Á rauðu ljósi

Ég hentist út úr dyrunum, í dag, orðin allt of sein, átti vera með fyrirlestur eftir tíu mínútur. Ég setti bensíngjöfina í botn og fór á öðru dekkinu af stað.  Af því að ég var svo stressuð þá gleymdi ég mér og fór í vitlausa átt og þurfti að fara í gegnum miðbæinn. Ef þið hafið farið þar um nýlega þá er annað hvort hús á grunni sínum en hin eru það ekki og fáar götur eru óáreittar og flestar lokaðar. Þegar ég var komin út úr miðbæjarvölundargarðinum var ég farin að svitna, ekki út af veðrinu né breytingaskeiði.. ég horfði á klukkuna, tvær mínútur yfir.. ég leitaði eins og brjálæðingur í veskinu mínu af símanum til að láta vita að ég væri sein en þá hafði ég auðvitað gleymt honum heima. Auðvitað... 

Alla leiðina, ég meina ALLA leiðina lenti ég á rauðu ljósi. Alltaf tók ég af stað og eyddi nógu miklu af karbóhætriti til að hafa áhrif á ósonlagið til að þrykkja af stað og ALLTAF var næsta ljós rautt. Nætum jafn rautt og andlit mitt. Þegar ég kom að síðasta ljósinu laust niður í mig þeirri hugsun að ég ætti val, ég gæti sprungið af stressi eða bara slappað af á rauðu og farið yfir það sem ég ætlaði að segja. Annað væri eiginlega ekki í stöðunni því að ég kæmi hvort sem er á sama tíma á staðinn.

Í stuttu máli þá beið mín dásamlegur hópur áheyranda sem fyrirgaf mér og allt fór vel á endanum og ég sprakk ekki. 

Þetta rifjaði upp þá lífslexíu að þegar maður streitist á móti því sem lífið bíður manni upp á þá er lendir maður alltaf á rauðu ljósi. Ef maður rembist eins og rjúpan við umferðastaurinn til þess að breyta því sem ekki verður breytt þá lendir maður alltaf á rauðu ljósi. Ef maður hins vegar slappar bara af og fer með flæðinu þá lendir maður oftast á grænu ljósi. Eins og sonur minn segir jafnan þegar við erum ekkert að flýta okkur "mamma við erum alltaf svo heppin, það er alltaf grænt í bílnum með þér."

Önnur lífslexía sem ég hugsaði um var að það er tilgangslaust að reyna að stjórna ákveðnum aðstæðum þegar maður er ekki guð. Eftir því sem ég gaf meira í á gulu ljósi í þeirri von að ná næsta umferðaljósi á grænu ljósi voru líkurnar enn meiri á rauðu ljósi.

Þá kemur að þriðju lexíu, það er enginn tilgangur í að stressa sig á rauðu ljósum í lífsins umferð því að það breytist hvort sem er nokkuð fljótt yfir í grænt. Svona getur maður nú fengið viskuna yfir sig á rauðu - ef maður bara andar djúpt.

Síðasta mikilvæga lexían er að fara fyrr af stað :-). Það er alltaf hægt að maskara sig í bílnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert sem sagt á mótor hjóli ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 21.6.2017 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband