Algjört beib!

Ég átti vin fyrir mörgum árum sem skipti oft um kærustur. Við vorum ung og það var alvanarlegt að fólk prófaði sig áfram með maka. En hann var mikill bílaáhugamaður og við vinir hans söguðum að "Jón" væri komin með nýja sem passaði í bílinn. Hann hafði áhuga á fallegum hlutum og bílum, var alltaf á nýjum bílum meðan að við hin áttum flest ekki bíla. Ég hef ekki heyrt af honum í mörg ár en síðast þegar ég heyrði hafði hann fundið sér nýja.

Sumir sjá konur sem hluti, klámiðnaðurinn gengur út á það. Ung stúlka vann keppni um að komast áfram og láta taka myndir af sér í Playboy. Hún veit að það verður horft á hana eins og nýjan bíl. Gott húdd, fallegur skrokkur, sterk vel og bakendinn rennilegur. Sumir karlar sjá konur sem hluti til að eignast. Hárgreiðslukona sem ég þekki fékk einhverju sinni símtal frá brjáluðum eiginmanni sem var óður því hún hafði klippt konuna hans í styttra lagi. Hann var ósáttur með sinn hlut.

Mér varð hugsað til alls þessa þegar ég horfið í gær á franskan þátt um kynjaskiptingu heimilisverka. Ég hafði þvingað manninn minn til að sitja hjá mér. "Sko..." En allt í einu þyrmdi yfir mig og ég hugsaði með mér að ég væri að verða fjörtíu og sex ára og þetta væru sömu staðreyndirnar og þegar ég var fimmtán ára og reið yfir því að kynin hefðu ekki sömu möguleika á að afla sér viðurværis.

Það var prófessor í þættinum sem sagði að karlar leggðu allt í starfsframan en ekki heimilið eða vini og fjölskyldu. Þeir leggja á sig fyrir fjölskylduna í flestum tilfellum. Ekkert nýtt þar en allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Hvað ef allar konur leggja jafn mikið á sig til að jafna hlut kvenna á vinnumarkaði og styttu hver aðra til metorða? Í stað þess að leggja það á sig að líta út eins og beib? Eða vera fullkomnar húsmæður? Þá er ég ekki að mæla móti því að við leggjum upp úr fegurð og því að líta vel út. Útlitsdýrkun er ákveðið fangelsi, það er alltaf hægt að gera betur og alltaf hægt að leggja meira á sig á þeim vettvangi. Hlutir hafa tilhneigingu til að missa sjarma sinn eftir stuttann tíma. Í hvert sinn sem ég kaupi mér skó þá finnst mér þeir fallegasta parið sem ég hef eignast en svo fölnar fegurð þeirra og ég er farin að horfa á nýja áður en ég veit. Bílar missa verðgildi sitt um leið og þeir komast á götuna úr glugganum. Eitt er að karlar líti á konur sem hluti kannski er það hluti af þeirra genatík en f við konur lítum okkur sjálfar sömu augum og hluti þá erum við að efast um okkar eigið gildi. Hver einasta manneskja er hafsjór af óendalega jákvæðum möguleikum til að blómstra í víðasta skilningi þess hugtaks.

Við sögðum gjarnan um "Jón" vin okkar "bíddu bara þangað til hann kemst að því að þær fara á klósettið og reka við og ropa eins við hin." Hann var oftast búin að skipta áður en hann komst að þessu. Blæðingar, fæðingar með blóði og kúk og ælupestir voru ekki í boði. Ég legg mikið upp úr því að líta vel út. Einhverju sinni spurði minn heittelskaði; "Hvað kostaði klippingin þín?" (Við vorum nýbyrjuð saman..). þegar hann fékk svarið varð hann orðlaus (gerist sjaldan), ég leit á hann og svaraði því til hvort hann héldi að það væri ókeypis að líta út eins og ég! Hann hefur ekki minnst á þetta einu orði síðan. En ég legg líka mikið upp úr því að læra, öðlast visku og vera með sömu laun og jafningar mínir. Ég hef alltaf barist fyrir kvenréttindum og lagt mikinn tíma í að byggja mig upp. Tl þess að ná árangri á vinnumarkaði þá verður maður að leggja mikið á sig og kannski enn meira ef maður er kona. Það hjálpar manni ekki í launtékkanum að vera beib.

Hvað varðar karlmenn sem vilja fá nýjustu útgáfuna af beibinu sem passar í bílinn þeirra. Forðist þá! Hlaupið í burtu ... Sá sem þarf hluti til að púkka upp á sjálfsvirðingu sína er líklegur til að vilja drottna yfir honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband