Þrælabumban
22.11.2014 | 16:48
"Æltar þú ekki að fara að vinna fljótlega" var nýbökuð móðir spurð í minni návist nýlega. Mamman var ósköp þreytuleg með með hin litlu börnin hlaupandi í kringum sig. Hún varð ennþá þreytulegri á svip. Það er eins og við séum öll með einhverja þrælabumbu sem við hlýðum á og hlýðum án þess að hugsa það lengra. Hvaða vit er í því að eiga lítil börn og þurfa að hlusta á að það sé nauðsynlegt að fara á vinnumarkaðinn - akkúrat þá? Er það ekki tíminn til að sinna og hlúa að því sem miklvægast er í þessu lífi?
Skilaboð sem við tökum inn, sem mikilvæg, einhvern tímann á lísleiðinni eru til dæmis:
Það er heilsusamlegt og nauðsynlegt að vera grannur. Stórhættulegt að hafa aukahold utan á sér og sýnir að þú ert löt/latur eða viljalaus. Hvaðan koma þessi skilaboð? Frá lyfaframleiðandanum sem styrkti þá hugmynd að BMI væri heilbrigðisstuðull? Þessi þrælasláttur gerir okkur ginkeypt fyrir hinum og þessum misgáfulegum lausnum. Frískasta og heilbrigðasta fólkið er sátt í eigin skinni alveg sama hvað kílóin eru mörg. Það að vera laus við að láta segja sér hvað maður á að borða er frelsi frá þrælabumbunni.
Að nauðsynlegt sé að ná árangri á vinnumarkaði (meika það) áður en maður verður þrítugur, eða fertugur! Segir hver? Það eru ótal margir sem ná miklum árangri á vinnumarkað eftir fimmtugt þegar önnur stór verkefnum lífsins eru léttari - eins og barnauppeldi.
Að það sé nauðsynlegt að vera alltaf jákvæður og glaður. Þeir sem þjást fá oft þau skilaboð að þeir eigi að "líta á björtu hliðina á málinu" helst strax. Lífið er stundum svo erfitt og þá er mun betra að fá stuðning í erfiðleikunum heldur en að fá þau skilaðboð að það sé óeðliegt að vera leiður eða dapur.
Að það sé sérstekt fólk sem sé geðveikt. Bull og vitleysa við verðum öll einhvern tímann geðveik, bara mismunandi mikið og sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir.
Að það sé nauðsynlegt að vera alltaf að. Bara alltaf. Helgar eigi að vera fylltar með dagskrá. Sumum finnst það gott en öðrum ekki. Stundum er best að gera ekki neitt, bara ekki neitt.
Að vísindi séu alltaf sönn. Við þurfum ekki annað en að fylgjast með vísindalegri umræðu í einhvern tíma til að vita að nýjar rannsóknir kollvalta stöðugt gömlum. Gagnrýnin hugsun er mikilvægt. Við eigum að halda í heilbrigða skynsemi.
Að halda að þegar maður sýnir fólki lítisvirðingu, á netinu eða annars staðar, þá stækki maður sjálfan sig. Það eltir alltaf skottið á sér - alltaf.
Að trúa því að frægð, peningar, völd og eignir séu ákjósanlegasti mælikvarði á hamingju. Það hefur ekkert með hamingju að gera. Allt of margir höndla það illa og verða græðgin að bráð. Innri sátt er eftirsóknaverðust.
Nú er ég hætt í bili - gæti haldið áfram. En það er líka stórhættulegt að trúa því að aðventan, jólin og hátíðir séu betri ef maður er sveittur við að þóknast öðrum. Aldeils ekki, það er bara þrælabumban - ekki ætla ég að dansa eftir henni þessa aðventuna. Bara njóta, njóta og njóta mín og annarra. Ekki síst annarra því sambönd okkar við aðra eru besta fjárfestingin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heppni
27.10.2014 | 10:54
"Hún er svo heppin...", smá öfundarglampa brá fyrir í augum hennar um leið og hún sagði "ég meina hún hefur allt!". Ég hugsaði með mér að sú sem um væri rætt hefði líka undirbúið sig vel og haft mikið fyrir því að "hafa allt." Hvað sem það nú þýðir.
það er svo auðvelt að falla í þá freistingu að finnast allir aðrir hafa mun minna fyrir lífinu, að finnast sem maður sjálfur þurfi að sigla endalausan öldusjó. Sérstaklega þegar maður getur ekki sofnað og hugsanaspírallinn spinnur sig niður í dý sjálfsvorkunnar.
Ég skrifaði bók um vongott fólk (Móti hækkandi sól. Virkjaðu kraft vonar og heppni í lífi þínu - fæst í betri búðum...) sem kom út árið 2006. Þegar ég var að kynna bókina fékk ég fágætt tækifæri til að ræða við fólk um heppni. Þeir sem töldu sig heppna gátu sagt endalausar sögur um heppni sína. Uppáhaldssagan mín er að konunni sem datt á hálkubungu fyrir utan búð en maður sem var staddur þar á sama tíma greip hana - og svo giftu þau sig í framhaldinu. Ekki samt sama dag en seinna. Sögur af fólki sem fann ástina á ólíklegustu stöðum, draumavinnuna, draumahúsið, "datt" inn í heppnina (sumir bókstaflega). En ég heyrði líka annars konar sögur, sögur af fólki sem fannst það alltaf hafa verið óheppið og fann ekkert í lífi sínu sem það týnt til sem heppni. Oft sat það fólk soldið hokið og fannst allt sem ég hafði að segja algjörlega óþolandi og vitlaust. Rannsóknir á heppni sýna að fólk sem telur sig vera heppið er það oftast (sjálfssprottin örlög.) Heppnir einstaklingar eru líka opnir, forvitnir, tilbúnir til að reyna nýja hluti og styðja aðra - og ekki síst undirbúðið!
Móttó mitt í lífinu, síðan ég skoðaði þetta málefni ofan kjölin er: Heppni er þar sem undirbúningur og tækifæri mætast. Þegar maður leitar að tækifærum og veit hvað maður vill þá er maður með græna fingur. þeir sem planta niður að hausti vita að það koma blóm að vori en þeir sem ekki planta neinu í sinn garð geta ekki gert ráð fyrir blómum að vori.
Það gagnar lítið að horfa öfundaraugum á aðra, maður verður að horfa í spegilinn og undirbúa sig, undirbúia jarðvegin og hafa grænar fingur í lífinu. Auðvelt er að detta í sjálfsvorkunardý af og til, við gerum það öll, en ekki dvelja þar, það er svo myrkt. Grænir fingur vonarinnar leiða oft til ansi fallegra blóma lífsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Litríkur vetur framundan
20.10.2014 | 10:08
"Hún hatar mig", ég leit ekki upp úr blaðinu enda orðin jafn vön þessum yfirlýsingum eins og rigningunni. "Af herju segir þú það, elskan?". Hún leit á mig tárvotum augum, "hún horfði þannig á mig". Áður en ég gat svarað heyrði ég að hún var komin í símann að tala við þá sem hataði hana. Ég lauk við greinina. Eftir stutta stund kom tátan skoppandi inn í eldhús aftur, "má ég fara í sund með vinkonu minni?" Það var eins og sólinn hefði brotist út úr skýjunum á ný. Hún er í upphafi fyrra kynþroskaskeiðs. Ég er á upphafi seinna kynþroskaskeiðs. Þetta verður litríkur vetur.
Nýlega fórum við að versla og það endað með því að við báðar grétum - ekki spyrja mig hvernig það gerðist en einhvern vegin svona var sagan. Hún vildi kaupa svona, ég vildi að hún keypti hinssegin. Hún vildi fara í þessa búð en ég vildi fara í aðra. Ég stóð á garginu og hún grét, ég grét yfir að standa á garginu... Ég veit! Karlmennirnir á heimilinu skilja oft ekkert í okkur, hvorki sá litli né stóri. Þeir klóra sér í hausnum og eru farnir að forða sér ef tárin spretta fram eða ef ég er farin að roðna of hratt.
Það skemmtilega við þessi lífsskeið okkar er að við erum að breytast. Líkamar okkar eru að breytast, tllfinningar, andlega líðan og umhverfi. Hún speglar sig í umhverfinu, vinkonunum, skólasystkinum en ég spegla mig í speglinum, bæði hinum innri spegli og ytri. Sá ytri er ekkert að ljúga að mér, það hjálpar að vera farin að sjá soldið illa. Hin innri spegill er erfiðari því ég stend mig að því að vera í stöðugri endurskoðun sem er bæði gott og slæmt.
Lífið er stöðugt að breytast, það er skrárra að flæða með breytingunum en forðast þær því eins og forn-Grikkinn Plutarch sagði þá leiða örlögin þann áfram sem fylgir þeim en draga þann sem streitast á móti. Við mæðgurnar flæðum í átt að nýju lífsskeiði saman og þeir sem eru ekki eins dramatískir í fjölskyldunni halda okkur á floti. Það skemmtilega við að vera kona er að það er sjaldan tíðindalaust á hormónavígstöðunum. Þannig að það er bara best að njóta þess, fljóta með og sjá kraftaverkin sem gerast á hverjum degi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gefðu, til að að ná árangri
14.10.2014 | 09:12
Ert þú knúin áfram af því að gera samfélagið betri? Að þjóna samborgurum þínum? Að vilja láta gott af þér leiða?
Samkvæmt rannsóknum Adams Grant ná þeir sem gefa meiri árangri en aðrir, í lífi og starfi. Hann skiptir fólk í þrennt; í fyrsta lagi þeir sem gefa, í öðru lagi þeir sem taka og í þriðja lagi þeir sem eru þar á milli (e. matchers). Gjöfula fólkið gefur af tíma sínum og peningum, hjálpar öðrum, leggur sig fram um að styðja við og aðstoða samferðafólk. Þeir sem taka er hægt að þekkja á því að í vinnunni "kyssa þeir uppá við en sparka niður á við". Þeir hugsa fyrst og fremst "hvernig get ég skarað að minni eigin köku." Þeir stela hugmyndum annarra og velja þau verkefni sem beinir jákvæðu kastljósi að þeim sjálfum. Milli hópurinn gefur þegar þeir eiga von á að greiðinn verði endurgoldin. Meta eftir aðstæðum hverju sinni hvort það "borgi sig" að vera gjöfulir.
Gefandi fólk er ekki bara efst í fyrirtækjum heldur líka neðst. Galdurinn felst í því að huga nægilega vel að sjálfum sér til að geta gefið, setja sér mörk og þekkja sín eigin takmörk. Þeir sem taka, taka líka mikla orku frá umhverfinu. Þeir ná oft miklum árangri fyrst í starfi eða fyrst á starfsævi sinni en síðan falla þeir því bæði millihópurinn og aðrir í þeirra eigin hópi vilja ekki sjá þá sigra. Til þess að ná því markmiði að hegna þeim, sem taka, notar fólk ýmsar aðferðir eins og slúður og baknag. Hinir sem gefa af því einfaldlega að þeim líður þannig best ná því árangri til langs tíma litið. Þetta á við um sölufólk, verkfræðinga, hjúkrunarfólk, kennara og svo virðist sem flestar starfsstéttir. En fólk er oft ekki meðvitað um áhrif sín fyrr en eftir mörg ár, einsog kennarar. Segjum gömlu kennurunum okkar hvað þau skiptu miklu máli, fyrir þau börn sem nú eru hjá þeim.
Það sem gjöfula fólkið þarf að hafa í huga er að sjá árangur starfa sinna á þá sem þeir þjóna. Þeir þurfa líka að huga að tímanum sem þeir gefa öðrum til að þeirra eigin störf, eða heilsa, líði ekki fyrir. Annars er hætta á kulnum í starfi.
Þessar rannsóknir eru afar mikilvægar - þeir sem hingað til að hafa verið hræddir við að vera of mjúkir eða of væmnir geta nú rétt úr bakinu og horft langt fram á vegin. Ömmur og afar sem vilja gefa næstu kynslóðum gott veganesti, athygli og tíma þurfa líka að huga vel að sjálfum sér. Til að byggja betra samfélag þurfum við á sterkri eldri kynslóð að halda sem heldur vel utan um ungviðið því þannig hlúum við að að rótunum.
Ekki vera hrædd/ur við að láta góðvild þína dreifa sér um víða veröld. Réttu hjálparhönd og þú nærð árangri sem skiptir máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Munaður og unaður, í dagsins önn
6.10.2014 | 09:21
Margir líta á október mánuð sem meistaramánuð en í mínum huga er hann mánuður munaðar og unaðar. Þetta er afmælismánuðrinn minn og eftir því sem ég verð eldri þá hef ég betur gert mér grein fyrir hvað það er mikill munaður að fá eitt ár í viðbót.
Það sem ég hef nú þegar gert er að m.a. að fara á tónleika, í leikhús og sund. Ég leyfði mér þann unað að sitja lengi, lengi einn laugardag á bókarkaffihúsi - sem er hreinn munaður í mínum huga. Eftir að hafa lesið mér til um helstu tískustrauma kom ég heim og fór inn í fataskápinn minn og náði í allt sem glitrar (konan er alin upp á diskótímabilinu svo það má finna ýmislegt). Ég mátaði en var rekin jafnharðan úr af dætrum mínum sem sögðu mig ekki mjög smart, þrátt fyrir að tískublöðin hvöttu til nýrrar "metal" byltingar. "Oh jæja.." það er algjör munaður að eiga dætur sem sem segja manni til (sex ára sonurinn segir reyndar ennþá með aðdáunarsvip "mamma þú ert svooooo fín.." alveg sama hvað ég fer í, um að gera að njóta þess á meðan það stendur).
Ég synti og lá í heita pottinum þangað til ég var komin með rúsinuputta, það var algjör unaðar! Ég talaði fram á nótt við vinkonu mína um lífið og tilveruna, það var hreinn munaður. Hélt veislu þar sem við borðuðum ekta íslenskt lambalæri með skyrköku í eftirrétt - algjör unaðar. Aðra þar sem við pöntuðum pizzur og drukkum gott rauðvín með, ummmmm... gott, gott. Svaf fram að hádegi einn laugardagsmorgun og sofnaði aftur eftir hádegi, gerði svo akkúrat ekki neitt - mæli með því. Fór í vikunni og bauð skemmtilegum konum með mér á uppáhaldskaffihús þar sem fæst besta súkkulaðikaka bæjarins. Algjör munaður!
Labbaði eftir Ægisíðu í brjáluðu veðri þar sem sjórinn öskraði að mér - þvílík orka og algjörlega dásamlegt. Horfði á uppáhaldssjónvarps þáttinn minn, þessi norski sem lýkur í kvöld, það er munaður að hlakka til (ég er ekki enn farin að dónlóta - svo munaðurinn felst í að bíða og hlakka til í heila viku). Ég keypti mér fallegan kjól sem er algjörlega fabílös, það er unaður að vera í honum og bara horfa á hann í skápnum, munaður! Ég gef mér tíma til að labba eins oft og ég get heim með sex ára guttanum og nýt þess að svara spurningum um allt milli himins og jarðar, það er unaður.
Það er gott að setja sér meistaramánaðar markmið en það er líka bráðnauðsynlegt að njóta! Bara njóta! Setja sér markmið um að njóta og gera vel við sig í einn mánuð. Einu sinni var það unaðsvika hjá mér - þá viku em ég á afmæli en núna er það mánuðrinn allur og svo verður það árið allt. Ég á enn eftir að leyfa mér töluverðan munað enda er mikið eftir af mánuðnum. Búin að skrá mig á námskeið, og í nudd og mun án efa finna einhvað nýtt eftir því sem dagarnir fyllast af unaði. Það er svo unaðslegt að vera á lífi akkurat núna og þetta er svo dásamlegur tími til að leyfa sér allra handa munað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sársauki og árangur
29.9.2014 | 13:01
Þegar ég var lítil dreymdi mig um að verða óperusöngkona. Ég sá búningana í hillingu og að standa á sviði með þessum karlmannlegu og fallegu söngvurum. Ég lét mig dreyma um að standa á sviði í stóru leikhúsi. Ég var í barnakór og átti ömmu sem var óperusöngkona - það var u.þ.b. það eina sem nærði þennan draum. Söngnám kom ekki til greina og í hreinskilni sagt þá lagði ég ekki það á mig sem þurfti til. Ég var ekki tilbúin til að vinna fyrir skólagjöldum, hvað þá að fara í prufur og ganga á milli staða. Erfiða og leggja á mig fyrir þennan draum kom eiginlega ekki til greina. Það er sagt að það taki 10.000 klukkutíma að verða vikrilega góður í einhverju, ég komst varla í 100 og varð þess vegna ekki óperusöngkona.
Mig langar reglulega að komast í súpergott líkamlegt form en ég hef aldrei verið tilbúin til að leggja það á mig sem þarf til. Maður þarf nefnilega að mæta í ræktina, allt árið, marga klukktuíma og neita sér um þann mat sem ekki situr vel á skrokknum. Súpermódel þurfa að takast á við endalausa höfnun, borða næstum ekki neitt og vera tilbúin að standa í marga klukkutíma veseni (ímyndiði ykkur að standa við Jökulárslón t.d í marga klukkutíma í sömu stellingu...). Leikarar verða að takast á við að koma sér á framfæri og þola mikla gagnrýni, vinna á kvöldin og um helgar þegar allir aðrir eru í fríi og fara reglulega frá fjölskyldu sinni vegna vinnu. Þeir geta ekki kosið að mæta ekki í vinnu þegar þeim líður illa. Sýningin verður að halda áfram sýningagestir eru búnir að kaupa miða.
Hljómsveitarmeðlimir sem vilja ná árangri í samkeppninni, þurfa að æfa sig á hverjum degi og vera tilbúnir til að sitja í illa lyktandi rútum á "túrum". Allt fyrir þessar mínútur sem þeir eru á sviði. Forstjórar þurfa oftast að sætta sig við félagslega einangrun frá vinnuhópnum því þeir getur ekki verið vinur allra lengur þegar þeir eru eru með stjórnartaumana. Forstjórar taka mikla ábyrgð og vinna mjög mikið, mörg kvöld og helgar. Þurfa oft að ferðast mikið og sitja marga leiðilega fundi. Íþróttamenn þurfa æfa sig á hverjum degi, líka þegar vont er veður eða þegar þeim er illt alls staðar, svei mér þá, ég þekki ekki afreksíþróttamenn sem ekki er oftast illt einhversstaðar.
Til þess að takast á við þennan sársauka og þjáningu til að verða góður í einhverju þá er mikilvægt að gera upp við sig fyrir hvað fólk er tilbúin til að fórna? Ástríða hjálpar, eldmóður kyndir undir og samhjálp er góð en á endanum er þetta alltaf samt í manns eigin hendi. Líka þegar það er vont veður og mann langar ekki.
Núna þegar ég horfi á góða óperusöngvara þá dáist ég að seiglunni og úthaldinu. Tíu þúsund undirbúningsklukkustundunum sem sjást ekki á sýningunni. Tárunum, svitanum og blóðinu sem fór í að gera líkama þeirra að þeim dásemdar hljóðfærum sem gleðja okkur hin.
Það er alveg sama hvað fólk gerir vel, frábærlega vel - þannig gleður það okkur hin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Valdamestar á sextugsaldri
22.9.2014 | 09:20
Tímaritið Fortune birtir árlega lista yfir fimmtíu valdamestu konurnar í viðskiptalífi heimsins. Þarna er konum raðað upp eftir völdum en sú sem er í fyrsta sæti árið 2013 er Ginni Rometty forstjóri IBM, þá fimmtíu og sex ára. Það er ýmislegt áhugavert við þennan lista.
Meðalaldur þeirra kvenna sem eru á listanum árið 2013 er fimmtíu og þriggja ára en árið 1998 var hann fjörtíu og átta ára. Þetta er í samræmi við almenna þróun á vinnumarkaði.
Mörgum konum sem ég hef hitt finnst sem þær verði verðlausari á vinnumarkaði eftir fimmtugt en það þarf ekki að vera svo. Ef maður heldur áfram að vinna af elju og forvitni, byggja upp starfsferill sinn og leggja hart að sér eru þau ár oft gullin á vinnumarkaði.
Önnur skemmtileg þróun er að konur á fimmtugsaldri eru líklegri til að yfirgefa hefðbundin stórfyrirtæki og stofna sín eigin, samkvæmt bandarískum rannsóknum. En fyrirtækjabragur í bandarískum fyrirtækjum getur verið ansi harður í samanburði við íslenskan. Stutt frí og unnið lengi fram eftir ásamt því að gert er ráð fyrir að fólk fylgi reglum fyrirtækisins, bæði formlegum og óformlegum. Eitt skemmtilegt dæmi sem ég las um í rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við konur sem höfðu farið úr stórum fyrirtækjum og stofnað sitt eigið var um konu á sextugsaldri sem hafði þetta að segja: "Ég nennti þessu ekki, það var bannað að vera með hatt í vinnunni svo ég hætti bara og stofnaði hattabúð."
Á heldina litið virðist sem sagt seinna kynþroskaskeið kvenna eða breytingaldurinn verða til þess að valdefla þær - bæði til valda og breytinga. Ekki leiðilegt að eiga þetta eftir en sem betur fer má ég vera með hatt í vinnunni minni, ef ég vill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ertu í nánu sambandi?
11.9.2014 | 19:57
Það samband sem er mikilvægast er samband manns við sjálfan sig. Maður verður að þola sinn eigin félagsskap lífið á enda og þá er eins gott að maður sé eitthvað áhugaverður! Ekki satt? Alla vega eru þeir sem eru í góðu, nánu sambandi við sjálfa/n sig hamingjusamari og ná betri tökum á lífinu og samskiptum við aðra.
Hvort það samband er náið, eða ekki, kemur meðal annars fram í því hvernig maður kemur fram við sjálfan sig. Hversu vel maður þolir einveruna, hvert maður fer með sig og hvernig maður fer með sig.
Stundum á ég í mjög góðu sambandi við sjálfa mig. Ég bíð mér upp á að heimsækja söfn og lesa góðar bækur, gera það sem mér finnst skemmtilegt. Steinþegja í marga klukkutíma og gera ekki neitt. Algjör unaður, að gera ekki neitt. Ég legg fallega á borð og kveiki á kertum, elda dásemdarmat og nýt einverunnar þegar hún býðst. Ég læt eftir mér að skoða fallega hluti og fara út að labba og á í áhugaverðum samræðum innra með mér þar sem ég leysi flókin vandamál lífsins. Ég næ því að vera nokkuð sátt, jákvæð og uppbyggjandi gagnvart mínu fólki þegar samband mitt er gott við sjálfa mig.
Stundum fer ég hrikalega með mig. Vinn, mér til húðar, er þreytt og pirruð, gríp í það næsta, tek að mér allof mörg verkefni. Horfi hugsanalaust á sjónvarpið, eyði of miklum tíma á netinu eða á í innihaldlausum samskiptum. Á enga stund fyrir sjálfa mig, of mikill hávaði í umhverfinu og innra með mér. Oftast verð ég líka hundleiðileg gagnvart þeim sem mér eru nánastir - á þessum tímabilum, þar sem ég er ekki í nánum sambandi við mig.
Við getum verið náin okkur sjálfum á erfiðum jafnt sem góðum stundum. Bara smá daður við okkur sjálf getur gert kraftaverk. Pínku sjálfsdekur sem felst í því að gera eitthvað gott, uppbyggilegt og unaðslegt fyrir mikilvægustu manneskjuna í lífi þínu. Þarf ekki að vera flókið. Heitt bað með góðri bók getur alveg verið málið. Meira að segja það að fara út að hlaupa getur verið akkúrat það sem maður þarf á að halda (ekki hélt ég nú að ég myndi segja þetta...).
Í nánum samböndum er mikilvægt að láta ekki vanann ná tökum sér. Þess vegna er um að gera að prófa sig áfram og gera eitthvað nýtt og framandi með sjálfum sér - og öðrum. Nándin og það að vera áhugaverður er það sem skiptir máli, hvort sem er á náttbuxunum, hlaupabuxunum eða bara í vinnudressinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Varðveittu regluna og hún varðveitir þig
3.9.2014 | 13:06
Nú er runnin upp uppáhaldsárstími minn, haustið. Ég er svo heppin að starfa við það að taka vð nýjum nemendum á hverju hausti. Það er alveg ótrúlegt að ég virðist alltaf fá skemmtilega og gefandi einstaklinga sem miðla svo miklu til mín, í mín námskeið. Lyktin af nýopnaðri bók, strokleðri og blýant minnir mig á nýtt upphaf, nýjar væntingar og nýja drauma.
Í tímum hjá mér nota nemendur ekki tölvur og er það hluti af átaki mínu um að þau - og ég, geri eitthvað nýtt. Þau halda dagbók allt misserið og í morgun spurði einn nemandi mig með spurn í augum "áttu þá við að við eigum að handskrifa í dagbókina?" Þið hefðuð átt að sjá svipinn á þessum nemanda þegar ég svaraði játandi. Handskrifa!
Ég útskýrði að þetta misserið værum við að prófa okkur áfram með nýjar venjur vegna þess að til að læra stjórnun er ekki bara nóg að kunna fræðin. Menntun er einn lykil að því að ná árangri en menntun snýr ekki bara að því að lesa um aðferðir heldur að prófa sig áfram. Við ákváðum að prófa að skrifa dagbók (eða ég þvingaði það fram...), hugleiða (frjálst val), lesa nýtt efni, hlusta á fólk, prófa að gera eitthvað nýtt í hverri viku sem eykur jákvæðni (samkvæmt rannsóknum) og að vera nokkuð opin. Svona eins og er hægt, maður getur ekki alltaf verið jákvæður.
Þannig er haustið tækifæri til þess að koma nýjum venjum að. Til þess að venjur verði að reglu þarf að æfa þær (óþolandi staðreynd). Það er þannig að ef maður varðveitir regluna, þá varðveitur hún mann. Flestir, til dæmis, fara aldrei að sofa nema tannbusta sig en leiða sjaldan hugan að þeirri reglu. Margir horfa/hlusta alltaf á fréttir á sama tíma án þess að velta því sérstaklega fyrir sér. Ef maður ætlar að taka upp nýjar venjur eins og að skrifa í dagbók er best að gera það alltaf á sama tíma dagsins þá hættir maður að velta því fyrir sér og sést niður á "autómatinu".
Hvað langar þig að byrja á að gera þetta haustið? Hvaða litla eða stóra atriði myndi gera líf þitt svo miklu betra? Misserið okkar eru þréttan vikur, í Félagsvísindadeild HÍ, og ég legg áherslu á það við nemendur að við erum að gera tilraun sem við metum eftir 13 vikur hvort ber árangur. Ég veit að sumir nemendur munu til dæmis finnast dagbókaskrif bjarga geðheilsunni meðan aðrir eru þeirri stundu fegnastir þegar þeim líkur. En án þess að prófa veit maður ekki.
Hvað langar þig að prófa? Byrjaðu bara nú er rétti tíminn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fáum við þá að sjá homma og lesbíur?
9.8.2014 | 19:50
Sex ára sonur minn var nokkuð spenntur að fara í gönguna í dag. Hann vildi fá að sjá hommana og lesbíurnar í göngunni. Við stóðum og nutum þess að horfa á litríka og stolta fánabera ganga og hjóla hjá. Við hittum systur hans sem gékk stolt með pöbbunum sínum, þau gáfu okkur rósir. Við hittum föðursystur hans og hennar konu og börn og nokkra vini. Eftir nokkra stund sneri hann sér að mér og spurði "hvar eru hommarnir og lesbíurnar?
Í hans huga voru þetta bara fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra. Honum finnst jafn eðilegt að fara til pabba stóru systur sinnar og tilkynna að hann sé svangur eins og að borða hér heima. Þegar honum er sagt að hann eigi ekki heima þar, segir hann, að hann eigi það víst því stóra systir hans eigi líka heima þar. Hann meira segja grunar að þeir séu líka pabbar hans. Hann á líka ömmur og afa hennar með henni. Hann sér ekki að það sé neitt öðruvísi þegar frænka hans og frændi koma með mæðrum sínum. Spyr ekki einu sinni - ekkert merkilegt við það, bara tvær mömmur. En hvar eru "hommarnir og lesbíurnar?" - Eitthvað mystískt við það sem hann kannast ekki við.
Þegar systir hans steig á svið og söng fyrir hundrað þúsund manns í dag sló stolt móðurhjartað örar. Ég fann líka fyrir stolti yfir því hvað mikið hefur unnist í baráttu samkynhneigðra. Mér var hugsað til systur minnar sem elskaði bæði karla og konur. Til vinar míns sem kom út úr skápnum fyrir þrjátíu árum. Til mágkonu minnar og fyrrverandi sambýlismans sem kom út úr skápnum fyrir næstum tveimur áratugum. Þá var það stærra mál en nú og ég sá ekki fyrir að dóttir okkar myndi einn daginn standa á sviði með hinum pabba sínum og syngja gleði og frelsissöng. "Ég er eins og ég er..". Mikið er dásamlegt að allir geti verið eins og þeir eru og þó að maður viti ekki nákvæmlega hvernig hommar og lesbíur líta út þegar maður er sex ára. Þá er það bara vegna þess að maður notar ekki nein orð yfir það sem er jafn hversdagslegt og pabbarnir og mömmurnar í kringum mann. Þau eru bara fjölskylda manns sem manni þykir hæsta hversdagslegt að tilkynna að maður sé svangur og ætlast til að fá að borða hjá.
Við erum rík að eiga hinsegin fjölskyldu - eða er hún hinsegin? Kannski er hún bara ósköp venjuleg nútímafjölskylda sem reynir að hlúa saman að ungviðinu og fylgjast að í lífinu. Göngum saman í gegnum lífið í kærleiks- og gleðigöngu og erum öll eins og við erum.
Til hamingju með daginn hommar og lesbíur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)