Sjálfsvíg.
12.9.2012 | 17:03
Ég sat í Dómkirkjunni með öðrum aðstandendum þeirra sem höfðu tekið sitt eigið lif. Úti geysaði stormur sem var í samræmi við þann storm sem hafði geysað í lífi okkar þegar við misstum ástvin okkar. Hvort sem það var fyrir tuttugu og tveimur árum, ellefu árum eða á síðasta ári. Við fundum fyrir sorginni, missinum og söknuðinum eftir þeim sem kaus að yfirgefa okkur. Enn falla tár og munu falla áfram. Þannig er sorgin, hún brýtur okkur, mélar hjörtun smærra en nokkur getur séð. Ægivald hennar er slíkt að meðan á storminum stendur er hvergi skjól.
Mér varð hugsað til Epiketurs - einum af mínum upphaldsmönnum, sem var forn-grikki sem fæddist sem þræll en varð síðan mikil heimspekingur sem átti sinn eiginn skóla. Hann skrifaði (ég set það fyrst á Latínu af því mér finnst það svo smart....) Volentem fata ducunt, non lentem, frahunt. Örlögin leiða þann sem fylgir þeim viljugur, en draga hinn, er streitist á móti.
Hver sem hefur misst ástvin vegna sjálfsvígs hefur hugsað "af hverju komstu ekki til mín? Ég hefði átt að vita. Ég hefði átt að grípa inn í aðstæður. Ég hefði átt að....". En þrátt fyrir allt þá erum við ekki Guð almáttugur og kannski erum við, og höfum við verið, að streitast á móti örlögunum með því að ásaka okkur sjálf. Ef við látum örlögin leiða okkur þá leyfum við sorginni að méla hjarta okkar þegar hún skellur á.
Það eru ellefu ár síðan Kristín Gerður systir mín tók sitt eigið líf. Ég sakna hennar á hverjum degi, eins og aðrir ástvinir hennar. Þegar ég tjaslaði saman harta mínu varð það ekki samt. Ég varð aldrei söm en ég varð líka ný. Önnur en þá, áður en ég vissi að allt gæti horfið einn daginn án þess að ég gæti nokkuð við því gert.
Þegar ég leyfi örlögunum að leiða mig þá man ég betur kærleikan, hláturinn og gleðina sem systir mín gaf. Umburðarlyndið, endalausan stuðning og skilning. Ég er hætt að halda að ég sé Guð almáttugur og leyfi mér að horfa á hvað þessi reynsla kenndi mér. Sorgin er erfiður kennari en ef við förum í gegnum hana þá verðum við ný.
Besta forvörnin gegn sjálfsvígum er að við sýnum hvort öðru nærgætni, góðmennsku og skilning.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.