Kraftaverkin gerast!
18.10.2012 | 10:41
Ég reyndi eins og ég gat að koma krökkunum eins hratt fram úr og hægt er í morgun. Átta ára daman grét við matarborðið og sagðist ekki vilja fara í skólann. "Skólinn er ömurlegur, ég vil ekki fara, ég hata stærðfræði.." Ég horfið á hana og skellti því fram að í síðustu viku hefði stúlka í Afganistan verið skotin í höfuðið af því að hún var að berjast fyrir því að stelpur fengju að fara í skóla. Skóladaman mín snarhætti að gráta og horfði opinmynt á mig. "Hver skaut hana og af hverju fá stelpur ekki að fara í skóla?". Ég útskýrði að sum staðar í heiminum fengju stelpur ekki að fara í skóla af því að þær ættu helst að vera ósýnilegar heima hjá sér. "Geta þau ekki gengið í Evrópusambandið?", Spurði hún, ég vissi reyndar ekki að hún væri svona pólitísk (vissi að hún væri skynsöm reyndar..). Nei, Evrópusambandið væri of langt í burtu.
Ég sagði henni líka frá skólafélaga stóru systur hennar sem er í dönskum lýðháskóla. Hann heitir Abdollah og er frá Iran. Hann kom sem flóttamaður frá Iran þegar hann var ný orðinn 15 ára. Hann flúði fyrst með bíl fyrir landmærin en eftir 25 daga náðist hann og var sendur aftur til Iran. Svo hélt hann aftur af stað en í þetta skipti labbaði hann yfir fjöllin. Eina sem að hann vissi var að hann vildi komast langt í burtu. Ferðin tók alls 3 mánuði, hann fór frá Tyrklandi til Grikklands þaðan til Ítalíu og frá Ítalíu til Frakklands svo Þýskalands og loks til Danmörku þar sem að hann náðist á strætóstoppustöð. Abdollah var hræddastur þegar hann var að sigla einn með ókunnugum til Grikklands. Þeir þurftu að sigla um nóttina og hafa öll ljós slökkt og hann hafði heyrt svo margar sögur af fólki sem að drukknaði á flótta. Abdollah er ekki viss um að fá að vera í Danmörku, hann þarf að endurnýja flóttamannastatus sinn. Þetta sagði ég við morgunverðaborðið. Hún væri heppin að fá að fara í skólann í dag.
Þá gall í fjögurra ára guttanum "en mamma er ég ekkert heppinn?". Jú, sagði ég honum því Abdollah hefur ekki heyrt í mömmu sinni eða fjölskyldu frá því hann flúði. hann á ekki land, hann hefur ekki fjölskylduna sína hjá sér og hann gengur ekki að vísri framtíð. Þetta allt ætti hann.
Kraftaverkið er að við vöknum, öndum, elskum og erum elskuð, göngum til verka okkar og fáum að borða. Eigum land og heimili og getum sent börnin okkar í skóla án umhugsunar. Höfum starf og verkefni og njótum alls þess sem lífið hefur upp á bjóða. Krakkarnir fóru í leikskóla og skóla án þess að kvarta eftir þessa ræðu. Snátan mín sneri sér við þegar við fórum út úr dyrunum og sagði "mamma við þurfum ekki alltaf að vera að ferðast, ég vil ekki fara þangað sem er stríð". Kraftaverkin gerast, það er ekkert stríð hér. Ferðalögin, hins vegar, eru nauðsynleg til að skilja betur meðbræður okkar annars staðar sem ekki eru eins heppin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.