Jólahefðir
10.12.2014 | 19:20
Ég horfði á börnin mín, "eigum við kannski að breyta til?". Þau litu á mig eins og ég hefði misst þessar fáu sellur sem af og til virka í hausnum á mér. "Nei, við breytum ekki!! Við það situr. Á jólum má engu breyta! Allt á að vera eins, alveg eins og áður.
Ég les allra handa ráðleggingar um hvernig á að þola fjölskylduna um jólin (amerískt) hvernig á að sameina, börn, stjúpbörn, hálfbörn, barnabörn og ný og gömul börn (danskt) og get ekki annað en brosað svona þrýstinnar miðaldrakonubrosi. Hvað er málið? Maður bara gerir sitt besta til að njóta þeirra sem í kringum mann eru. Það eru alltaf einhverjir óþolandi hvort sem er og ég veit ekki betur heldur en ég sé það sjálf, reglulega (svo segja yngri börnin). En samt ef maður er svo heppin að eiga fjölskyldu, nú þá liggur í augum uppi að jólin eru tími til að njóta þeirra halda öllu eins og það á að vera, í hvert skipti. Stundum hefur vantað einhern, á mínum jólum, sem hefur verið hluti af jólahaldinu áður. Þegar fólk hefur kvatt þessa jarðvist, eða vegna skilnaðar, eða fólk er erlendis. Í þeim tilfellum höfum við sem sitjum saman á jólum reynt að minnast þessa einstaklinga með þakklæti og hlýju og stundum sorgar en haldið okkur við þær hefðir sem hægt er að halda. Því þrátt fyrir allt er lífið stöðugt að breytast. En samt viljum við halda í hefðirnar!
Hefðir eru til þess að gefa fólki öryggistilfinningu. Það er, til dæmis, einfaldlega hefð fyrir því að rífast, á mínu heimili, rétt áður en farið er út í bíl til ömmu og afa á aðfangadag. Það geta allir gengið að því sem vísu. Oftast um að fara ekki nógu snemma af stað en stundum um jólaséríur sem undirritaðri finnst vanta á húsið. Hefð fyrir vondri skötulykt á þorláksmessu, hefð fyrir að finna ekki jólatré því allir hinir sem er skipulagðir eru löngu búnir að kaupa sér þau. Hefð fyrir að kaupa eina jólagjöf á aðfangadag í stresskasti því maður átti hana eftir og hefð fyrir að pakka henni inn rétt áður en henni er skutlað undir tréð áður en byrjað er að taka upp. Hefð fyrir því að yngsta barnið sem kann að lesa, lesi á jólapakka og hefð fyrir því að afi sé lengi að taka upp.
Á heildna litið hefð fyrir að allt sé eins og það á að vera. Stundum hefur maður búið til nýjar hefðir sem vinda upp á sig og verða að áratugahefð. Ein jólin fannst mér sniðugt að búa til jóladagatal þar sem miði er hengdur í 24 daga með einhverju sem við gerum saman. Núna, nokkrum árum seinna, ætlaði ég að sleppa en þá kröfðu börnin mig ströng á svip um að þetta væri "alltaf svona á jólum!".
... mikið verður gaman þá, gaman þá... um að gera að halda sig við hefðirnar en hafa bak við eyrað að lífið er alltaf að breytast. Fólkið sem er með okkur hverju sinni er akkúrat fólkið okkar. Hafa svo í huga að það er hefð fyrir því að maður sé soldið óþolandi á jólum (kannski er það sykurvíman... sykur er víst eitur..).
Ps það er bannað að setja upp jólatré fyrr en á þorláksmessukvöld og nauðsynlegt að rífast soldið yfir því!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.