Á Pálmasunnudegi
20.3.2016 | 20:42
Í hönd fer stærsta hátíð kristinnar manna. Dymbilvikan hefst í dag á Pálmasunnudegi en þá reið Jesús inn í Jersúalem og var hylltur sem konungur eða frelsari. Jesús var sá leiðtogi að hann virðist ekki hafa miklast af þessu, kannski vitandi hvað framundan var. Skírdagur er nefndur svo því á þeim degi þvoði Jesús fætur lærisveina sinna. Hann fór niður á hné og þvoði fætur þeirra sem fygldu honum. Síðan vitum við hvað gerðist - dauði og upprisa.
Það eru fáir leiðtogar sem hafa fyllt fordæmi Jesú og farið niður á hnén til að þvo fætur fylgjenda sinna, þó að við séum í betri skóm í dag. Hvílík auðmýkt og þjónusta, hvílíkt hugrekki að sýna hvað hann er berskjaldaður, rétt fyrir krossfestinguna og dauðann sjálfan.
Líklega er Jesús að sýna lærisveinum sínum takmarkalausa ást sína, meira að segja þeim sem síðar sveik hann, með þessum gjörningi. Ég er ekki guðfræðingur, en mér finnst að hann viti að dagar hans eru taldir meðal þeirra og vill skilja eftir hjá þeim kærleika og þjónustu. Gildi kristindómsins og flestra trúarbragða endurspeglast í þessari athöfn, með því að þjóna öðrum og innri gildum okkar sýnum við hvers megnug við erum jafnvel þegar við erum berskjölduð. Í bæn heilags Frans frá Assisi segir m.a. "Drottinn veittu að ég megi fremur leitast við að hugga en að vera huggaður, að skilja frekar en að vera skilinn, að elska fremur en að vera elskaður. Því með því að gleyma sjálfum mér auðnast mér að finna.."
Í dymbilviku er gert ráð fyrir að við tileinkum þessari viku kyrrð og íhugun. Annað nafn á þessari viku er kyrravika sem bendir svo á að í þessari viku "skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn."
Ég er að hugsa um að íhuga bæn Heilags Frans frá Assisi sem er alltaf á skrifborðinu mínu og vera eins hljóð og hæglát og hægt er áður en að endurfæðingunni kemur. Biðja um aðstoð til að gleyma sjálfri mér til að finna. Áður en við getum upprisið úr hverju sem er verðum við að hægja á okkur um stund. Til þess er kyrrðarvikan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lifðu lengur: Fjárfestu í nánum samböndum
25.2.2016 | 11:22
Ég verð að syngja reglulega óð til vináttunnar, fjölmargar rannsóknir hafa staðfest að vinir auka ekki bara hamingju og vellíðan heldur lengja lífið. "Traustur vinur getur gert kraftaverk" söng hljómsveitin Upplyfting einhvern tímann fyrir löngu og þar höfðu þeir rétt fyrir sér.
Þegar skoðað hvað skiptir mestu máli í lífi fólks sem lifir lengst (mjög þekkt rannsókn á yfir 700 karlmönnum í Boston sem hófst 1939) þá eru það náin sambönd. Ekki hversu ríkir, frægir eða horaðir, þeir eru heldur hversu náin sambönd þeirra eru við fjölskyldu, vini og aðra. Mesta spágildi um lífshamingju og lífslengd um fimmtugt eru hvort þeir voru í nánu sambandi við maka og fjölskyldu og vini. Náið samband við maka þýddi ekki að sambandið væri hnökralaust, aldeilis ekki, fólk getur rifist eins og hundur og köttur en samt verið náið. Þá er þögnin verri.
Þekkt er rannsókn var gerð á heilsufari fólks í bæ einum í Bandaríkjunum á sjöunda áratug aldarinnar þar sem hjarta- og æðasjúkdómar þekktust varla. Rannsakandur fóru á staðinn til að skoða málið og héldu að skýringin hlyti að vera heilbrigt matarræði og líferni en bæjarbúar voru yfirleitt af fyrstu kynslóð innflytjenda frá Ítalíu. Þeim til mikillar furðu komustu þeir að því að fólkið borðaði hefðibundin ítalskan mat, reykti og drakk vín. Hins vegar voru þau ennþá með mjög náin sambönd innbyrðis, fólk læsti ekki dyrum því nágrannar fylgdust með hver öðrum og stórfjölskyldan bjó nálægt hvort öðru. Samfélagið breyttist seinna í takt við tímann og um leið fór tíðni hjartasjúkdóma upp.
Hjartað í okkur er ekki gert til að vera eitt, það vill samhljóm. Það er fátt betra en að vera með góðum vini þar sem hjörtu slá í samhljómi og hægt er að tala um viðkvæm mál og spegla sig. Slíkar stundir eru næstum helgar því heilunin sem þeim fylgir græðir lífsins sár.
Það er gott að fjárfesta í löngum stundum með einhverjum sem manni þykir vænt um? Gera eitthvað fyrir aðra, vera til staðar, hlusta og hlægja, finna til með og taka þátt í lífi annarra. Sú fjárfesting skilar raunverulegum arði, eins og blóm sem þrífst og dafnar með góðri umhirðu. "Því stundum verður mönnum á styrka hönd þeir þurfa að fá..."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað er á "Bucket" listanum þínum?
17.2.2016 | 13:07
Eitt það skemmtilegasta sem ég veit er að haka við markmið sem ég hef sett mér. Ég fæ mikla sigurtilfinningu sem ég skola niður með þakklæti yfir að hafa getað gert það sem ég stefndi að. Í yfir áratug hef ég kennt mismunandi hópum að gera svokallaðan "Bucket" lista eða það sem ég kalla 101-lista.
Fyrsta forsenda þess að gera listann er að gera sér grein fyrir að við vitum einungis tvennt í lífinu. Í fyrsta lagi að við munum deyja og í öðru lagi vitum við ekki hvenær. þetta setur okkur þær skorður að nýta tíma okkur mjög vel. Við vitum ekki hvort við eigum annað líf fyrr en að því kemur að tékka á því en þá erum við líka farin úr þessari jarðvist.
Með það í huga skrifar maður niður - alveg upp í 101 atriði, allt sem maður vill; gera, eiginast eða verða áður en maður kveður.
Á listann eru sett markmið sem hægt er að strika út þegar þau hafa verið framkvæmd. Til dæmis að ganga á Hvannadalshnjúk (margir með það á sínum lista, ekki ég..), gefa út skáldsögu (tékk hjá mér), kaupa húsnæði á ákveðnum stað. Listinn getur verið endalaus, fara á Hornstrandir, skrifa ljóð, hlaupa maraþon, eignast barn, fara til Indlands í jógaferð eða á ljósmyndanámskeið o.s.frv.
Málið er að gera listann, viðhalda honum og setja sér ný markmið. Það er fátt meira gefandi en að setja strik yfir markmið sem hefur tekið blóð, svita og tár að ná. Þá kemur líka krafturinn til að halda áfram og ná því besta út úr þessari dýrlegu jarðvist og vonandi skilja heiminn eftir aðeins betri en þegar við komum í hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Unga fólkið að drepast úr leiðindum í vinnunni!
5.2.2016 | 18:06
Þeir sem eru fæddir u.þ.b. milli 1980 til 2000 tilheyra kynslóð sem á ensku er kölluð "millennials" eð Y-kynslóðin til aðgreiningar frá fyrri kynslóðum. Þessir einstaklingar hafa alist upp í tæknivæddari heim en nokkur önnur kynslóð og "tala" þess vegna reiprennandi "tæknísku" á öllum sviðum. Þau eru meðvitaðri um heiminn en við vorum og kunna á fjarstýringar eins og við hin kunnum á símaskífuna í gamla daga.
Þau hafa sum verið alin upp af metnaðarfullum foreldrum sem sendu þau í öll heimsins tómstundir til að skerpa þau og sýna þeim hvað þau eru sérstök. Vandamálið er að þegar þau byrja að vinna leiðist þeim sumum bara svo mikið í vinnunni, samkvæmt nýjum bandaríarískum rannsóknum.
Við erum nefnilega búin að ala þau upp við að þau séu svo sérstök en svo þegar þau koma í vinnuna þá átta þau sig á að samkeppnin er hörð og að þau eru ekki sérstakari en hver annar, þrátt fyrir að hafa fengið þau skilaboð næstum allt lífið (frá okkur foreldrunum). Þess vegna eru þau algjörlega óundirbúin fyrir gagnrýnina og höfnunina sem er hluti af hversdagslegu vinnuumhverfi. Ekki nóg með það heldur fá þau á tilfinninguna með því að horfa í kringum sig á samfélagsmiðlunum að jafnaldrar þeirra séu að "meika" það í hamingjukasti í örmyndböndum á Snapchat eða myndum á Instagram og Facebook. Það getur reynst erfitt að átta sig á að bak við ímyndina er ekki endileg sami glamúrinn og framhliðin á samfélagsmiðlum sýnir.
En fyrirtæki þurfa á unga fólkinu að halda og því er mikilvægt að stjórnendur átti sig á hvernig á að taka á móti þeim.
Við, hinir metnaðargjörnu foreldrar, ættum kannski að slaka aðeins á og gefa unga fólkinu tækifæri til að hrasa af og til. Hjálpa þeim að átta sig að setja raunhæfar væntingar um að öll störf séu þannig að stundum sé hundleiðilegt - það er partur af prógramminu.
Fyrir stjórnendur þá er nauðsynlegt að þekkja hvaðan hvati fólks sprettur til að ná að leysa úr læðingi orku þeirra sem eru orkumestir :-).
En þetta er rannsókn unnin í Ameríkunni þar sem Donald Trump bíður sig fram og einhver vill kjósa hann, svo kannski er þetta allt öðruvísi en hér. Efni í nýja rannsókn.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Áramótakveðja
30.12.2015 | 00:04
Þar sem ég sit í grænum sundlaugarlundi er fátt sem minnir á hefðbundin áramót, en ég finn á mér að þau nálgjast. Sama tilfinningin um uppgjör og nýtt upphaf rennur undan rifjum mér. Spurningar eins og: Hvernig hef ég farið með tíma minn á þessu ári sem nú er að renna sitt skeið? Smá eftirsjá krydduð með: Ó hvað tíminn líður hratt!
Um leið og ég ríf mig upp úr mistökunum og svekkelsinu þá hugsa ég um það sem tókst nokkuð vel og horfi á börnin mín og veit að hvað sem var og verður þá eru þau alla vega svo fullkomin, nákvæmlega eins og þau eru, svo eitthvað tókst vel til.
Þá kemur að því að horfa á næsta ár með tilhlökkun þess sem er alltaf tilbúin að gera smá fleiri mistök.. Ó en spennandi, hvíslar hið innra stúlkubarn, við munum geta fært fjöll... Hin fullorðni hluti af mér - er hins vegar löngu búin að læra að setja ekki áramótaheit.
Það er þrennt sem ég hef lært að hafa í huga þegar ég, smíða nýja árið í huga og hendi.
Í fyrsta lagi:
Að setja mér nægilega erfiðar áskoranir. Reyna að koma sjálfri mér út úr þægindarammanum. Gera eitthvað nýtt, eitthvað sem reynir á mig. Þetta þýðir oftast mörg mistök :-). Ekkert að því að lenda á nefinu af og til. En stundum tekst vel til.
Í öðru lagi:
Láta ekki óttann stjórna mér. Þá er ég ekki að tala um að hoppa út úr flugvélum, voða lítið fyrir það, heldur bara óttann við hið óþekkta og óttann við hvað öðrum finnst. Óttann við að fara yfir mörkin, óttann við allt sem gæti gerst! Allt í lagi að vita af hræðslupúkanum sem býr innra með mér en órþarfi að láta hann stjórna.
Í þriðja lagi:
Velja vel hvernig ég ver tímanum og með hverjum. Reyna að kjósa nánd í stað yfirborðs og segja nei þegar ég á að segja nei! (ótrúlegt hvað þetta smáorð getur flækst fyrir manni)...
Nú er bara að smíða rétta hugarflugfarið með hæfilegri blöndu af draumum og skynsemi og láta reyna á hvort draumarnir flúgi ekki á nýju ári.
Ég óska ykkur gleðilegs árs og vona að þið munið láta alla ykkar drauma og þrár rætast - líka þá sem þið þorið ekki að framkvæma!
areliaeydis.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt á hvolfi
17.12.2015 | 01:50
Sólin hitar kroppinn á ströndinni og við horfum á alla bronslituðu kroppana þar sem við liggjum með íslenska beinhvíta útlimi og ég með bleika bumbu. Fátt minnir á jólin - en þó það stendur skreytt jólatré við strandlengjuna, svona eins og þetta á Austurvelli. Krakkarnir byrja á að hlaupa út í sjó þar sem enginn er en ég átta mig fljótlega á að það hlyti að vera einhver ástæða fyrir því að allir væru þar sem fánar blakta. Við færum okkur.
Við höfum smá hækkað hitastigið í ferðinni, fórum frá London til Abu Dhabi og svo hingað til Ástralíu. Pjakkurinn var eins og stígvélaði kötturinn í London því hann hafði farið út í snjóinn heima í stígvélum og það gleymdist að horfa á fæturnar á honum fyrr en í flugstöðinni - það voru keyptir sandalar í London. Stígvélin eru þó með í för ef ske kynni að þyrfti að nýta þau.
Í ljósi þess að nauðsynlegt sé að fara út úr sínum þægindahring þá var ákveðið að leggjast upp á góða vini og leggja í ferðalag þessi jólin. Engar sortir að baka, engir jólatónleikar, ekkert jólaöl. Hér koma ekki einu sinni jólasveinar að gefa í skó! Pjakkur heldur að þegar við komum heim þá muni bíða þrettán skógjafir í glugga. Hver veit, kannski finnum við myglaðar mandarínur þegar heim er komið.
Ég tekst á við allra handa kvíðahrolli með ferðum í vatnsrennibrautum, sandrallý í eyðimörk, flugferðum og vinstri akstri í fjallshlíðum. Ég er ekki þessi hugrakka týpa sem hendir sé glöð fram af rennibrautum og brúnum. Ég er meira fyrir rólegheitin. Allir litir grænir eru hér allsráðandi í náttúrunni og blessuð sólin skín. Ég ákvað að finna mína innri konu og fór í jóga með vinkonu minni. Kennarinn talaði um sumarsólstöður þar sem eðlilegt er að ganga til móts við sjálfa sig. Ég hugsaði með mér að hún hefði ruglast því nú væri vetrarsólstöður. En svo fattaði ég að hér í Ástralíu er allt á hvolfi. Ég er alveg hissa á að við höldumst á jörðinni, svona á haus. Hér eru réttilega sumarsólstöður 21. desember.
Það er gott að fara út úr sínum þægindahring og uppgötva sjálfa sig upp á nýtt og horfa á heiminn á hvolfi án þess að detta niður. Hvort sem eru vetrar- eða sumarsólstöður þá er rétti tíminn til innra uppgjörs rétt áður en árið er á enda.
Það er aldrei að vita að það hristi upp í miðaldra sellunum að standa á hvolfi á þessari dásemdar jörð í einhvern tíma og vita að jólin koma hvar sem maður er því jólin eru innri friður og samhljómur.
Ég óska þér og þínum gleðilegrar jólaaðventu.
areliaeydis.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fangelsi þess að geðjast öðrum
16.11.2015 | 09:32
Í kvikmyndinni "What happens in Vegas", leika Cameron Diaz og Aston Kutcher par sem hittist fyrir tilviljun í Vegas. Þau verða haugdrukking og gifta sig í áfengisgleðinni en uppgötva hvað þau hafa gert í þynnkunni. Um leið og þau ætla að snúa til baka með þá ákvörðun vinna þau stóra vinningin og þurfa að vera gift í ár til að geta skipt honum á milli sín. Eins og þið munið sem sáuð myndina, og þau ykkar sem ekki sátuð, getið ímyndað ykkur fer myndin svo í hin hefðbundna leik þar sem þau gera allt til að reyna að fá hitt til að skilja við sig en enda svo á að verða ástfangin.
Af hverju er ég að fjalla um þessa ekki svo frægu eða merkilegu mynd? Jú, af því að í enda myndarinnar þegar Kutcher fer og leitar spúsu sína uppi, eftir svona hefðbundna senu misskilngins, þá segir hún við hann (á ströndinni - og "looking awsome"- búin að segja upp vinnunni og allt og allt)... "Með því að reyna ekki að geðjast þér, þá fann ég sjálfa mig!" Það stóð í mér poppið þegar ég horfði á þetta. Stundum geta gullkornin komið úr óvæntri átt!
Með þvi að reyna ekki að geðjast öðrum er hægt að finna sjálfan sig! Ótrúlegt hvað það tekur mann langann tíma að ná þessu. Diaz í myndinni (og fullt af öðrum díösum..) hafði gert hvað sem er til að geðjast kærustum sínum fram að þessu brúðkaupi í Vegas. Hún gerði hvað sem er til að geðjast vinnuveitenda sínum og flestum öðrum, örugglega hundinum sínum líka. Hver þekkir sig ekki í því? Að vera stöðugt að reyna að geðjast öðrum en hlusta ekki á sjálfan sig. Leiðindar fangelsi sem það er.
Hvaða ákvarðanir tæki fólk ef það væri ekki að reyna að geðjast foreldrum sínum eða samfélaginu eða maka eða einhverjum? Það væri gaman að gera kvikmynd um það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gamla daga..
4.11.2015 | 19:57
Við vorum á leið heim úr fjölskylduboði og dóttir mín sneri sér að mér: "mamma, hvað gerði fullorðna fólkið áður en internetið kom?" Ég skildi ekki spurninguna og einbeitti mér að því að komast áfram í myrkrinu. Ég hváði, gerði ráð fyrir að þetta væri ein af þessum: ... mamma, voru til bílar þegar þú varst lítil í gamla daga... athugasemd. Ég einbeitti mér að henni aftur. Hún byrjaði aftur: "Fullorðna fólki er alltaf í símanum sínum þegar við hittum þau. Þau taka alltf símann upp og horfa á hann, þó að það sé langt síðan við hittum þau.."
Ég næstum snarstansaði á veginum og leit á hana. Þetta var alveg rétt. Flestir gestirnir höfðu tekið upp síma sinn, allavega einu sinni. Gónt ofan í símatómið og flétt í gegnum það sem aðrir voru að gera þá stundina en ekki á fjölskylduna sem sat í kringum það. Ég hafði sjálf örugglega tekið upp símann, eins og hinir.
Hjarta mitt sökk niður í gólf, hvernig er að vera barn í dag? Hver er athyglin sem þau fá. Ég man eftir því að það þurfti að þegja þegar fréttir og veður gengu yfir í gamla daga en skyldu þau þurfa að þegja oftar núna? Erum við duglegri að kíkja á líf fólks í símatóminu heldur en það sem í kringum okkur er? Er mikilvægara að ná rétta sélfí-inu heldur en að brosa framan í hvort annað?
Ég sneri mér að stelpunni minni og leit lengi á hana. "Áður en internetið kom þá töluðum við bara saman og stundum horfðum við saman á eitthvað, öll í einu." Hún horfði á mig og endaði með að segja, hugsandi meðan hún horfði út í myrkrið, "það hefur örugglega verið gaman.".
Ég er að hugsa um að fjarlægja síma í upphafi fjölskylduboða núna og geyma minn heima þegar ég er boðin eitthvað næst, þ.e. ef einhver skyldi bjóða mér!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kerlingin!
22.10.2015 | 10:52
Vinkona mín sem er jafngömul mér hafði samband við mig um daginn. Hún var í sjokki og ég þurfti að blása í hana lífi... næstum því. Hún hafði verið að tala við konu sem kom í ljós að hafði verið nemanda minn en sú var þrítug. Þær voru að tala saman "já, hún Árelía kenndi mér, hún er ágæt KERLINGIN! Vinkona mín, þessi í hjartahnoðinu, var algjörlega orðlaus og andlaus yfir þessu heiti, kerlingin! Bara fjörtíuogníu ára!
Mér varð ekkert brugðið, kerlingin með stáltaugar. Ég umgengst nægilega margt fólk sem er um þrítugt sem mér finnst börn! Ég fór á læknavaktina um daginn og þegar læknirinn kom var ég að hugsa um að biðja um mömmu eða pabba hans, bara einhvern fullorðin! Ég hitti nógu margt flott fólk sem er um áttrætt sem mér finnst vera stelpur og strákar. Fólk sem lifir spennandi lífi. Þess fyrir utan fannst mér líklega sjálfri um þrítugt að konur yfir fertugu væri "kerling."
Aldur er í alvöru hugarástand. Ég hitti stundum menn á áttræðissaldri sem eru geislandi af kynþokka og sjarma. Konur sem eru svo spennandi um nírætt að mig langar að loka mig inni með þeim og spjalla í tvo daga. Það heitir víst viska.
Svo nú er ég orðin kerling, og það þýðir að ég er búin að læra ýmislegt um lífið... svona "been there, done that". Merkilegt nokk. Ég þarf ekki lengur að sanna mig, þarf ekki lengur að eiga fleiri börn, nenni ekki að æsa mig yfir ungræðiskúltúr og horfi á efnahagsumhverfið og hugsa "bíddu, lærum við aldrei af sögunni?" Horfi á jafnaldra mína karlkyns sem hafa yngt upp og eru að byrja aftur á barnauppeldi og hugsa "endurtaka leikinn, í alvöru?" Skiptir mig ekki máli lengur hvað öðrum finnst um mig, kaupi bara föt sem ég fíla en fer voða sjaldan í tískuslys samtímans, veit að þau líða hjá. Það merkilegra er að ég finn fyrir meiri lífsgleði með hverju árinu. Kerling alveg fram í fingurgóma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Segðu já!
5.10.2015 | 15:05
Hún horfði raunmædd á mig "ég nenni ekki að fara, það verður örugglega fullt af fólki sem ég þekki ekki..". Ég gat ekki annað en hugsað þá sem buðu.
Oft bíður fólk og lífið upp á tækifæri sem mér finnst algjört grundvallaratriði að segja alltaf já við! Svona til að byrja með en síðan má meta hvort að það séu aðstæður sem valda því að fólk komist ekki.
Þeir sem ekki svara eða sjálfkrafa segja nei, hljóta að gera ráð fyrir að tækifærunum fækki! Ekki satt, hver vill hafa þá með sem ekki eru tilbúnir þegar tækifærið gefst.
Stundum kemur tækfærið í formi beiðni um að leggja af mörkum eða að koma með, nú eða að taka þátt í því sem manni finnst sjálfum hundleiðilegt en af virðingu við aðra og tækifærin sjálf segðu já.
Lífið er allt of stutt til að segja nei við skemmtilegum tækifærum og eins og ein frænka mín sagði við mig eftir veislu hér á heimilinu "já, það kom mér á óvart að það var gaman" (segir kannski meira um hvernig veislur eru hér á heimilinu). Það eru svo margir sem ekki hafa tækifæri, sem ekki er boðið, sem ekki geta komið. Segðu bara já! Það gæti komið á óvart hvað það er gaman!
Árelía Eydís
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)