Að mæta á bryggjuna.
3.5.2020 | 17:23
Þegar pabbi minn var unglingur mætti hann niður á bryggju í Keflavík og fór í röð annarra sem biðu eftir því að vera valinn til að fá vinnu þann daginn. Hann var oftast valinn enda duglegur og sterkur strákur sem mokaði salti af kappi til að geta fengið greitt í reiðufé frá útgerðamanninum í vikulok. Pabbi er ekki hundrað og þriggja ára heldur sjötíu og þriggja enn ungur og sterkur.
Núna þegar margir vinnustaðir opna aftur þá eru ekki allir sem verða með vinnu til að fara til baka í. Við erum líka öll að læra á nýtt vinnuumhverfi,nýjar aðstæður áður óþekktar. Undanfarnar vikur hafa þvingað okkur til að endurmeta gildi okkar og hugsa um hvernig við viljum og getum framfleitt okkur.
"Gigg" hagkerfið er byggt á sömu lögmálum og áður eða á þeim tíma sem pabbi stóð í höfninni og beið, við mætum og bjóðum fram vinnuframlag okkar. Tæpur helmingur af vexti á vinnumarkaði í Bretlandi frá fjármálakrísunni 2008 er fólk sem er sjálfstætt starfandi og þar af eru flestir að selja sérfræðiþekkingu sína. Flestir eru undir 30 ára en hins vegar er stærri og stærri hlut af fólki yfir 60 ára sem kýs að vinna sjálfstætt. Í rannsóknum hefur komið í ljós að margir kjósa að vera áfram sjálfstætt starfandi eða um 59% þrátt fyrir að efnahagur hafi batnað.
Ég hef rannsakað starferil undanfarna áratugi og við vitum þeim mun halda áfram að fjölga sem starfa á eigin vegum. Það er ekki lengur til það sem kallað var þriggja laga starfsferill; menntun, vinna, starfslok. Núna er starfsferill meira eins og völundarhús þar sem fólk fer inn og út um mismunandi leiðir.
Núna eru margir sem eru knúnir til að hugsa hvað gæti ég selt? Hvaða verkefni get ég leyst sem einhver myndi borga mér fyrir? Hvað er framundan?
Mig langar að benda á nokkrar leiðir til þeirra sem nú standa frammi fyrir því að endurhugsa starfsferill sinn.
1. Prófaðu þig áfram með mismunandi möguleika eða þ.e. möguleg "sjálf." Ekki hugsa eingöngu um það sem þú hefur gert hingað til. Kafaðu dýpra. Prófaðu þig áfram og láttu reyna á þig. Byrjaðu strax og gerðu ráð fyrir að mistakast á einhverjum sviðum.
2. Þegar við förum í gegnum endurnýjun á starfsferli okkar tekur það lengri tíma en við gerum ráð fyrir í upphafi. Gerðu ráð fyrir 2-3 ára "umbreytingartímabili." Þar muntu hitta sjálfan þig fyrir í eiðrarleysi, gangi inn í "tómið" eins og viðmælendur mínir hafa lýst þar sem þú veist ekki ennþá hver þú munt verða. Þetta getur verið mjög erfitt tímabil en oftast eru gjafir í þessu tímabili. Þegar maður kemur út úr því er maður ekki samur.
3. Talaðu við alla, og ömmu þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að það eru ekki þeir sem eru okkur næstir sem opna nýjar dyr í sambandi við starfsferil heldur þeir sem eru í ytri hring. Hringdu í þá sem þú vannst með þar síðast eða þekktir fyrir fimm árum. Hafðu samband.
4. Segðu upphátt við sem flesta hvað þú ert að hugsa og hvernig þér líður, það þarf að hugsa upphátt þegar maður reynir að endurskapa starfsferill sinn.
Það þarf hugrekki til að fara á bryggjuna og standa frammi fyrir þeim sem hefur vald til að velja mann. En það þarf líka dugnað til að vera valinn aftur. Tækifæri koma til þeirra sem eru undirbúnir þegar þau birtast. Það er möguleiki núna til að endurmeta stöðu sína á vinnumarkaði því að stórfyrirtæki morgundagsins verða til í krísum eins og núna og þá skiptir máli að vera mættur á bryggjuna. Þú veist ekki ennþá hver þú verður og það er bæði spennandi og kvíðablendið - eins og alltaf þegar maður fer út úr þægindahringnum.
Athugasemdir
Það besta sem kopm fyrir mig í lífinu var að aðrir tóku ákvörðun um að ég væri orðinn of gamall fyrir það starf sem ég hafði stundað síðasliðin 38 ár. Ég skyldi bara hætta 65 ára gamall og sjá um mig sjálfur.
Vinir mínir margir björgðuðu mér og hjálpuðu til endurhæfingar.Bestu árin voru eftir allt ókomin.
Ég get aldrei þakkað nógsamlega þeim sem hjálpuðu mér á fætur aftur og færðu mér lífið á ný.
Halldór Jónsson, 3.5.2020 kl. 20:32
Ég upplifði það sem unglingur að fara í jólafríi, um páska, einstaka sinnum um helgar og um páskana, ef þurfti vinnu við uppskipun við Reykjavíkurhöfn, og standa í biðröð eftir því að fá annað hvort vinnu eða vera hafnað af Jóni Rögnvaldssyni.
Það var út af fyrir sig erfitt ef niðurstaðan var höfnun, en ég huggaði mig við það að þeir, sem frekar voru valdir, voru fullorðnir menn og kannski með fjölskyldu á framfæri.
Verst var að vera vitni að höfnun á mönnum, sem kannski þurftu miklu frekar en ég á vinnu að halda.
Það var áfangi og stór stund að vera valinn í uppskipun á sementi, sem var bæði svo óþrifaleg vinna og erfið, að það var borgaður hærri taxti fyrir það.
Ég var vinnumaður í kaupavinnu í sveit sumarið 1954 á 14. aldursári, og sumarið eftir fylgdi vinna við höfnina eftir.
Öll sumur eftir það alveg fram á háskólaárin var unnin verkamannavinna hvenær sem færi gafst.
Þetta var afar dýrmæt og gefandi lífsreynsla á þessum mótunarárum æskunnar.
Ómar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 20:59
Afsakið endurtekningu á orðinu páskar í upphafi athugasemdarinnar.
Ómar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 21:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.