Kvenorkan

Á alþjóðadegi kvenna hugsa ég hlýlega til allra kvenna í lífi mínu og líka hinna sem eru mér ekki sýnilegar. Konur vinna oft vinnu sem er ekki sýnileg en heldur samt sem áður öllu saman í samfélögum manna.

Konur hugga og snýta og styðja fólk sem getur ekki stutt sig sjálft. Konur eru oft í fagstéttum þar sem þarf að sýna umhyggju sem oft er ekki metin til launa en skiptir samt öllu máli. Maður skilur það best þegar á bjátar. Sjúklingar reiða sig oft á góðar konur innan heilbrigðisgeirans. Heyrði skemmtilega sögu um daginn um konu sem var verið að undirbúa fyrir aðgerð og meðan kvenhjúkrunarfræðingur strauk henni um hárið kom karllæknir inn. Sjúklingurinn starði með stífu hræðsluaugnaráði á lækninn, "heldur þú að þetta verði ekki bara gott." Hann horfði á hana í smá stund og svaraði síðan "þú ert nú komin á viðhaldsaldur svo að við sjáum til.." Blessuð konan sem nota bene var undir sextugu lifði af og hafði humor fyrir þessu öllu saman en það var kvenhjúkrunarfræðingurinn sem róaði taugarnar áður en hún sofnaði inn í aðgerðina. Stundum eru konur í því hlutverki að slétta úr hlutunum tilfinningarlega og í vinnunni. Auðvitað er ekki einhlýtur munur á kynjunum.

Konur í Liberíu fengu nóg af hernarbröltinu og stofnuðu Women of Liberia Mass action for Peace. Þær fóru að syngja og biðjast fyrir á mörkuðum daglega. Þar sameinuðust bæði kristnar konur og múslimar. Þær hafa gert ýmislegt eins og að fara í kynlífsverkfall, hótað að leggja álög á þjóðarleiðtoga og fleira. Þær náðu að þvínga stíðandi herra að friðarborði. Leymah Gbowee sem Nóbelsverðlaun vegna starfa sinna fyrir þau samtök árið 2011. 

Konur halda saman fjölskyldum, redda hlutunum og þrífa líka. Kvenfélögin á Íslandi reystu Landspítalann og Hringurinn leggur mikið til hans á hverju ári. Konur gefa og hugsa um ungviðið, bæði á heimilum og í vinnunni. Konur reka líka fyrirtæki og sitja við stjórnvölin en ekki í þeim mæli sem við hefðum viljað. Konur eru leiðtogar ríkja en ekki eins margra ríkja og við hefðum viljað. 

Rannsóknir sýna að konur sem eiga nánar vinkonur lifa lengur og að karlar sem eru giftir lifa lengur. 

Þess vegna ættum við öll að meta hina kvenlegu orku og konur almennt á þessum degi með þakklæti til formæðra, mæðra, dætra og allra hinna. Á sama tíma standa vörð um þau réttindi sem hafa náðst í baraáttu kvenna um allann heim. 

areliaeydis.is


Nýjar umferðareglur

"Þú matt þetta EKKI.!" Aðstoðakonan mín, sem öllu jöfnu stjórnar mér nokkuð vel og vandlega horfði á mig með hneyslun. Ég leit undrandi upp úr tölvunni og kváði. Upphófst þá lesturinn, "sko af því að þú ert orðin einheyp þá mátt þú ekki senda karlmanni vinabeiðni á facebook!" Ég varð enn meira hissa og fór að afsaka mig og sagði að ég yrði að boða hann á fund og ég vissi ekki netfangið og að ég væri alls, alls ekki að með annað í huga en bara einn lítinn viðskiptafund.

Ég var að reyna að ná í mann nokkru seinna og biðja hann um að hitta mig í hádeginu vegna bókar sem ég var að skrifa. Ég sendi honum tölvupóst eins og ég geri en hann svaraði seint og illa. Ég kvartaði við einhvern um að maður í hans stöðu leyfði sér að svara ekki. Ekki stóð á svarinu "Hann heldur að þú sért að reyna við sig". Ég missti næstum tyggjó-ið út úr mér. Hvað! Má nú ekki bjóða manni í löns öðruvísi en hann haldi að ég ætli að svipta hann fötum?

Æskuvinkona mín horfði á mig með áhyggjusvip nokkru síðar. Hún sagðist aðspurð hafa svo miklar áhyggjur af mér. Ég hélt kannski að það væri af því ég ætti svo bágt. "Þú átt ekki séns á þessum nýju miðlum." Ég sagði henni að ég væri bara nokkuð vel gefin, að mínu mati. "Nei, þú fattar aldrei neitt". Ég minnti hana á að ég kenndi meðal annars um samskipti en hún bara hristi hausinn og sagði "en það er ekki á netinu." Þar gilda allt aðrar reglur, svo bætti hún við "þú verður að setja selfíes inn og líta vel út." Þá lærði ég um filtera.

"Ertu ekki á Tinder?" Spyrja allir - ég er að meina ALLIR. Ég sem er skömmuð fyrir að tala við karlmenn svona almennt, nema pabba, bróður minn og son (smá ýkjur) . En ég held að það sé alla vega löglegasti vettvangurinn þar eru alla vega umferðareglurnar skýrar og mér skilst að það sé best að taka selfíe ofan frá :-). 


Húsbóndi á sínu heimili

Þegar ég fer í klippingu eða snyrtimeðferðir (ekki alveg ókeypis að líta svona út ;-) eins og vinkona mín ein segir alltaf). Þá nota ég tækifærið og les öll "kerlingatímaritin". Eða réttara sagt kíki á þau. Þessi íslensku tímarit sem ætluð eru konum eru mismunandi að gæðum en eftir því sem ég verð eldri og vitrari þá eru þau fá sem vekja áhuga minn. Í nýj Hús og Hýbýli-blaði vaknti ein grein athygli mína því þar var talað um að húsfreyjan tók á móti blaðamanni og svo var sýnt úr "húsbóndaherbergi". 

Ég svitnaði af hneykslun og leit upp úr blaðinu og stórskammaðist í meðferðaaðila mínum "húsbóndi", "húsbóndaherbergi." Ég hef ekkert á móti karlmönnum, elska þá og alls ekki á móti því að þeir eigi sitt eigið herbergi. En... húsbóndi, í alvöru? Hefði verið hægt að segja hann eða hún - eða eiginkona, eiginmaður eða bara frúin og herrann. Eða hvað sem er en ... Húsbóndi! í Alvöru?

Er einhver kona sem ennþá segir að eiginmaður hennar sé húsbóndinn? Í hinum blöðunum voru endalaus viðtöl við fólk (lesist konur) um hvað þær borða og hvert þær fara í ræktina. Í alvöru! Fyrirsæturnar eru hálfnakin börn sem auglýsa krem og annað dót. Í einu blaðanna var sýnt í afmæli eins árs barns sem hefur örugglega tekið þrjár vikur að undirbúa. Hvernig á að þrífa og hvað á að borða - í alvöru!

Mig langar að lesa um pólitík. Um konur sem sigrast á hindrunum. Um viðskipta-trend. Um frumkvöðla, um bónda upp í sveit. Um nítíu ára konu sem litar á sér hárið í hverri viku og dansar Zumba. Um konu á miðjum aldri sem vill bjarga heiminum. Um tuttugu ára stelpu sem elskar fótbolta og spilar í hjómsveit. Um konur sem fokka upp systemi og konur sem gera það ekki. Um fjaldgöngugarpa og sirkusdýr og ferðalög og ævintýri. En ekki um húsbændur og hjú.

Næst þegar ég fer í meðferð af einhverju tagi þá ætla ég að taka mitt eigið lesefni með mér. Reyndar dett ég oft niður á eitthvað í MAN. Annar verð ég bara að fara að gefa út mitt eigið tímarit. Mikið sakna ég Veru sem ég var áskrifandi að þann tíma sem hún var gefin út. 

eðferð af einhverju tagi þá ætla ég að taka mitt eigið lesefni með mér. Reyndar dett ég oft niður á eitthvað í MAN. Annar verð ég bara að fara að gefa út mitt eigið tímarit. Mikið sakna ég Veru sem ég var áskrifandi að þann tíma sem hún var gefin út. 


Þekkir þú tilgang þinn?

Markmiðasetning eru mínar ær og kýr, ef svo má að orði komast. Ég hef gefið út bækur um efnið, kennt um það í fjöldamörg ár. Ekkert merkilegt við það í sjálfu sér en það sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt er að fylgjast með ryðmanum í markmiðasetningum. 

Markmiðasetning eru mínar ær og kýr, ef svo má að orði komast. Ég hef gefið út bækur um efnið, kennt um það í fjöldamörg ár. Ekkert merkilegt við það í sjálfu sér en það sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt er að fylgjast með ryðmanum í markmiðasetningum. 

við byrjum árið á markmiðum í matarræði og hreyfingu og förum svo í maraþon markmið og á haustin byrjar meistaramánuður. 

Eftir umtalsverða umhugsun og yfirlegu þá finnst mér að ryðminn ætti líka að snúast um eitthvað meira. Við höfum öll getuna í okkur til að breyta lífi okkar reglulega í þágu einhvers stærra en eingöngu líkamlegrar hreysti, þó svo að það sé mikilvægt líka. 

Velgengi er ákveðin vísindi sem byrjar innra frá. Hvernig gengur þér að hvetja sjálfan þig? Hvernig gengur þér að stjórna, því einu sem þú getur stjórnað, sjálfum þér? Hvernig tekst þú á við erfiðleika og kemur niður á fótunum? Hvernig ætlar þú að bæta við þig þekkingu? 

Mikilvægasta markmiðasetning snýr að því að finna tilgang sinn. Þekkja sitt eigið hjarta og vita að hverju maður stefnir með þessu lífi. Setja sér markmið um að öðlast visku til að líf manns geti þjónað öðrum en eingöngu sjálfum sér. Markmið um hvernig maður ætlar að vaxa og þroskast sem manneskja. Fá meira út úr lífinu, kreista hvern dropa út úr því sem maður getur orðið. Setja sér markmið um að upplifa tilfinningar sínar og læra að hugsa um þarfir sínar, um raunverulega nánd og kærleika og hvernig maður getur náð að njóta sín í lífi og starfi. 

Hitt sér kannski betur um sjálft sig þegar við fylgjum okkar eigin áttavita - sem er ekki auðvelt og krefst mikillar vinnu. Sú vinna skilar sér í sálarsátt. 

Velgengi er vísindi en eins og önnur vísindi er hægt að læra með gagnrýnum huga.  

Gleðilegt stærra ár :-)


Kynlíf, rokk og ról

"Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka." Madonna er víst fegin því allt of mörg söngvaskáld hafa fallið frá. Það er skrýtið að hugsa til þess að þeir sem hafa hjálpað manni yfir ástasorgir og lyft manni í hæðir á dansgólfinu eins og Leonard Cohen, George Michael, Prince og David Bowie séu nú allir. Eins og hluti af sögu manns sé horfin að eilífu. 

Það mætti halda að fólk ætti að forðast að vera frægt söngvaskáld, ríkur og fallegur. Það virðist vera lífshættulegt. Allir þessir einstaklingar voru háðir fíkn sinni, eiturlyf, kynlíf og rokk og ról. Flestir sækjast eftir einmitt þessu, að vera ríkur, frægur og geta stundað kynlíf með hverju sem er, hvenær sem er. Opinberalega hefur Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir hvað þetta líf sé eftirsóknavert. Að geta gripið í píkur kvenna og láta fólk lúta í lægra haldi í krafti frægðar og valda. 

Þeir sem ná svo miklum árangri sem söngvaskáld eins og þeir sem fallið hafa frá á árinu eru allt yfirburðamanneskjur sem hafa fært miklar fórnir í lífi sínu. Yfirburðamanneskjur geta kannski ekki fengið allt og fæstir geta staðið undir því að álagi sem fylgir lífi þeirra nema leita í fíkniefni, virðist vera. 

Af þessu að dæma virðist svo vera sem hið hversdagslega líf sem við hin, hversdagshetjurnar, lifum sé - eftir allt það sem er líklegra til lífsfyllingar. 

Á næsta ári er ekki vitlaust að njóta þess í botn að upplifa hversdagsleikann. Yfirburðafólk verður oft snarbilað - tómið verður aldrei fyllt með kynlífi, rokk og róli. Tómið sem býr í okkur öllum er betur fyllt með því að gera hið smáa og hversdagslega. Eins og að rífast við börnin, taka fallegar myndir, fara í göngutúr og upplifa nánd. Nánd með sjálfum sér og nánd við aðra.

Árið 2017 verður ár hins hversdagslega hjá mér, hins smáa. Ár þess venjulega og ég þarf alls ekki nein fíkniefni til að komast í gegnum það en hins vegar mun fullt af tónlist frá yfirburðafólki fylla líf mitt ljómandi fínum tónum sem hjálpa mér að komast yfir það sem hendir í hversdagsleikanum. 

Ég óska ykkur gæfu og góðra stunda á nýju ári. Ég óska ykkur þess að hver venjulegur þriðjudagur verði svo venjulegur með sínum ryðma sem styður við góðar venjur, skemmtileg verkefni og ekki síst uppbyggilegar hugsanir. 

Takk fyrir samveruna á árinu 2016 sem nú er að kveðja .."nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,en minning þess víst skal þó vaka."  Minning þeirra sem féllu frá lifir eins og góðar minningar um atburði og fólk frá árinu lifir með okkur um ókomna tíð. En ég segi eins og Madonna, mikið er ég fegin að þetta ár er að renna sitt skeið! 

 


Göngum fyrir þá sem ekki gátu gengið lengra

"Föllum á kné", segir í einu fallegasta jólaljóði okkar; Ó helga nótt. Myrkrið er allt umlykjandi og nætur langar á norðuhveli jarðar á þessum tíma. Flestir finna fyrir margræðum tilfinningum, þeir sem komnir eru af barnsaldri finna fyrir barninu í sjálfum sér og stundum, trega og eftirsjá eftir liðnum tímum.

Aldrei er eins áberandi missir þeirra sem farnir eru frá okkur. Jólin geta líka gert þá sem eru einmanna og vansælir enn örvæntingafyllri en áður þar sem ætlast er til að fólk sé ánægt og glatt. Þá getur myrkrið smogið inn í hjarta og hugsanir. 

Þeir sem þekkja af eigin raun hugsanir um að taka eigið líf vita hversu sárt það er að sitja einn eða ein og finnast sem maður sé aðskilin frá öllum öðrum. Þeir sem þekkja af eigin raun að missa frá sér fólk sem tekur eigið líf vita að eftir sitjum við hin í örvæntingu og sorg yfir því sem ekki var sagt. Þjáningin sem fylgir þeim sem eftir lifa linar fátt nema tíminn. Tíminn gefur okkur örlítin skilning og kannski von um að viðkomandi sál hafi fengið frið. Hins vegar eru jólin sá tími sem ýtir alltaf við og ýfir sárið aðeins. 

Á vetrasólstöðum er myrkrið dimmast og nóttinn lengst. Á þeim tímamótum munu Pieta Ísland standa fyrir göngu inn í ljósið við Skarfagarð í Reykjavík. Gengið verður að vitanum með kyndla og tendruð ljós í minningu þeirra sem hafa tekið líf sitt. Við munum ganga fyrir þau sem ekki treystu sér til að ganga hér með okkur lengur. í átt að hækkandi sól. Ég hvet ykkur að koma og ganga með. Saman getum við fagnað aukinni birtu og yl og gengið til jóla og leyft því sem er að vera eins og það er.

Hér er slóðin til upplýsingar: https://www.facebook.com/events/344163089300274/

"Vort trúarljós þá veginn okkur vísi.." 

 


Skegg og englaryk

"Ef maður sér mann með skegg þá eru vinir hans líka með skegg", sagði sonur minn hugsandi þar sem við sátum og borðuðum skyndibita a la desember "of mikið að gera til að elda..". Vel athugað hjá mínum í ljósi þess að rannsóknir sína að við erum líklega summan af vinskap okkar. Ef svo má að orði komast.

Við erum hjarðdýr og þeir sem ekki tilheyra hjörðinni lifa ekki lengi. Þess vegna látum við vaxa skegg þegar vinir okkar gera það eða ef við erum af kvenkyni, gerum alla brjálaða í jólaundirbúningi. Eða þannig!

Í vinahópum verður til bæði stuðningur og viðmið um hvernig á að lifa lífinu. Við foreldrar sem erum með unglinga á heimilinu liggum á bæn og vonum að sá félagsskapur sé uppbyggilegur og til þess fallinn að lifa af testrósterón og extrógen sveiflur unglingsáranna. Á miðjum aldri þegar við förum í gegnum annað kynþroskaskeiðið þá er alveg jafn mikilvægt að hafa stuðning þegar lífið verður til þess að maður vill reyta hár sitt og skegg (þó maður sé kona).

Bestu vinirnar, að mínu mati, eru þeir sem reglulega gera eitthvað kreisí. Eitthvað sem hristir upp í manni. Líka þeir sem eru sannir sjálfum sér og ekki að þykjast svo ég tali nú ekki um að geta gefið af sér af óbilgirni. Þeir sem þora og þeir sem þola ekki niðurrif og þeir sem eru sólgnir í lífið og lífsgleðina. Sama hvað gengur á. Líka þeir sem hrasa og eiga bágt og þykjast ekki. Vinir sem geta víkkað sjóndeildarhringinn, geta verið norðurstjarnan þegar maður ekki sér hana og norðurljós á myrkum kvöldum. Þeir sem vilja ná árangri í lífi og starfi.

Kvenorkan ólgar eins og iður jarðar þegar konur koma saman á aðventunni og systralagið skín af okkur. Því jólin og aðventan er það sem skiptir okkur máli, samvera, fjölskyldan, fegurðin og ekki síst blingið og glitrandi skrautið. Þá er nú gaman að vera ekki með skegg og geta bara sameinast um að gera eithvað kreisí og helst með englaryki. 


Töfrar

Það er alveg merkilegt hvað haustmisserið er fljótt að líða. Einhvern veginn þá byrjar október og svo búmm... bráðum jól. Ég er svo heppin að mér finnst myrkrið notalegt og þegar jólaljósin koma upp gleðst ég eins og krakki. 

Þegar ég var að alast upp í Keflavíkinni, þá komum við fjölskyldan í sérferð til Reykjavíkur þegar komið var fram í desember til að skoða jólaútstillinguna í Rammagerðinni. Þar var jólasveinn sem stóð upp og settist í glugganum- rafknúin jólasveinn. Þetta vakti þvílíka kátínu og ljóma hjá okkur eldri systrunum að þá máttu jólin koma þegar þessi ferð hafði verið farin. Búandi í Keflavík þá mátti sjá hvar kanarnir bjuggu því jólaljósin og jafnvel tré voru komin upp í byrjun desember. Allir aðrir skreyttu á þorláksmessu. Mér varð hugsað til þessarar ferðar (ég veit þetta var á síðustu öld), þegar ég hljóp um miðbæinn í bær til að hitta vinkonur mínar í kaffi. Ljósadýrðin og alls staðar svo fallega skreytt. Ég varð eins og hver annar ferðamaður og fór að taka myndir uppnumin af birtunni en stoppaði sjálfa mig þegar ég var farin að taka myndir af Hallgrímskirkju. 

Í fyrra fórum við hinu megin á hnöttinn og áttum dásamlega tíma með vinum okkar í Ástralíu og Abu Dabi. Jólin voru haldin á ströndinni, þó að við ættum mjög hátíðlega stund heima líka. En það var sól, strönd og hiti. Einmitt vegna þess að við fórum í burtu einu sinni þá er ég kannski að missa mig yfr ljósunum og birtunni núna. Alveg eins og það þarf myrkrið til að kunn að meta ljósið. Þarf þjáningu til að þekkja gleðina, þarf óhóf til að kunna að meta hófið.

Við erum á hröðum snúningi í íslensku þjóðfélagi í dag, maður finnur að við erum farin að draga andan aðeins grynnnra. Á þessum árstíma er svo auðvelt að fara inn í allt sem þarf "að gera." Blessunarlega þá er það víst þannig að flestar þær kröfur koma frá okkur sjálfum. Það þarf ekkert að gera - bara vera og fara í bæinn (hvar á landinu sem er) og njóta þess að horfa á ljósin eins og barn sem stendur með nefið fast á glugganum í Rammagerðinni og dáist að undrinu. Töfrar aðventunar eru hvergi eins sterkir eins og á Íslandi því við lýsum svo vel upp myrkrið og ljósið lýsir hverja sál.


Skammaðar í háloftunum

Ég hef verið allann þennan mánuð, og verð áfram að fagna fimmtugsafmælinu mínu. Fimm vikur, ein fyrir hvern áratug, og ég held að ég muni fagna hvern einasta mánuð á þessu afmælisári. Vá – þetta gat ég, mér líður eins og ég sé búin með skyldukúrsana í lífinu og eigi bara eftir valáfanga.

Þar sem það var ljóst snemma á þessu ári að ég yrði að öllum líkindum fimmtug þetta haustið þá tóku vinkonur mínar stjórnina og bókuðu okkur saman í viku-afmælisfögnuð erlendis. Þar komu við sögu Adele, hvítvínsglös og hlátur og almennt þakklæti yfir vináttu, lífsreynslu og fabílös hrukkum.

Þetta var að sjálfsögðu ótrúlega gaman nema að á leiðinni út urðum við fimm ára aftur. Þær komu tvær og sóttu mig heim, áður en haldið var í flugið og við glöddumst alla leiðina, fengum okkur hvítvínsdreitil og fórum svo í gegnum fríhöfnina á bleiku skýi – við erum að fara á Adele…! Hljómaði nokkrum sinnum, “skál fyrir fimmtugs afmæli.” Ég lagði til að við myndum kaupa okkur litlar hvítvínsflöskur til að halda áfram að fagna í fluginu. Eftir flugtak, héldum við áfram að vera glaðar yfir lífinu og vorum bara nokkuð spakar. Fyrir utan að taka selfíes og skella upp úr nokkrum sinnum. Það ber að taka fram að enginn okkar á við nokkuð áfengisvandamál að stríða og við erum þó nokkuð vanar að ferðast. Í miðju löngu flugi kemur svo yfirflugfreyjan og horfir stíf á okkur. “Það er bannað að drekka sitt eigið áfengi” Við urðum strax fimm ára og báðumst afsökunar en svo bætti hún við og horfið á okkur með ströngum svip “það er mjög erfitt að komast inn í Bandaríkin í gegnum tollinn ef maður er drukkinn..” Ennþá fann fimm ára stelpan skömmina hríslast um sig. Hvað var hún að segja “skamm, skamm.. þú ert óþekk”.

Nú skal taka fram að við höfum allar búið erlendis þar af ein okkar í Bandaríkjunum í sex ár , ein var í Bandaríkjunum í mánuðnum áður og önnur er komin þangað aftur vegna vinnu. Við höfum farið víða um heiminn, og lent í mörgum töff aðstæðum, en samt urðum við fimm ára aftur þegar við vorum skammaðar.

Þegar ég hafði náð vopnum mínum kallaði ég aftur á yfirflugfreyjuna og talaði við hana um að það væri nú kannski ekki rétt að skamma okkur eins og börn. Hún vildi nú ekki meina að hún hefði skammað okkur – sem er klassískt fyrir þá sem skamma :-). Við vorum slegnar yfir skömmunum og niðurlægingunni – ætluðum aldrei aftur að flúga með Icelandair en svo reynist það erfitt :-).

Eftir á varð þetta hins vegar hin skemmtilegasta saga – stútungskerlingar skammaðar eins og fimm ára í fimmtugsreisunni. Samanlagt höfum við örugglega farið yfir hundrað sinnum inn í Bandaríkin og heim aftur og aldrei lent í vandræðum vegna drykkju – en sem sagt ég lærði það að það má ekki koma með drykk um borð því eins og yfirflugfreyjan sagði “maður kemur ekki með vín á bar…”

Það kom að því að fimmtug væri ég skömmuð fyrir áfengisneyslu :-). Næst verð ég örugglega tekin fyrir að koma nakin fram! Byrjar vel fimmtugsáratugurinn enda “who cares??”

PS Adele var fabílös og ég varð aftur grátandi táningur sem þurfti að klípa mig í handlegginn … við erum á ADELE stelpur….!


Einkunnir

"Ég kemst örugglega ekki í neinn menntaskóla" sagði tólf ára dóttir mín þegar hún afhenti mér einkunnir úr samræmdu prófum sjöunda bekkjar. Hún sá framtíðina fyrir sér fara í vaskinn, enginn menntaskóli, og úr því yrði hvort sem ekkert úr henni. Ég tók róleg upp úr umslaginu stóra dóminn og hún hafði bara staðið sig nokkuð vel stelpan. 

Ég reyndi að segja henni að einkunnir eru ekki allt, að það skipti miklu meira máli að lifa af að vera tólf ára að verða þrettán og halda haus. Að hún hafi staðið sig vel með því að undirbúa sig og fara í prófin og að akkúrat núna þá sé óþarfi að hafa áhyggjur af menntaskóla eða framtíðinni. Mikilvægara sé að læra á hverjum degi og láta einkunnir lönd og leið.

Einkunn er bara tala á blaði sem segir til um hversu mikið þú getur bætt þig. Ekki dómur um manngildi hennar né nokkurs annars. Verðlaunin felast í að leggja sig fram og að vinna að markmiðum sínum. 

Miklu mikilvægara er hvernig hún kemur fram við sjálfa sig og aðra. Hversu hjartahlý og heiðarleg hún er og hvort að hún getur sett sig í spor annarra. Kunni muninn á réttu og röngu og geti hlustað á sjálfa sig, en ekki aðra, þegar kemur að því að lifa vel. Viti að hún er alltaf elskuð hvort sem hún fær núll eða tíu og hafi alltaf tækifæri til að bæta sig sem manneskja og í verkefnum lífsins. Lífsins skóli snýst um að finna sér farveg án þess að einblína um of á aðra eða hvar þú ert í röðinni. Ég þekki rígfullorðið fólk sem enn er algjörlega miður sín yfir að vera ekki á réttum stað í einkunnarröðinni og líður fyrir það. Eins og það skipti einhverju máli. 

Nakin komum við inn í heiminn og nakinn förum við út. Eina sem við tökum með okkur er hvernig við lifum lífinu og þá er röðun á einkunnarskala ekki mikilvæg. Nema þeim skala sem mestu máli skiptir - þ.e. hversu sátt við erum við frammistöðu okkar þegar við hverfum aftur. Hvort áhrifin af lífi okkar hafi verið jákvæð eða neikvæð og hvort við náðum að gera öðrum gott - bæta heiminn í kringum okkur örlítið á þeirri örskotsstundu sem við vorum hér. Samræmduprófs einkunnir eru þá löngu gleymdar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband