Konan með eitt brjóst
15.1.2013 | 23:30
Ég var að leggja grjónagrautinn á borðið, litlu krílin mín sátu við borðið og biðu eftir að fá þennan fína eftirjólarétt. "Ég var óþekk í sundi í dag" tilkynnti sú stutta. Þetta er nú frekar venjuleg tilkynning á mínu heimili svo ég kippti mér ekki upp við þetta. "Kennarinn skammaði mig af því að ég vildi ekki gera eins og ég átti að gera með fæturnar en ég sagði henni að ef ég væri í sjónum myndi ég sökkva." Ég kannast við svona erfiðleika með íþróttakennara því pabbi minn er gamall íþróttakennari og honum finnst ég ennþá ekki fara alveg eftir fyrirmælum.
"Mamma, ég var líka soldið lengi að klæða mig því að ég horfið svo mikið á eina konuna." Nú, sagði ég um leið og ég stráði kanilsykrinum yfir. "já, hún er nefnilega með eitt brjóst." Ég veit sem er að mín er soldið hvatvís og segir oft það sem ekki á að segja svo ég beið eftir framhaldinu. "Ég spurði hana af hverju hún væri með eitt bjóst og hún sagði mér að hún hefði fengið brjóstakrabbamein." Já, svoleiðis gerist, sagði ég um leið og ég lagði diskinn á borðið. Hún horfði hugsandi á mig, "já, hún var sextíu og eins árs þegar brjóstið var tekið en núna er hún sjötíu og tveggja. Hún var líka með svona poka utan á sér sem maturinn fer í en ég spurði ekki um hann." Hún renndi niður grautnum og horfi svo á mig hugsandi og sagði "mamma mikið er gott að hún gat gefið börnunum sinum brjóst en ég gleymdi að spyrja hana hvað hún ætti mörg börn."
Ég er þakklát fyrir þessa sundferð þessarar stuttu, ekki af því að hún var óþekk í sundkennslunni heldur af því að hún lærði eitthvað mun mikilvægara. Hún lærði á þessum degi að sumar konur eru með eitt brjóst og fara samt í sund og hún lærði að sumar konur eru með poka utan á sér sem maturinn fer í og fara samt í sund. Hún lærði að brjóstakrabbamein er ekki dauðadómur. Hún lærði að við erum ekki öll eins og að við konur getum verið sterkar, flottar og stoltar hvort sem við erum með eitt eða tvö brjóst. Hún lærði líka að þakka fyrir það sem þessi kona hafði getað gert meðan hún hafði tvö brjóst, nefnilega gefið af sér þegar hún hafði tækifæri til (ef hún á börn því hún gleymdi að spyrja að því...).
Ég er líka þakklát konunni með eitt brjóst að móðgast ekki þegar littlel miss forvitin horfir og spyr hana spurninga. Sumar konur eru einfaldlega svo flottar! Það eru nú reyndar íþróttakennarar líka sem þurfa að fást við stelpur sem skilja ekki hvernig þær geta flotið um leið og fæturnir fara upp!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.