Sundlaugarperri!

Ég er alltaf á leiðinni í fjallgöngu en einhvern veginn þá er ég alltaf á leiðinni en ekki á leiðinni upp neitt fjall. Mér varð hugsað til þess þegar ég keyrði fram hjá Esjunni nokkrum sinnum í röð að þegar ég kæmist á toppinn þá væri örugglega einhver búin að fara á höndum upp á topp eða hoppa á öðrum fæti. Kannski meðan ég tölti upp þá fari einhverjir tuttugu ferðir upp og niður...  Ég keyrði sem sagt fram hjá en gékk, hins vegar í björg í nokkra daga. Reglulega tek ég nokkra daga í einangrun þar sem ég er ein með bókunum mínum, tölvunni og skrifa og skrifa. Ég kalla það að ganga í björg eins og Huldukona.

Þegar ég geng inn í svona skriftar"bjarg" þá gerist tvennt: Í fyrsta lagi verð ég mjög utan við mig. Til dæmis fór ég í sund í Borgarnesi til að þvo af mér mesta skítinn og gékk beint inn á ... kviknakta karlmenn. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem ég geng inn í karlaklefa og átta mig ekki á því fyrr en slátrið sveiflast framan í mig. Nú ber að taka fram að mér líkar vel við nakta karlmenn og finnst fátt fallegra en það er kannski óþarfi að vera orðin þekktur sundlaugarperri um allt land. Nema þetta sé vegna þess að ég sé orðin miðaldra og sjái svona illa - veit ekki.

Hitt sem gerist er að ég smelll tuttugu (reyndar líklega þrjátíu..) ár aftur í tímann. Bang, beint inn í ritgerðasmíð námsáranna og allt í einu langar mig að reykja eins og strompur og fátt verður meira aðkallandi en súkkulaði. Það er sama hvað ég segi sjálfri mér að það sé mun hollara að fara í fjallgöngu.. eina sem system kallar á er..kaffi, sígó og súkkulaði!  Í þetta sinn sagði ég mér að lífrænt súkkulaði væri örugglega hollt og að ég myndi borða það hægt. Well... áður en ég vissi af var allt hið lífræna súkkulaði horfið ofan í mig þar sem ég sat sakbitin og reykti eina og lofaði sjálfri mér að næst myndi ég ekki taka með mér neitt sem byrjar á S. Ekki sígó, ekki súkkulaði og ég myndi líka skrá mig á 52 tinda á næsta ári.

Það vill svo til að ég er að koma að kaflanum í nýju bókinni minni sem fjallar um vana og hvernig maður nær að breyta vana. Næsti kafli á eftir fjallar um frestunaráráttu svo að ég er sannfærð um að ég fari að hætta öllum S-um, hætta að áreita nakta karlmenn og klífa alla þá tinda sem á vegi mínum verða.  Hvernig var þetta batnandi konu er best að lifa - ekki satt. Verið batnandi! Mér veitir alla vega ekki af...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband