Warren Buffet og peningarlogía.

 There comes a time when you ought to start doing what you want. Take a job that you love. You will jump out of bed in the morning. I think you are out of your mind if you keep taking jobs that you don´t like because you think it will look good on your résumé. Isn´t that a little like saving up sex for you old age? Warren Buffet

Í siðustu bók minni: Á réttri hillu. Leiðin til meiri hamingju í lífi og starfi, fjalla ég um hvernig maður getur fundið sína "réttu hillu" í starfi. Undanfarið hefur ég verið að undirbúa mig fyrir námskeið og eins og venjulega verð ég alltaf að finna eitthvað nýtt til að framreiða. Ég fór því að lesa um Warren Buffet sem er annar ríkasti maður heims. Hann er þekktur fyrir langtíma fjárfestingar sínar og á, og rekur, fjöldan allann af fyrirtækjum um allann heim. Hann er náttúrulega orðin "rokkstjarna" í heimi viðskipta og er ansi töluglöggur. Skemmtilegur náungi sem hefur sterkar skoðanir á því hvernig á að lifa lífinu farsællega og stjórna sér og öðrum þannig að maður nái árangri. Í tlvitnuninni hér að ofan, þá ræðir hann um grundvallarforsendu þess að við náum árangri: Að vinna við það sem maður hefur ástríðu fyrir og hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera.

Ég var að ræða við mann sem sagðist hafa farið að vinna við ástríðu sína, hann er mikil fjallageit, og á tímabili starfaði hann í fjalla "bransanum". Hann sagðist eftir nokkur ár hafa hugsað með sér að hann langaði frekar að hafa fjallamennskuna áfram sem áhugamál en ekki vinnu því hann var öllum stundum í þess og þess vegna fannst honum þetta vera orðið slítandi. Hann hætti og fékk sé vinnu í banka og er alsæll með jafnvægið milli áhugamálsins og vinnunnar í dag.

Þegar ég ræði um að vinna við ástríðu sína þá á ég ekki endilega við að maður þurfi að vinna nákvæmlega við það sem er stærsta ástríða manns. Kannski vill maður halda því sem áhugmáli og fá útrás fyrir verkefnagleði sína annars staðar. Það getur til dæmis verið einmannalegt að vera rithöfundur, eins og Yrsa Sigurðardóttir hefur talað um. Hún kýs að vinna við verkfræðina og skrifa bækur.

Warren Buffet hefur mikla ástríðu fyrir peningum en hann hefur líka ástríðu fyrir því að stýra, að reka fyrirtæki og koma augu á tækifæri. Ástríðan er aldrei ein og óbreytanleg allt lífið. En staðreyndin er sú að ef þú tekur starfi eingöngu út á að það líti vel út á ferilskránni þá ertu ekki líkleg eða líkegur til að ná því besta sem þú hefur að bjóða heiminum.


Af öllu hjarta.

Ekki skalt þú hefja verk þitt, fyrr en þú hefur gefið gaum að, hvað undan því fer og eftir því kemur. Ella munt þú að vísu byrja það með ákafa, en síðar, þegar tekur á að bjáta, munt þú guggna á því og hafa skapraun af, því að þú hafðir ekki gert þér ljóst, hver böggull fylgdi skammrifi. Epikets

 

Epikets þessi var fæddur 50 árum eftir krist burð. Hann fæddist sem þræll en stofnaði síðar frægan heimsspekiskóla í Nikopolis og Róm. Hann var haltur vegna þess að eigandi hans lét brjóta á honum fótinn í hegningarskyni. Hann ku hafa sagt „þú brýtur vísast fótinn minn“ það gékk eftir og þá sagði hann „hvað sagði ég ekki“ sallarólegur! Síðan kvarta ég sem hef frelsi, heilsu, fjölskyldu, vini og flest það sem hugurinn girnist.

 

Eins og þið vitið þá er mér mjög umhugað um ástríðu, eldhug og innri drift til frammúrskarandi lífs. Til að ná árangri í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur þá verður maður að vera í því að af öllu hjarta. Finna sig knúin til góðra verka – af öllu hjarta. Spurningin sem hver maður ætti að spyrja sig er ekki: Hvað fæ ég fyrir? Heldur; hvað er ég tilbúin til að gera af öllu hjarta? Hvað snertir við mér svo ég geti lagt mig alla fram af öllu hjarta? Til að ná árangri, sama á hvaða sviði það er, þarf maður að vera tilbúin til að leggja hart að sér, reyna að sjá fyrir hindranir og leiðir í kringum þær.

 

Tveir menn lögðu af stað, með sveitir sínar, á suðurpólinn í október 1911, Roald Rasmusen og Robert Falcum Scott. Annar komst á áfangastað setti niður norska fánann og hélt heim aftur. Hinn týndi lífinu og allir hans menn einnig. Sömu aðstæður, sama dagsetning, sami póllinn. Heimspeki Roalds var að maður ætti aldrei að bíða eftir storminum til að undirbúa sig fyrir hann. Hann hafði meðal annars undirbúið sig með því að hjóla frá Noregi til Spánar, borðað hrátt selkjöt, verið meðal eskimóa í töluverðan tíma og lært af þeim. Hann var búin að undirbúa sig svo vel að hluta af útbúnaði hans þurfti hann aldrei að nýta. Hvað er það sem þú ert tilbúin til að leggja svo mikla vinnu á þig fyrir?

 

Við erum flest á leið á suðurpólinn á hverju degi sjáðu til, hugsaðu um hvað hefur gerst í lífi þínu, í fyrirtækinu þínu eða stofnunni sem þú vinnur hjá, eða í samfélaginu - síðustu tuttugu árin.

þú kemst líklega fljótt að því að allt hefur breytst og ekki endilega á þann hátt sem þú áttir von á.  Það eina sem við vitum er að allt breytist mun hraðar en við áttum von á. Mikilvægasta vegarnestið er einfaldlega að vita hvað það er sem maður getur lagt á sig - af öllu hjarta. Í bókini minni: Á réttri hillu er fjallað um fólk sem hefur lagt mikið á sig af öllu hjarta. Maður þarf ekki að fara á Suðurpólinn til að vita hvað í manni býr en maður þarf að þekkja sjálfan sig. Það var Epeketus meðvitaður um.

 


Brjóst.

Everyone things that the past is uninteresting. It´s not hot, it´s not new. I lvoe the idea of the future. But the future isn´t here yet. – I can´t learn much from it. If you want to make good decisions about what´s to come, look behind you.     

Nathan Myhrvold.

 

Þegar ég var um það bil búin að fá brjóst, sem að mínu mati var allt of snemma, þá byrjuðu karlkynsjafnaldrar mínir (þeir voru ekki komnir í mútur) að kalla á eftir mér.. „mjólkurbú Flóamanna“. Ég hataði þá stofnun lengi fram eftir! Ég lærði því fljótt að klæða mig í víðar peysur til að reyna að fela það sem olli þessum vangaveltum og hrópum eftir mjólkurframleiðslu fyrirtæki: Brjóst! Ég ólst nefnilega úr grasi (og bjóstin á mér uxu fram ..) á vitlausum tíma. Þá var í tísku að vera næstum flatbrjósta... Brook Shields, Meg Ryan, Jody Foster (allar fyrir brjóstaaðgerðir..) voru helstu hollívúdd framleiðsluvörurnar.

 

Ég pakkaði mínum brjóstum því inn í stórar peysur og reyndi að láta lítið fyrir þeim fara. Öfundaði allar kynsystur mínar sem væru svo heppnar að vera flatbrjósta – fyrir utan hvað þær ættu gott í leikfimi! Well.... ég hef verið að hugsa um þetta undanfarið þegar fréttir af lekum og ónýtum sílikon púðum bárust. Ég er nú þannig að ég þoli ekki einu sinni að fara til tannlæknis eða í blóðprufu. Meiriháttar aðgerð í mínum huga er að gefa blóð – enda hef ég aldrei gert það! En fullt af konum eru til í að leggjast undir hnífinn til að stækka brjóstin á sér... það hefur enginn öskrað á eftir þeim ..“mjólkurbú flóamanna“ svo mikið er víst! Þær hafa kannski horft á okkur hinar sem vorum að fela á okkur brjóstin og hugsað „ég vil vera svona...“. kannski – My point er að við viljum flest öll vera einhvern veginn allt öðruvísi en við erum! Halló ... hvaða vit er í því! Halló, brjóstin á okkur öllum eru  bara nákvæmlega eins og þau eiga að vera og ef við dæmum þau ekki eftir því hvernig við lesum í myndir af öðrum um hvernig þau eiga að vera þá....... myndum við lifa fleiri hamingjuaugnablik með brjóstunum á okkur, eins og þau eru!

 

Í upphafskvótinu þá er talað um að læra af fortíðinni. Ég hef lært að láta mér líka vel við mjólkurbú flóamanna og brjóstin á mér enda hafa þau fætt þrjár guðdómlegustu verur jarðarinnar. Ég hef lært að horfa í fortíðina til að ákveða hvernig ég vil vera í framtíðinni. Satt best að segja finnst mér fáranlegt að spegla mig í nokkrum öðrum en sjálfum mér :-). Reyna að vera sátt við það sem ég hef hér og nú.

 

Ég vona að þið elskið hvern þumlung af ykkur – nákvæmlega eins og hann er núna! ekki eins og hann var (það verður aldrei aftur) og ekki eins og þið vilduð að hann væri.

 

Snjóar í kaf kveðjur,

Árelía Eydís


Næði.

                               The knowledge of all things is possible. Leonardo da Vinci

Hvað eiga Leonardo da Vinci, Niccoló Machiavelli og Michelangelo sameinlegt? Fyrir utan að vera allir ítalskir, karlmenn og snillingar? Jú, það er rétt þeir voru allir uppi á svipuðum tíma en da Vinci var fæddur 15. apríl 1452 og dó árið 1519. Þessir ítölsku herramenn, snillingar og frumkvöðlar höfðu allir NÆÐI. Tíma til að hugsa, tíma til að hvílast, tíma til að vera til og endurnærast. Líf þeirra einskorðaðist ekki af klukkunni.

Ég er hugfangin af Leonardo da Vinci, ekki aðeins var hann sætur og sjarmerandi, heldur er hann flokkaður sem mesti snillingur sögunnar. Það er ekki að ófyrirsynju. Hann smíðaði flugvél, teiknaði fallhlíf, hann málaði Monu Lísu, síðustu kvöldmáltíðina og fleiri ódauðleg listaverk. þess fyrir utan var hann fjörtíu árum á undan Coperniusi í að taka eftir því að jörðin hreyfist í kringum sólina - ekki öfugt. Hann var sextíu árum á undan Galelíói að taka eftir því að hægt væri að nýta "stórt stækkunargler" til að skoða yfirborð tungslins. Hann var tvö hundruð árum á undan Newton í að uppgötva þyngdarlögmálið og fjögur hundruð árum á undan Darwin með þróunarkenninguna. Sumt af hans uppgötvunum höfum við ekki enn leitt til lykta. 

Leonardo da Vinci hafði líka tíma til að gera fullt af mistökum. Hann setti upp nýjan búnað í "eldhúsi" greifa sem hann vann fyrir og á sama tíma setti hann upp "eldvarnarkerfi". Það kviknaði í eldstónni og eldvarnakerfið var svo öflugt að eldhúsið flæddi út meðan yfir hundruð fínustu gestir Florence biðu eftir réttum sínum. Honum tókst ekki að breyta árfarvegi og fleiri og fleiri mistök gerði hann. Þannig geri ég ráð fyrir að honum hafi tekist að halda áfram að þróast sem vísindamaður, listamaður og mannleg vera. Hann var meðal annars ástríðu kokkur og hafði yndi af garðrækt og hönnun.

Það er hollt að læra af snillingum - maður þarf ekki að spegla sig í neinum öðrum en sjálfum sér en það er svo forvitnilegt að reyna að ímynda sér hvernig nokkur maður hafi getað komið því til leiðar sem hann gerði. Hann á að hafa sagt á dánarbeðinu "ekki strax, ég á svo margt eftir.." Váááá.. ef hann átti margt eftir hvað þá með okkur?

Ég er sannfærð um að enginn nær 5% af því sem hann kom til leiðar nema með því að skapa sér NÆÐI af og til, nema að ástunda kyrrð, nema að hafa sjálfsagann til að láta þögnina koma með spurningarnar til sín. Leita síðan svara þegar næðinu lýkur og annað tekur við. Við getum margt af Leonardo da Vinci lært. Það er líka gott í ófærðinni að leita að næðis- og yndisstundum.


Þriggja daga kúr.

Mér er orðið ljóst að ef ég vil að lífsaðstæður mínar breytist til hins betra verð ég sjálfur að breytast til hins betra.                                                -Úr bókinni Orðið ljóst.

Mikið er nú gott að fá nýtt ár með öllum þess loforðum um ný ævintýr og nýjar áskoranir. Ég vona að þið séuð flest farin að huga að nýjum sigrum og nýjum hindrunum sem fara á yfir ár nýju ári. Ég sjálf viða að mér efni til að gera óskaspjöld og læt mig dreyma stóra drauma um allt milli himins og jarðar. Ég hef alltaf verið hrifin af þessum tíma. Oft hefur verið sagt við mig að ég sé allt of bjartsýn og detti stundum í dagdraumana. Ég er nú að sættast við þessa eiginleika mína. Við höfum, á undanförnum árum, verið allt of upptekin af því neikvæða.

Neikvæðar fréttir, neikvæð umræða, neikvæðir straumar. Alveg sama hvort maður fer í heita pottinn eða hlustar á fréttir, stöðugt hefur verið hamrað á því sem er neikvætt. Efnahagsástandið, hér heima, í Evrópu, í Bandaríkjunum. Allt á að hrynja - eftir tiltölulega stuttan tíma. Stjórnmálamönnum er bölvað og þeir sem einhvern tímann tengdust fyrirtækjum sem hafa verið með starfsemi erlendis er kennt um að hafa verið í stöðugu svindli. "Og svo sleppa þessir andskotar..." á þessu endar umræðan oftast í matarboðum í heita pottinum og í umræðuþáttum fjölmiðla. Flestir krefjast þess að einhverjum sé hengt bara einhverjum! ..... einhver!  

Við vitum að samkvæmt hamingjufræðum þá er vellíðan okkar byggð á því hvað við hlustum á, við hverja við tölum og hvernig við högum okkur gagnvart hvert öðru. Ég legg til að við, hvert og eitt, einbeitum okkur að vellíðan. Ég legg til að við byrjum á því að taka þrjá daga og láta okkur líða vel í vinnunni, heima og alls staðar annars staðar í heila þrjá daga. Í þrjá daga reynum við að beina hugsunum okkar að því sem er gott, uppbyggilegt og gefur okkur vellíðan. Þakklæti fyrir það sem við höfum en ekki beiskja gagnvart því sem við höfum ekki er mikilvæg þessa þrjá daga. Þegar hugurinn leitar að því sem er erfitt, þungt og leiðinlegt þá bara beinum við honum aftur á rétta braut og minnum okkur sjálf á að þetta eru bara þrír dagar. Eftir það er frjálst val um að huga að því sem er erfitt og neikvætt og sem er næstum hrunið eða um það bil að hrynja. Förum saman í vellíðunar kúr!  Bara í þrjá daga, við "mössum" þetta saman.


Raunverulegur kjarkur til að breyta!

Í bókum mínum, sérstaklega síðustu tveimur, fjalla ég um markmiðasetningu, stefnumótun og að láta drauma sína rætast. Ég í þó nokkur ár kennt um stefnumótun í eigin lífi og ráðlagt fólki um hvernig það kemur sér upp úr hjólförunum. Í ljósi þessa þá skýrist kannski af hverju mér þykir áramót alveg sérstaklega mikilvægur tími.

Núna þegar við flest erum svo stútfull, yfir um okkur, af rjóma, súkkulaði, hamborgarahrygg og öllu því fæði sem við tengjum við hátarhöldum, er auðvelt að falla í þann pytt að trúa hugsunum sínum.

Hugsanir eins og "ég er eins og svín, ég hata bumbuna á mér, ég borðaði allt of mikið, ég er ógeðsleg/ur.." Síðan bætist við "líf mitt er hörmung, ég öfunda alla sem eru með allt undir kontról.." "Aumingja ég! Þess fyrir utan er ég í ömurlegu sambandi, ömurlegri vinnu, ömurlgu húsi og ömurlegu landi." Svona spilar platan áfram þangað til við erum næstum komin í rúmið af þreytu, vonleysi og fórnarlambsmeðaumkun. Þangað til að við stöðvum hugsnafossinn og stígum á stokk og segjum; Hingað og ekki lengra! NÚ er komð að því. Ég ætla að fara í megun, líkamsrækt og ganga á hverjum degi á nýjan tind. allt þetta ár. Því ÞÁ verð ég hamingjusöm/samur. ÞÁ mun mér líða betur . Þá verð ég með allt undir kontról. Ég verð rík, fræg, mjó og örugglega með í öllum flottustu áramótapartíunum. ÞÁ verður allt lífið mun betra og ég aldrei óhamingjusöm/óhamingjusamur framar.

En ef hugsanafossinn er svona þá er ekki að breyta neinu. Eina sem gerist er að maður heldur af stað (been there, done that..) fullur af von og krafti þangað til að næsta hindrun verður á vegi manns og maður dettur í sama farið. Þess fyrir utan verður maður ekki hamingjusamur af því að vera ríkur, frægur eða grannur.

Raunverlulegur kjarkur er að beina allri okkar ást og góðmennsku í okkar eigin garð. Þegar við erum tilbúin til að sýna okkur athygli, ástúð og forvitni. Þegar við erum tilbúin til að samþykkja líf okkar og stöðuna eins og hún er núna. Með bumbunni, með bakflæðinu og með pokunum undir augunum. ÞÁ finnum við kjark til að breyta raunverulega lífi okkar. Stýra því í áttina sem okkur langar. Láta drauma okkar og þrár hvísla að okkur hvert skal halda. Þá erum við tilbúin til að bera nægilega virðingu fyrir okkur að öllu leiti og finna leið til að rækta líkama, sál og anda. Finna hvað hentar okkur af því við erum þess virði.

Gleðilegt nýtt dásemdar ár og megið þið njóta þess í botn að sinna líkama, sál og anda á nýjan og betri hátt en áður.


Tími dulúðar.

Wanna fly, you got to give up the shit that weights you down. Toni Morrison

Um þessar mundir er myrkrið sterkara en ljósið þrátt fyrir að nýarssól færi okkur ögn meiri birtu með hverjum nýjum degi. Tími dulúðar fylgir myrkrinu og á áramótum er sá tími sem huldufólk og álfar fara á kreik. "Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja mér og mínum að meinalausum". Þessa þulu er nauðsynlegt að fara með á gamlárskvöld, samkvæmt gömlum sið.

Á áramótum er gott að líta yfir farin veg og rýna í hvað það er sem við viljum losa okkur við svo að við getum þanið vængi okkar og flogið hátt í átt að nýjum markmiðum og draumum. Allir eiga sér drauma og þrár sem bíða þess að vera leystir úr læðingi með réttri markmiðasetningu. Á áramótum getum við þakkað fyrir allt það góða sem árið færði. Við getum fundið fyrir söknuði gagnvart því sem við þurftum að kveðja og gleði yfir því sem gaf. Á áramótum þegar sjónvarpið sýnir árið hverfa og nýtt birtast gerum við okkur öll svo ósköp vel grein fyrir því að tíminn líður áfram og hvert og eitt okkar er einu árinu eldri. Einu ári eldri og því þroskaðri og reyndari en um leið þá finnum við eftir því sem árin bætast við hversu ofurviðkvæm við erum gagnvart því að fresta ekki lengur því sem við látum okkur dreyma um.

Tími dulúðar lætur líka allar óskir rætast - ef maður hefur fyrir því að fara með þuluna og vita hvað það er sem maður sækist eftir. Gangi ykkur vel að fara í drauma- og óskaleit. Megi nýja árið verða til þess að vængir ykkar fá þann byr sem markmiðin geta stýrt.


Óþolandi leiðtogar.

Það besta við að sitja í flugvél (ekki að mér þyki það sérstaklega eftirsóknarvert svona öllu jöfnu..) er að maður getur setið með hvítvínsglas í hönd og lesið án nokkurrar truflunar (ja, nema kannski "te eða kaffi?"). Ég var að koma úr góðri ferð og nýtti tækifærið til að lesa nokkrar ævisögur leiðtoga. Ég sökkti mér niður í bækurnar hvenær sem tækifæri gafst. Með mér í för að þessu sinni, fyrir utan dóttur mína, voru Nelson Mandela, Steve Jobs og Stephanie Beacham en hún er bresk sjónvarps- og kvikmyndastjarna sem hefur gert garðinn frægann í landi Jobs, Ameríkunni.

Þar sem ég kenni leiðtogafræð þá eru þessir einstaklingar mér sérstaklega hugleiknir. Þeir sem ná miklum árangri í starfi leiðtoga. Til langs tíma gerðum við ráð fyrir að leiðtogar væru betri en annað fólk, fallegri, greindari eða betur að guði gerð en við hin. Steve Jobs, sem nýlega féll frá, stofnaði meðal annars Apple fyrirtækið í Bandaríkjunum með vinum sínum. Hann var þekktur fyrir að vera óþolandi að mörgu leiti, hann átti til að gráta, öskra og niðurlægja fólk. "Ertu hreinn sveinn? Hefur þú prófað eiturlyf?" Spurði hann, furðulostinn verkfræðing, sem sótti um vinnu hjá honum. Ekki  beint það sem við kennum í mannauðsfræðunum um hvernig á að taka ráðningarviðtöl. Hann laug, sveik og tók heiðurinn af fólki. Nelson Mandela er viðkvæmur en sterkur. Hann hefur verið táknmynd lýðræðis og heilsteypra hugmynda í Suður-Afríku en hefur ekki sinnt sínum nánustu sérstaklega vel. Hann er nískur þegar hann gefur þjórfé og elskar að vera með hinum frægu og ríku.

Við erum aldrei einföld - hvorki þeir sem leiða né við hin. Steve Jobs var Picasso okkar tíma að því leiti að hans helsti kostur sem leiðtoga var að þeir sem unnu með honum trúðu á það sem hann sá sem framtíðarmöguleika. Þeir gátu gert svo miklu meira en þeir héldu sjálfir að þeir gætu með því að vinna með honum. Hann náði að láta hópinn sinn, sem hannaði fyrsta Mac-inn, skilja að þeir væru listamenn. Þess vegna voru allar vélarnar með undirskrift allra í hópnum, innan á vélunum. Hann sá inn í framtíðina og lagði sig svo allann fram í að vinna að markmiðum sínum af ástríðu. Þess vegna syrgði heimurinn hann sem mikinn leiðtoga. Nelson Mandela er líklega einn virtasti stjórnmálaleiðtogi samtímans. Hann fórnaði næstum þrjátíu árum í fangelsi fyrir málstaðinn en hefur sýnt ótrúlegan kjark í lífi sínu. Kjark sem hann segist ekki hafa haft heldur áunnið sér. Stephanie Beacham hefur orðið sjónvarps- og kvikmyndastjarna þrátt fyrir að vera næstum heyrnalaus.

Á síðustu dögum fyrir jól, þegar við öll verðum óþolandi, af og til, af stressi, svefnleysi, áhyggjum og jólaundirbúningi er gott að minnast þess að við eru ekki ein! Allir leiðtogar eru óþolandi stundum - og við hin líka. Þrátt fyrir það nær fólk árangri og er elskað - eins og það er.

 

ps- fyrir þá sem hafa áhuga á bókunum:

Walter Isaacso, 2011. Steve Jobs. New York. Simon & Schuster. 

Stephany Beacham, 2011. Many lives an autobiography. London. Hay House.

Richard Stengel, 2010. Mandela´s way. Lesson on life. London. Virgin Book.


Litla gula hænan.

Ein af mínum uppáhaldsbókum frá barnæsku er sagan af litlu gulu hænunni. Litla gula hænan fann korn og hún sá ylvolgt brauð í hveitikorninu. Hún leggur upp í vegferð þar sem hún biður öndina, köttinn og svínið að hjálpa sér við að sá, þreskja og mala kornið. Þau svara um hæl "ekki ég!" þegar er komið að því að hnoða deigið þá færa þau sig nær og hún biður þau enn um aðstoð en þau segja aftur "ekki ég!". Hins vegar þegar kemur að því að borða ylvolgt brauðið þá vilja þau vera með, en þá var það orðið of seint.

Hversu oft segjum við ekki við okkur sjálf "ekki ég!" en viljum svo gjarnan njóta uppskerunnar án þess að þurfa að fara í gegnum ferlið. Kynslóðarbilið hefur að öllu líkindum aldrei verið meiri en nú vegna þess hversu ólík reynsla eldri kynslóða og yngri er af lífinu. Þau sem nú alast upp og eru að komast á fullorðins ár eru vön allt öðrum vinnubrögðum en við hin. Ungt fólk horfir ekki á sjónvarpsþætti á þeim tíma sem þeir eru sýndir á sjónvarpsstöðvum, eins og við hin eldri erum vön. Þau horfa í tölvunni um leið og þátturinn kemur út. Þau hrærast í tölvuheimi þar sem þau hafa fullt vald á aðstæðum og fá umbun um leið. Strax! Ekki seinna. Síðan fara þau í skóla og finnst fáránlegt að læra um það sem hægt er að finna á netinu, strax! Þetta gerir það að verkum að biðin eftir verðlaunum seinna er þeim óskiljanleg.

Á sama tíma hefur heimilishald breyst gífurlega, milli kynslóða. Í Bandaríkjunum, samkvæmt rannsóknum, borða meðlimir sem búa undir sama þaki s.s. fjölskyldur einungis í 20% tilvika saman í viku hverri. Sú hefð að elda, setjast niður saman og borða er á undanhaldi í hinum vestræna heimi. Í Bretlandi borða, að meðaltali, 15% kvöldmatinn sinn í bílnum á leið frá vinnu. Í Bandaríkjunum eyða fullorðnir einstakingar að meðaltali fjórum klukkutímum á dag í sjónvarpsáhorf. Tími sem fer í að vafra á netinu eykst stöðugt.

Skyndilausnir, skyndimatur, skyndiafþreyjing og skyndikynni (ekki kannski í þeim skilningi sem mín kynslóð lagði í það orð) sem felast í samskiptum á netinu í stað þess að taka tíma í að hittast og tala saman er orðin viðtekin venja.

En litla gula hænan kenndi okkur nokkuð verðmætt - þegar við tökum tíma í að undirbúa jarðveginn og hlúa að því hversdagslega þá uppskerum við ylvolgt brauð og hvað er betra en það. Á jólaaðventu erum við oftast full af nostalgíu eftir löngu horfnum dögum, fólki sem horfið er á braut og minningum um langa daga sem liðu hægt. Biðin eftir jólunum var löng og svo virtist, í barnshuganum, að tíminn liði hægar og hægar eftir því sem leið að jólum. Njótum þess að stöðva tímann og huga að því sem mun aldrei beytast milli kynslóða.  Fylla sál og hús af kærleik og óendanlegri gleði yfir því að vera til og hlúa að því hversdagslega um leið og við klæðum híbýli okkar og okkur sjálf hátíðarbrag.


Að baka vandræði.

Um þessar mundir eru flestir komnir á kaf í jólaundirbúning og hluti af honum er að baka kökur, laufabrauð, hveitikökur og annað góðgæti. Fólk hittist og bakar saman og nýtur samvista við hvort annað í sínum jólahefðum. Ég legg til að við bökum líka vandræði. Það er algjörlega vanmetið að baka vandræði stöku sinnum. Við erum oft svo hrædd við að baka vandræði að við segjum ekki skoðun okkar eða förum fjallabaksleiðir í stað þess að fara stystu leið til að komast hjá því að baka vandræði. Það væru mun fleiri fyrirtæki á beinu brautinni ef fólk hefði þorað að baka vandræði. Enron var upplýst af því að tvær konur þorðu að baka vandræði. Það væru mun fleiri fjölskyldur í nánari samskiptum ef fleiri þorðu að baka vandræði. Við værum fleiri að sinna köllun okkar ef við hefðum hugrekki til að baka vandræði í lífi okkar.

þegar amma mín var aðeins yngri, hún er núna 88.ára, þá var hún í Botsja - svona kúluíþróttakappleik sem margir eldri borgarar stunda. Það voru eingöngu konur með henni og þar sem amma er mikil keppniskona þá vildi hún að sitt lið stæði sig vel. "þú verður að glenna þig betur" - kallaði hún í systur sína sem var í liðinu, "það er ekki eins og við höfum oft tækifæri til þess". Ég hef oft hlegið að þessari sögu af ömmu sem bakaði og bakar enn oft vandræði með því að segja hluti sem eru kannski ekki alltaf viðeigandi eins og "ég sá svo svakaleg feita konu, hún var meira að segja feitari en þú!" Þessi einstaki hæfileiki ömmu til að baka vandræði með athugasemdum sínum getur gert mann bjálaðan en oftar en ekki býr það til tækifæri til að skella vel og vandlega uppúr.

Það er vel hægt að baka vandræði á aðventuni með því að gera nákvæmlega það sem hugurinn stendur til. Hvað er það sem þig langar til að gera en vilt ekki baka nein vandræði með? Kannski bara kaupa smákökur í stað þess að baka. Eða taka frí í nokkra daga eða drekka bara kakó en ekki kaffi. Kannski hlusta á þessa innri rödd sem segir þér hvað þú vilt - bara fyrir sjálfan þig og gera það! Baka vandræði, svo ég vísi í heilagann Frans frá Assisi: "Byrjaðu á að gera það sem er nauðsynlegt. Síðan skaltu gera það sem er mögulegt og allt í einu gerir þú það sem er ómögulegt". 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband