Skapandi pása og skór.

Í dag er ég í skapandi pásu frá öllu öðru. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við tökum okkur pásu frá því sem við venjulega erum að fást við verðum við meira skapandi fyrir vikið. Mig langar að verða enn meira skapandi svo ég tók daginn frá til að taka skapandi pásu. Ég fór í bæinn til að dást að bókinni minni nýendurútgefnu; Móti hækkandi sól, í bókabúðunum. Skemmtilegt að sjá sköpunarverk sitt í búðunum og ég brosti innra með með mér og vonaði að allir sem fengju sér eintak yrðu glaðari. Ég hélt áfram með pásuna mína og hitti vinkonu mína í kaffi og með því. Dagurinn er fullkomin því rigningin gerir það að verkum að maður nennir ekki neinu stórkostlega.  Pásann gékk vel ... eina vandamálið er að ég hélt áfram að labba um í bænum og sá ...SKÓ!

Ég fann hvernig að adrenalínið rann af auknum styrk um æðar mér er ég leit þá, yndislega fallegir og alveg "ég". Ég dró vinkonu mína með mér í búðina og mátaði og hún sagði mér að ég yrði að kaupa skóna því þeir væru svo mikið "ég" (vinkonur eru svo mikilvægar í lífi hverrar konu). Rétt áður en ég setti bílinn upp í til að eiga fyrir þeim náði taki á sjálfri mér og í staðinn fyrir að borga hugsunarlaust og reyna að heyra ekki hvað þeir kosta þá sagðist ég ætla að hugsa málið.

Síðan er ég lítið búin að hugsa um annað en þessa skó! Tók til í fataskápnum og fór í huganum yfir hvað mig vantaði akkúrat þessa skó við það sem ég á. Settist niður og kíkti í kerlingablað þar sem ég sá að skórnir eru akkúrat í þeim lit sem er mest í tísku núna. Ég yrði sem sagt alveg með þetta ef ég keypti þessa skó, hugsaði ég. Ég hef litið á klukkuna af og til og hugsað "hvenær lokar aftur búðin.?." Þetta er dæmi um hvað hugurinn er sjálfstæður, ef maður sleppir dýrinu lausu þá sér maður það alls staðar fyrir sér það sem hugurinn girnist. Um leið og maður kaupir sér einhverja bíltegund eru allir aðrir á sömu tegund þó að maður hafi aldrei tekið eftir þeim fyrr. Um leið og maður ákveður að eitthvað sé leiðinlegt þá er það staðfest. Ef maður sér ekkert annað en bólu á andliti sér þá stendur hún út hvenær sem maður lítur í spegil. Þegar maður sér fallega skó þá sér maður ekkert annað en að manni vanti skó.

Skapandi pásan mín hefur farið fyrir lítið í að hugsa um skó, þegar ég átti að vera að tæma hugann svo að eitthvað nýtt kæmist í kollinn á mér. En eftir á að hyggja þá komst eitthvað nýtt í hann;  nýjir skór!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband