Þegar að ...
29.8.2012 | 19:11
Það voru margir sem minntu mig á, eftir síðasta pistil, að það var Þyrnirós en ekki Mjallhvít sem svaf í heila öld. Svo kom hin ungi konungsson og vakti hana blíðlega upp af hundrað ára svefni. Það eru margir sem bíða eftir því að prinsinn komi og vekji sig með kossi. Þessi bið eftir hinum unga prins kristallast í ákveðnu heilkenni sem kallast "þegar að..".
Ég hef verið að glíma við þetta heilkenni undanfarið. Eftir að hafa hreiðrar um mig í heimilisfriði þá settist ég niður til að gera það sem ég starfa við núna; skrifa. Heilkennið lævísa tók strax að vaxa í huga mér og hvíslaði "þegar að þú ert búin að kaupa þér nýja tölvu þá getur þú byrjað að skrifa." Ég fór strax á netið og skoðaði tölvur af áhuga, komst fljótt að því að ég hefði ekki efni á að kaupa tölvu núna. "Þegar að þú ert komin í gott form og ferð reglulega í líkamsrækt ÞÁ muntu skrifa mun betur." Hvíslaði heilkennið næst að mér. Ég fór á netið og kíkti á allar líkamsræktarstöðvar sem er að finna á landinu (ekki alveg viss hvernig ég ætlaði að stunda líkamsrækt á Akureyri þar sem ég bý í Reykjavík). Eftir að hafa skoðað myndirnar af hoppanndi, glöðu fólki með allt á hreinu, í líkamsrækt, settist ég niður og fékk mér súkkulaði. "Þegar þú verður orðin hoppandi, glöð og með allt á hreinu þá munu bækurnar koma til þín án fyrirhafnar.." Hélt heilkennið áfram að röfla í mér. Þá fékk ég nóg!
Það er ekkert vit í þessu - hausinn á okkur getur nefnilega verið okkar versti óvinur ef við látum þetta heilkenni hafa áhrif á okkur. Ég hafði verið eins og Þyrnirós, sofandi með því að hlýða heilkenninu og eyða dýrmætum tíma í að skoða það sem það skipaði mér. Á meðan tikkar tíminn og ekkert skrifast af sjálfu sér. Þyrnirós svaf sínum svefni og var ávallt ung, rjóð blómarós, meira að segja þurfti hún ekki að kyssa nokkra froska áður en hún fékk prinsinn. En það er ævintýri. Í hinu hversdagslega lífi þá verðum við eldri, kyssum froska og þurfum að hafa fyrir hlutunum. Bækur skrifa sig ekki sjálfar og ég get alveg notað gömlu tölvuna og ég þarf ekki að fara í líkamsrækt á hverjum degi til að skrifa ég meira segja get skrifað án þess að vera með allt á hreinu því það er það hvort sem er enginn!
Núna er ég með miða sem á stendur: Ekki trúa hugsunum þínum og skrifaðu, þú ert ekki Þyrnirós!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.