Vorveiki
22.1.2015 | 14:50
"þú ert alltaf svo ömurlega jákvæð", sagði ein við mig um daginn. Ég hef ekki þorað að blogga síðan. Er búin að hugsa lengi um hvað ég eigi að segja sem sé alvarlegt, neikvætt og þrungið þungri merkingu. Dettur ekkert í hug, en í gær þá fór ég að hugsa um vorið.
Það er náttúrulega ekki nógu alvarlegt og neikvætt að hugsa um vorið, en ég gerði það samt. Ég fór að hugsa hvað það munar miklu um hverja mínútu sem við höfum af birtunni. Það alvarlega í stöðunni er að ég hef alltaf verið haustkerling, ég nýt þess þegar birtu tekur að dvína á haustin og ég get aftur kveikt á kertum. Lyktin af nýjum bókum og haust tískan o.s.frv.
Núna, með hverju árinu, er ég orðin vorveik áður en ég veit af er ég farin að gleðjast yfir hækkandi sól. Hvert merki um vor á Íslandi er ákvaflega veik. Þegar ég bjó í Bretlandi byrjuðu trén að blómstra í mars, dásamleg vorsjón. En birtan maður minn birtan er engu lík á Íslandi. Hún smýgur inn í sál og likama og áður en maður veit er maður allur svo glaður að innan og hugsanir um sumarið, græn tún og sól kræla á sér. Ég held ég sé að eldast, man hvað ömmu og afa þótti vænt um vorið.
Ég var næstum dottin á hausinn í hálkunni í gær, hugsandi um vorið og birtuna og öll svona glöð að innan en ég mun þó reyna mitt ítrasta til að vera soldið alvarlegri í framtíðinni.
Athugasemdir
Ég held að þú bloggir ekki meðvitað um að vera jákvæð, en þú ert það greinilega að eðlisfari. Ekki hlusta á kerlingar sem finnst þú vera "ömurlega jákvæð" - haltu bara áfram að vera þú sjálf. En svo vill til að ég fór í Bónus í dag og sá á einhverri forsíðunni að Edda Björgvins hefur orðið fyrir álíka. Þú átt örugglega eftir að sjá þetta ef þú skoðar forsíður.
Ég veit að mörgum hér á landi líður illa, og umræðan snýst yfirleitt um hvað er miður, t.d. slæm fjárhagsstaða, hvað gengur illa og sjúkdóma. Mér finnst stundum eins og verið sé að sjúkdómavæða þjóðina, sem endurspeglast í greinum á síðum dagblaða.
Fátt er um jákvæðar fréttir eða jákvæðini og þegar einhver eins og þú tekur af skarið og fjallar um eitthvað jákvætt, þá er það hrópað niður.
Held að það sé kominn tími til að upphefja jákvæðni. Persónulega finnst mér alltaf svolítið skrítið, eða jafnvel erfitt þegar birta fer af degi, þó að ég bíði eftir vorinu og sumrinu. Á hverju ári tala ég t.d. um, eins og nú: það er bara bjart einnþá og klukkan en orðin fimm.
Þú varst heppin í gær að sleppa við fall í hálkunni. Það er jákvætt og talandi um. Í dag þurfti ég að skreppa í Sorpu með drasl og starfsmaður var að hreinsa planið með öflugri vatnsslöngu. Hann datt kylliflatur á klakabunka, missti slönguna, og ég bjóst við að ég fengi vatnsgusuna beint á mig. En slangan lenti í hina áttina, maðurinn stóð upp, en fann örugglega mikið til og labbaði inn í skúr.
En það jákvæða við þetta er að ég slapp við vatnsgusuna og starfsmaðurinn kom aftur úr keikur og sagðist ekki ætla að láta svona fall draga sig niður.
Nú er um að gera að jákvæða-væða þjóðina, sama hvað allar kerlingabækur segja. Og í þessum skrifuðum orðum verð ég að fylgja þessu eftir, af því að ég sé að ég er yfirleitt að skrifa eitthvað neikvætt, kvarta og gagnrýna hér á blogginu!
Ingibjörg Magnúsdóttir, 22.1.2015 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.