Tíu ráð um áramótaheit

Ég er búin að liggja í bókum, konfekti og saltpækli undanfarið, eins og þjóðin öll. Mér fannst ansi gaman að uppgötva að æska mín er orðin að "sögulegri ættarsögu" en Jón Kalmann Stéfansson skrifar skemmtilega um Keflavík æskunnar, hann er næstum jafngamall og ég. Ég varð óþarflega miðaldra við lesturinn en hafði gagn og gaman af. Minningarnar læddust um á sama tíma og konfektið rann ljúflega ofan í mig. 

Ari, söguhetja bókarinnar gefur út bækur sem allar bera heitið "Tíu ráð.." Við Jón Kalmann eigum greinilega fleira sameiginlegt en bernskuár í Keflavík því það skín í gegn álit hans á tíu ráðum. Mér hefur alltaf fundist merkileg þessi árátta okkar að vilja setja allt niður í tíu ráð, sem er sambærilegt við að líkja skyndikynnum við áratugalöng hjónabönd.

Þess vegna, svona í gamni, ælta ég að setja niður tíu ráð um hvernig á að nálgjast áramótaheitin... 

Ráð eitt - ekki setja þér áramótaheit sem er sprottið af saltpækli og konfektári undanfarna daga. Hugsaðu fram í tímann. Ef þig langar til að breyta vana þínum geru ráð fyrir vinnu og aftur vinnu. Hindrunum og að lokum sigri en ekki láta skyndilausnir villa þér sýn. Aldrei setja markmið nema eftir mikla sjálfsskoðun - hvað hentar þér einni eða einum? Miðaðu við það en ekki nýjasta nýtt.

Ráð tvö - Gerðu eitthvað allt öðruvísi á þessu ári. Endurnýaðu sköpunarkraft þinn með því að keyra á mótorhjóli, fara í sjósund eða dansa. Búa til silfurskartgripi, fara á nautaat á Spáni, fótboltaleik á Englandi. Eða ganga á Hornstrandir, eða læra að tefla, læra nýtt tungumál. Læra á sjálfan þig.

Ráð þrjú - Gerðu eitthvað með öðrum. Farðu og finndu hópinn þinn. Er það fjölskyldan? Eða Læons, hlaupahópur eða prjónaklúbbur. Saumaklúbbur eða matarhópur, eða er það kannski ferðafélagar? Langaði þig alltaf í skátana? Björgunarsveitina? Starfsmannaklúbbinn? Leshópinn? Finndu hann, hópinn þinn, á nýja árinu.

Ráð fjögur - Vertu kynvera - ef þú ert orðin átján ára. Ekki gefast upp á ástinni þó að einhver hafi einhvern tímann svikið þig. Eða þú ert búin að vera ein eða einn í tuttugu og fimm ár. Eða gift í þúsund ár. Haltu áfram að rækta kynveruna, læra nýtt. Maður þarf ekki að fara á Tantra námskeið til að hugsa um að halda sér aktívum á þessu sviði. Stærsta kynfærið er á milli eyrnanna. Og bæ the way, það skiptir ekki máli hvað þú ert gömul eða gamall - ástin getur verð jafn ástríðufull á níræðisaldri og um tvítugt. Bara aðrar aðferðir eins og við allt annað.  Hleyptu villimeyjunni eða peyjanum út á næsta ári...

Ráð fimm - Gerðu eitthvað á nýju ári sem engum myndi detta í hug að þú hafir áhuga á. Eins og að leysa Suduokó eða krossgötur, rækta græna fingur, stunda jóga eða hugleiðslu. Eða Cross-fit eða hekla.

Ráð sex - Láttu ljós þitt skína og njóttu þess. Finndu leið til að verða enn betri í því sem þú nú þegar ert góð eða góður í.

Ráð sjö - Haltu áfram að læra. Bara eitthvað, læra um lífið og læra á lífið.

Ráð átta - Ekki láta fortíð þína hafa of mikil áhrif á hvernig þér líður núna. Hugsaðu samt um framtíðarsjálf þitt. Hvað er gott fyrir framtiðarsjálfið? Augljóslega allt sem skaðar heilsu þína er ekki gott. Augljóslega er það að styrkja sjálfan sig gott fyrir framtíðarsjálfið. Augljóslega náin sambönd núna við þá sem í kringum þig eru.

Ráð níu - Hugsaðu um markmið sem munu koma þér út úr þægindahringnum. Okkur líður svo vel þar sem við þekkjum okkur og þurfum ekki að hafa fyrir hlutunum. En eina leiðin til að þroskast er að setja sér nýjar áskoranir. Ég ætla til dæmis að fara sem farastjóri til Spánar í maí í fjallgöngur í hálfan mánuð á pílagrímaleið. Það er algjörlega út úr mínum þægindarhring - mjög langt út úr honum svo langt að mig langar að hætta við... en það er ekki hægt, búin að lofa .. (mun segja ykkur frá því í maí hvort ég kemst á leiðarenda...)

Ráð tíu - brjóttu öll ráðin og gerðu ettttta á eigin forsendum.

 

Ég þakka samfylgdina og ég þakka lesturinn á þessu dásemdarári sem nú er að renna sitt skeið. Um leið óska ég þér blessunarríks nýs árs. Megir þú skapa margar gleði- og ævintýrastundir, njóta og lifa lífinu til fulls á því herrans ári 2014. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband