Unaðsvika!
10.10.2012 | 13:27
Ég er í átaki! Það er svo sem ekkert nýtt, hef verið í yfir hundrað og fimmtíu átökum sem hafa farið misjafnlega vel, nenni ekki að hugsa um það meira. Ég er í viku átaki sem snýst um að njóta. Ég byrjaði í gær og fékk mér stórkostlega franska súkkulaðiköku með góðu kaffi og sat á kaffihúsi og skoðaði blöð og ljósmyndabækur með dýrðlegum myndum. Sat lengi og naut þess að taka tíma frá amstri dagsins. Fór svo um kvöldið og hitti vinkonur mínar og borðaði góðan mat og átti unaðslegar samræður.
Í dag er það nudd og lestur góðra bóka, kertaljós og stara út um gluggann á regnið sem lemur rúðurnar. Ég ætla að njóta þess að liggja í baði í tvo klukkutíma með bók og kertaljós. Ég er búin að setja upp dagskrá alla þessa unaðsviku. Sumt af því segi ég ekki frá... en ég á eftir að fara út að borða, í göngutúr um höfuðborgina með leiðsögn, hitta vini og vandamenn. Njóta samveru við margt skemmtilegt og gefandi fólk, fólkið mitt! Ég á eftir að fara í jóga og zumba. Ég mun lesa góðar bækur, vinna að skemmtilegum verkefnum. Fara í heilun og klippingu og klæða mig í öll fínustu fötin sem ég á og hengja á mig allt flottasta skartið sem ég finn. Ég mun skrifa um ævintýri og lifa ævintýri og svo mun ég líka fara út í búð og versla í matin. Elda unaðsmat, bleikju og lasagnia og fiskibollur og lambakjöt með ferskum kryddjurtum sem ég horfi á af græðgi. Ég mun njóta náttúrunnar og taka inn alla haustlitina, kannski fara í haustlitaferð á Þingvelli og bara anda! Ég mun horfa á börnin mín og hlutsta á þau. Ég mun njóta tónlistar og fara á söfn og ..... og .....
Komdu með mér í unaðsviku átak, lífið er til að njóta þess.
unaðskveðja,
Árelía
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.