Þú þarft ekki að vera framúrskarandi...
30.9.2015 | 11:27
Ég græt alltaf á útskriftum, mér finnst eitthvað svo hjartnæmt að ljúka við verkefni sem tekið hefur tíma og útheimt heilmikla fyrirhöfn. Dagurinn sem maður getur sagt við sjálfan sig, sjáðu fjallið þarna fór ég .... Mér finnst svo skemmtilegt að byrja á verkefnum að stundum á ég erfitt með að klára þau. Þegar það gerist safnast oft fyrir spenna sem lýsir sér sem "... ohhh.. ég á eftir að ... verð að ..." Sem er allt í lagi út af fyrir sig en ef of mörk verkefni eru í loftinu þá finn ég fyrir því hvernig streitan eltir mig á röndum eins og ljón á eftir bráð sinni.
Það er miklu betra að ganga í verkin en að eiga þau eftir. Þegar nýjasta bók mín, Tapað, fundið, kom út í vor var tilfinningin góð. Þrátt fyrir að það væri gott að ljúka verki þá var það ekki besti hluti vegferðarinnar því skemmtilegasti hlutinn af verkefninu voru skrifin sjálf. Þá er ég í esssinu mínu, í flæðinu og gleymi öllu öðru og nýt þess að vera - bara vera. Ef ég hins vegar lyki aldrei við verkið á myndi sú tilfinning á endanum ekki endast.
Allt of margir sem eru í námi, til dæmis, ljúka ekki við rigerðina, hafa lokið öllu nema því að skrifa ritgerðina! Hvernig líður því fólki þegar það hugsar um námið sem það var í næstum tíu árum seinna? Með gleði? Þakklæti? Nei, oftast eins og það sé ljón á hælunum á því. Ljón sem heitir ég-á-ennþá-eftir-að-skila-ritgerðinni-fokk! hélv... fokking, fokk.
Einu sinni heyrði ég í fjallgöngukonu tala sem sagði að það sem fólk gleymdi oftast væri undirbúningurinn fyrir ferðina niður eftir að fjallatindinum hefur verið náð. Þá er nefnilega helmingur af ferðinni eftir og fólk er dauðþreytt og búið með kikkið á tindinum! þessi kona hafði farið á Evrest svo hún veit hvað hún talar um. Þannig eru verkefni almennt það er svo gaman að byrja og þá er maður fullur af eldmóði en svo kemur þessi leiðindamiðja (ekki að það sé leiðilegt á fjalltoppum) og maður á eftir að gera allt þetta leiðilega sem felst í því að ná markinu. Taka til þegar maður flytur þá eru síðustu þrifin raun sem aldrei ætlar að ljúka, litlu atriðin í rigerðinni, heimildaskráin og allt það sem þarf að laga - ömurlegt. En að láta það hindra sig í að komast í mark er sorglegt. Bara drífa sig af stað því "þú þarf ekki að vera framúrskrandi til að byrja. En til þess að skara fram úr verður þú að byrja" (Apago).
Nú ætla ég að byrja á því sem ég er að skrifa sem ég frestaði með því að skrifa blogg....
Bloggar | Breytt 5.10.2015 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Töfrar
16.9.2015 | 21:24
Ég var að koma úr töfrandi göngurtúr við Ægisíðu. Það var eins og skaparinn hefði ákveðið að gefa okkur alla þá fallegustu liti sem hægt var að finna. Himinn og haf voru sem töfrandi teppi, appelsínugulir, bleikir, fjölubláir og allar víddir bláar blöstu við og augnablikið varð töfrandi. Allt í einu sem ég gékk uppnumin heyrði ég fiðlutóna og leit hissa í kringum mig. Við hafflötin stóð ung kona og spilaði á fiðlu fyrir sig og sígandi kvöldssólina. Ég varð sem steinrunninn og stalst til að eiga augnablikið með henni, tónarnir dönsuðu á haffletinum og til mín. Þarna stóð hún svo falleg og stolt með fiðluna sína og eitt augnablik blikkaði ég augnunum til að vita hvort hún væri huldumey en það var sama hvað ég blikkaði hún stóð þarna ennþá og himinn og haf voru hennar tónleikasalur. Ég tók þessa stund með mér og þakkaði henni í hljóði fyrir tónleikana.
Hversdagurinn er hlaðin töfrum. Hver dagur bíður upp á kraftaverk af ýmsu tagi. Í gær bjó ég til töfrandi kjötsúpu (mjög auðmjúk) hún lék við tungubrodda fjölskyldunnar.
Daginn þar á undan las ég töfrandi greinar um og eftir Oliver Sacks taugalíffræðing sem féll frá 30.ágúst síðastlíðin. Hann var töfrandi manneskja sem með lífsstarfi sínu varpaði ljósi á svo margt sem afvega getur farið í heilastarfsemi okkar. Á sama tíma var hann sjálfur svo mannlegur, fullur af ástríki og ástríðu. Sagnamaður mikill, greinar hans í New Yorker þar sem hann segir af miklu æðruleysi frá hugsunum sínum síðustu dagana á jörðinni ættu að vera skyldulesning. Í einni slíkri talar hann um að það sé líklega gott að halda hvíldardaginn heilagan, en hann var alin upp í Gyðingatrú en sagði sig frá henni þegar mamma hans fordæmdi kynhneigð hans, en á síðustu dögum sínum rifjar hann upp hefðir barnæskunnar. Lokaorð hans eru að nú áttatíu og tveggja ára á síðustu stundum sínum gerði hann sér grein fyrir að með því að ljá lífi sínu merkingu og hafa fundið tilgang sinn geti hann haldið á vit feðra sinna til að hvílast og þess vegna séu hvíldardagar líklega góður siður. Til að minna sig á í gegnum lífið. Þetta var töfrandi lesning sem vakti mig til umhugsunar en ein af bókum hans heitir einmitt: Awakening!
Það eru svo töfrandi að vera á lífi ef við bara opnum augu okkar fyrir því hversdagslega - svo er Bach líka ágætlega töfrandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kastaðu því..
9.9.2015 | 14:23
Eins og góðri húsmóðir sæmir þá nýtti ég sumarið í gagngera tiltekt. Ég flokkaði, kastaði, gaf og losaði mig við. Fór með marga svarta ruslapoka í Rauða kross kasssana, setti annað til þeirra sem vildu eiga og lét hitt í ruslið.
Einn kassinn sem ég fór í gegnum var með fötum sem voru um tuttugu ára gömul - svona "ég kemst í þau bráðum föt..!" Ég er búin að burðast með þennan kassa milli margra húsa, íbúða og staða sem ég hef búin á síðustu áratugina. Talandi um að ríghalda í eitthvað! Ég lét líka gömlu styttuna sem ein frænka mín gaf mér þegar ég var sautján ára, fara. Mér fannst þessi stytta aldrei falleg en af því að mér hafði verið gefin hún þá var hefur hún fylgt mér síðan.
Það er góð tilfinning að horfa inn í hvítan, tóman, skápin og byrja að flokka aftur inn það sem ég ætla að eiga áfram.
Í kjölfarið hef ég líka verið að flokka viðhorf mín, hugsanir og framkvæmdir. Það er ekkert pláss lengur fyrir "ég get ekki sært þennan eða hin og þess vegna held ég aftur af mér eða hef eitthvað í kringum mig sem mér líkar ekki við (eins og svartar styttur)". Núna vel ég af kostgæfni það sem fyllir mig andagift eða lífgar upp á umhverfið. Verandi soldið ýkt þá fór ég og keypti sex tegundir af blómum.... því núna vel ég að blómstra.
Viðhorfið: "ég geri það seinna" fór á haugana. Núna set ég inn í viðhorfaskápinn, "ég geri það fljótlega, ef það er mikilvægt." Ég nenni ekki lengur að burðast með að ég þurfi að líta út á einhvern máta en á sama tíma að hugsa betur um hvað hentar mér - aðaltjéllingunni í mínu lífi. Ég hef burðast með hugsanavillur í marga áratugi sem ég nú reyni að kasta út, eins og "það er vont að mistakast." Ég kastaði því og set inn "mistök sýna að ég er að þroskast, bravó mon cheri." Það er of langur listi að fara yfir hér hvað þarf að kasta en ég er að vinna í því.
Ég held áfram að flokka og henda hlutum af sjálfri mér svona til að sjá hverju á að halda (alveg ótrúlegt drasl þarna innra með manni). Ég mæli með því þrátt fyrir að vera ekki sjálf með á hreinu hvað verður. Ekki frekar en hvaða flíkur eiga eftir að fylla plássið sem myndaðist í skápnum mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kjarni málsins
19.8.2015 | 10:36
".. þegar endalaust áreiti skellur á okkur daglega er mikilvægt að geta kjarnað sig." Ég lá upp í rúmi í gærkvöldi með æpaddinn minn og las þessar línur í þrjátíu ára gamalli bók. Ég lagði hana frá mér í augnablik og hugsaði um það sem hafði breyst síðan þá. Internetið sjálft var ekki komin í almenna notkun, samfélagsmiðlar, snjallsímar, tölvupóstar og annað sem núna tengir okkur við hvert annað allann sólarhringinn ekki heldur. Talandi um að kjarna sig!
En hver er kjarninn í okkur? Er hægt að finna hann mitt í öllu "þarf að vera, gera, framleiða, slá í gegn fyrir tuttugu og fimm ára aldurinn annars er ég búin að vera..". Er kannski dýrðleg þögn á undanhaldi, bæði ytri og innri?
Í fyrirtækjarekstri er nú að eiga sér stað merkilegur umsnúningur, hægt og bítandi eru leiðtogar að uppgötva að til þess að ná meiri árangri þá skiptir máli að fólk sé á staðnum. Að vera á staðnum snýst ekki lengur um að þú farir í vinnuna á ákveðin stað frá 9-17 heldur getur þú verið hvar sem er en með höfuðið "á staðnum" til að vinna verkefnin vel! Sköpunargleði, vellíðan og takturinn í verkefnum ræðst af því að fólk geti náð til kjarnans í sér. Eins og Adriana Huffington, ein af fremstu viðskiptakonum heims sem stofnaði Huffington Post segir "það sem vantar í viðskiptum er ekki hærri greindarvísitala heldur meiri viska." Við þetta bæta margir leiðtogagúrúar að í dýrðlegri þögn sé þar sem visku er að finna.
Ástæðan fyrir því að Ebay, google, Nike, LinkIN, Apple of fleiri fyrirtæki eru nú að leggja áherslu á "Mindful leadership" er nauðsyn þess að kjarna sig til að vinna betur og ekki síst líða betur.
Eftir þrjátíu ár verða einhverjir sem spyrja sig undrandi, var það í alvöru þannig að í fyrirtækjum var einungis verið að fókusera á samkeppni en ekki samkennd? Í alvöru?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Leti hefur sína kosti.
17.7.2015 | 12:02
Ég stend mig að því að finnast ég eigi að gera eitthvað sniðugt á sumrin. Garðvinna, veiðar, fjallaferðir, og golf - eða bara hlaupa Laugarveginn, allt svo fjallaleiðina, vera í miðnæturhlaupum og hestaferðum. En undanfarið hefur mig bara langað að gera ekki neitt. Bara akkúrat ekki neitt. Helst liggja bara upp í sófa og góna eða sitja úti og spjalla. Ég hef reynt að berja á mér en ekkert gengur, það gerist ekkert annað en að ég færi mig úr einum sófa í annann. Ég reyni að hlaupa einn sprett en svo áður en ég veit af er ég farin að tölta rólega og vill helst setjast við á eða læk og stara í árfarvegin. Þetta er ekkert angur bara svona meira sumarleti.
Nú vill svo til að ég gær fékk ég góða ástæðu til að sætta mig við þetta ástand því ég las grein um að rannsóknir í taugalífeðlisfræði sýndu fram á að það væri gott og hollt fyrir heilann að gera ekki neitt! Þar sem ég sat á kaffihúsinu og gerði ekki neitt annað en að lesa blöð og drekka kaffi með dóttur minni þá lyftist brúnin á mér. Ég er sem sagt að stunda heilbrigt líf með þessari iðju :-). Greininn benti á að þegar maður er alltaf tengdur með því að hafa stöðugt símann á sér með öllum sínum skyldum og samfélagsmiðlum þá er maður ekki að gera ekki neitt. Maður gerir sem sagt ekki neitt með því að hanga bara, bara hanga án alls áreitis.
Sumarið er tíminn til að gera allt það skemmtilega sem mann langar eins og veiða, hlaupa, ganga, hittast, finnast, týnast og lesa en líka til að gera ekki neitt... það er staðfest að það er hollt. Slökkva bara á öllu og öllum og leggjast í leti og safna orku fyrir veturinn. Mikið er ég fegin að ég las um þetta í gær og get nú leyft mér að halda þessari iðju áfram þangað til að ég hef orku til annars. Njótið sumardagana vel og vandlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vertu óþekk!
23.6.2015 | 12:24
Ég fór á skemmtilega ráðstefnu í síðustu viku sem hét WE - fjallað var um hvernig ætti að brúa kynjabilið. Ráðstefnan var pökkuð með skemmtilegum og fróðlegum innleggum og það var gaman að vera hluti af henni.
Eitt ráð til kvenna sem vilja ná árangri var oftar endurtekið en annað - Vertu óþekk!, ekki láta stjórnast af öðrum, hættu að gera öðrum til geðs og láttu ekki strákana ráða öllu, olbogaðu þig áfram vegin.
Þær konur sem hafa náð langt, hvort sem það er stærðfræðiprófessorinn í Standford, kvikmyndaleikonan, pólitíkusinn, skólafrumkvöðullinn eða bísness-konan höfðu allar þetta ráð að gefa ráðstefnugestum.
Þetta er í samræmi við niðurstöður rannsókna minna á kvenleiðtogum á Íslandi, í grein sem ber heitið "Ein af strákunum" reifa ég niðurstöður mínar en þær eru að konur sem ná miklum árangri á vinnumarkaði eru oftast óhræddar við að gera mistök, óhræddar við átök og þora að olboga sig áfram. Hins vegar er það þannig að þegar þær starfa einar með eingöngu körlum þá upplifa þær sig þurfa að falla að gildum þeirra og verða því "ein af strákunum". Á ráðstefnunni kom fram að þegar kona er ein í stjórn breytir hún miklu (og eingöngu ef hún er óþekk...) ef það eru tvær þá lagast það en þrjár eru það sem kallað er "critical mass" eða þá fara gildi, viðhorf og menning að breytast.
Það er algjörlega ofmetið að vera góða stelpan og reyna að geðjast öllum og greinilega ekki líklegt til árangurs. En það er ekki nóg að vera óþekk, konur þurfa líka að prófa og mistakast til að byggja upp þol. Prófa að fara í framboð, prófa að sækjast eftir hærri launum, prófa að reyna að fá stöðuhækkun eða draumastarfið. Prófa að skipta um hlutverk og prófa að fara langt út fyrir sinn þægindaramma. Því þegar maður venst því að maður getur ekki unnið alla leikina og heldur samt áfram þá er maður á réttri braut. Stundum vinnur maður og stundum tapar maður en það þarf alltaf að standa upp aftur og busta buxurnar og bara halda áfram.
Gott sumar til að vera óþekkur núna :-)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
U-kúrfa lífsánægju
28.5.2015 | 09:10
Konan horfði á mig löngunaraugum "Ertu alveg viss?" spurðu hún svo aftur. Ég hikaði aðeins en leit svo á hana og sagði allt benda til þess að lífsánægja fólks hækkaði eftir aldri. Ég fékk smá fiðring í maga þegar hún gékk léttstígari burtu því rannsóknir miðaðst við meðalmanninn og normalkúrfuna en allar líkur eru þó á að þetta eigi við.
Hagfræðingar (af öllum) hafa bæst við hóp sérfræðinga sem hafa komist að því að lífsánægja fólks er minnst um miðjan aldur. Nákvæmlega er hún minnst þegar fólk er 46 ára - þannig að ef þú ert 45 ára getur þú lagst undir sæng.... Þetta er aldurinn þar sem fólk vaknar upp og hugsar "er þetta allt?" búin að reyna að koma sér áfram í vinnunni en samt eru alltaf einhverjir sem eru framar. Búin að eiga börnin og nú frekjast þau í manni, búin að kaupa bílin, íbúðina og vasann, búin að gifta sig, endurnýja og ... einn daginn vaknar fólk og hugsar "get ég ekki bara flutt til Brazelíu á laun og byrjað upp á nýtt.." Svo virðist sem þetta eigi við um allar manneskjur hvar sem þær búa á jarðkringlunni og bæði kynin. Á þessu lífskskeiði eykst neysla þunglyndislyfja og svefnlyfja.
Það sem er gott að vita er að lífsánægja er U-laga, þ.e. hún vex með aldri. Hún er lægst á miðjum aldri en vex síðan eftir það (almennt). Eða eins og einn nemandi minn sagði "þetta er svona happy ending" Lífsánægja þeirra sem eru komnir á efri ár er því mun meiri en þeirra sem eru á miðjum aldri. Það er virðist vera tilgangur með þessari deppu á miðjum aldri. Kannski er tilgangurinn að við endurskoðum og tökum til í tilverunni áður en við höldum áfram inn í næsta lífskeið. Nauðsynleg endurfæðing inn í nýja tíma á eigin forsendum.
Í grein sem fjallaði um þetta var sagt að fólk vaknaði á miðjum aldri og hugsaði "er þetta allt" en tíu árum seinna vaknaði það og hugsaði "þetta er allt og ég fíla það (æ lof it)." Þannig að ef þú ert á þessu tímabili núna - bíddu bara einn daginn muntu vakna og hugsa "ég fíla líf mitt í botn.."
Konan á námskeiðinu hjá mér, sem ég talaði um í upphafði, hafði nefnilega haldið að hún væri að verða rugluð eftir að hafa upplifað sveiflur, þungar hugsanir, deppu og löngun til að flytja burt úr tilveru sinni. Ég sagði henni að hún gæti ekki verið meira normal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Munkurinn í flugvélinni
16.5.2015 | 11:35
"Ferðalög eru til þess að maður kunni betur að meta sitt eigið föðurland.." sagði hann um leið og hann bauð mér samlokuna sína. Hann settist við hliðina á mér í flugvélinni, við vorum bæði á leið til Portugal, hann í síðum appelsínu gulum kirtli en ég í rósóttum buxum. Minn heittelskaði sofnaði fljótt mér á hægri hönd en ég var soldið forvitin um munkinn. Um leið og samlokan var borin í okkur gafst okkur tækifæri til að spjalla saman. Hann er Tékki sem er búin að vera búddamunkur í fimmtán ár. Búið í klaustrum í Bretlandi, Tælandi og núna á leið til Portúgal.
Við ræddum saman um lífið í klaustrinu og lífið yfirhöfuð. Hann sagði mér að hver þrá sem kviknaði með okkur slokknaði af sjálfu sér aftur, ég samþykkti það um leið og ég saup á hvítvíninu. Við töluðum um hugleiðslu og ég sagði honum að ég ætti í erfiðleikum með að finna tíu mínútur á dag. Hann horfði á mig og sagði að fólk færi í sturtu á hverjum degi svo það hlyti að geta hugleitt. Ég hugsaði með mér að hann ætti kannski að vera með nokkur börn, argan eiginmann og kött í kringum sig og þá myndi hann skilja mig en ég sagði ekkert, bara brosti.
Við töluðum um menningu okkar sem einkennist af "fá strax, núna". Hann sagði að maður mætti sjálfum sér þegar maður biði eftir einhverju. Þolinmæði þjálfaði mann í að skilja sig.
Daginn eftir sat ég fyrir utan kastala sem minn heittelskaði vildi skoða að innan (ég er ekki alveg þessi skoða að innan kastala týpa..) Ég settist niður og naut þess að heyra gjálfrið í sjónum, finna fyrir sólinni á andlitinu og heyra og sjá fólk af mismunandi þjóðernum. Ég sá fyrir mér portúgalskar konur bíða eftir sjómönnum sínum í gegnum aldirnar, stór og mikilfengleg skip sigla inn. Þá tók ég allt í einu eftir því að fólk gekk um með stangir þar sem það hafið fest myndavél eða síma og var að upplifa veröldina í gegnum mynd af sjálfu sér á stöng. Mér varð hugsað til munksins í flugvélinni, okkur veitir ekki af því að hitta okkur fyrir sjálf án þess að taka mynd. Ég horfði á þetta fyrirbrigði og velti fyrir mér af hverju við þurfum stöðugt að vera að taka af okkur "selfies" og hvað það þýðir.
Þá birtist annar skemmtilegur samferðaamaður og settist við hlið mér. Hann heitir Robert og er frá Mosambík, hann sagði mér að fólk í Afríku væri mun hamingjusamara en fólk á Vesturlöndum. Mér fannst það merkilegt. Þegar maður bíður þá hittir maður ekki bara sjálfan sig fyrir heldur líka nýtt fólk sem kennir manni eitthvað. Ef maður fylgist bara með sjálfum sér á stöng þá gæti maður misst af því að hitta munka og Mósambík menn.
Ég mæli með því að bíða soldið, það er ótrúlega notalegt að upplifa heiminn og hitta aðra og ekki síst sjálfan sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Veldu orð þín vel
6.5.2015 | 14:07
"Ég ætla að gera þetta að frábæru sumri", ég leit á mína sjálfstæðu, hugrökku og kláru dóttur sem sat á móti mér og varð sannfærð um að þetta verður stórkostlegt sumar í lífi okkar. Við þekkjum báðar fólk sem vonast til að þetta verði gott sumar en það er ekki það sama.
Orð eru mögnuð og bera í sér kyngikraft, það ber að velja þau vel. Raða þeim saman eins og dýrmætum djásnum. Það er til dæmis stór munur á að ætla og vona eða þurfa eða vilja. Það er líka mikil viska fólgin í því að leika sér með orðin sem maður notar um sjálfa(n) sig. Margir nefna orðin "ég er ekki þessi týpa" eða "þetta er ekki ég" en ef maður hefur ekki prófað þá getur maður ómögulega sagt til um það.
Stundum ber manni að gaumgæfa orðin betur. Ég til dæmis prófaði heitt jóga um daginn og hefði betur borið meiri virðingu fyrir orðinu "heitt" því ég gaf næstum upp öndina af hita og svita og beið eftir að tíminn væri búin svo ég kæmist út undir bert loft. Kemur kannski ekki á óvart því ég hef aldrei verið mikið fyrir hita en ég prófaði og lifði af..
Ég ætla líka að gera þetta að sumrinu sem draumar rætast: ferðalög og rómantík, bækur og göngur, horfa á sólina setjast í sæ, syngja og knúsa. Skvampa í rigningu í vestfirskum dal, skrifa, tína Gleym-mér-eiar í vönd, borða unaðslegan mat, hitta áhugavert fólk, drekka kakó á fjallstindi, rýna í eigin sál, rannsaka og grúska, klæða mig í hvítan kjól og horfa á börnin mín og kyssa karlinn. Með eldrauðan sumar varalit og réttu orðin er ekki annað hægt en að eiga himneskt sumar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reunion
27.4.2015 | 13:21
Það er eitthvað ljúft við að hitta gömlu bekkjafélaga sína aftur. Gamlar minningar vakna um leið og maður rýnir í andlit þeirra sem maður hefur ekki hitt í mörg ár. Ég er á reunion tíma núna þar sem hópar úr æskunni hittast og gera sér glaðan tíma saman.
Í bandarískum kvikmyndum er þemað í reunion myndum einhvern veginn svona: Feita, ljóta stelpan kemur í reunion tónuð og brún og allir stara uppnumdir á hana og hún vinnur prinsinn. Eða nördinn sem var strítt (það heitir víst einelti núna) kemur til baka sem milljóner (hann er strákur og þarf ekki að vera mjór og tónaður - bara að hafa meikað það..) og allir falla í stafi og hann vinnur prinsessuna.
Raunveruleikinn er allt öðruvísi en í bandarískum bíómyndum (supprise!) - allir eru pínkulítið breyttir - sérstaklega af því að liðin eru þrjátíu, fjörtíu ár og fólk finnur að það þykir soldið vænt um hvort annað af því að sérhver aðili er hluti af sögu þess. Þeim sem var strítt eru flestir búin að gera það upp með öllu hinu "verð að taka til í bakpokanum mínum" þeir sem stríddu eru líka komnir yfir bömmerinn og flestir eru búinir að átta sig á að þegar maður er unglingur að fara í gegnum "hver er ég ..?" þá miðaði maður við hópinn (sem hittist aftur í reunion-inu). Þess vegna er hópurinn svo mikilvægur sögu hvers og eins, mótunarárin og áhrifin mikil.
Unglingurinn, hélt að engum nema honum liði eins og hann, svona öðruvísi og eitthvað órótt yfir því að vera ekki alveg eins og allir hinir. Allir hinir voru bara með þetta, að mati unglingsins. Eftir öll þess ár er lífið búið að kenna manni að öllum leið þannig á unglingsárunum (bara líffræðin..) og að núna fyrst (á seinnihluta fimmtugsaldurs) er maður búin að gera sér grein fyrir því að spurning unglingsins, hver er ég? Hefur ekkert með hina að gera heldur allt með mann sjálfan. Þess vegna er reunion svona skemmtilegt og gefandi því allir hafa lagt sitt til verksins að móta hvort annað, eins og fallegt mósaík verk. Hver og einn hluti af manni sjálfum og uppvextinum en það er í höndum manns sjálfs að svara spurningunni, hver er ég? Og þá fer lífið fyrst að hefjast á manns eigin forsendum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)