Kerlingin!
22.10.2015 | 10:52
Vinkona mín sem er jafngömul mér hafði samband við mig um daginn. Hún var í sjokki og ég þurfti að blása í hana lífi... næstum því. Hún hafði verið að tala við konu sem kom í ljós að hafði verið nemanda minn en sú var þrítug. Þær voru að tala saman "já, hún Árelía kenndi mér, hún er ágæt KERLINGIN! Vinkona mín, þessi í hjartahnoðinu, var algjörlega orðlaus og andlaus yfir þessu heiti, kerlingin! Bara fjörtíuogníu ára!
Mér varð ekkert brugðið, kerlingin með stáltaugar. Ég umgengst nægilega margt fólk sem er um þrítugt sem mér finnst börn! Ég fór á læknavaktina um daginn og þegar læknirinn kom var ég að hugsa um að biðja um mömmu eða pabba hans, bara einhvern fullorðin! Ég hitti nógu margt flott fólk sem er um áttrætt sem mér finnst vera stelpur og strákar. Fólk sem lifir spennandi lífi. Þess fyrir utan fannst mér líklega sjálfri um þrítugt að konur yfir fertugu væri "kerling."
Aldur er í alvöru hugarástand. Ég hitti stundum menn á áttræðissaldri sem eru geislandi af kynþokka og sjarma. Konur sem eru svo spennandi um nírætt að mig langar að loka mig inni með þeim og spjalla í tvo daga. Það heitir víst viska.
Svo nú er ég orðin kerling, og það þýðir að ég er búin að læra ýmislegt um lífið... svona "been there, done that". Merkilegt nokk. Ég þarf ekki lengur að sanna mig, þarf ekki lengur að eiga fleiri börn, nenni ekki að æsa mig yfir ungræðiskúltúr og horfi á efnahagsumhverfið og hugsa "bíddu, lærum við aldrei af sögunni?" Horfi á jafnaldra mína karlkyns sem hafa yngt upp og eru að byrja aftur á barnauppeldi og hugsa "endurtaka leikinn, í alvöru?" Skiptir mig ekki máli lengur hvað öðrum finnst um mig, kaupi bara föt sem ég fíla en fer voða sjaldan í tískuslys samtímans, veit að þau líða hjá. Það merkilegra er að ég finn fyrir meiri lífsgleði með hverju árinu. Kerling alveg fram í fingurgóma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.