Sjö skref að góðri hauststemmingu í kó-víti.
18.8.2021 | 11:29
Ég skipulagði u.þ.b. fjórtán ferðir erlendis á síðustu tveimur árum, fimmtán matarboð sem ekki voru haldin og innflutningspartý sem ekki varð af. Missti af böllum og skröllum (smá ýkjur, feels like it..). Hugsunin "þegar þetta verður búið..", ég sá fyrir mér að sumarið 2021 yrði sannkölluð gleðiganga - en hún var heldur ekki haldin.
Við erum öll að klóra okkur í hausnum og velta fyrir okkur hvernig þetta fer. Skólarnir, vinnan, eldgosið og kó-vítið. Það eina sem við vitum er að við vitum ekki neitt. Ég kenni m.a. Breytingastjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þar er fyrsta lögmálið, okkur er öllum illa við breytingar, þaðan vinnum við með stöðuna. Krisustjórnun snýst um að koma hárréttum skilaboðum sem fyrst til þeirra sem á þurfa að halda. Við höfum séð þríeykið gera það á daglegum fundum.
Núna þurfum við öll á forystu í eigin lífi á að halda, vissan verður að koma innan frá. Forystu á tímum stöðugra breytinga, nýrra upplýsinga og endalausrar aðlögunar.
Mínar tillögur.
1. Takmarkaðu áhorf, áheyrn og lestur á hörmungarfréttum. Akkúrat núna þarf maður ekki á því að halda að hafa líka áhyggjur af skógareldum. Það þýðir ekki að manni sé sama um umhverfið og kolefnasporin, en núna, akkúrat núna á maður nóg með að reyna að finna ryðmann í nýrri heimsmynd. Horfstu í augu við óttann en ekki láta hann stjórna þér.
2. Sinntu sóttvörnum og farðu að reglum. Hins vegar skaltu kyssa alla þá sem þú mátt kyssa vel og lengi. Faðma þá sem eru í þínum innsta hring. Hringja í hina og hitta oft.
3. Opnaðu augun fyrir tækifærunum sem þessi staða hefur fært okkur. Út kemur bók eftir mig og Herdísi Pálu Pálsdóttur, Mannauðsstjóra hjá Deloitte á næstu dögum. Hún heitir: Völundarhús tækifæranna. Það er ekki tilviljun að þetta nafn er valið. Það eru fullt af spennandi þáttum sem heimsfaraldurinn hefur skapað.
4. Settu þér ný markmið sem heilla þig upp úr skónum. Eitthvað sem þú getur hlakkað til að ná. Hvort sem það er að læra að mála eða skrifa bók eða læra töfrabrögð, búa til föt úr gömlum eða læra um rafmynt.
5. Nú er lag að læra eitthvað nýtt eða fríska upp á þekkinguna. Fjarkennsla, nýjar bækur, námskeið eða fara á bólakaf í að kynna sér fluguveiðar eða sveppatýnslu, sultugerð og gervigreind. Endalaus tækifæri til að grípa.
6. Við erum öll að æfa æðruleysi. Taka því sem að höndum ber - reynum að flytja birtu þangað sem myrkt er. Vera til blessunar öðrum og umhverfinu. Það er ekki hægt alltaf en má reyna.
7. Minntu þig á að þessu lýkur ekki hratt, við erum búin að læra það. Heimurinn þarf á því að halda að við tökum saman höndum og meðan að veikasti hlekkurinn er veikur þá er keðjan öll óstabíl. Það verður væntanlega ekki fyrr en flestir jarðarbúar hafa fengið bóluefni, líka fyrir stökkbreytingum, sem við munum ná árangri. Lífið verður aldrei eins. Þetta er lærdómsferli sem undirbýr okkur fyrir næstu plágur. Þetta þarf ekki að vera verra ástand, hugsanlega er það betra. Hvernig getur það orðið betra fyrir þig? Nú er lag að vinna með sjálfan sig og móta lífstíl sem manni líður vel með.
Haustið er alltaf upphafið að einhverju nýju og spennandi í mínum huga. Lyktin af nýjum stílabókum, strokleðri og bleki. Kertaljós og rökkur, rómantík og uppskera. Allt sem raunverulega skiptir máli er hér enn. Það má njóta þess og fagna því að vera á lífi jafnvel þó maður hafi misst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.