Kynt undir áramótaheitabrennu
28.12.2012 | 15:13
Það vellur konfekt út úr eyrunum á mér... ég hef ekki hreyft mig neitt um jólin nema til að rétta út hönd í yfirfullar skálar af konfekti, belgísku súkkulaði og Makintoss. Búin að lesa um það bil fjórar jólabækur hver annarri betri. Ég lagðist í flensu fyrir jólin svo að ég gat ekki annað en látið jólaundirbúningin fram hjá mér fara, það sem átti eftir að gera. Jólin eru í mínum huga, súkkulaði, jólabækur, jólaboð og leti, dásamleg leti. Tek heimilisköttinn mér til fyrirmyndar og ligg á meltunni, borða, sef, les og er með fjölskyldunni.
Þetta líferni hefur mikil áhrif á áramótaheitin því að þegar ég lít upp úr sykurvímunni þá sé ég mig fyrir mér tágranna í hlaupaskóm á leið í maraþon sumarsins. Skelli hausnum aftur í bókina og lít upp og bæti við draum um skiplagða konu, núna í gönguskóm í réttri litasamsetningu á tindi einhvers fjalls sem er svakalega hátt. Ég sé mig í anda með göngustafina, rjóða í kinnum með hnetur í vasanum. Ég gref andlitið aftur ofan í bókina og gleymi mér um stund og er orðin ósjálfráð með Auði Jónsdóttur, dásamleg bók sem gleður mig. Ég hlæ upphátt, orðin spretta upp af bókinni, ummmm... "allir verða að eiga sína mömmu.." Lít upp og sé að það eru að koma áramót. Árinu er að ljúka. Ég fæ nostalgíu kast, öll ferðalögin, allar uppákomurnar, vinafundir og ást og kossar.
Ég er áramótabarn í mér, finnst ómótstæðilega mystískt að horfa yfir farin veg og gera upp árið sem við síðan kveðjum með hátíðarbrag. Allar þess gleði og sorgir, búmmmm.. upp í loft með þetta, búmmm, sprengjum það allt í loft upp, búmmm... Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.
Á þessum tíma læðast þrár okkar og draumar um á svellköldum nóttum og skemmta sér við að daðra við okkur. Þá er um að gera að ganga til móts við þá, óuppfylltu draumana með opið fangið. Ég set alltaf upp markmið, fyrir hvert ár á gamlársdag, ég set upp markmiðalista og geri óskaspjöld. Finn mig knúna til að leika mér með draumana eins og krakki að uppáhaldsleikfangi sínu.
Á síðasta ári setti ég mér það að markmiði að vera í launalausu leyfi frá vinnustað mínum og prófa að leggja aðrar áherslur. Það besta við það var að uppgötva að ég sakna vinnustaðarins og hlakka nú til að hefja störf aftur á nýju ári. Ég setti mér það að markmiði að ferðast, eins og ég gæti, og hef gert það svona eftir efnum og aðstæðum. Ég ætlaði líka að verða tágrönn á árinu en ekkert varð af því en ég fór að stunda jóga. Ég ræktaði garðinn minn og týndi upp það illgresi sem þurfti burt og gróðursetti ýmislegt sem á næsta ári mun stinga upp höfðinu.
Galdurinn við að gera áramótaheit er að hafa þau eins SMART og hægt er, þ.e. sértækt, mælanlegt, á allra færi (á þínu færi), réttlátt og tímatengt. Kynda svo undir áramótaheitabálinu með því að vera vongóð eða vongóður. Ef maður er vongóður þá sér maður fyrir sér hindranir áður en maður fer af stað og síðan hvernig maður ætlar að fara fram hjá þeirri hindrun (skrifaði heila bók um þetta: Móti hækkandi sól).
Ekki velja augljósustu markmiðin sem sykurvíma jólanna stillir upp fyrir framan þig! Hvernig væri að stefna að því að fara út úr þægindarammanum á nýju ári. Gera eitthvað nýtt, finna nýja hæfileika og leika sér á nýjan hátt. Tengjst á nýjan og dýpri hátt og hreyfa við öllum þeim vöðvum sem ekki hafa verið virkjaðir áður. Finna ástríðuna og uppgötva ný lönd og nýjar lendur. Elska heitar og gefa meira, hugsa nýjar hugsanir og um leið velja að koma fram við sjálfan sig af umhyggju, alúð og feiki kærleika. Kasta því á bál sem ekki á við í lífi þínu núna, sleppa takinu á því sem þarf. Gömlum hugmyndum um sjálfan þig Brenna öll vonbrigði á brennunni, setja upp lærdóminn af mistökunum og prófa upp á nýtt. Þú getur það! Þú hefur það sem þarf til! Þú ert á réttum stað á rétum tíma til að nákvæmlega þetta markmið logi glatt allt næsta ár.
Þannig er ég sannfærð um að ég muni á nýju ári verða mun grennri, mun skipulagðari og mun ævintýragjarnari og muni skrifa marga nýja kafla og bækur. Finna nýja staði og flytja á nýjan stað í verunni. Tilveran er dásamleg og ég bið um að þú munir kynda undir áramótaheitabrennunni með mörgum nýjum markmiðum sem verða drifkrafturinn að algjörlega fabílös nýju ári. .......... Ótrúlega ævintýraár 2013 hér kem ég fagnandi!
Gleðilegt nýtt yndisár.
Árelía Eydís
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.