Mig langar í nýjan kjól...
26.3.2021 | 17:10
Mig langar í nýjan kjól. Virkilega langar í nýjan kjól. Undanfarna daga hef ég gengið á milli búða og skoðað kjóla. Ég finn ekki þann sem er í huga mér og bíð mér ekki upp á að máta því þá er skaðinn skeður gagnvart buddunni. Ég vafra á netinu og skoða kjóla. Í morgun vaknaði ég og mig langaði ennþá í nýjan kjól.
Ég fór að skoða þessa löngun aðeins betur, allir draumar þurfa rými. Ég hef næstum enginn tækifæri til að vera í kjólum nema með fjölskyldunni minni sem er svona nokkurn veginn sama hvernig ég klæði mig svo lengi sem ég er klædd og komin á ról.
það sem reyndist undir þörfinni fyrir nýjan kjól er að mig langar svo að sitja á grísku útikaffihúsi við haf sem er svo blátt að það er grænt, í nýjum kjól. Mig langar að vera stödd á markaði í útlöndum þar sem allt grúir af vörum frá framandi löndum. Allir litir sem eru einhvern veginn tærari en litirnir sem við notum í norðrinu. Lyktin af kryddi og exótískum mat. Fólk sem er allt öðruvísi en samt alveg eins. Eg meira að segja sakna þess að einhver æpi á mig "Maddam, special price for you!" eða að vera elt af æstum sölumönnum, í nýjum kjól.
Mig langar að ganga um í heimsborg þar sem enginn er með grímu og fólk er upptekið við að lifa en ekki að lifa af.
Þó að það væri ekki nema að fara niðrí bæ og drekka nokkra kokkteila. Faðma þá fast sem maður hefur ekki séð lengi og kyssa þá sem maður þekkir betur. Dansa svo lengi að manni verkar í fæturnar og koma ekki heim fyrr en undir morgun og fleygja sér í rúmið eftir að hafa lent á trúnó og séns, í nýjum kjól.
Kannski maður fari bara upp að þessum F-eldgosi sem drottinn gaf okkur til að skoða þegar við höfum ekkert annað. Ég fer ekki þangað í nýjum kjól eða nokkrum kjól.
Verðum að fara með æðruleysibænina aftur og aftur og láta okkur dreyma um þann tíma sem við getum hoppað upp í flugvél eða farið á mannamót - í nýjum kjól með bólusetningu í vöðvunum.
Þegar ég hafði áttað mig á þessari þörf minni fyrir nýjum kjól. Settist ég og hélt fund með öllum hliðum af sjálfri mér. Ég spurði þær hvað það væri sem ég gæti gert fyrir þær allar, mínar innri frekjur. Svarið var einfalt: Haltu bara áfram að fara yfir verkefni og ljúktu við það sem liggur á að gera og slappaðu svo af! Þú átt hvort sem er nóg af kjólum!
Ég spyr nú bara hvenær á kona nóg af kjólum?
Nú þurfum við öll að leyfa okkur að dreyma um tíma þar sem Víðir kemur ekki reglulega í sjonvarpinu og daglegar tölur þýða hitastig en ekki veikindi. Blöstum bara Bubba Morteins syngja "þessi fallagi dagur"
Konurnar blómsta brosandi sælar
Sumarkjólar háir hælar
Kvöldið vill komast að
Gleðilega heimapáska.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.