðringinn (sem er oftast notað um karla en á við um konur líka en þá heitir það breytingaskeið og er frekar hallærislegt). Fyrirsögnin var: "Female, Mid-life crisis, bring it on!". Ég keypti blaðið, las og geymdi það og forsíðan hangir á skrifstofunni minni.

Þetta var alveg ný hugsun, fannst mér þá. Enda fjallaði blaðið um nýja tíma, sögulega séð, varðandi valkosti kvenna sem skilgreiningar á aldurshópnum 40-65. Í blaðinu voru viðtöl við konur á þessu skeiði, sumar voru með ung börn og voru á kafi í uppeldi og umönnun, aðrar höfðu snúið baki við stórfyrirtækjum og stofnað sitt eigið fyrirtæki. Sumar voru nýfráskildar og fluttar í annað land og einhver hafði farið í skóla aftur eftir þriggja áratuga hlé. Þær áttu sem sagt ekkert annað sameiginlegt en að vera, þeirra mati, að lifa lífinu á sínum forsendum. Á sínum eigin forsendum! 

Núna þegar ég undirbý fyrirlestur um "tækifæri og breytingar í lífi kvenna", sit ég með fjöldan allan af bókum og greinum í kringum mig og horfi á forsíðuna góðu. Hún varð til þess að ég fékk brennandi áhuga á þessu lífsskeiði.  Breytingarnar almennt á samfélagi vestrænna þjóða um þessar mundir eru gríðarlegar. Konur (of karlar) sem nú eru um fimmtugt geta gert ráð fyrir að vera á vinnumarkaði næstu tuttugu jafnvel þrjátíu árin. Sá tími þar sem fólk fer á eftirlaun um 67 ára aldur er að líða undir lok, því við verðum svo miklu eldri og höfum tækifæri til að vera nokkuð heilbrigð fram eftir öllu. Nýjungum í erfðafræði, tækni og heilbrigðisvísindum fleygir fram. (Kári er meira að segja búin að finna út að eftir því sem mæður eru eldri þeim mun betur reiðir börnum þeirra af..). Atvinnuhorfur þeirra sem eru nú á miðjum aldri eru ágætar en einungis ef fólk undirbýr sig rétt. Enginn vill vinna við starf sem er ekki gefandi fram á gamals aldur. Enginn. Hvað þá?

Það er nauðsynlegt fyrir þá kynslóð sem nú er um miðjan aldur að endurskilgreina, stokka upp, gera upp og vinna í því að ljá lífi sínu og starfi merkingu. Á sínum eigin forsendum! Allir vilja að starf þeirra hafi merkingu, allir vilja að líf þeirra sé merkingarbært en það gerist ekki nema við leggjum þá vinnu á okkur að líta í eigin barm. Fram á miðjan aldur erum flest njörfuð niður af líffræðilegum og umhverfisþáttum sem beina okkur í ákveðin farveg. Læra, finna starf, giftast, eiga börn, skilja, finna nýjan maka, finna annað starf, eignast hús, bíl og líta vel út, eignast.

Ástæðan fyrir því að gráði fiðringurinn gerir vart við sig er spurninginn: Er þetta allt og sumt? Þá fyrst fer maður að geta farið út úr handritinu og skrifað sitt eigið leikrit. Grái fiðringurinn er svo skemmtilegt fyrirbrigði og þó að sumir velji að finna sér nýja og yngri konu eða karl (eins og hefðbundin skilningur orðsins gefur til kynna) og halda þannig áfram í fyrirframgefna leikritinu, þá eru svo ótal, ótal tækifæri sem sál okkar hefur til að finna merkingu með þessu öllu saman á sínum eigin forsendum! "Bring it on!"


Skilyrðislaus ást

Við stöndum öll í skugga dauðans. Nú í vetur hef ég misst tvær mikilvægar konur úr lífi mínu, inn í draumalandið, inn úr skugga dauðans í fang hans. Önnur er amma mín, sem er nýlátin, en hin var amma dóttur minnar.

Ömmur er svo dýrmætar að þegar þær yfirgefa þessa jarðvist þá skekur það manns eigin tilveru. Ef maður er heppin, eins og ég og dóttir mín, þá elska þær mann skilyrðislaust. Þær bera ekki ábyrgð á uppeldi manns en eru ábyrgar fyrir því hvort maður nær að fóta sig í heiminum af öryggi. Foreldara eiga sitt hlutverk en ömmur og afar geta víkkað hjartapláss barnabarna sinna margfalt. Ég var heppin að eiga ömmu mína svona lengi því ég er að verða fimmtug og hún var komin yfir níræð. Ég hélt samt að hún væri ódauðleg eins og sál hennar vonandi er.

Tengingin við fyrri kynslóðir liggur í gegnum ömmur og afa. Sögur af háttum og fólki, sem áður gékk á þessari jörð. Sögur af lífsbaráttunni, torfbæunum, sjósókn, tímanum sem vakað var yfir ánum, skrýtnu fólki og ekki svo skrýtnu fólki. Sögur af langa,langa, langaömmu sem læknaði fólk með hákarlalýsi og talað við krumma. Römm er sú taug sem bindur okkur við þetta harðbýla land. Nú er sú kynslóð að hverfa frá sem bjó við þessar aðstæður en sú kynslóð upplifði einhverjar mestu breytingar á högum sínum sem um getur. Frá því að fæðast í torfkofum yfir í að ferðast um heiminn. Frá því að lifa við lýsisljós yfir í að nýta öll rafmagnstæki nútímans. Frá því að ganga í sauðskinnskóm yfir í handgerða ítalska leðurskó. Frá því að hafa ekki útvarp yfir í alla heimsins afþreyfingu. Það sem þessi kynslóð hefur kennt okkur er æðruleysi. Að taka því sem að höndum ber. Ég, og við, berum með okkur þeirra gjöf og tökum því þegar eldri kynslóðir ganga inn i draumalandið. Nýr kafli tekur við og hver kynslóð kennir hinum ungu, áfram höldum við á herðum þeirra sem hafa undan gengið og kennum vonandi hverju barni sem fæðist inn í heiminn það sem fyrir okkur var haft.

Ömmur og afar eru svo dýrmæt að einn dagur eða einn mánuður eða jafnvel ár ættu að vera helguð þeim sem kunna að elska skilyrðislaust. Er eitthvað annað að læra í þessari stuttu jarðvist? 


Nýting á tíma

Ég var með málstofu í Háskólanum í vikunni, sem er hluti af starfi mínu. Oftast mæta ekki margir og það var venju samkvæmt fámennt en mjög góðmennt. Mig rak í rogastans þegar ég kom æðandi inn í stofuna því á aftasta bekk sátu sex óvenju ungir menn. Aðrir þarna inni voru fræðimenn eða þaulreyndir stjórnendur. Ég leit á þessa ungu myndalegu menn fór að hvá og spyrja þá hvaðan þeir kæmu. Fjórir voru úr framhaldsskóla og tveir úr grunnskóla, þeir voru í verkfalli og á starfsdögum. Þeir sýndu mikinn áhuga á efninu og spurðu góðra spurninga. Eftir fyrirlesturinn fengu þeir allir afrit af grein sem ég hafði afritað. Fræðileg grein um stjórnendur og mikilvægi aðstæðna með lýsingu á efnahagsaðstæðum á Íslandi frá aldarmótum 1900! Þeir þökkuðu fyrir sig og sögðu að þetta væri annar fyrirlesturinn sem þeir voru á þennan dag. Ég var full aðdáunar á þessum strákum sem kunna svo sannarlega að nýta tímann í verkfalli. Á hverjum einasta degi eru fjölmargir fyrirlestrar í Háskóla Íslands sem allir geta sótt. Þar er að finna flóru sem allir ættu að geta nýtt sér. 

Nýting á tíma okkar er alveg jafn aðkallandi eins og nýting á peningum. (það hefur komið í ljós að þeir sem vinna stóra peningaupphæð eru oftar orðnir fátækari ári seinna.. talandi um nýtingu á óvæntum auðlindum).

Ef maður hefur óvænt meiri tíma en maður reiknaði með. Eins og í verkfalli eða þegar fólk er á milli starfa eða eftir að maður kemst á eftirlaunaaldur, er nýtingin á þessari auðlind sem okkur er gefin enn mikilvægari. Það er stórsniðugt fyirr ungt og upprennandi fólk að kíkja á fyrirlestra í Háskólanum til að fá hugmynd um hvað fjallað er um í þeim fræðigreinum sem þar er kennt. Það gæti auðveldað val þeirra sem á annað borð vilja fara í háskólanám. Söfnin eru uppspretta sköpunarkrafts og hugmynda, hægt er að heimsækja bókasöfn og ömmu sína og afa. Þeir sem eru í atvinnuleit verða að líta svo á að þeir starfi við að finna vinnu. Þá er um að gera að taka upp símann, endurmeta styrkleika sína og hlúa að þeim eða leggja vinnu í að líta í eigin barm. Þeir sem ekki eru lengur á vinnumarkaði vegna aldurs hafa nú tíma til að ferðast, fara á námskeið, á fyrirlestur í háskólanum, eða bara í kaffi til vina og ættingja.

Nýting á tíma hefur líklega aldrei verið mikilvægari en nú. Þegar tölvan, sjónvarpið og síminn er ávallt við höndina til að gleyma sér í og gleypa tíma manns.  

Þegar rútina hversdagsins heldur ekki lengur utan um mann verður maður sjálfur að gera það. Strákarnir á aftasta bekk um hádegisbil á þriðjudegi sýndu gott fordæmi. 


Það sem maður lærir af göngum.

Ég hef verið dugleg að ganga undanfarið, og þetta er það sem ég hef lært af því:

Það er þægilegra að ganga niðrí móti en það koma alltaf brekkur aftur svo maður skyldi bara njóta þess þegar maður fer niður. Það sama á við um vindinn, svo miklu betra að hafa hann í bakið og þá þakkar maður honum fyrir aðstoðina. Óneitanlega er hann líka á móti og þá bara setur maður hausinn undir sig og hlakkar til að snúa við og hafa hann í bakið.

Það er alltaf gott veður þegar maður er komin út, alveg merkilegt, en stundum er slæm færð þá þarf maður helst að vera vel útbúin.

Það er ótrúlegur hávaði í hausnum á manni en eftir því sem maður gengur lengur þagna lætin. Það leysist úr hinum ýmsu hugsanafllækjum.

Það er ákveðin tíska í gangi hjá hlaupa- og hjólafólki (það fer hratt fram hjá mér, þar sem ég sniglast). og mig langar í skærbleikan göngujakka (við nýju gönguskóna). 

Maður þarf að setja sjálfan sig í forgang til að fara út reglulega: sleppa símtalinu, láta "mamma ætlar þú aftur út.." hjá sér liggja og sleppa fyrsta sjónvarpsþætti kvöldsins.  Það er alveg hægt að ganga allt en það tekur bara lengri tíma.

Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en það myndast víst nýjar æðar á göngu (heyrði það frá konu sem heyrði það frá hjartalækni..). Ég sé fyrir mér nýjar og ungar æðar og í framhaldinu algjörlega síhressa og síunga konu. 

Það er gott að láta sig dreyma á göngu. Haustið hefur alltaf verið uppáhaldstími minn en ég er núna aljörlega fallin fyrir hinu íslenska vori sem færir manni moldarlykt og birtu þar sem eilífðin á heima.  

 Nú er bara að drífa sig út og ganga!


Meðalskussar

Eftir að hafa verið háskólakennari í um tvo áratugi (byrjaði 14 ára..) þá hef ég komist að raun um að þeir sem kvarta undan einkunnum eru þeir sem fá hæstu einkunnirnar. "Af hverju fékk ég 8 en ekki 9 eða mér finnst ekki réttlátt að vera með 9 í stað 9,5?" Þegar þessir nemendur koma til mín og kvarta hugsa ég oft til "gamals" prófessor í stærðfræði sem ég kynntist fyrir mörgum árum.

Ég var í háskólaráði, þegar ég var í háskólastúdent og sat m.a. í kennslumálanefnd Háskóla Íslands með fulltrúum starfsmanna. Í nefndinni var "gamall" prófessor í stærðfræði (mér fannst hann gamall en spurningin er hvort hann hafi ekki verið á mínum aldri..). Hann sagði við mig að sín reynsla væri að meðalskussarnir næðu lengst í lífinu. Ég var svo fegin þegar hann sagði þetta að ég næstum kyssti hann, sem hefði verið mjög óábyrgt af ungri konu, því ég sjálf slefaði rétt í að teljast meðalskussi. Ég hélt á þeim tíma að ég myndi aldrei fá vinnu eða aldrei komast inn í meistaranám eða nokkuð yrði nokkurn tíman úr mér. Einkunnir mínar voru oftast ekkert til að hrópa húrra fyrir. En það hvarflaði aldrei að mér að kvarta við kennara mína því ég vissi upp á mig sökina. Eftir að stærðfræðiprófessorinn sagði þetta lét ég huggast. Fyrst að þeir sem væru í stærðfræði (þar sem að mínu áliti allir snillingarnir voru) og voru meðalskussar gátu fengið vinnu hlyti ég að eiga séns í lífinu. Ég ynnti hann eftir því hverju þetta sætti. "Jú, sjáðu til þeir sem leggja allt í að fá sem hæstu einkunn, þeir eru ekki að gera annað en læra fyrir próf. Þeir eru kannski ekki að læra til að læra heldur að læra fyrir prófið. Hinir eru oftast að gera annað með eins og að vinna eða taka þátt í félagslífi þar sem þeir fá þjálfun sem kemur sér vel á vinnumarkaði."

Það er dásemd að vinna með góðum nemendum sem leggja metnað sinn í námið. Reynslan sýnir mér að meðalskussarnir meta oft stöðu sína raunhæfari hætti. Þegar þeir fá ekki háar einkunnir líta þeir í eigin barm án þess að finnast þeir vera "verri" manneskjur og hugsa með sér hvort þeir hafi lagt nógu hart að sér. Ef niðurstaðan er að þeir hafi ekki gert það þá gera þeir oft upp við sig að þeir vilji gera betur næst. Búið mál. Þeir sjá ekki virði sitt sem manneskju standa og falla með einkuninni. Þeir hafa haft of mikið að gera eða þurfa að forgangsraðað öðruvísi. Það hefur ekkert með kennarann að gera. Hinir sem keppa að hæstu einkunn eiga oft erfitt með að aðskilja sjálfan sig og sitt virði frá einkunninni. Slæm einkunn þýðir að þeir séu slæmir. Punktur. En það er aldrei þannig. Á vinnumarkaði eru prófin líka ekki þannig að maður fái einkunnir strax. Virði starfsmanns liggur í fleiri atriðum. 

Uppáhaldslagið mitt um þessar mundir byrjar á orðunum "Litla ljósið mitt bjarta.." Björtu ljósin skína svo glatt og það er aldrei þannig að virði þeirrar birtu hafi eitthvað með frammistöðu á einu sviði að gera. Ég horfi meira til þess hvort nemendur geti aðstoðað hvort annað, hvort þau geti tekið gagnrýni og hvort þau hafi í sér hæfileika til að gera betur. Ég veit nefnilega að þegar að kemur að því að vinna í "alvöru" þá skiptir þetta mestu máli. Hæfileikinn til að skína glaðast er ekki sá sem öllu máli skiptir heldur að láta birtu hópsins endast.  


Sjálfsblinda

Ég sagði við dóttur mína um daginn að hún væri einstök. Hún var fljót að benda mér á að það væri ekki hægt að vera einstakur þvi allir væru einstakir! "Já en..." svo brást mér rökræðurnar.. 

Ég legg stundum persónuleikapróf fyrir fólk. Kannski ekki ef það dettur inn í kaffi hjá mér en ef ég er að kenna þeim eða með það í ráðgjöf. Það er ótrúlega skemmtilegt að reyna að "getttta" hvernig fólk er, áður en maður leggur próf fyrir það. Stundum hef ég rétt fyrir mér en oft ekki. Allir eru einstakir.

Þegar niðurstöðurnar eru klárar og fólk sjálft fær þær er það oftast nokkuð sammála niðurstöðum. Stundum kemur fyrir að eitthvað kemur á óvart en á heildina kannast það við sjálft sig. Það sem er skemmtilegt er, hins vegar, það sem þeim finnst sjálfsagt. "Auðvitað þarf ég að hreyfa mig mikið, til að mér liði vel. Það þurfa allir að hreyfa sig til að þeim líði vel!". Ég reyni að útskýra að það séu ekki ALLIR þannig, sumir geta alveg hugsað sér að sleppa því að hreyfa sig. Þeir sem eru ekki með þennan þátt (þörf fyrir líkamlega hreyfingu) sterkan hjá sér finnst jafnvel að það sé stórhættulegt að hreyfa sig. Það fólk segir "hreyfa sig! það er of metið, þessir íþróttamenn eru allir með ónýt hné! Eða slasa sig á skíðum! Það er stórhættulegt að hreyfa sig of mikið, mér líður mun betur án þess, ég skil ekki þetta fólk sem er alltaf hlaupandi, undan hverju er það að hlaupa?"  

Þeir sem, til dæmis, mælast sterkir í því sem kallast "status", eða þörf fyrir að vera sérstakur, finnst nauðsynlegt að líta vel út og eiga falleg föt sem helst er hægt að sjá að séu dýr og sérstök. Þeir segja hluti eins og "finnst ekki öllum gaman að eiga fallega hluti? Ég held að allir séu sammála um að það sé frábært að vera á Saga klass í flugvélinni." Nei, segi ég, ekki ALLIR. Sumum finnst þetta ekki skipta neinu máli að vera sérstakur eða hafa það sem er kallað status. Það fólk klæðir sig bara í þau föt sem eru næst hendinni. Skiptir engu máli hvort það eru dýr eða fín föt, myndu aldrei fara á Saga klass í vélinni, finnst það bara of dýrt eða óþægilegt. Það fólk segir "ég skil bara ekkert í þessu snobbaða fólki sem kaupir sér dýra og fína hluti og situr á Saga klass, ég meina, allir vita að þetta er bara yfirborðslegt fólk." Nei, ekki ALLIR segi ég ...... enn og aftur!

Svona erum við einstök og alveg blind á að ALLIR séu ekki nákvæmlega eins og við. Blind á aðra, ölum börnin okkar upp í því sem ALLIR vita að skiptir máli (lesist eins og ég vil láta ala mig upp). Stjórnum fólki þannig eins og  ALLIR vilja láta stjórna sér (lesist ég vil láta stjórna mér). Göngum um heiminn og horfum á ALLA eins og við vitum hvað ALLIR vilji. Samt er hver og einn einstakur og við öll haldin sjálfsblindu.

Gaman að esssssuu.... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband