Malandi köttur!

Við fjölskyldan erum svo lánsöm að eiga kött, hann Mosa. Reyndar færir hann okkur reglulega fugla og mýs og þá er ekki eins og lánið leiki við okkur, en samt. Ég dáist að Mosa. Sagt er að hundar passi upp á eigendur sína en Mosi situr um heimilið og ef það nálgast önnur dýr þá gefur hann frá sér hljóð sem gætu komið úr barka fullorðins karlmanns. Hann sefur alltaf upp í hjá yngstu prinsessu heimilsins og ef einhver lokar hurðinni hennar á kvöldin þá bara krafsar hann í hana og vælir þangað til einhver nennir að standa upp úr sófa og hleypa honum inn. þá leggst hann værðarlega upp á sængina hjá henni og gætir hennar í draumaheimum. Ef hún er ekki heima lætur hann prins heimilisins duga, ef allt þrýtur og ekkert barn er heima skríður hann upp í hjá okkur fullorðna fólkinu. Við erum síðasta sort!

Hann vill gjarnan hafa okkur heima og þegar við komum heim, eftir að hafa verið að heiman, þá kemur hann hlaupandi og strýkur sér um fætur okkar og sést einhvers staðar nálægt og malar eins og gufuvél. Ég horfði á hann í gær þar sem hann lá malandi og hugsaði með mér að það er fátt sem er eins afslappað í heiminum eins og malandi köttur.

Ég ætla að taka Mosa til fyrirmyndar næstu dagana og mala eins og köttur reglulega, mala yfir því hvað ég á gott að einhver er komin heim, mala yfir góðum mat. Mala yfir vellíðan í eigin kroppi. Þessum lifandi, mjúka kroppi sem gefur mér færi á að strjúka, kyssa, knúsa, borða og .... hlaupa og ganga. Mala yfir birtunni og mala yfir myrkrinu. Teyja úr mér og mala. Mala af vellíðan út af engu nema því að vera á lífi akkúrat núna.

Við mannfólkið gerum nefnilega ekki nógu mikið af því að gera ekki neitt! Þegar við mölum eins og kettir eykst sköpunargáfa okkar. Við skiptum um heilahvel, í hugsunum og vinnsluminni, og innsæi eykst. Prófið bara að mala eins og köttur og þið munið finna alveg nýjan flöt á öllum heimsins vandamálum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband