Að bíða eftir strætó í vesturbænum
26.2.2013 | 17:35
Ég hef oft beðið eftir strætó í vesturbænum og samkvæmt vísindarlegum niðurstöðum mínum þá er reglan sú að annað hvort kemur enginn eða þrír í einu! Alveg ótrúlegt, hafið þið tekið eftir því að tækifærin eiga það tl að haga sér eins í lífi manns almennt. Stundum þarf maður að bíða alveg endalaust eftir að eitthvað sem mann langar gerist en svo þegar það gerist þá koma mörg tækifæri í röð. Jafnvel svo mörg að maður verður að láta þau fram hjá sér fara, alveg eins og maður getur ekki tekið þrjá strætó frá vesturbænum. Maður verður að velja einn!
Lífið hefur tilhneigingu til að taka hina og þessa beygjuna, eins og strætóar, og stundum veit maður ekki alveg hvort maður tók rétta vagninn. Ég hef oft haft fólk í ráðgjöf sem segir mér að það besta sem hafi komið fyrir það hafi verið að vera sagt upp eða skilja eða farið í gjaldþrot. Þetta er ótrúlegt og oftast hafa liðið nokkur ár áður en fólk kemst að þessari niðurstöðu. Ástæðan er einföld, fólk var bara í sínum venjulega strætó og fór alltaf sömu leiðina án þess að taka neitt sérstaklega eftir henni en svo hætti sá strætó að ganga og allt í einu þurfti að finna nýjan vagn. Sumir hafa þurft að bíða lengi og finnst þá eins og það muni ekki koma nokkur vagn og hvað þá á réttum tíma.
Ég hef kennt, skrifað um og fundið á eiginn skinni, að maður verður að hætta að bíða eftir strætó og kynna sér leiðarvísinn eða jafnvel slá inn leit á vefnum. Eftir því sem við sinnum betur leiðtogahæfni eða forystu í eigin lífi þeim mun betur komum við í veg fyrir biðina. Eftir því sem við þekkjum betur hvert við viljum fara þeim mun meiri líkur eru á að við komust þangað! Eftir því sem við leggjum á okkur að vera tilbúin þegar vagninn mætir á stoppustöðina þeim mun meiri líkur eru á að við náum honum. Síðan koma oft stundir þar sem maður þarf að hlaupa til að ná honum. Stundum missir maður af honum og ég hef lent í því að vera komin upp í Mjódd þegar ég ætlaði að fara í Kringluna, bara soldið niðursokkin í annað.
Þegar lífið krefst þess að þér að þú bíðir eftir strætó mundu þá bara að þegar maður bíður eftir strætó í vesturbænum þá kemur annað hvort enginn eða þrír í einu. Þá er um að gera að hoppa upp af kæti!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.