Babúskur

Ég á fallega Babúsku, sem eru tréstyttur sem raðast hver inn í aðra, frá því að ég fór til Moskvu fyrir löngu síðan. Í mínum huga sýna þær snilldarlega þá staðreynd að við höfum öll margar hliðar sem okkur ber að nýta og láta njóta sín.

Þekktar starfsferil kenningar ganga út á hin mörgu sjálf. Þegar við veljum starfsferil okkar ung og rjóð erum við að velja út frá einni dúkkunni hugsanlega þeirri stærstu. Við hefjum starsferilinn og áttum okkur síðan á hvort hann hentar eða ekki. Stundum er dúkkan of stór eða of lítil og við endurmetum hana eftir því hvernig aðrar raðast inn. Hjá flestum finnast fleiri dúkkur sem vilja fá að sjást en ekki vera aðeins hið innra, sérstaklega eftir því sem hlutverkum fjölgar; starfsmaður, stjórnandi, foreldri, vinur, jógakennari, fjallgöngumaður, rithöfundur, bloggari eða giggari.

Samkvæmt kenningum og rannsóknum mínum verðum við meðvitaðri eftir því sem líður á ævina um hin mörgu sjálf okkar, okkur langar til að endurraða dúkknum þannig að þær njóti sín sem best. Ný hlutverk og nýjar hliðar af sjálfum okkur vilja fá að skína. Oft er það innsta dúkkan sem fer að reyna að fá athygli.  Hún hvíslar, "manstu hvað þú ætlaðir að gera? Manst hvað þér þótti alltaf skemmtilegt? Ertu alveg viss um að þú sért að gera það sem endurspeglar þig raunverulega?" 

Ég hef sjálf verið í hlutverki margra dúkkna á mínum starfsferli; háskólakennari, stjórnandi, rithöfundur, fyrirlesari, giggari, pólitíkus og móðir, amma, dóttir og vinkona. Hver hluti af sjálfri mér sem býr hið innra þarf reglulega á því að halda að ég hafi hugrekki til að stökkva af stað og leyfa þeirri næstu að taka pláss. Það merkilega er að það er hægt að finna endalausar dúkkur hið innra og það sem ég hef lært er að þær sem maður hélt að yrðu alltaf litlar geta stækkað.

Núna horfi ég á Babúskurnar mínar og er þakklát fyrir að þær minna mig á að heildin er fallegri ef ég leyfi þeim að standa saman því ef maður aðskilur dúkkurnar og setur á sitthvor staðin sést ekki listaverkið eins og vel og þegar þær standa stoltar saman.

Ömmustlepan mín elskar að leika sér með dúkkurnar, alveg hissa þegar hún uppgötvar eina enn þegar ég hef sett þær saman. Það skemmtilega við lífið og starfsferilinn er að það er alltaf ein enn hlið af okkur sem við höfum ekki enn leyft að njóta sín og það er líka aldrei of seint að uppgötva þá hlið.

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Þessar trédúkkur sem raðast hver inn í aðra heita Matryoshka.  Babushka þýðir það sama og amma á íslensku.

Þórhallur Pálsson, 21.11.2022 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband