Einkunnir

"Ég kemst örugglega ekki í neinn menntaskóla" sagði tólf ára dóttir mín þegar hún afhenti mér einkunnir úr samræmdu prófum sjöunda bekkjar. Hún sá framtíðina fyrir sér fara í vaskinn, enginn menntaskóli, og úr því yrði hvort sem ekkert úr henni. Ég tók róleg upp úr umslaginu stóra dóminn og hún hafði bara staðið sig nokkuð vel stelpan. 

Ég reyndi að segja henni að einkunnir eru ekki allt, að það skipti miklu meira máli að lifa af að vera tólf ára að verða þrettán og halda haus. Að hún hafi staðið sig vel með því að undirbúa sig og fara í prófin og að akkúrat núna þá sé óþarfi að hafa áhyggjur af menntaskóla eða framtíðinni. Mikilvægara sé að læra á hverjum degi og láta einkunnir lönd og leið.

Einkunn er bara tala á blaði sem segir til um hversu mikið þú getur bætt þig. Ekki dómur um manngildi hennar né nokkurs annars. Verðlaunin felast í að leggja sig fram og að vinna að markmiðum sínum. 

Miklu mikilvægara er hvernig hún kemur fram við sjálfa sig og aðra. Hversu hjartahlý og heiðarleg hún er og hvort að hún getur sett sig í spor annarra. Kunni muninn á réttu og röngu og geti hlustað á sjálfa sig, en ekki aðra, þegar kemur að því að lifa vel. Viti að hún er alltaf elskuð hvort sem hún fær núll eða tíu og hafi alltaf tækifæri til að bæta sig sem manneskja og í verkefnum lífsins. Lífsins skóli snýst um að finna sér farveg án þess að einblína um of á aðra eða hvar þú ert í röðinni. Ég þekki rígfullorðið fólk sem enn er algjörlega miður sín yfir að vera ekki á réttum stað í einkunnarröðinni og líður fyrir það. Eins og það skipti einhverju máli. 

Nakin komum við inn í heiminn og nakinn förum við út. Eina sem við tökum með okkur er hvernig við lifum lífinu og þá er röðun á einkunnarskala ekki mikilvæg. Nema þeim skala sem mestu máli skiptir - þ.e. hversu sátt við erum við frammistöðu okkar þegar við hverfum aftur. Hvort áhrifin af lífi okkar hafi verið jákvæð eða neikvæð og hvort við náðum að gera öðrum gott - bæta heiminn í kringum okkur örlítið á þeirri örskotsstundu sem við vorum hér. Samræmduprófs einkunnir eru þá löngu gleymdar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband