Endalaust vesen á þessum kellingum!
20.12.2012 | 14:18
Ég sat með hópi karla og lét lítið fyrir mér fara, hlustaði á spjallið. "það er endalaust vesen á þessum kellingum, ætli maður þurfi ekki að fara setja upp einhverja seríu einu sinni enn." "já" hnussaði í öðrum "maður er aldrei búin." Þeir fóru svo að ræða um mikilvægari mál eins og pólitík og gjaldeyrishöftin. Ég hitti seinna kunningjakonu mína sem sagði þreytt á svip "ég sætti mig bara ekki við að kallinn skrifi enginn jólakort þrátt fyrir að við höfum verið saman í næstum tuttugu ár, óþolandi."
Enn á ný er ég minnt á hvað við erum ólík. Á þessum tíma árs þá erum við flest föst í viðjum vanans, bæði af því að við veljum það en líka af því að ómeðvitað viljum við gera allt eins og það var eða eins og það á að vera. Við yljum okkur við bernskuminningar um jólin eins og þau voru og við bætum síðan í pottinn hvernig jólin eiga að vera. Allir eiga að vera glaðir og ánægðir, allir eru fínir og vel til hafðir og þeir sem ekki fá nýja flík fara í jólaköttinn. Kallinn á að skreyta og konan á að vera búin að "öllu." Allir fá þá eitthvað fallegt ... Gjafirnar eiga að vera í samræmi við það sem við gáfum og við viljum gjarnan að börnin hagi sér eins og englar. Við eigum ekki að vera veik eða einmanna, þreytt stessuð eða vonsvikin. Við viljum líka gjarnan að hann eða hún hagi sér eins og manni sjálfum finnst rétt.
Þrátt fyrir að ég viti að um jólin, eins og alla daga, þá sé mikilvægt að taka hlutunum eins og þeir eru en ekki eins og ég vil að þeir séu, þá dett ég líka í þennan gír. Lífið og jólin eru eins og þau eru núna. Þegar ég upplifi þreytu þá upplifi ég hana og þannig er það. Þegar ég upplifi vonbrigði þá upplifi ég þau og þannig er það. Þegar ég upplifi streitu þá er það þannig. Þegar ég upplifi sársauka, söknuð og depurð þá er það þannig. Þegar ég upplifi gleði og hamingju, heillagleika jólanna og viðkvæmni þá er það þannig. Það er mótstaðan við að upplifun okkar sem veldur meiri vandræðum heldur en tilfinningarnar sjálfar. Þá fara hugsanir af stað eins og "þetta er ósanngjarnt, af hverju ég ..." Tilfinningar og hugsanir eru eins og öldur sem rísa og stíga, um leið og þær lenda á strönd raunveruleikans þá brotna þær og verða lygnar. Því er mótstaðan við tilfinninguna verri en tilfinningin sjálf. Á sama hátt þá eru hugsanir okkar um hvað allir aðrir eiga að gera tilgangslausar því eina sem við raunverulega stjórnum er okkar eigin upplifin (óþolandi staðreynd).
Ég óska þér raunverulegrar jólagleði, þakklæti yfir því sem þú átt en ekki þrá eftir því sem þú hefur ekki. Ég óska þér hamingju yfir því hver þú ert núna, hvort sem þú ert sjúklingur, heilbrigður einstaklingur, ungur eða gamall. Ég óska þess að þú getir glaðst yfir því litla og því stóra. Ég óska þess að þú hlustir á þrá þína og drauma á jólanótt, sem og aðrar nætur. Ég óska þér töfrum jólanna sem felast í að stjórna engu nema sínum viðbrögðum og njóta þess að vera hér og nú. Ég óska þér friðar í sálina.
Megir þú eiga og njóta þess að undirbúa jólahaldið með kærleik og án þess að setja á þig, eða aðra, óraunhæfara kröfur. Megi jólahátíðin þessa jól ylja þér um ókomna tíð.
Gleðileg jól.
Árelía Eydís
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.