Töfrar
16.9.2015 | 21:24
Ég var að koma úr töfrandi göngurtúr við Ægisíðu. Það var eins og skaparinn hefði ákveðið að gefa okkur alla þá fallegustu liti sem hægt var að finna. Himinn og haf voru sem töfrandi teppi, appelsínugulir, bleikir, fjölubláir og allar víddir bláar blöstu við og augnablikið varð töfrandi. Allt í einu sem ég gékk uppnumin heyrði ég fiðlutóna og leit hissa í kringum mig. Við hafflötin stóð ung kona og spilaði á fiðlu fyrir sig og sígandi kvöldssólina. Ég varð sem steinrunninn og stalst til að eiga augnablikið með henni, tónarnir dönsuðu á haffletinum og til mín. Þarna stóð hún svo falleg og stolt með fiðluna sína og eitt augnablik blikkaði ég augnunum til að vita hvort hún væri huldumey en það var sama hvað ég blikkaði hún stóð þarna ennþá og himinn og haf voru hennar tónleikasalur. Ég tók þessa stund með mér og þakkaði henni í hljóði fyrir tónleikana.
Hversdagurinn er hlaðin töfrum. Hver dagur bíður upp á kraftaverk af ýmsu tagi. Í gær bjó ég til töfrandi kjötsúpu (mjög auðmjúk) hún lék við tungubrodda fjölskyldunnar.
Daginn þar á undan las ég töfrandi greinar um og eftir Oliver Sacks taugalíffræðing sem féll frá 30.ágúst síðastlíðin. Hann var töfrandi manneskja sem með lífsstarfi sínu varpaði ljósi á svo margt sem afvega getur farið í heilastarfsemi okkar. Á sama tíma var hann sjálfur svo mannlegur, fullur af ástríki og ástríðu. Sagnamaður mikill, greinar hans í New Yorker þar sem hann segir af miklu æðruleysi frá hugsunum sínum síðustu dagana á jörðinni ættu að vera skyldulesning. Í einni slíkri talar hann um að það sé líklega gott að halda hvíldardaginn heilagan, en hann var alin upp í Gyðingatrú en sagði sig frá henni þegar mamma hans fordæmdi kynhneigð hans, en á síðustu dögum sínum rifjar hann upp hefðir barnæskunnar. Lokaorð hans eru að nú áttatíu og tveggja ára á síðustu stundum sínum gerði hann sér grein fyrir að með því að ljá lífi sínu merkingu og hafa fundið tilgang sinn geti hann haldið á vit feðra sinna til að hvílast og þess vegna séu hvíldardagar líklega góður siður. Til að minna sig á í gegnum lífið. Þetta var töfrandi lesning sem vakti mig til umhugsunar en ein af bókum hans heitir einmitt: Awakening!
Það eru svo töfrandi að vera á lífi ef við bara opnum augu okkar fyrir því hversdagslega - svo er Bach líka ágætlega töfrandi!
Athugasemdir
vonum að guð gefi þeim fötluðu og veikum- eina svona stund á æfinni- að einhver góð manneskja vilji aka þeirra hjólastól út í kvöldsólina...eða morgunsólina.
Erla Magna Alexandersdóttir, 17.9.2015 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.