Hvaða álfum munt þú bjóða heim um áramót?

Flestir eru tilbúnir til þess að kveðja árið 2020, sprengja það í loft upp, kasta á brennuna og horfa á það brenna inn í eilífðina. Íslenskar húsmæður til forna þrifu húsakynni sín á gamlársdag, kveiktu ljóstýru í hverju horni og hverjum glugga og fóru síðan þrisvar með þuluna 

Komi þeir sem koma vilja
Veri þeir sem vera vilja
Fari þeir sem fara vilja
Mér og mínum að meinlausu.
 
Sjáiði til álfar flytja jafnan á nýársnótt og því þarf að gera þeim eins auðvelt fyrir og hægt er. Þetta er tími töfra, ekki síst nú þegar við höfum farið í gegnum ár sem einkenndist af erfiðleikum. Á Íslandi höfum við upplifað jarðhræringar, snjóflóð, aurflóð og brjáluð veður með tilheyrandi rafmagnsleysi og svo heimsfaraldur. Margir hafa misst á þessu ári, fólk úr lífi sínu, vinnuna, eða heilsuna. Allir hafa saknað samverustunda, samkomuhalds, menningarviðburða og nándar. .. fari þeir sem fara vilja...
Eins og alltaf þegar erfiðleikar steðja er eitthvað sem við lærðum. Ótrúleg aðlögunarhæfni okkar, samstaðan og tækninýjungar sem eru komnar til að vera. Einfaldari lífsstíll hefur líka fært mörgum aukna innri ró og ferðalög innanlands síðasta sumar gáfu mörgum tækifæri til að uppgötva aftur gæði landsins. 
 
Nú, sameinumst við um að bjóða réttu álfunum heim um áramót, komi þeir sem koma vilja... Aldrei mikilvægara en nú að setja sér uppbyggjandi markmi:. Bóluefni, ferðalög, nýjar viðskiptahugmyndir, ný atvinnutækifæri. Nýsköpunarálfur takk, hreystiálfur, tékk og nándarálfur, takk. Kærleiksálfur og menningarálfur komi til okkar allra. Megi verndarvættir landsins vaka yfir öllum þeim álfum sem færa sig til um áramót. 
 
Ég mun þrífa allt hátt og lágt, setja mat í skálar fyrir álfana og hafa kveikt á nýarsnótt svo ævintýraálfurinn komi til mín og Kótvítálfurinn fari í burtu. 
 
Ég óska öllum gleðilegs nýs árs, ég hef trú á því að þetta verði gott bóluefnaár þar sem við munum taka með okkur það sem við lærðum en bæta inn því sem við veljum og viljum. Minnumst þess sem við misstum með söknuði en gefum jafnframt, færi á að fara frá okkur með því að sleppa takinu, hversu erfitt sem það er með það að leiðarljósi að dýpka innri ró og hvíla vel í okkur sjálfum.
 
Um áramót er allt hægt og allt mögulegt, fangaðu töfrana, hlustaðu á hátíðarhljóma, horfðu á tunglið sem er næstum fullt alla vega fullt af fögrum fyrirheitum þessi áramót láttu þig dreyma stóra drauma. Hvaða álfi munt þú bjóða heim? 
 
 
 
 
 
 

Að mæta á bryggjuna.

Þegar pabbi minn var unglingur mætti hann niður á bryggju í Keflavík og fór í röð annarra sem biðu eftir því að vera valinn til að fá vinnu þann daginn. Hann var oftast valinn enda duglegur og sterkur strákur sem mokaði salti af kappi til að geta fengið greitt í reiðufé frá útgerðamanninum í vikulok. Pabbi er ekki hundrað og þriggja ára heldur sjötíu og þriggja enn ungur og sterkur.

Núna þegar margir vinnustaðir opna aftur þá eru ekki allir sem verða með vinnu til að fara til baka í. Við erum líka öll að læra á nýtt vinnuumhverfi,nýjar aðstæður áður óþekktar. Undanfarnar vikur hafa þvingað okkur til að endurmeta gildi okkar og hugsa um hvernig við viljum og getum framfleitt okkur. 

"Gigg" hagkerfið er byggt á sömu lögmálum og áður eða á þeim tíma sem pabbi stóð í höfninni og beið, við mætum og bjóðum fram vinnuframlag okkar. Tæpur helmingur af vexti á vinnumarkaði í Bretlandi frá fjármálakrísunni 2008 er fólk sem er sjálfstætt starfandi og þar af eru flestir að selja sérfræðiþekkingu sína. Flestir eru undir 30 ára en hins vegar er stærri og stærri hlut af fólki yfir 60 ára sem kýs að vinna sjálfstætt. Í rannsóknum hefur komið í ljós að margir kjósa að vera áfram sjálfstætt starfandi eða um 59% þrátt fyrir að efnahagur hafi batnað.

Ég hef rannsakað starferil undanfarna áratugi og við vitum þeim mun halda áfram að fjölga sem starfa á eigin vegum. Það er ekki lengur til það sem kallað var þriggja laga starfsferill; menntun, vinna, starfslok. Núna er starfsferill meira eins og völundarhús þar sem fólk fer inn og út um mismunandi leiðir. 

Núna eru margir sem eru knúnir til að hugsa hvað gæti ég selt? Hvaða verkefni get ég leyst sem einhver myndi borga mér fyrir? Hvað er framundan?

Mig langar að benda á nokkrar leiðir til þeirra sem nú standa frammi fyrir því að endurhugsa starfsferill sinn.

1. Prófaðu þig áfram með mismunandi möguleika eða þ.e. möguleg "sjálf." Ekki hugsa eingöngu um það sem þú hefur gert hingað til. Kafaðu dýpra. Prófaðu þig áfram og láttu reyna á þig. Byrjaðu strax og gerðu ráð fyrir að mistakast á einhverjum sviðum.

2. Þegar við förum í gegnum endurnýjun á starfsferli okkar tekur það lengri tíma en við gerum ráð fyrir í upphafi. Gerðu ráð fyrir 2-3 ára "umbreytingartímabili." Þar muntu hitta sjálfan þig fyrir í eiðrarleysi, gangi inn í "tómið" eins og viðmælendur mínir hafa lýst þar sem þú veist ekki ennþá hver þú munt verða. Þetta getur verið mjög erfitt tímabil en oftast eru gjafir í þessu tímabili. Þegar maður kemur út úr því er maður ekki samur.

3. Talaðu við alla, og ömmu þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að það eru ekki þeir sem eru okkur næstir sem opna nýjar dyr í sambandi við starfsferil heldur þeir sem eru í ytri hring. Hringdu í þá sem þú vannst með þar síðast eða þekktir fyrir fimm árum. Hafðu samband.

4. Segðu upphátt við sem flesta hvað þú ert að hugsa og hvernig þér líður, það þarf að hugsa upphátt þegar maður reynir að endurskapa starfsferill sinn.

Það þarf hugrekki til að fara á bryggjuna og standa frammi fyrir þeim sem hefur vald til að velja mann. En það þarf líka dugnað til að vera valinn aftur. Tækifæri koma til þeirra sem eru undirbúnir þegar þau birtast. Það er möguleiki núna til að endurmeta stöðu sína á vinnumarkaði því að stórfyrirtæki morgundagsins verða til í krísum eins og núna og þá skiptir máli að vera mættur á bryggjuna. Þú veist ekki ennþá hver þú verður og það er bæði spennandi og kvíðablendið - eins og alltaf þegar maður fer út úr þægindahringnum.


A manneskja í sóttkví.

Nú er ég á næstsíðasta degi í sóttkví sem þýðir að ég hef verið í einangrun í 12 daga og hér er það sem  ég hef lært.

Ég breyttist í A. manneskju einn, tveir og búmm..

Í morgun var heitavatnslaust í Vesturbæ svo að það var kalt í húsinu og veðrið buldi á glugganum - ég hugsaði með mér að nú væri tímin til að liggja lengur í rúminu en fékk ekki frið fyrir A manneskjunni sem ég vissi ekki að væri innra með mér. Upp, hipp, hipp, húrra... komin fram fyrir átta og byrjuð að laga kaffi, og skipuleggja daginn. Börnin mín sem eru í góðu atlæti hjá föður sínum trúa mér ekki og halda að þetta hljóti að vera vegna einhvers konar veiru. Ég hef nefnilega hingað til verið meiri B-manneskja, ef ég hef tíma eins og á sumrin og jólum þá sný ég sólarhringnum næstum við, náttugla sem vinnur fram á nótt og sefur fram á miðjan morgun. En ekki núna - nei, nei.. vöknuð fyrir 8 og sofnuð fyrir 23 á kvöldin.

Varðveittu regluna - þá varðveitir hún þig.

Ég fer á hverjum degi í göngutúr nema á sunnudeginum þegar ég eldaði mér hrygg - sunnudagshrygg, eins og lög gera ráð fyrir. Ég tala ekki við nokkurn mann en á mér tré sem ég tala við í daglegum göngutúr og stein sem ég stoppa hjá og tengi mig við. Stundum hef ég brugðið mér aðra leið og þá spyr ég steininn og tréð "saknaðir þú mín?" daginn eftir. Þau svara alltaf játandi, ég er mjög glöð yfir því. Ég tek myndir á sama stað til að skrásetja vorið en er ekki með skrefamæli eða blóðþrýstingsmæli eða svefnmæli, met gæðin á því bara eftir því hvernig mér líður, þó ber að taka fram að ég er stálhraust og þarf ekki á slíku að halda.  

Kærleikur og matur.

Nú ber svo við um þessar mundirað ég hugsa um fátt annað en mat. Ég byrja daginn á að hugsa um hvað ég ætli að elda og flétti uppskriftabókum. Það stórundarlega er að ég hef næstum aldrei eldað eftir uppskrift nema kannski á jólum. Vinir mínir hafa fært mér krásir, steiktan fisk, brauð og kruðerí og súkkulagði og ekki lagt í jötu heldur hér fyrir utan hjá mér. Það er ekki bara kórónuveiran sem er smitandi heldur líka kærleikurinn. Nú fór ég í sóttkví af því að ég var að koma frá útlöndum og verslaði því í Fríhöfninni sannfærð um að þangað kæmi ég ekki í bráð og því varð að safna í nammiskápinn, eins og ekki væru aðrar verslanir í landinu. Það var ekki góð hugmynd. 

Matur og kynþokki.

Ég er ekki með Netflix né aðra áskrift og því horfi ég takmarkað á sjónvarp en hef þó valið mér nokkra þætti úr Sarpinum hjá RÚV. Skandinavísku þættirnir koma þar sterkt inn, Deita er þáttur sem ég skammta mér og nýt í botn því ég er orðin ástfangin af einum karakternum, honum Arv. Aðalsöguhetjan rekur eldhús og ég skemmti ég mér konunglega yfir þáttunum og krásunum. Kannast við svo margt í samskiptum hinnar einstæðu móður við unglinginn sinn, hitt kynið og vinkonur. Ég er ástfangin af samstarfsmanni hennar, hvað er kynþokkafylllra en karlmaður með svuntu sem eldar dýrindismat og er með heit dökk augu? Gleymdi mér smá en hey ég er í einangrun..

Vinnan (og matur).

Ég hef lært á Zoom, Teams og verið á fjarfundum eins og ekkert sé. Hins vegar þegar ég fór í sóttkví sagði ég ritstjóra mínum að það yrði nú lítið mál að ljúka við skáldsöguna sem á að koma út í sumar. Ég setti líka greinarnar sem ég ætlaði að skrifa á borðstofuborðið. En áður en ég veit af er ég farin að taka uppskriftabækur fram yfir vinnuna og aðeins að heyra í mannheimi í símanum og það er líka nauðsynlegt að þrífa vel.. A-manneskja á ekkert auðveldara með að koma sér að verki þegar kemur að því sem þarf að einbeita sér að.

Krakkanir og kötturinn

Ég hringi tvisvar á dag í yngri börnin sem eru 12. og 16. ára, þau hafa yfirleitt engann tíma til að tala við mig en vilja gjarnan að ég beini myndavélini að kettinum, "saknar hann mín ekki.." Ég stend með símann, og tárin í augunum að sjálfsögðu þar sem þau sakna mín ekki og beini myndavélinni að kettinum sem er stórhissa á að hafa mig alltaf heima.

Nú er þessi pistill orðin allt of langur og bara allra bestu vinir mínir hafa lesið hingað - takk fyrir það. Ég þarf að fara að sinna uppskriftinni sem ég ætla að elda í kvöld síðan ætla ég að teikna upp skipulagið í næstu viku þegar krakkarnir koma heim.. eins og sjá má á myndunum sem ég tek á sama stað í göngutúrnum þá er vorið að koma, snjórinn minnkar og þetta, eins og annað mun líða hjá. Við verðum ekki söm á eftir, höfum sögur að segja "þegar ég var í sóttkvínni..þá varð ég A-manneskja.."

Skora á A manneskjur að prófa að verða B manneskjur..

 


Eru áhrifavaldar bara ungar fallegar konur með Gucci töskur?

Ég fór á skemmtilegan fyrirlestur um daginn hjá konu sem er í doktorsnámi í Hong Kong en efni rannsóknar hennar eru áhrifavaldar á samfélagsmiðlum. Ég fræddist heilmikið um hverjir eru þekktustu áhrifavaldar í heiminum. Það virðist vera sem flestir áhrifavaldar séu konur á aldrinum 18-23 ára og þær eru fallegar og mjóar og taka fagmannlegar myndir af sér á fallegum stöðum og sitja fyrir eins og um venjulegar fyrirsætur væru. Þær fá auglýsingamarkaðinn með sér í lið og sitja á fremstu röð á tískusýningum. þetta er eftirsóknarvert og þreytandi starf.

Mér fannst þetta mjög áhugavert en var stórmóðguð yfir því að eldri konur séu ekki áhrifavaldar. Hvað er það með auglýsendur og fyrirtæki að hafa ekki áttað sig á að viðskiptavinir á miðjum aldri eru ríkustu og kaupglöðustu neytendur samtímans? 

Ég hugsaði með mér að nú skyldi ég gerast áhrifavaldur. Talaði við unglingsstúlkuna mína sem sagði að ég væri hvorki nógu falleg, mjó né áhugaverð til að verða áhrifavaldur. Hún veit hvað hún syngur því hún er með síðu á Instragram sem fær yfir 30.000 áhorf þegar hún póstar myndböndum. Ég spurði hvað áhrifavaldar gerðu? Mest sýna þau "lífsstílsmyndir" og þá er alveg nauðsynlegt að lífsstíllinn sé ýktur eins og ferðalög á dýra staði, fallegt fólk, falleg föt og flottar töskur og ekki er verra að vera með sixpack og stór brjóst. 

Síðan þá er ég búin að gera mér grein fyrir að líklega verð ég ekki áhrifavaldur með sixpakk, hvað þá að ég hafi efni á lífsstíl áhrifavalda og það er alltaf allt í drasli hjá mér svo að ekki get ég verið með þrif-ráð. Þó vil ég gjarnan auglýsa eftir eldri áhrifavaldi sem er "með ettttta.." og ég get fylgst með og borið mitt auma líf saman við.

Við erum hins vegar öll áhrifavaldar í okkar eigin hring og ættum kannski að huga að því oftar hverjum við "póstum" á hvort annað.


Hetjur

Í enn eitt skiptið fáum við tækifæri til að kveðja það ár sem nú líður að lokum. Við horfum til baka og metum hvað tókst vel til og hvað mætti betur fara. 

Þetta ár var mér viðburðarríkt en það sem stóð upp úr var líklega "come-back" Kristínar Gerðar systur minnar sem lést fyrir tæpum átján árum. Kvikmyndin; Lof mér að falla í leikstjórn Baldivins Z er að hluta til byggð á hennar sögu. Þrátt fyrir að við fjölskyldan styddum þau sem að myndinni stóðu af heilum huga þá var ég ekki undirbúin fyrir að sjá allt í einu umfjöllun um systur mína í helstu fjölmiðlum landsins. Ofan af gömlum sári opnuðist sprungur og ég, og fjölskyldan, var tekin aftur í tíma. Tíminn gékk í hringi. Við þurftum að lauga sárið. Um leið og ég gékk inn í sársaukan af því að hafa misst manneskju sem mér var svo kær og náin þá blæddi enn á ný.

En um leið rann upp fyrir mér ljós. Það þarf einstaka manneskju til að hafa þau áhrif á aðra að þeir vilji gera sögu hennar skil mörgum árum síðar. Kristín var einstök manneskja sem lét engann ósnortinn.  Hún lenti því miður oft í fólki sem hafði orðið skepnunni að bráð, sínum eigin innri skepnum og lægri hvötum sem gerði það að skepnum. 

Þegar hún hafði snúið við blaðinu og hætt í neyslu varð hún enn mennskari en áður. Hafði séð allt það versta og vildi af einlægum hug bjarga ungu fólki frá skepnunum bæði ytri og innri. Gékk í það að nýta lífreynslu sína öðrum til bjargar. Í öllum ævintýrum fer hetjan í gegnum erfiðleika til að bjarga fjársjóðnum og öðlast kongungsríkið. Hún reyndi að öðlast kongungsríkið en átti erfitt með að fóta sig í því. Á þeim tíma sagði hún oft það sem flestir sem eru veikir segja "ég þrái bara venjulegt líf."

Ég sá allt í einu að henni tókst að ná fram tilgangi sínum sautján árum eftir að hún ákvað að stipla sig út úr okkar jarðneska heimi. Hetjan hafði ekki þrek lengur en eftir sat áhrifin af mennsku hennar. Líf litað af sársauka hefur líka tilgang og maður þarf ekki að lifa löngu lífi til að hafa mikil áhrif. Ef mennskan er í fyrirrúmi þá eru áhrifin langvinn.

Sárið greri aftur. 

Við eigum val um að láta skepnuna taka völdin, hvort sem er innri eða ytri. Þeir sem hafa látið skepnuna taka völdin hafa oft orðið fyrir mestum harmi og ná ekki að kasta af sér haminum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hjartað stjórnar meiru en heilinn í starfsemi líkamans. 

Með opnu hjarta sjáum við að líf okkar er töfrum líkast, svo lengi sem mennskan nær yfirhöndinni.

Áramótaheit mitt er því að vera með opið hjarta og að verða enn mennskari í minn eiginn garð og annarra og ekki síst í garð þessa dásemdar hnattar sem við svífum saman á. Rækta Kærleiku, vináttu, nánd, fyrirgefningu og jákvæðni. Leggja hart að mér til að ná markmiðunum ekki aðeins fyrir sjálfa mig heldur í þágu annarra.  

Við getum öll orðið hetjur í okkar venjulega lífi með því að læra af sársaukanum en ekki næra skepnuskapinn.

Ég óska ykkur, hverju og einu, að nýja árið færi ykkur töfra og verkefni sem ýta undir mennsku ykkar. Þannig verðum við hetjur í okkar eigin ævintýri.


Þvarg og þvaður

"Skrifaðu nú um það..", sagði frændi minn glaðhlakkandi yfir þeim upplýsingum sem hann hafði komið á framfæri við mig. Hann var komin með lausnina á skilnuðum landsmanna "ef þessar kerlingar hætta bara þessu þvargi og þvaðri þá verður heimurinn mun einfaldari og hjónabönd langlífari."

Frændi minn þessi hefur svör á reiðum höndum við flestum lífsins vandamálum og honum var mikið niðri fyrir. "Einu sinni voru tannkremstúpur þannig að það þurfti að bretta upp á þær (úr áli fyrir yngri lesendur) og þá voru kerlingarnar vitlausar ef maður vogaði sér að kreista en ekki bretta. Síðan er þetta stöðugt vandamál með klósettsetuna. Ef maður gleymir að láta hana niður í eitt skipti af hundrað þá verður allt vilaust.."

Kenningin er í sjálfu sér nokkuð góð hjá honum verð ég að viðurkenna, hún gengur út að við erum kannski dags daglega að pirra okkur á óþarfa hlutum. Ég hins vegar er kannski ekki sammála um að það séu aðallega "kerlingar" eða konur sem sjái um það bæði kynin eru samsek.

Við erum hér á jörðu í örskamma stund, eins og ljósgeisli í sekúndu í eilífðinni, einn geisli sem kviknar á alheimshimni eina örskotsstund. Það telst líklega ekki vera góð nýting á tímanum að eyða honum í þvarg, þras og þvaður, hvorki fyrir konur né karla, stúlkur né pilta.

Frændi minn hefur, eins og oft áður, rétt fyrir sér. Þvarg og þvaður að óþörfu er til lengdar frekar þreytandi og leiðilegt og getur jafnvel orðið til þess að maður bara snýr sér að einhverju öðru. Maður skildi alltaf hlusta á frændur sína þegar þeir hefja upp raust sína. Síðan þá hef ég reynt að vera minna í þrasinu og meira í núinu og því að nærast og njóta.


Má ekki bjóða þér uppfærslu?

Reglulega uppfærum við töluvkerfið okkar og símann og fleiri tæki. Stöðugar tækninýjungar valda því að ný og betri kerfi eru gerð. Það eru ekki bara tækin okkar sem þurfa uppfærslu því flugfélög bjóða reglulega uppfærslu, upp á næsta stig.

Í vor var upplýsingakerfi okkar uppfært. Rétt áður en nýja kerfið var innleitt fór allt í rugl hjá mér akkúrat þegar ég var erlendis í þann mund að skila bók til bókaútgefanda með samstarfsfólki sem var um víða veröld. Þá gat ég ekki sent póst og þar sem ég sat eldrauð í framan í nokkra daga og reif hár mitt og skegg (samt er ég ekki með skegg) af streitu sá ég alls ekki tilganginn með uppfærslunni. Eftir að ég kom heim fór ég bölvandi á tölvudeildina en það var ekki hægt að uppfæra símann minn því það var allt of langt síðan ég hafði uppfært hann og því of mikið rusl inn á honum. Klassíst.

Eftir að ég jafnaði mig sá ég hversu nauðsynlegt þetta er. Við þurfum öll að uppfæra okkur reglulega, fara upp í útgáfu 2018 af okkur sjálfum . Hugsa stærra, finna betri lausnir fyrir hvert svið lífsins. Heimili, lærdómur, fjölskyldubönd, sambönd, líkamlega, andlega og tilfinningarlega. Það þarf reglulega að uppfæra. Á meðan á uppfærslunni stendur er maður í reglulegu fokki og reitir hár sitt og skegg. Það er svo mikið rusl í hausnum á manni, gömul viðhorf, kannski bara eitthvað sem passaði þegar maður var 7 ára en ekki 77 ára. Eins og "ég get ekki, kann ekki, skil ekki.." eða bara að það þurfi að vera sól til að það sé gaman að vera til. Nú síðan þarf maður líka að innleiða nýju kerfin og þá fyrst kárnar gamanið. Út að labba í rigningu! Jóga klukkan 8 að morgni! Standa með sjálfum sér! Fara til sálfræðings! eða bara í grúppu - eins og það sé eitthvað að hjá mér.. halló! Svitna þegar manni langar að sofa. Læra á nýja kerfið þegar gamla var fínt. Það er ekki bara síminn sem er fullur af rusli - hausinn á manni og fataskáparnir eru það líka.

En hver vill ekki sitja á fyrsta klassa með kampavín í hendi og njóta þess að vera búin að uppfæra sig? Ég sit í rykinu upptekin af því að uppfæra skápa, geymslur og vinnurými og læt mig dreyma um hvernig lífið verður þegar ég er búin að innleiða nýja kerfið nokkuð ánægð með að sólin sé bak við skýin meðan ég sting hausnum aftur inn í skápinn og dreg fram flíkur sem ég ætlaði einhvern tímann að nota aftur. Dætur mínar horfa á mig þegar ég dreg fram góssið sem ekki er hægt að henda af því að þetta var svo dýrt og af því að ég keypti það þegar ég var ófrísk af ykkur, eða af því að amma gaf mér það... - "mamma!! Kastaðu þessu núna!" Uppfærsla er alltaf erfið, hugsa ég meðan hrúgan sem fer í Rauða Krossinn stækkar. Kannski eitthvað barn geti notað kúreka-stígvélin, hugsa ég meðan dæturnar horfa ströngum augum á mig. 


Að ferðast ein..

Maðurinn horfði hissa á mig, "en venjulega eru alltaf tveir saman!". Ég var ein á ferðalagi og kom til að þvo af mér rykið í sundlaug staðarins. Hann hafði rukkað mig um rúmlega þúsund krónur sem mér þótti mikið en þegar ég leit á gjaldskránna eftir að hafa borgað honum sá ég að gjaldið var rúmlega fimm hundruð fyrir einn... þegar ég krafðist endurgjalds þar sem ég væri ein var þetta svarið; "venjulega eru alltaf tveir saman."

Þar sem ég lét mig fljóta í sundlauginni og naut þess að láta rigna á mig og hlustaði á skarkalann gat ég ekki annað en hugsað hvað ég væri þakklát fyrir að enginn væri að bíða eftir mér eða að ég þyrfti ekki að skarast í neinum - bara fljóta. Reyndar gæti kokkteitlinn sem ég drakk áður en ég fór í laugina einhvað hjálpað til við hamingjuna.

Það er skemmtilegt að ferðast einn. Ég hitti fólk alls staðar og aafna sögum eins og perlum sem ég þræði upp á band. Sögur af konunni sem hætti í fjármálageiranum til að reka gistihús í þorpinu sínu eða manninum sem vaknaði upp einn daginn á Manhattan í New York og ákvað að flytja aftur til Íslands eftir yfir áratugadvöl og býr nú í þorpinu milli vestfirskra fjalla. Sagan af konunni sem ennþá sér eftir stóru ástinni í lífi sínu. Þau fengu ekki að eigast. Konan sem ferðast með hjól upp á toppi bílsins og tekur það svo niður og hjólar fjallavegi, ein og frjáls. Eða af vélhjólagenginu sem lenti í fluginni í veiði. Sögur af veiði og sögur af atvinnulífi og menningu, kjaftasögur og gróusögur og umfram allt lærdómssögur.

Ég myndi mæla með því við alla að ferðast einir um landið - lönd og höf. Sérstaklega þegar maður er svona líka góður félagsskapur sjálfs síns. Ég fæ til dæmis að ráða því hvað ég hlusta á en þegar aðrir eru í bílnum er ég yfirleitt í minnihluta. Ævintýrin bíða við hvert fótmál og sögurnar sem maður eignast lifa áfram með manni.  Þó að "venjulega séu alltaf tveir saman."

 


Á rauðu ljósi

Ég hentist út úr dyrunum, í dag, orðin allt of sein, átti vera með fyrirlestur eftir tíu mínútur. Ég setti bensíngjöfina í botn og fór á öðru dekkinu af stað.  Af því að ég var svo stressuð þá gleymdi ég mér og fór í vitlausa átt og þurfti að fara í gegnum miðbæinn. Ef þið hafið farið þar um nýlega þá er annað hvort hús á grunni sínum en hin eru það ekki og fáar götur eru óáreittar og flestar lokaðar. Þegar ég var komin út úr miðbæjarvölundargarðinum var ég farin að svitna, ekki út af veðrinu né breytingaskeiði.. ég horfði á klukkuna, tvær mínútur yfir.. ég leitaði eins og brjálæðingur í veskinu mínu af símanum til að láta vita að ég væri sein en þá hafði ég auðvitað gleymt honum heima. Auðvitað... 

Alla leiðina, ég meina ALLA leiðina lenti ég á rauðu ljósi. Alltaf tók ég af stað og eyddi nógu miklu af karbóhætriti til að hafa áhrif á ósonlagið til að þrykkja af stað og ALLTAF var næsta ljós rautt. Nætum jafn rautt og andlit mitt. Þegar ég kom að síðasta ljósinu laust niður í mig þeirri hugsun að ég ætti val, ég gæti sprungið af stressi eða bara slappað af á rauðu og farið yfir það sem ég ætlaði að segja. Annað væri eiginlega ekki í stöðunni því að ég kæmi hvort sem er á sama tíma á staðinn.

Í stuttu máli þá beið mín dásamlegur hópur áheyranda sem fyrirgaf mér og allt fór vel á endanum og ég sprakk ekki. 

Þetta rifjaði upp þá lífslexíu að þegar maður streitist á móti því sem lífið bíður manni upp á þá er lendir maður alltaf á rauðu ljósi. Ef maður rembist eins og rjúpan við umferðastaurinn til þess að breyta því sem ekki verður breytt þá lendir maður alltaf á rauðu ljósi. Ef maður hins vegar slappar bara af og fer með flæðinu þá lendir maður oftast á grænu ljósi. Eins og sonur minn segir jafnan þegar við erum ekkert að flýta okkur "mamma við erum alltaf svo heppin, það er alltaf grænt í bílnum með þér."

Önnur lífslexía sem ég hugsaði um var að það er tilgangslaust að reyna að stjórna ákveðnum aðstæðum þegar maður er ekki guð. Eftir því sem ég gaf meira í á gulu ljósi í þeirri von að ná næsta umferðaljósi á grænu ljósi voru líkurnar enn meiri á rauðu ljósi.

Þá kemur að þriðju lexíu, það er enginn tilgangur í að stressa sig á rauðu ljósum í lífsins umferð því að það breytist hvort sem er nokkuð fljótt yfir í grænt. Svona getur maður nú fengið viskuna yfir sig á rauðu - ef maður bara andar djúpt.

Síðasta mikilvæga lexían er að fara fyrr af stað :-). Það er alltaf hægt að maskara sig í bílnum.


"Dating after fifty for dummies"

Eins og lesendur mínir vita þá er hef ég ástríðu fyrir mið og "efri árunum" eða lífsþroska okkar mannanna. Margt er svo spennandi að mínu mati að ég get ekki haldið mér saman þegar kemur að þessu efni (reyndar á ég í vandræðum með það svona almennt). "Vissir þú að heilinn heldur sama krafti og getu í heilbrigðum einstaklingi á áttræðisaldri og tvítugur einstaklingur ef.." Vinkona mín horfði á mig sljóum augum, leit út um gluggann á kaffihúsinu og var greinilega mun uppteknari af sæta ferðamanninum fyrir utan gluggann. "Málið er bara að gera eitthvað nýtt, helst á hverjum degi eða í hverri viku og bæði líkamlega og andlega.." Ég malaði áfram en sá á vinkonunni að ef ég færi ekki að tala um eitthvað nýtt þá yrði ég að finna nýja vinkonu fljótlega svo ég skipti á núll einni um umræðuefni. Tókst að halda í vinkonuna aðeins lengur.

Seinna um daginn lá ég upp í rúmi (það má á laugardögum) með nýjustu bókina sem ég hafði pantað mér. Unglingurinn kom inn í herbergi "í alvöru mamma þarftu endilega að vera lesa um kynlíf gamalmenna?" Ég las utan á bókina "Sex after sixty", og leit á hana og sagði mér til varnar: "já, en ég skrifa bækur um þetta efni." Þá fyrst varð uppi fótur og fit, "mamma ert þú að skrifa um kynlíf!!!!!!" Eftir töluverðan tíma og þó nokkrar hormónasveiflur sannfærði ég unglinginn um að þetta væri nú bara smávegis hluti af nýju bókinni minni, bara alveg pínu, pínu lítill. "Eins gott!", sagði hún og strunsaði út úr herberginu. Ég er nú komin á það að ég þurfi að hafa aðra bók utan um sumar bækur eins og þegar ég var unglingur sjálf að lesa ástarsögur í staðinn fyrir skólabækurnar. 

Ég skal samt segja ykkur það svona í trúnaði að þetta er mjög, mjög skemmtilegt efni og kannski núna þegar nýja bókin mín kemur í vikunni þá get ég hætt að tala, lesa og hugsa um þetta en ég efast samt um það. Tilvonandi tengdasonur minn sendi mér til dæmis hugmynd að bók sem ég gæti keypt næst - eða skrifað næst "Dating after fifty for dummies". Þarf reyndar að spyrja hann hvað hann á við með þetta "dummies...". 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband