Að ferðast ein..
19.7.2017 | 15:39
Maðurinn horfði hissa á mig, "en venjulega eru alltaf tveir saman!". Ég var ein á ferðalagi og kom til að þvo af mér rykið í sundlaug staðarins. Hann hafði rukkað mig um rúmlega þúsund krónur sem mér þótti mikið en þegar ég leit á gjaldskránna eftir að hafa borgað honum sá ég að gjaldið var rúmlega fimm hundruð fyrir einn... þegar ég krafðist endurgjalds þar sem ég væri ein var þetta svarið; "venjulega eru alltaf tveir saman."
Þar sem ég lét mig fljóta í sundlauginni og naut þess að láta rigna á mig og hlustaði á skarkalann gat ég ekki annað en hugsað hvað ég væri þakklát fyrir að enginn væri að bíða eftir mér eða að ég þyrfti ekki að skarast í neinum - bara fljóta. Reyndar gæti kokkteitlinn sem ég drakk áður en ég fór í laugina einhvað hjálpað til við hamingjuna.
Það er skemmtilegt að ferðast einn. Ég hitti fólk alls staðar og aafna sögum eins og perlum sem ég þræði upp á band. Sögur af konunni sem hætti í fjármálageiranum til að reka gistihús í þorpinu sínu eða manninum sem vaknaði upp einn daginn á Manhattan í New York og ákvað að flytja aftur til Íslands eftir yfir áratugadvöl og býr nú í þorpinu milli vestfirskra fjalla. Sagan af konunni sem ennþá sér eftir stóru ástinni í lífi sínu. Þau fengu ekki að eigast. Konan sem ferðast með hjól upp á toppi bílsins og tekur það svo niður og hjólar fjallavegi, ein og frjáls. Eða af vélhjólagenginu sem lenti í fluginni í veiði. Sögur af veiði og sögur af atvinnulífi og menningu, kjaftasögur og gróusögur og umfram allt lærdómssögur.
Ég myndi mæla með því við alla að ferðast einir um landið - lönd og höf. Sérstaklega þegar maður er svona líka góður félagsskapur sjálfs síns. Ég fæ til dæmis að ráða því hvað ég hlusta á en þegar aðrir eru í bílnum er ég yfirleitt í minnihluta. Ævintýrin bíða við hvert fótmál og sögurnar sem maður eignast lifa áfram með manni. Þó að "venjulega séu alltaf tveir saman."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.