Bitastæð hlutverk
16.4.2015 | 14:10
Það er fátt sem jafnast á við pólitísk plott að mínu mati, nema þá helst að lenda í því, en sem sjónvarps- og lestraefni fæ ég seint nóg. House of Cards með Robin Wright gleður og svo ég tali nú ekki um Borgen með Sidste Barbett Knutsen í hlutverki danska forsætisráðherrans. Ég hefði kosið Birgitte, anytime.
Það sem kemst helst næst pólitísku plotti eru breskir og danskir sakamálaþættir. Ég hef setið sveitt af spenningi yfir Sofíu Graböl í Forbrydelsen, stjörf yfir Sofíu Helin í Brúnni og órótt yfir Gilian Anderson í the Fall. Hin gráhærða ömmulega Miss Marple með Joan Hickson er gamalt uppáhald og Helen Mirren í Prime Suspect var óborganleg. Uppáhaldið mitt er þó Vera Stanhope sem Brenda Blethin leikur snilldarlega.
Allar þessar konur eru svo hráar, djúpar og ótrúlega skemmtilega samsettar. Þær stjórna af hörku og svífast einskins en eru um leið svo viðkvæmar og undur kvenlegar.
Þær eiga það líka sameiginlegt að vera komnar vel yfir fertugt, sumar mun eldri. Þær tala um sambönd sín og kynlíf eins og í Scott og Bailey þar sem þær ræða nýjustu vandræðin í rúminu áður en þær brjótast inn til vondu kallana. Þær hrista uppp í hlutunum og eru töff. Hvenær fáum við íslenska valkyrju á breytingaskeiði sem geysist fram á sjónvarpsvöllinn í pólitík og sakamálum þannig að maður haldi sér i sófann með annað augað í pung?
Það er nefnilega þannig að við konur á þessum afar skemmtilega aldri erum stór, stór, stór neytendahópur sem vill eiga sér útrás í töff lögreglukonum sem bjarga heiminum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.