Bitastæð hlutverk

Það er fátt sem jafnast á við pólitísk plott að mínu mati, nema þá helst að lenda í því, en sem sjónvarps- og lestraefni fæ ég seint nóg. House of Cards með Robin Wright gleður og svo ég tali nú ekki um Borgen með Sidste Barbett Knutsen í hlutverki danska forsætisráðherrans. Ég hefði kosið Birgitte, anytime.

Það sem kemst helst næst pólitísku plotti eru breskir og danskir sakamálaþættir. Ég hef setið sveitt af spenningi yfir Sofíu Graböl í Forbrydelsen, stjörf yfir Sofíu Helin í Brúnni og órótt yfir Gilian Anderson í the Fall. Hin gráhærða ömmulega Miss Marple með Joan Hickson er gamalt uppáhald og Helen Mirren í Prime Suspect var óborganleg. Uppáhaldið mitt er þó Vera Stanhope sem Brenda Blethin leikur snilldarlega.

Allar þessar konur eru svo hráar, djúpar og ótrúlega skemmtilega samsettar. Þær stjórna af hörku og svífast einskins en eru um leið svo viðkvæmar og undur kvenlegar.

Þær eiga það líka sameiginlegt að vera komnar vel yfir fertugt, sumar mun eldri. Þær tala um sambönd sín og kynlíf eins og í Scott og Bailey þar sem þær ræða nýjustu vandræðin í rúminu áður en þær brjótast inn til vondu kallana. Þær hrista uppp í hlutunum og eru töff. Hvenær fáum við íslenska valkyrju á breytingaskeiði sem geysist fram á sjónvarpsvöllinn í pólitík og sakamálum þannig að maður haldi sér i sófann með annað augað í pung?

Það er nefnilega þannig að við konur á þessum afar skemmtilega aldri erum stór, stór, stór neytendahópur sem vill eiga sér útrás í töff lögreglukonum sem bjarga heiminum. 


Hvernig vinnustað viltu vinna á?

Vinnustaðir hafa "sál" þrátt fyrir að margur stjórnendagúrúin hafi gert heilmikið í því að taka sálina  úr fyrirtækjamenningunni. Gæðastjórnun, verkferlar, "Lean" stjórnun, stimpilklukkur og mælingar eru svo sem góð og gild, en sálarlaus verkfæri út af fyrir sig.

Er til dæmis rétt að segja að það eigi að taka 10 mínútur að baða "gamalt" fólk, að læknaviðtal eigi að vera 10 mínútur eða að staðlaðar bekkjastærðir séu allar eins? Er rétt að starfsmannaviðtal með frammistöðuumræðu eigi að fara fram einu sinni á ári? Er gott að fullfrískt fólk hætti að vinna 70 ára? Eða að umræðan snúist um hvað maður eigi "rétt" á mörgum veikindadögum? Er rétt að setja upp eftirlitsmyndavélar? Eða tala um störf fólks þannig að ekkert mál sé að "fá sér unga og graða stjórnendur". Er rétt að flytja fólk milli byggðarlaga án samráðs við það? 

Á vinnustaðurinn að einkennast af eftirliti? Mælingum á því sem miður fer - eða á hann að einkennast af mannúð, hjarta, sál og samhyggð? Eiga stjórnendur að fá himinháar upphæðir fyrir störf sín en aðrir ekki að vita af því? Á að meta árangur vinnustaðar ársfjórðungslega eftir vexti eða eftir því hvort fólki líði vel og nái árangri. Má ekki leika sér á vinnustaðnum? 

Konum í stjórnunarstöðum er sérstaklega hætt við streitu samkvæmt rannsóknum, næstum 40% aukin hætta á hjartasjúkdómum og 60% meiri líkur á sykursýki. Á undanförum áratugum hafa rannsóknir sýnt að konur telja að steita hafi aukist (bandarískar rannsóknir en ég geri ráð fyrir að þær eigi við hér á landi líka). Ég held að hluti af skýringunni séu sálarlausir vinnustaðir þar sem stjórnendur líta á starfsfólk eins og vélar sem þurfi að smyrja "rétt" til þess að ná sem mest út úr þeim. Allir tapa á endanum á því. 

Hvernig vinnustað viljum við vinna á? Ég held að við viljum flest vinna á vinnustað með sál þar sem umhverfið er fallegt og reynt er að horfa á hvað við gerum vel en ekki hvað við gerum ekki vel. Hvað má betur fara út frá manneskjunni en ekki tímaplaninu. Það getur nefnilega tekið 20 mínútur að baða einn en 5 mínútur að baða annann. Manneskjan er ekki vél heldur hefur hún sál sem blómstar ef umhverfi og aðstæður styðja rétt við hana. 


Ekki gaman að vera rík og ein

Það eru oft áhugaverðar umræður sem eiga sér stað í gamla Volvonum mínum sérstaklega þegar yngstu meðlimir fjölskyldunnar eru með. Eftir að hafa næstum rignt niður í götuna, bara við það að fara á milli húsa í gær, ákváðum við að fara á bókakaffi.

"Heyrðu mamma, allar konurnar sem eru frægar eru mjóar.." Þar kom að því að mér væri bent pent á að ég yrði ekki fræg með þessu áframhaldi. Ég hugsaði mig um og svaraði um hæl "Ekki Oprah, hún er ekki mjó og hún er mjög fræg og mjög rík" bætti ég við. Þau hugsuðu sig um í smá stund og svo kom stóri dómur "Hún er ekki beint feit en ekki heldur mjó en er hún rík? Varð hún rík af því bara að tala við fólk." Það fannst þeim merkilegt.

Ég tjáði þeim að hún væri ein af ríkustu konum heims. "Nautssss, á hún börn?" Þar sem ég barðist við að snúa bílnum á Hverfisgötunni sagði ég þeim að hún ætti ekki börn. "Ég vona að hún eigi mann, sagði þá annað þeirra hugsandi". Ég gat létt á spennunni og sagði þeim að hún ætti þennan fína mann hann Stedman. "Það er eins gott." Heyrðist þá í þeim. Ég kváði, "Já, það er ekkert gaman að vera ríkur og vera einn."

Síðan lékum við okkur í leiknum, ef þú værir ríkur hvað myndir þú þá gera. Næstum ellefu ára skvísan sagðist ætla að setja upp gæludýrahús þar sem öll dýrin eru vinir (ég ælta ekki í heimsókn) en sjö ára snáðinn sagðist ætla að kaupa hús fyrir mig.

Börn eru bæði vitur og með skýr gildi. Það er ekkert gaman að vera ríkur og vera einn um það. Rannsóknir sýna að til að öðlast hamingju er maður betur settur með að fjárfesta í nánum samskipturm.  Það er líka algjörlega nauðsynlegt að hugsa vel um mömmu sína - ef maður skyldi komast í álnir og hús (til dæmis í Flórída, Balí eða Ástralíu miðaða við veðurfar hér) kemur sér oft vel. Já og flestar frægar konur eru mjóar ... enda er ásókn í frægð - well, bara efni á annan pistil.

Lifið heil - það er hægt að rækta fjölskyldu og vinskap í vondu veðri enda ekkert betra að gera við tímann þangað til drengurinn vex upp og kaupir hús á suðlægum slóðum.


Að taka sig alvarlega..

"Þessi kennari getur ekki ætlast til að hún sé tekin alvarlega.." Ég sat með kennsluumatið fyrir framan mig, fyrstu viðbrögð, eins og venjulega voru að hugsa hvernig ég gæti skipt um vinnu. Fjórum sinnum á ári fáum við háskólakennarar kennslumat sem er nafnlaust og því geta nemendur sett fram skoðanir sínar frjálst og án ábyrgðar. Í ár hafði ég fengið nokkuð góða dóma, svona yfirhöfuð en svo koma alltaf þessar athugasemdir sem fylgja manni eins og vond lykt allann daginn sem maður les þau. "Alvarlega.." ha? 

Ég hef oft áður fengið þessa athugasemd, bæði í kennslumati og öðru og stundum hefur mér fundist að ég ætti að taka sjálfa mig mun alvarlega en svo á ég erfitt með að koma því í verk. Flest allir sem ég dáist að taka sig nefnilega hvorki hátíðlega né alvarlega. Lífið sjálft er svo oft allt of alvarlegt. 

Hvert tilefni, hver dagur sem gefst til þess að vera maður sjálfur er gjöf í sjálfu sér. Sumir eru alvarlegir og svo dásamlega hátíðlegir og það er þeirra karakter. Ég þekki svona fólk sem stekkur sjaldan eða næstum aldrei bros en hafa samt svo góða nærveru að manni líður eins og malandi köttur í nærveru þeirra. Þeir eru ekkert að þykjast - bara eru svona. Svo eru manneskjur eins og ég og amma mín heitin (ég fæ þetta þaðan, get ekkert að þessu gert..) sem gleymum okkur og segjum eitthvað sem við áttum alls ekki að segja.. Eða hlægjum of hátt og gerum grín að því sem á helst ekki að gera grín að.. Trúið mér, ég hef lent í ýmsum pínlegum aðstæðum. 

Kennslumat er reyndar frábær aðferð til að þróa námið. En það er alltaf jafn erfitt að takast á við sumar athugasemdir. Ég er reyndar hætt að fá athugasemdir eins og "stelpan er nokkuð glúrin..(eitthvað með aldur að gera)" Ekki nóg með að háskólakennarar fái mat á frammistöðu sína í kennslu fjórum sinnum á ári (alla vega í HÍ) heldur sendum við jafnan út greinar sem eru settar í jafningamat og allir fá einhvern tímann höfnum á þeim. Talandi um alvarleika!  Ég ætti kannski að taka það alvarlega að skipta um vinnu! 

 


Ómótstæðilegir karlmenn

"Ég tek ekki þann slag." Minn heittelskaði horfði á mig með uppgjöf í augum. "Hvað meinar þú?" Svaraði ég, "það verður allt vitlaust!". Hann leit á mig áhyggjufullur. Slagurinn stendur um að fara út á land á laugardagskvöld þar sem er ekki sjónvarp. Allir sem eiga börn á aldrinum 5-15 ára vita að það er mikilvægt að horfa saman á úrslitakvöld söngvakeppninnar. "Er ekki hægt að fá pung? (ég átti nú við tölvupung svo það sé á hreinu...)". "Ég tek ekki sénsinn..". Þetta er maður sem vílar ekki fyrir sér að vippa sér upp á þak, stjórna mannvirkjagerðum, gera upp hús og híbýli og almennt séð standa fyrir máli sínu. En þarna játaði hann sig sigraðan.

Sama dag kom í kaffi, einn frændinn sem var á sjó mest allann sinn starfsferil. Hann lagði sixpensarann á eldhúsborðið og við fengum okkur kaffi. Ræddum um dagana á sjó, þegar hann var stundum allt að 60 daga á sjó, út á ballarhafi, "það var erfitt", sagði hann og leit út um gluggann. Ég spurði hann hvort hann hefði ekki einhvern tímann verið hræddur í vondum veðrum, hann leit á mig "hræddur! ég var alltaf skíthræddur, hangandi í köðlunum eða þegar maður hoppaði upp úr kojunum í veltingnum." Nú, sagði ég hissa og spurði af hverju hann hefði þá verið svona lengi. Hann leit á mig eins og ég væri frá annarri plánetu, "nú maður hafði ekkert val, varð að sjá fyrir sínum."

Ég verð að segja að ég tek ofan hattinn minn fyrir körlum þessa lands, og annarra, þeir eru flestir hvundagshetjur sem á hverjum degi gera sitt fyrir fjölskyldur sínar og aðra. Þeir fara á sjó, byggja brýr og vegi, eru í tollinum (þar er pabbi minn) og láta sig hafa það. 

Ég fór á Þorrablót um daginn og þar kom karl einn til mín og sagði mér að ég væri búin að eyðileggja konuna hans. "Hvað segir þú?" "Já, hún kom heim af námskeiði hjá þér og sagði mér að hún væri ómótstæðileg og að núna þyrftum við að tala saman. Síðan hefur hún ekki hætt að tala!" Annar karl sem þetta heyrði leit á mig "getur þú ekki styrkt okkur karlana? Konurnar eru hvort sem er að taka allt yfir.." Ég gat ekki annað en hlegið og fór svo hugsandi út í nóttina eftir skemmtilegt kvöld. Um leið og ég labbaði fram hjá manninum sem átti eyðilögðu konuna hvíslaði hann að mér "mér hefur alltaf fundist hún ómótstæðileg."

Mér finnst líka karlar ómótstæðilegir, þeir bjarga, vinna, laga, sinna og eru almennt dásamlegir. Alltaf þegar ég þarf á því að halda hugsa ég til handa afa míns heitins sem gat strokið burt alla slæma hluti með því að strjúka mér um vangann. Eða pabbi sem vann stundum á þremur stöðum til að sjá fyrir okkur. Tengdapabbar og afar, bræður og frændur, vinir og vandamenn. Samstarfsfélagar sem vilja leggja sig fram og eru tilbúnir til að takast á við erfiðar aðstæður. Þessir menn eru ómótstæðilegir og maður getur ekki annað en dáðst að þeim og notið þess að hafa þá í kringum sig. 

Ætli ég verði ekki að horfa á söngvakeppnina á laugardagskvöldið, ekki með (tölvu)pung en með tjallinn hrjótandi og krakkana spennta. Síðan tökum við slaginn um hvað megi hringja oft og þá mun ég ráða!


Hugrekki

Hver dagur býr yfir nýjum möguleikum en það þarf hugrekki til að nýta þá. Þegar maður hugsar um hugrekki kemur oft upp í hugan lífshættulegar aðstæður þar sem einhver kastar sér fyrir bíl til að bjarga öðrum eða eitthvað álíka. En það þarf að æfa hugrekki á degi hverjum til að lifa lífinu til fullnustu. Hugrekki til að horfast í augu við erfiðar aðstæður. Hugrekki til að takast á við sársauka lífsins. Höfnun, fátækt, depurð og þungar hugsanir. Hugrekki til að deyja í sumum aðstæðum. Hugrekki til að lifa. Hugrekki til að segja eitthvað í aðstæðum sem eru óþolandi. Hugrekki til að horfast í augu við sannleikann. Það sem dregur úr hugrekki er innri gangrýnandi okkar.

Allir hafa innri rödd sem dregur úr þeim. Allir upplifa hávært innra rifrildri af og til þar sem hugsanir eins og "þú er fífl að láta þér detta þetta í hug. Þú ert vanhæf/ur, þetta á aldrei eftir að takast. Þú átt eftir að verað að athlægi. Hvernig dettur þér þetta í hug.."

Allir - líka þeir sem njóta velgegni, hafa innri gagnrýnanda. Svo virðist sem þessar innri raddir þjóni þeim tilgangi að verja okkur fyrir sársauka (eins og það sé hægt) en það sem nauðsynlegt er að vita er það þarf hugrekki til að heyra í innri gagnrýnanda sínum og taka EKKI mark á honum.

Eitt dæmi um konu sem hefur náð miklum árangri er Cherry Murray sem er deildarforseti verkfræðideildar Harvard háskóla. Hún hefur á ferli sínum leitt vísindastarf Hjá Bell í Bandríkjunum. Hefur skrifað yfir sjötíu ritrýndar vísindagreinar, hlotið æðstu viðurkenningar sem vísindamaður og setið í yfir áttatíu stjórnum. Þegar hún er spurð hvort henni finnist hún stundum ekki vera nógu hæf, svarar hún: "Mér líður alltaf þannig að ég sé ekki nógu hæf." En greinilegt er að hún hefur ekki látið það stoppa sig.

Margir listamenn hafa sterkan innri gagnrýnanda, eins og einn rithöfundur lýsti: Mér finnst í fyrsta lagi að fólk muni hlægja að mér í öðru lagi að einhver sé búin að segja allt þetta áður. Í þriðja lagi að ég hafi ekkert að segja, í fjórða lagi að einhver sem mér þykir vænt um verði sár og í fimmta lagi að hugmyndin muni aldrei blómstra.

Ég hvet þig til að hafa hugrekki til að hlusta EKKI á innri gagnrýnanda þinn - þetta er allt í hausnum og allir upplifa þetta. Þinn innri gagnrýnandi á marga samstarfsmenn.  Til að æfa hugrekki á degi hverjum þarf maður að heyra í innri gagnrýnanda og gera samt. Eða gera það sem maður er hræddur við. Gera það sem þarf að gera á hverjum degi til að verða hugrakkari. Hver dagur býr yfir nýjum möguleikum til að sýna hugrekki.

Ég ætla að gera febrúar að hugrekkis-boot campi! Vertu með - gerðu það sem gera þarf með hugrekki og brostu bara þegar rifrildið fer af stað í hausnum á þér. Eftir því sem það verður háværara því nær ertu að æfa þig í hugrekki.   


Vorveiki

"þú ert alltaf svo ömurlega jákvæð", sagði ein við mig um daginn. Ég hef ekki þorað að blogga síðan. Er búin að hugsa lengi um hvað ég eigi að segja sem sé alvarlegt, neikvætt og þrungið þungri merkingu. Dettur ekkert í hug, en í gær þá fór ég að hugsa um vorið.

Það er náttúrulega ekki nógu alvarlegt og neikvætt að hugsa um vorið, en ég gerði það samt. Ég fór að hugsa hvað það munar miklu um hverja mínútu sem við höfum af birtunni. Það alvarlega í stöðunni er að ég hef alltaf verið haustkerling, ég nýt þess þegar birtu tekur að dvína á haustin og ég get aftur kveikt á kertum. Lyktin af nýjum bókum og haust tískan o.s.frv.

Núna, með hverju árinu, er ég orðin vorveik áður en ég veit af er ég farin að gleðjast yfir hækkandi sól. Hvert merki um vor á Íslandi er ákvaflega veik. Þegar ég bjó í Bretlandi byrjuðu trén að blómstra í mars, dásamleg vorsjón. En birtan maður minn birtan er engu lík á Íslandi. Hún smýgur inn í sál og likama og áður en maður veit er maður allur svo glaður að innan og hugsanir um sumarið, græn tún og sól kræla á sér. Ég held ég sé að eldast, man hvað ömmu og afa þótti vænt um vorið.

Ég var næstum dottin á hausinn í hálkunni í gær, hugsandi um vorið og birtuna og öll svona glöð að innan en ég mun þó reyna mitt ítrasta til að vera soldið alvarlegri í framtíðinni.


Kynþokki fyrr og nú

Það hefur þótt vera upphefð í því, í gegnum tíðina, að vera Bond stúlkan. James Bond mundar gallkaldur byssuna, hrist Martíní-ið og stúlkuna jöfnum höndum. Þær hafa hingað til verið ungar, og vaxtalag þeirra í samræmi við tíðaranda hverju sinni.  

Bond er töffari sem svífst einskins við njóstnastörfin og Bond stúlkurnar eru alltaf þokkagyðjur sem hrífast á endanum af Bond. Allt frá árinu 1962 hafa þær verið kynþokkafyllstu leikkonur samtímans. Nýjasta þokkagyðja Bond er fimmtíu ára gömul ítölsk leikkona. Ég hlakka til að sjá hana heilla Bond upp úr skónum. Í fyrsta sinn er Bond, sem sagt, að daðra við jafnöldru sína, en sá sem leikur hann Daníel Craig er reyndar ekki alveg orðin fimmtugur, en nálgast það.

Kvikmyndir endurspegla samtímann, eru spegill sem við getum mátað það sem er "inn" hverju sinni. Bond hefur áhrif á hvernig karlmennska er skilgreind, hverju sinni (bílinn, græjurnar, útlitið og taktarnir..). Það er enginn tilviljun að sú sem tálgregur Bond karlinn sé fimmtug - því bæði konur og karlar eru einfaldlega "ung" eða öllu heldur kynþokkafull lengur - allt fram til 100. ára! Maður þarf ekki annað en að horfa í augun á ölduðum kynþokkafullum manni til að sjá hvaðan kynþokkinn sprettur: úr sálinni og andanum sem er síungur.

Uppáhaldsleikarinn minn í Bond er Judi Dench, hún lék M í 17. ár í 7. myndum, en hún er hætt núna vegna þess að þetta er nóg. Ekki vegna aldurs, hún er að verða áttatíu ára, heldur vegna þess að henni fannst áskorunin ekki næg. Í nýju viðtalið við hana er fyrirsögnin "Retire? It´s the rudest word in my dictionary" eða: Starfslok eru dónalegsta orðið í minni orðabók!

Jane Fonda, fædd 1937, er sexý og töff, kannski verður hún næsta Bond stúlka þegar Bond sjálfur er orðin eldri og komin í seinni hálfleik!

Þetta eru svo skemmtilegir tímar að lifa og fjölbreytileikinn í því sem er kynþokkafullt hefur aldrei verið meiri. Hver hefði til dæmis látið sér detta í hug að unga kynslóðin hugsaði sér fátt kynþokkafyllra en rass? Þar er ekki Martíni-ið hrist heldur bossinn ... oh well, hverjum finnst sinn fugl fagur! Hver kynslóð hristir eitthvað, alla vega :-)

 


Innri og ytri ástandsskoðun á áramótum

Þá árið er senn á enda og aldrei kemur það aftur. Ég fæ alltaf smá fiðring í magann á þessum tíma, bæði vegna of mikillar súkkulaðineyslu en líka svona spennu/kvíða tilfinningu. Nýtt ár, ný tækirfæri, árleg innri og ytri ástandsskoðun fer fram og áramótaheit í kjölfarið. Ég reyni að minna mig á að:

Það er ekki hægt að stytta sér leið í lífinu!

Það er ekki hægt að grenna sig um tuttugu kíló í janúar (ég er búin að prófa allar leiðir til þess..) á nýju ári, hætta að reykja og drekka áfengi og byrja í kross-fit - allt á sama tíma. Betra að dreifa þessu á allt næsta ár og best að gera það með samþykki og væntumþykju.

Öfund er eyðandi, nema maður nýti hana til sjálfskoðunar, og reiði og hatur er eins og að gleypa eitur og vona að aðilinn sem maður hatar detti niður dauður!

Besta áramótaheitið er ekki byggt á öðrum heldur en manni sjálfum (ekki, ég ætla að vera skipulögð eins og Gugga frænka sem ég hef alltaf öfundað af skipulagshæfninni). Hæfnin til að samgleðjast öðrum er mun líklegri til að gefa af sér. Besta áramótaheitið er því að samgleðjast alltaf öllum! Líka þegar manni langar sjálfum og hefur ekki tekist! Samgleðjast alltaf öllum! Líka þeim sem manni líkar illa við! Samgleðjast öllum - alltaf á árinu 2015!

Við vöknum öll stundum með ljótuna!

Við lifum á tímum þess að setja fram okkar besta andlit, þ.e. við byggjum upp ímynd á Twitter, Facebook, Instagram en þar setjum við ekki fram ljótuna. Þar eru við full sjálfstrausts og lífsgleði, en við bara vöknum með ljótuna af og til og lífið er ömurlegt og svart. Það er líka allt í lagi. Líf án depurðar, þunglyndis, leiða og ónota væri eins og regnbogi án dekkri lita. Eina sem er ekki í lagi er að halda að allir hinir séu glaðir, hamingjusamir og fallegir og fullir sjálfstrausts - alltaf! Á nýju ári set ég áramótaheit um að vera enn betri við sjálfa mig þegar ljótan bankar upp á. 

Vinir, makar og fjölskyldur styrkja ónæmiskerfið!

Náin vinur er eins og vítamínsprauta fyrir líkama og sál. Ræktum sambönd okkar á nýju ári og uppskeran er betri og heilbrigðari heili og hjarta. 

Fjárfestu á réttan máta!

Nánd, hreyfing, ný ævintýri, að prófa sig áfram, lærdómur, menntun, ferðalög, lestur. Samvera, markmiðasetning, áhugamál, gróðursetning, sparnaður, kynlíf, listir, söngur, tengjast náttúrunni, virk hlustun, innsæi. Allt þetta og meira til er gott að gera áramótaheit um. Ég er að vinna í því með óskaspjaldi og markmiðasetningu.

Svo mikið veit ég að árið 2015 mun færa þér og mér góðar stundir, gleði, tár, hindranir og hamingju. Það eru forréttindi að vera á lífi, um að gera að njóta þess.

Gleðilegt nýtt ævintýra ár, ég óska þér alls hins besta sem lífið hefur upp á að bjóða á því gullna ári 2015.


Jólahefðir

Ég horfði á börnin mín, "eigum við kannski að breyta til?". Þau litu á mig eins og ég hefði misst þessar fáu sellur sem af og til virka í hausnum á mér. "Nei, við breytum ekki!! Við það situr. Á jólum má engu breyta! Allt á að vera eins, alveg eins og áður.

Ég les allra handa ráðleggingar um hvernig á að þola fjölskylduna um jólin (amerískt) hvernig á að sameina, börn, stjúpbörn, hálfbörn, barnabörn og ný og gömul börn (danskt) og get ekki annað en brosað svona þrýstinnar miðaldrakonubrosi. Hvað er málið? Maður bara gerir sitt besta til að njóta þeirra sem í kringum mann eru. Það eru alltaf einhverjir óþolandi hvort sem er og ég veit ekki betur heldur en ég sé það sjálf, reglulega (svo segja yngri börnin). En samt ef maður er svo heppin að eiga fjölskyldu, nú þá liggur í augum uppi að jólin eru tími til að njóta þeirra halda öllu eins og það á að vera, í hvert skipti. Stundum hefur vantað einhern, á mínum jólum, sem hefur verið hluti af jólahaldinu áður. Þegar fólk hefur kvatt þessa jarðvist, eða vegna skilnaðar, eða fólk er erlendis. Í þeim tilfellum höfum við sem sitjum saman á jólum reynt að minnast þessa einstaklinga með þakklæti og hlýju og stundum sorgar en haldið okkur við þær hefðir sem hægt er að halda. Því þrátt fyrir allt er lífið stöðugt að breytast. En samt viljum við halda í hefðirnar!

Hefðir eru til þess að gefa fólki öryggistilfinningu. Það er, til dæmis, einfaldlega hefð fyrir því að rífast, á mínu heimili, rétt áður en farið er út í bíl til ömmu og afa á aðfangadag. Það geta allir gengið að því sem vísu. Oftast um að fara ekki nógu snemma af stað en stundum um jólaséríur sem undirritaðri finnst vanta á húsið. Hefð fyrir vondri skötulykt á þorláksmessu, hefð fyrir að finna ekki jólatré því allir hinir sem er skipulagðir eru löngu búnir að kaupa sér þau. Hefð fyrir að kaupa eina jólagjöf á aðfangadag í stresskasti því maður átti hana eftir og hefð fyrir að pakka henni inn rétt áður en henni er skutlað undir tréð áður en byrjað er að taka upp. Hefð fyrir því að yngsta barnið sem kann að lesa, lesi á jólapakka og hefð fyrir því að afi sé lengi að taka upp.

Á heildna litið hefð fyrir að allt sé eins og það á að vera. Stundum hefur maður búið til nýjar hefðir sem vinda upp á sig og verða að áratugahefð. Ein jólin fannst mér sniðugt að búa til jóladagatal þar sem miði er hengdur í 24 daga með einhverju sem við gerum saman. Núna, nokkrum árum seinna, ætlaði ég að sleppa en þá kröfðu börnin mig ströng á svip um að þetta væri "alltaf svona á jólum!". 

... mikið verður gaman þá, gaman þá... um að gera að halda sig við hefðirnar en hafa bak við eyrað að lífið er alltaf að breytast. Fólkið sem er með okkur hverju sinni er akkúrat fólkið okkar. Hafa svo í huga að það er hefð fyrir því að maður sé soldið óþolandi á jólum (kannski er það sykurvíman... sykur er víst eitur..). 

Ps það er bannað að setja upp jólatré fyrr en á þorláksmessukvöld og nauðsynlegt að rífast soldið yfir því! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband