"Dating after fifty for dummies"

Eins og lesendur mínir vita þá er hef ég ástríðu fyrir mið og "efri árunum" eða lífsþroska okkar mannanna. Margt er svo spennandi að mínu mati að ég get ekki haldið mér saman þegar kemur að þessu efni (reyndar á ég í vandræðum með það svona almennt). "Vissir þú að heilinn heldur sama krafti og getu í heilbrigðum einstaklingi á áttræðisaldri og tvítugur einstaklingur ef.." Vinkona mín horfði á mig sljóum augum, leit út um gluggann á kaffihúsinu og var greinilega mun uppteknari af sæta ferðamanninum fyrir utan gluggann. "Málið er bara að gera eitthvað nýtt, helst á hverjum degi eða í hverri viku og bæði líkamlega og andlega.." Ég malaði áfram en sá á vinkonunni að ef ég færi ekki að tala um eitthvað nýtt þá yrði ég að finna nýja vinkonu fljótlega svo ég skipti á núll einni um umræðuefni. Tókst að halda í vinkonuna aðeins lengur.

Seinna um daginn lá ég upp í rúmi (það má á laugardögum) með nýjustu bókina sem ég hafði pantað mér. Unglingurinn kom inn í herbergi "í alvöru mamma þarftu endilega að vera lesa um kynlíf gamalmenna?" Ég las utan á bókina "Sex after sixty", og leit á hana og sagði mér til varnar: "já, en ég skrifa bækur um þetta efni." Þá fyrst varð uppi fótur og fit, "mamma ert þú að skrifa um kynlíf!!!!!!" Eftir töluverðan tíma og þó nokkrar hormónasveiflur sannfærði ég unglinginn um að þetta væri nú bara smávegis hluti af nýju bókinni minni, bara alveg pínu, pínu lítill. "Eins gott!", sagði hún og strunsaði út úr herberginu. Ég er nú komin á það að ég þurfi að hafa aðra bók utan um sumar bækur eins og þegar ég var unglingur sjálf að lesa ástarsögur í staðinn fyrir skólabækurnar. 

Ég skal samt segja ykkur það svona í trúnaði að þetta er mjög, mjög skemmtilegt efni og kannski núna þegar nýja bókin mín kemur í vikunni þá get ég hætt að tala, lesa og hugsa um þetta en ég efast samt um það. Tilvonandi tengdasonur minn sendi mér til dæmis hugmynd að bók sem ég gæti keypt næst - eða skrifað næst "Dating after fifty for dummies". Þarf reyndar að spyrja hann hvað hann á við með þetta "dummies...". 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband