Nýtt númer - nýtt upphaf

Þegar ég var átján ára fékk ég síma og símanúmer þegar ég flutti til Reykjavíkur, síðan hef ég haldið þessu númeri. Í sumar var það, fyrir mistök símafyrirtækisins aftengt. Ég reyndi að láta tengja það aftur en allt kom fyrir ekki. Svo gafst ég upp á að reyna og núna er ég með nýtt heimanúmer, flutt á nýjan stað, skilin og komin með nýjan síma og nýjan bíl. Stundum er sagt að það sem maður skrifi um komi heim og saman við líf manns. Orð og orðræða séu öflug.

Ég hef verið að skrifa bók um áskoranir á miðjum aldri síðstu tvö ár, óvissuna sem við göngum út í og hvernig við erum knúin til að horfast í augu við okkur sjálf, taka upp úr bakpokanum og taka til í lífinu og tilverunni. Hvernig við verðum að hafa hugrekki til að gagnast við nýju upphafi og spyrja okkur krefjandi spurninga og gera svo eitthvað í því þegar svörin að innan berast upp til eyrna okkar. Þegar ég byrjaði að skrifa bókina, var ég á allt öðrum stað með sama símanúmer og ég hafði verið með í yfir þrjátíu ár. Núna þegar ég reyni að muna nýja heimasímanúmerið mitt get ég ekki annað en brosað yfir örlaganornunum.

Þegar maður gengur í gegnum innri náttúruhamfarir eða krísu þá hjálpar reynslan óneitanlega. Ég veit að allt sem skiptir ekki máli lengur fellur niður eins og snjókorn sem bráðna um leið og þau lenda á jörðu. Það sem skiptir máli í lífi manns situr eftir. Vináttan, sem ég er svo rík af, fjölskyldan, verkefnin, náttúran, ástríðan og vissan um að maður muni koma til með að lifa þetta af líka. Það þarf ekki að vera slæmt að vera með nýtt heimanúmer - núna getur maður hvort sem er bara stimplað það inn í hinn símann. Þess fyrir utan þá hef ég í mörg ár skrifað um mikilvægi þess að fara út úr sínum þægindahring. Hið nýja og óvænta þarf ekki að vera ógnvekjandi, þegar maður hefur hvort sem er lifað ýmislegt af.

Ég ætla samt að drífa mig að ljúka við bókina um breytingar, hindranir og hugrekki til að breyta á miðjum aldri til að takast á við framtíðarvinnumarkað. Næsta bók verður um haimingju, stöðugleika og blóm í haga.


Að lifa í stað þess að lifa af.

Í sumar, þegar ég var stödd erlendis, hitti ég konu sem hafði mikil áhrif á mig. Hún hafði verið forstjóri beggja vegna atlandshafsins og starfað víða um heim. Núna hefur hún snúið sér að öðru en að vera í forystusveit í atvinnulífinu. Ekkert merkilegt við þetta nema að við nánari kynni kom í ljós að hún hafði,frá því að hún var unglingur, þjáðst af mjög óvenjulegum sjúkdómi sem lýsir sér þannig að hún rífur hár sitt. Þetta verður að þráhyggju svona svipað og þegar fólk skaðar sig almennt. 

Þessi kona er komin vel yfir miðjan aldur og hefur aldrei getað hætt þessu þrátt fyrir að hafa reynt næstum allt til þess. Hún hefur þjáðst mikið í gegnum lífið vegna þessa leyndarmáls sem hún segir helst ekki frá. Hún er með hárkollur og maður sér ekki utan á henni það sem veldur henni sársauka. Við fyrstu kynni er hún full af sjálfstrausti heimskonunnar sem er vön að stjórna. En maður sér ekki alltaf utan á fólki hvernig því raunverulega líður. Hún lýsti því hvernig það væri að standa á sviði og halda ræður. Ganga síðan niður af sviðinu og fók kæmu til hennar og þakkaði henni fyrir og oft hafi henni verið hrósað fyrir hvað hún liti vel út og hvað hárið á henni væri fallegt. Henni finnst hún hafa farið á fölskum forsendum í gegnum lífið. Þessi kona hefur tekið margar erfiðar ákvarðanir og stýrt fyrirtækjum og hópum af myndarbrag en í hennar huga var hún "lúser" af því að hún hefur ekki getað hætt að rífa af sér hárið.  

Við vorum í því samhengi þar sem við gátum látið okkar innstu leydarmál í ljós og sagt sannleikann um okkur án þess að vera dæmd. Ég hef hugsað mikið um hana síðan sérstaklega vegna þess, eins og ég sagði við hana, þá er þessi þörf hennar fyrir að rífa hár sitt það sem mér fannst áhugaverðast við hana. Við erum öll að "rífa hár okkar og skegg" með einhverjum hætti. Það eru veikleikar okkar sem gera okkur áhugaverð, svo lengi sem við förum ekki í fórnarlambsgírin og tökum ábyrgð. Eins og Leonard Cohen segir í einum texta sínum; í gegnum brestina lýsir ljósið.

Vandamálið eru ekki brestir okkar, heldur einmannaleikinn sem fylgir því að skammast sín fyrir að vera mannlegur. Það er skömmin sjálf sem er vandamálið en ekki að við finnum til. Skömmin aðskilur okkur frá hvort öðru og manni finnst sem enginn geti skilið eða sé að fást við það sama og maður sjálfur. Þrátt fyrir að forsíðumyndin líti vel út þá glíma allir við eitthvað. Um leið og maður getur sætt sig við sínar hárreitingar án þess að dæma, og boðið lærdóm sársaukans velkomin þá sjáum við að við erum öll tengd og öll að fást við að lifa.

Sársaukinn kennir okkur nefnilega að lifa en ekki að lifa af - að er mikill munur þar á. 

 


Boðar ekki gott!

Vinkona mín ein kom blaðskellandi rjóð í kinnum til mín um daginn. "Það er bara alltaf sól, alla dag, þetta boðar ekki gott, enda er Katla farin að hræra á sér..." Ég gat ekki annað en skellt upp úr, hún er ekki sú eina sem hefur sagt þetta við mig að undanförnu. "Nú skeður eitthvað.. er sagt með smá hræðslutón í röddu, veðrið hefur verið allt of gott".

Vinkona mín ein kom blaðskellandi, rjóð í kinnum, til mín um daginn. "Það er bara alltaf sól, alla daga, þetta boðar ekki gott! Enda er Katla farin að hræra á sér..." Ég gat ekki annað en skellt upp úr, hún er ekki sú eina sem hefur sagt þetta við mig að undanförnu. "Nú gerist eitthvað.. er sagt með smá hræðslutón í röddu, veðrið hefur verið allt of gott í sumar".

Ein megin niðurstaða doktorsrannsóknar minnar er að íslenskir stjórnendur eru mun betri að takast á við kreppur en þenslutímabil. Mér sýnist að sú niðurstaða standi enn og hafi kannski enn betur fest sig í sessi eftir síðustu umbyltingar á vinnumarkaðnum. Íslensk erfðagreining hefur staðfest að í genum okkar Íslendinga, sé að finna staðfestingu á því að við erum víruð fyrir harðræði (þetta er svona stutta útgáfan af þeim niðurstöðum). Forfeður okkar og mæður máttu þola harðindi frá náttúrunnar hendi, eldgos, snjóflóð, stórviðri, jarðskjálfta og flóð. Matur var ekki alltaf nægur og lífsbaráttan hörð. 

Að hluta til höfum við beislað náttúruna og fylgjumst nú grant með eldfjöllum og höfum veðurspá langt fram í tímann, getum séð fyrir og undirbúið okkur fyirir stórviðri og slysum á sjó og landi hefur stórfækkað. En eftir situr vitneskjan sem býr í genunum, ... þetta getur ekki verið að við fáum svona góða tíma án þess að guðirnir refsi okkur. Þetta minnir óneitanlega á forlagatrú frumbyggja í Ástralíu og Hawai og á fleiri stöðum þar sem fólk býr í návígi við náttúruölfin.

Ég hef gaman að þessu, finnst eins og langa,langa,langaömmur séu enn að vinna í okkur þegar þessi viðhorf ná yfirhöndinni. Við erum víruð fyrir harðræði en það þýðir ekki að við þurfum að vera á taugum yfir því, það koma alltaf erfiðir tímar í lífinu og þá er gott að vita að maður hefur genin til að takast á við þá. Enginn ástæða er hins vegar til að hræðast þá tíma fyrirfram. Bara taka því sem að höndum ber, þegar að því kemur. En muna að njóta þess sem er núna! Blessuð blíðan og ber á hverri þúfu, sem bera þarf í bú. Lífið er gott og þá er um að gera að njóta án þess að eiga von á eldgosi, mælar rannsóknamanna eru hvort sem er að sinna því að hafa áhyggjur af framtíðargosi og jarðskjálftum. Aldrei að vita nema við fáum bara enn fleiri ferðamenn í kjölfarið hvort sem er!


Bieber hættur á Instragram!

Justin Bieber er hættur á Instragram, ástæðan er að aðdáendur hans voru ótuktarlegir í garð sautján ára kærustu hans. Þetta veit ég af því að unglingsstúlkan á heimilinu segir mér allt um Bieber, jafnvel þó ég nenni ekki að hlusta. Ég veit líka hvaða íþróttamenn eru bestir og hversu mörg mörk Messi og Rónaldó skora í hverjum leik. Það er vegna þess að sonur minn segir mér þetta í svona "helst í fréttum" í matartímum. 

Þegar ég var í doktorsnámi í Bretlandi fengum við nemar skrifstofur til afnota. Á minni skrifstofu voru tvær "eldri" konur. Önnur var frá Pakistan og hin frá Japan, báðar komnar vel yfir fertugt og báðar áttu þær börn og eiginmenn. Ruksana, frá Pakistan hneykslaðist þvílíkt á okkur vestrænum konum að vera að láta karlanna fá okkur til að vera fáklæddar eða lítið klæddar bara til þess að þeir gætu glápt á okkur. "Svo þurfa þeir ekki einu sinni að sjá fyrir ykkur ef þið eigið börn" fussaði hún, "geta bara skilið og labbað í burtu..". Ég reyndi að tala um frelsi og kvenréttindi en hún bara horfði á mig meðan hún kenndi mér að elda indverskan mat og sagði mér að konur í heimi Múslima réðu öllu á sínum heimilum, "þú átt alltaf af byrja á lauk og hvítlauk.."

Junko, hin japanska sagði mér frá keppninni í lífsbaráttunni sem ríkti í Japan um að komast að, konur á þeim tíma hættu að vinna um leið og þær eignuðust börn til að koma þeim í réttu leikskólana, skólana og háskólana. Á sama tíma drykkju þær mikið Sake því þær væru upp til hópa óhamingjusamar í því hlutverki að koma barninu áfram í keppninni meðan karlinn væri í vinnunni og svo Karókí.

Ég var að hugsa hvað við mannfólkið getum kennt hvort öðru margt. Ég hef aldrei séð Japan eða Pakistan, hvað þá múslima sömu augum eftir að hafa kynnst þessum konum á lífsleiðinni. Ég sé Bieber og Rónaldó með öðrum augum. Hættan væri sú að ég myndi ekki einu sinni hafa tekið eftir þeim ef ég ætti ekki börn sem hafa áhuga á þeirra lífi. 

Í mínum augum er fátt dýrmætara heldur en hæfileikinn til að sjá eitthvað á nýjan máta. Opna augun fyrir því hvernig aðrir upplifa tilveruna, hlusta á sögur fólks. Engann hef ég hitt sem ekki er áhugaverður. Það er eins og litirnir verði dýpri í lífinu á þeim augnablikum sem maður finnur innra með sér að skilningur manns hefur aukist.Þeir sem hafa ástríðu fyrir einhverju geta kennt manni svo margt og þeir sem hafa lifað ólíku lífi eru endalaus uppspretta visku. Ég meina mér finnst að aðdáendur Biebers eigi að láta kærustu hans í friði!  

 


Í sambandi.

Ég heyrði tólf ára dóttur mína tala í símann í sveitinni okkar "það er ekkert net, enginn gemsi virkar. Símanúmerið er mjög skrýtið og byrjar á 4-um og síminn er þannig að maður þarf að leggja hann aftur á takka." Ég gat ekki annað en brosað, þess fyrir utan þarf hún að tala í símann þar sem allir geta heyrt og það er ekki símanúmera birtir eða talhólf. Reyndar var það þannig þegar ég var að alast upp að það var ein löng og þrjár stuttar og öll sveitinn gat hlustað, eins konar feisbók þeirra tíma.

Við erum svo heppin að geta á hverju sumri farið í sveitina okkar sem að sjálfsögðu er sú fegursta á landinu! Þar næst ekki samband við netið né gemsa og því er ég í kaupstaðaferð núna og sit á kaffihúsi og huga að umheiminum. Það er undarlegt en það er eins og ég hafi ekki misst af miklu né að ég sé nokkuð mikilvæg því þrátt fyrir að fólk hafi ekki getað náð í mig í viku án þess að hringja í landlínu þá eru ekki mörg skilaboð nema auglýsingar.

Það er svo skemmtilegt að velta fyrir sér hvað við erum farin að lifa mikið í gegnum símana okkar. Þegar veislur eru haldnar er myndum varpað á vegg beint úr veislunni, þegar landliðshetjurnar okkar komu upplifðu þeir allir þakklæti og væntumþykju landans í gegnum símann. Lögreglan varar vegfarandur sem eru að ná pókemónum við að ganga fram af björgum eða láta keyra sig niður því þeir horfa meira á símann en veginn framundan. Kona sem hafði skilið við manninn sinn sagði mér þá sögu að þau höfðu setið á kaffihúsium í sitt hvorum símanum þangað til hún fékk nóg af þögninni, þau voru sem sagt ekki að tala við hvort annað!

En síminn er líka frábært tæki og maður getur gert allt í honum nema elskast, (mér skilst að það sé líka hægt, kannski nýtt app). Núna tek ég hann upp til að telja skef sem ég tek í göngutúr dagsins og hætti ekki fyrr en eftir 10.000 skref bara til að fá blöðrur og svoleiðis á símann í fagnaði. Ég er svo einföld sál að þegar ég sé verðlaunin verð ég eins og krakki í gamla daga og hoppa af kæti. Önnur not hef ég ekki fyrir símann fyrr en ég fer í Kaupstaðinn.

Það furðulega er þó að þegar maður er ekki tengdur í gegnum tæki þá tengist maður sjálfum sér upp á nýtt og allt í einu er maður bara í sambandi við sjálfan sig, aðra, almættið og náttúruna í kringum sig.

 

 


Breytingaskeiðið; tiltekt í tíu liðum.

Bara orðið sjálft vekur upp tilfinningarsveiflur, breytingaskeið með þurrki, hitakófum, svefnleysi og ömmuskeggi. Hver vill það? Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað við vitum almennt lítið um þetta merkilega skeið í lífi kvenna þegar hormónarnir taka að breytast eftir áralanga mánaðarlega reglulega sveiflur.

Fram að breytingaskeiði höfum við verið prógrammer-aðar til þess að eiga börn og mánaðarklukkan hefur tifað; tikk-takk með egglosi, blæðingum og hrynjanda sem stundum leiddi til þess að egg meðtók sæði. Viðhald stofnsins er fast víraður í heila okkar, hvort sem við eignuðumst börn eða ekki. Ekki nóg með að viðhalda honum heldur eru líka brautir í heilanum sem sjá til þess að við elskum afkvæmi okkar og leggjum hart að okkur til að koma til manns. Við eigum erfitt með að komast undan þeirri tilfinningu að nauðsynlegt sé að öllum líki við okkur til þess að tilheyra hópnum, slíkt er öruggara í lífríkinu. Hórmónarnir tikka og sjá til þess að við séum í formi til að hugsa um aðra.

 Allt í einu verður allt vitlaust (reyndar ekki allt í einu, breytingaskeiðið tekur allt að fimmtán ár) og hormónarnir sem hafa tifað síðan við urðum frjóar fara að detta úr takti.

 “Hvað með mig?” Er stóra spurninginn sem skellur á okkur eins og við séum að vakna af svefni líkt og Mjallhvít sem sofnaði eftir að hafa sinnt dvergunum sjö. En nú er það ekki prinsinn sem bjargar okkur heldur við sjálfar.

 

Breytingaskeiðið er tími til að taka til, flokka og henda. Oftast leitar á okkur það sem ekki hefur verið gert upp og við vöknum til meðvitundar um að lífið er ekki endalaust. Einn daginn munum við ekki vera hér lengur, sá dagur er ekki svo ýkja langt undan miðað við það sem liðið er. Hins vegar höfum við lifað nægilega lengi til að geta gert okkur grein fyrir hvernig við ætlum að ljá lífi okkar merkingu og gildi.

 

Ég hef glímt við þetta skeið vitsmunalega, miðbik lífsins, af ástríðu undanfarin áratug og er núna að skrifa að bók sem ber vinnuheitið: Sterkari í seinni hálfleik. Hún kemur út fljótlega. Ég verð að segja að eftir því sem ég sekk mér meira í þetta lífsskeið því áhugaverðara finnst mér það. Það sem ég hef lært á þeirri vegferð má draga saman í tíu punkta (alltaf gott að einfalda þetta en bókin verður aðeins ýtarlegri..).

 

Hefst þá lesturinn J

 

  1. Flokkaðu viðhorf þín til sjálfar þín vel. Kastaðu vanmætti, skömm og fórnarlambinu. Farðu bara með þetta á Sorpu, algjör óþarfi að drattast með þetta lengur. Fáðu hjálp fagaðila ef með þarf.
  2. Finndu mátt þinn og megin í styrkleikum og lífsreynslu þinni. Settu þer markmið um hvernig þú ætlar að verða sterkari, líkamlega, tilfinningarlega og andlega. Markmið um fjármál, atvinnu, sambönd og heimili. Ekki seinna heldur núna eða fljótlega.
  3. Settu unað sterkt inn í líf þitt. Endurskilgreindu kynveruna, kastaðu hugmyndum um að þú þurfir að vera ung, grönn og stinn til að lifa góðu kynlífi. Aldeilis ekki, mundu að þegar börnin fara að heiman er tími til að stunda kynlíf mun rýmri svo ég tali nú ekki um plássið. Ekki leyfa þér að hætta að stunda kynlíf þó að þú eigir ekki maka. Það er fullt af tækifærum og sjálfs er höndin hollust í þessum efnum! Hvað vekur þér unað? Nudd, náttúran, góð bók, samvera, börn, barnabörn, kvikmyndir, ferðalög. Listinn er endalaus.
  4. Þegar þú ert búin að flokka og taka til settu þá forvitni á stall. Við lifum svo miklu lengur en áður og þeir sem lifa vel eru þeir sem eru forvitnir og halda áfram að læra lífið á enda. Hvað ætlar þú að læra? Dans eða tónlistarnám gefur heilanum sama kikkið og líkamleg hreyfing. Við getum gert svo margt til að halda heilanum við. Finndu þér fyrirmyndir í konum sem lífa ástríðufullu lífi og eru eldri en þú ert. Helst nokkrum áratugum eldri svo þú getir ímyndað þér hvernig þú vilt feta í fótspor þeirra með þeim fyrirvara að gera það sem til þarf.
  5. Taktu til í samböndum þínum. Konur sem eiga nánar vinkonur lifa lengur! Hvernig ætlar þú að rækta vinkonur þínar – eða eignast nýjar? Ekki hanga í samböndum sem ekki eru gefandi lengur. Hjónabandið þarf að fara í gegnum endurnýjun lífdaga þegar dagleg tilvera snýst ekki lengur um að koma ungunum á legg. Samband þitt við börn þín tekur líka breytingum, hvernig viltu hafa það?
  6. Líkaminn sem hefur haft mikla hormóna“vernd” þarf meiri athygli. Hreyfing, matarræði sem hentar þínum líkama, það er enginn lausn sem hentar öllum. Eigðu þitt ljúfa samband við mat og kropp. Nú er rétti tíminn til að losa sig við fíkn. Ef þú átt í erfiðleikum með áfengi, lyf, mat eða annað þá er breytingaskeiðstíminn brilljant til að losa sig við það.
  7. Lofaðu sjálfri þér að segja aldrei “en ég er nú komin á þennan aldur.” Aldur er afstæður og talan segir ekkert um hversu ung þú ert í anda. Fylgstu með og ekki leyfa þér að dragast aftur úr. Þú verður á vinnumarkaði mun lengur en kynslóðin á undan. Hvernig ætlar þú að halda þér við? Hættu að gera það sem þér finnst leiðilegt og finndu leiðir til að gera meira af því sem hefur merkingu fyrir þig. Það eru endalausar tækfæri til ef maður undirbýr sig fyrir þau.
  8. Vertu þakklát hvern dag fyrir allt sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Settu það á forgangslista að vinna að því að vera jákvæð. Skelltu skollaeyrum við neikvæðri umfjöllun um dægurmál og dægurþras. Taktu þátt í umræðum og láttu rödd þína heyrast þegar þér er misboðið en ekki nýta tímann í niðurrif.
  9. Kynntu þér allt sem þú getur um breytingaskeiðið og ef og þegar þú finnur fyrir einkennum talaðu um það við vinkonur, mömmu þína, dætur og kvensjúkdómalækni. Ekki þjást að óþörfu yfir hitakófum og svefnleysi, þurrki eða tilfinningarsveiflum. Finndu þér góðan kvensjúkdómalækni eða heimilslækni sem skilur hvað þú ert að fara í gegnum og kynntu þér hvað er í boði. Mundu bara að hitakófið hjálpar þér að svitna út öllum ruslhugsunum sem þú hefur safnað í gegnum tíðina.
  10. Farðu í innri fjársjóðsleit! Þetta er allt þarna – hið innra. Tengstu stelpunni aftur, hvað langaði hana? Hvað hefur hún að segja þér? Hver ertu án allra titla, starsheita, stöðu í fjölskyldunni. Hver ertu? Nýttu sköpunarkraftinn sem er í þessu lífsskeiði til hins ýtrasta. Málaðu, skrifaðu, syngdu, gólaðu eða bara hvað sem er, handavinna, smíðar, saumur. Endalaus uppspretta sköpunar bíður hið innra.

 

 

Ég gæti endalaust haldið áfram en eftir að hafa skoðað þetta lífsskeið er ég sannfærð um að ef maður nýtir kraftinn til að taka til þá verður maður mun sterkari í seinni hálfleik.

 


Gjafir

Sumar gjafir eru svo dásamlegar að þær sitja í manni lengi, lengi. Ein slík gjöf er góð saga sem kennir manni eitthvað um lífið, mann sjálfan og aðra. Önnur gjöf er þegar fólk treystir manni fyrir sér og gefur manni hlutdeild í lífi sínu. 

Ein stærsta gjöf sem maður gefur er athygli og tími. Þegar maður hlustar með athygli fær maður innsýn í sál fólks og þá gerast töfrarnir. Þjáningin verður léttbærari, vonbrigðin ekki svo mikil og sigurinn sætari eða gleðin sannari og ástin dýpri. Samvera getur verið gjöf eða hlekkur. Faðmlag getur verið náið eða óþægilegt, allt eftir því hver ásetningurinn er. Fólk getur orðið dýpra og vaxið með reynslu eða samansaumaðri - allt eftir ásetningi. Gjöfin er að dýpka svo aðrir geti lært og fengið aðgang að gjafmildi.

En það er líka gott að gefa sjálfum sér gjafir. Tíma til að vera án allrar ábyrgðar, án markmiða, án skuldbindingar. Bara vera og gera ekkert nema bora tánum í sæng, sjó eða sand. Horfa á grasið vaxa, rigningu falla eða sólina skína. Ég ætla að gefa mér þá gjöf að fara í heila viku ein á stað á landinu sem er nýr fyrir mér í heila viku og skrifa og gera ekki neitt. Heilmikill gjöf en vonandi verður hún til að ég geti verið enn meira til staðar fyrir þá sem eru mér nærri þegar ég kem aftur. Maður kemur alltaf aftur og tekur upp ábyrgðina og skuldbindingarnar - soldið eins og að klæða sig aftur í vinnufötin. Enda væri enginn gjöf ef tíminn væri ekki öðruvísi nýttur en venjulega. 

Gjafir hafa tilhneigingu til að vaxa og öðlast sjálfstætt líf eins og þegar maður heyri góða sögu og segir næsta manni sem segir næsta manni. En til þess að geta gefið verður maður að læra ánægjuna af því að gefa sjálfum sér af hreinu hjarta og án þess að ætlast til einhvers í staðinn! Þá er það ekki gjöf heldur skiptidíll sem er eitthvað allt annað.


Alltaf í boltanum?

Ég er búin að vera tölvert í boltanum undanfarið. Á ráðstefnu með frægum fótboltamönnum og landsliðsþjálfara og svo með syni mínum á fótboltamóti. Fótbolti er meira en að sparka bolta í mark, hann er lífið og í sumar mun allt snúast um fótbolta hjá okkur öllum. Við munum sitja límd við skjáinn og fylgjast með okkar mönnum.

Í rannsókn sem ég gerði á íslenskum kvenleiðtogum kom í ljós að þær höfðu flestar stundað einhverja hópíþrótt. Ástæðan fyrir góðu gengi þeirra í viðskiptum mátti rekja til þess, að hluta, að þær voru aldar upp í samkeppninni og eru því alls óhræddar þegar kemur að pólitík á vinnustað. Þær skilja líka að hópurinn er stærri en þær einar og hvernig maður nær árangri með rétta liðinu.

Keppnisskap fleytir mörgum áfram enda þegar ég spurði leiðtogana úr fótbolta um hvað þeir gerðu þegar þeir töpuðu, horfðu þeir sljóum augum á mig og svöruðu svo allir sem einn: "Ég þoli ekki að tapa." 

Í viðskiptum, fótbolta og lífinu tapar maður stundum og reynir á karakter leikmannsins. Hættir hann við? Fer aldrei út á völl aftur eða kennir kannski lélegum bolta um? Svo er líka hægt að detta bara í það og gleyma tapinu. Þegar leikmenn hlaupa um með testrósteron og dópamín í æðum í sigurvímu þá upplifum við hin nákvæmlega það sama og í eitt andartak erum við hluti af sigurvímunni, ósigrandi, öflug og örugg. En svo kemur annar leikur og þá þarf að taka á því aftur. Eins gott að forðast bara þá tilfinningu að tapa.. hver vill það?

Það sem mér finnst þó verra er að reyna ekki aftur þegar maður hefur tapað. Þjálfunin sem fótboltamenn og konur fá er nefnilega frábær undirbúningur fyrir lífið (fyrir utan höfuðhögginn). Stundum vinnur maður og hleypur um og lætur öllum illum látum en stundum tapar maður og hatar þá tilfinningu og fer að sofa snemma með hausinn í bringu. En... svo fer maður bara aftur á völlinn og gefur allt sem hægt er að gefa. Það er alltaf nýr leikur að spila.  

Maður sér ekki eftir leikjum sem maður tekur þátt í - bara þeim sem maður tókst ekki á við. 


Próf

Í morgun var próf hjá mér og nemendur mínir sátu áhyggjufull á svip yfir lausnum sínum þegar ég kíkti á þau. Ég veit að ef þau hafa mætt vel, undirbúið sig og lesið efnið þá er í lagi með þau. Flest þeirra hafa gert það. 

Mér varð hugsað til prófa lífsins sem framundan er hjá þeim og get ekki annað en vonað að þau séu undirbúin fyrir þau líka. Ég er heppin að fá að kynnast þeim, unga fólkinu sem er að hefja starfsferill sinn. Þó að mér finnist synd hvað þau eru dugleg. Þau eru flest að vinna með náminu og sum eru komin með fjölskyldu eða börn og mörg hafa varla tíma til að mæta í skólann. Ég vildi að ég gæti sannfært þau um að flýta sér hægt til þess að þau séu betur undirbúin fyrir próf lífsins.

Þau eru ótrúlega vel undirbúin á mörgum sviðum, flest hafa ferðast um heiminn meira en nokkur kynslóð á undan þeim. Þau tala ensku lítarlaust, eru vel að sér í tækni og upplýsingum og fylgjast vel með heimsins málum. En eru þau undirbúin fyrir lífsins próf?

Stærsta prófið á lífsleiðinni er líklega hvort maður sé almennileg manneskja. Hvort maður þori að vera maður sjálfur, sé heiðarlegur og hugrakkur og æðrulaus gagnvart því sem lífið færir manni. Hvort maður geti staðið með sjálfum sér en á sama tíma verið til staðar fyrir aðra. Hvort maður geti haldið út þegar manni finnst öll sund lokuð. Hvort maður þoli leiðindin, þjáninguna, sorgina og hryggðina þegar hún heimsækir vitandi að slíkar stundir dýpka gleðina, kærleikann og sæluna þegar hún á leið til manns. 

ÉG vona svo sannarlega að þau séu undirbúin fyrir próf lífsins, finnst reyndar að þau séu það. Alveg ótrúlega klár og vel gerð þetta unga fólk sem þreytir nú próf í skólum landsins.


Leyndarmál og lygar

Flest eigum við okkur einhver leyndarmál og erum uppvís að einstakri lygi. Það er, til dæmis, sjaldan að maður segi manneskju særandi sannleika eins og til dæmis að kjóllinn eða jakkafötin séu forljót og fari illa. 

En leyndarmál, hvort sem eru stór eða smá, sem eru í skúmaskotum eru eins og hlekkir í kringum háls þeirra sem þau bera. Þegar fólk almennt er farið að fela slóð sína, hvort sem er gagnvart einum eða fleirum, er það að svíkja sjálfan sig og í leiðinni aðra. Afleiðingarnar af því eru oft skelfilegar, mannorðsmissir, sektarkennd, vanlíðan og vantraust annarra. Lygin er lævís og það getur farið ótrúleg orka í að viðhalda henni og fólk flýr þá enn lengra frá sjálfu sér. "Sannleikurinn gjörir yður frjálsan" stendur á góðum stað og ástæðan er þessi að maður geti gengist við sjálfum sér og öðrum og verið heill þó að það þýði að maður sé berskjaldaður. Þá fyrst er hægt að heila aftur það sem brotið er.

Þeir sem vilja gegna leiðtogahlutverkinu verða að gera sér grein fyrir þeim fórnum sem því fylgir. Fylgendur líta upp til þeirra því að ætlast er til þess að þeir gangi á undan með góðu fordæmi. Það er fylgst með hverri hreyfingu, blæbrigði raddar og líkamstjáningu og fylgjendur rýna í sögu og framgöngu. Ástæðan er einföld, fylgjendur eftirláta leiðtoga vald sitt, setja í hendur þeirra sameiginlega hagsmuni og vinna þess vegna fyrir þá. Alveg eins og rollurnar sem fylgja forystuasauði þann fjallstíg sem hann velur, treystandi því að það sé besti kosturinn.

Það er mannlegt að eiga sér leyndarmál og hver og einn er breyskur en það er líka mannlegur harmleikur að láta leyndarmál og lygar verða að hlekkjum. Heilindi eru ekki bara fyrir aðra heldur líka fyrst og fremst fyrir okkur sjálf. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en það getur horfið á augabragði og fyrir það líða allir. 

Nú þegar ljós sannleikans beinist að leyndum afkomum samfélagsins er kannski rétt að heila það sem þarf heilunar við án þess að dæma of hart þá sem eftir sitja með sárt ennið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband