Sölumaður af guðs náð
21.11.2012 | 20:35
Fólk segir oft um þá sem eru flinkir í að selja að þeir gætu selt ömmu sína (hver vill annars selja ömmu sína sem eru eitt það verðmætasta sem maður á?) Maður þekkir þá sem hafa ástríðu fyrir sölu á löngu færi. Ef maður fer á markaði erlendis þá eru það þeir sem leggja bæði hug og hjarta í að lokka mann til sín með "special price for you my friend" línunni. Þeir sem ná tökum á mér eru oftast þeir sem fá mig til að stoppa og hlusta á sögu sína. Þegar ég var á Tenerife náði ein afríkukonan mér til þess að setja fléttur í hár dóttur minnar. Hún sagði mér að amma sín væri 105 ára gömul og væri enn á lífi í Senegal. Á meðan hún fléttaði á fullu þá sagði hún mér frá sonum sínum sem væru í Sorbonne háskólanum í París og dætrum sem væru hjá ömmunni. Þegar ég borgaði henni fyrir flétturnar þá lét hún armband upp á handlegg mér sem amma hennar hefði gert (vel gert hjá gömlu konunni..). Ef ég myndi kaupa armbandið yrði ég hamingjusöm og rík og maðurinn minn myndi aldrei líta á aðra konu. Hið hógværa verð sem hún bað um fyrir armböndin borguðu fyrir synina o.s.frv. Hún seldi sem sagt ömmu sína nokkuð vel.
Ég hef skrifað bók um fólk sem er á réttri hillu í lífinu (bókin heitir sama nafni svo ég reyni nú að selja hana) og hef stúderað það í mörg ár hvaða hæfileika fólk hefur og hvernig þeir nýtast sem best. Ég hef unun af því að sjá fólk starfa við ástríðu sína. Þegar ég sé sölumann í ham veit ég að ég er nærri ákveðinni náðargáfu. Þetta er fólk sem þorir að tala við alla, fólk sem hefur áhuga á öðrum og hlustar. Góður sölumaður hlustar af ákefð því hann veit að hann verður að bregðast við viðskiptavininum til að ná "dílnum". Þeir hafa ánægju af því að "setja á svið" og dramatísera það sem þeir eru að selja. Fasteignasali sem kann sitt fag selur fólki ævintýri lífs þess. Góður sölumaður bíla selur fólki drauma. Góður sölumaður í búð selur manni fegurð og sölumaður í skóbúð selur manni hamingju. Góðir sölumenn eru góðir sagnameistarar.
Á sama hátt er jafn ömulegt að fylgjast með þeim sem eru á röngum stað og hafa ekki áhuga á sölunni. Ég fór um daginn í stórverslun og var að versla buxur, "drengurinn" sem afgreiddi mig tók buxurnar sem voru með brotum og krumpaði þær saman. Ég horfði með skelfingu á hann og spurði hvort hann ætlaði ekki að brjóta buxurnar saman. Hann horfði á mig sljóum augum og sagði "hmmmm..", ég spurði hann hvort hann kynni það ekki. "ahh.. nei", ég horfi í kringum mig og sá eftir langann tíma annan starfsmann. Ég dró hann að borðinu og sagði "hann kann ekki að brjóta saman buxur!" Síðan var hlegið soldið. Ég hugsaði með mér að það væri ekki skrýtið að fólk færi erlendis og gerði öll sín innkaup þar. Við verðum að bera virðingu fyrir hæfileikum þeirra sem eru fæddir sölumenn og leyfa þeim að þjálfa þá sem eru að vinna í þeirra stað um helgar.
Hvert og eitt okkar hefur eitthvað sérstakt að færa heiminum og góðir sölumenn eru sagnafólk sem hafa ástríðu fyrir því að þjóna þeim sem þeir selja. Prinsippið í sölu er þjónusta, góð saga og að finna þarfir þeirra sem þeir hlusta á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.