Í sambandi.

Ég heyrði tólf ára dóttur mína tala í símann í sveitinni okkar "það er ekkert net, enginn gemsi virkar. Símanúmerið er mjög skrýtið og byrjar á 4-um og síminn er þannig að maður þarf að leggja hann aftur á takka." Ég gat ekki annað en brosað, þess fyrir utan þarf hún að tala í símann þar sem allir geta heyrt og það er ekki símanúmera birtir eða talhólf. Reyndar var það þannig þegar ég var að alast upp að það var ein löng og þrjár stuttar og öll sveitinn gat hlustað, eins konar feisbók þeirra tíma.

Við erum svo heppin að geta á hverju sumri farið í sveitina okkar sem að sjálfsögðu er sú fegursta á landinu! Þar næst ekki samband við netið né gemsa og því er ég í kaupstaðaferð núna og sit á kaffihúsi og huga að umheiminum. Það er undarlegt en það er eins og ég hafi ekki misst af miklu né að ég sé nokkuð mikilvæg því þrátt fyrir að fólk hafi ekki getað náð í mig í viku án þess að hringja í landlínu þá eru ekki mörg skilaboð nema auglýsingar.

Það er svo skemmtilegt að velta fyrir sér hvað við erum farin að lifa mikið í gegnum símana okkar. Þegar veislur eru haldnar er myndum varpað á vegg beint úr veislunni, þegar landliðshetjurnar okkar komu upplifðu þeir allir þakklæti og væntumþykju landans í gegnum símann. Lögreglan varar vegfarandur sem eru að ná pókemónum við að ganga fram af björgum eða láta keyra sig niður því þeir horfa meira á símann en veginn framundan. Kona sem hafði skilið við manninn sinn sagði mér þá sögu að þau höfðu setið á kaffihúsium í sitt hvorum símanum þangað til hún fékk nóg af þögninni, þau voru sem sagt ekki að tala við hvort annað!

En síminn er líka frábært tæki og maður getur gert allt í honum nema elskast, (mér skilst að það sé líka hægt, kannski nýtt app). Núna tek ég hann upp til að telja skef sem ég tek í göngutúr dagsins og hætti ekki fyrr en eftir 10.000 skref bara til að fá blöðrur og svoleiðis á símann í fagnaði. Ég er svo einföld sál að þegar ég sé verðlaunin verð ég eins og krakki í gamla daga og hoppa af kæti. Önnur not hef ég ekki fyrir símann fyrr en ég fer í Kaupstaðinn.

Það furðulega er þó að þegar maður er ekki tengdur í gegnum tæki þá tengist maður sjálfum sér upp á nýtt og allt í einu er maður bara í sambandi við sjálfan sig, aðra, almættið og náttúruna í kringum sig.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágætt hér, hjá þér sem oftar Árelía Eydís. 

Gömlu handsnúnu símarnir voru ekki mikið til tafa en gagnsemin var augljós. 

Á stundum þurfti að ganga eða ferðast nokkra kílómetra til að komast að svona tæki, en það tryggði að það símtal var ekki bara til ónæðis.   

Hrólfur Þ Hraundal, 28.7.2016 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband