Síðsumarsgleði
26.8.2013 | 10:39
Þá læðist það að síðsumarið, skríður yfir Esjuna hér sunnan heiða, og leggst hljóðlega yfir borgina. "Nú er mitt frí að bresta á", sagði sex barna móðir ungra barna sem ég hitti um daginn. Ég brosti með mín tvo yngstu hlaupandi í kringum mig, í léttri sykurvími sumarsins. Nú er okkar tími komin! Maður fer í vinnuna og kemst á klósettið án þess að einhver hangi á dyrunum eða heimti að koma með! (það hefur alla vega enginn viljað það á mínum vinnustað...).
Þvílík dásemd að labba með krílunum á þeirra stað í skóla og leikskóla. Krílin snar hægja á ferðinni, enda bara hafragrautur í morgunmat hversdags, dauðfegin að komast í rútínuna og alveg jafn glöð að losna við foreldrana í smá stund.
Besti tími ársins fer í hönd, að mínu mati, tími kertaljósa, tími til að kynnast nýjum nemendum, tími þar sem lyktin af nýju strokleðri og tómum stílabókum liggur í loftinu. Tóm stílabók sem bíður eftir að maður fylli á hana af visku og skemmtilegheitum. Tískan er líka lang flottust á haustin, það fer reyndar illa með budduna, og rómantískir göngurtúrar geta endað í berjamó eða vitleysu þess vegna. Það er ennþó nógu mikið eftir af sumrinu til að njóta þess að þurfa ekki að taka úlpuna og vettlingana fram. Síðast en ekki síst, rútínan umfaðmar mann. Sagt er að ef maður fylgi reglunni þá muni hún varðveita mann. Ég ætla að setjast niður núna og búa til nýjar haustreglur - alveg í hreint dásamlegum friði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.