Engill augnabliksins í háloftunum.
26.6.2012 | 16:06
Ég settist niður í flugsætið, á leið frá Akureyri, þreytt eftir tveggja daga fundareið um Norðurlandið, samstarfsmaður minn settist við gluggann. Ég hugsaði um allt sem ég ætti eftir að gera þegar ég kæmi heim.."Ertu frá Akureyri'", ung björt og glöð kona í sætinu fyrir framan mig vakti mig upp úr hugsunum mínum. "Nei" svaraði ég. "Hvenær komstu? Er þetta maðurinn þinn?" Ég sagði henni að ég hefði komið í gær og farið á Húsavík og Mývatn og maðurinn væri ekki minn. "Vááá... keyptir þú þessa eyrnaloka þar?", hún sneri sér að vinkonu sinni, "sjáðu hvað eyrnalokkarnir eru flottir..."."Ég held með Þór en þú?", ég hugsaði mig um enda ekki mikil íþróttaálfur, "ÍBK" svaraði ég. "Ertu þaðan?"
Um leið og komið var að flugtaki, svona nokkurn vegin á því andartaki sem ég fylltist kunnuglegri ónotatilfinningu, þá æptu vinkonurnar í sætinu fyrir framan sig .."vvvvvííííí... við erum að fara á loft, váá sjáðu hvað húsin eru lítil..". Svo sneri hún sér við og sagði mér að hún væri á leiðinni í sumarbúðir á Laugarvatn. Eftir að bjallan hringdi og aflétti þar með sætisólarhafti okkar, sneri hún sér aftur við, ljómaði öll í framan og tilkynnti mér að nú fengjum við kaffi og súkkulaði með! Flugfreyjan kom að vörmu spori, spáin reyndist rétt, við fengum hvortu tveggja. "Þetta er besta kaffið sem ég hef nokkru sinni smakkað" sagði hún flugfreyjunni. Eftir það sneri hún sér að okkur og sagði "sjáið þið" og í sömu andrá leit hún út um gluggann og þuldi upp heiti á jöklum, vötnum og fjöllum. "Þarna er Skorradalur, hvar er þá Húsafell?" "Hvað eigum við langt eftir? Kannski við ættum að renna okkur í gegnum göngin, ha, ha..." Aftur horfði hún á mig og sagði "Það er svo miklu skemmtilegra að flúga heldur en keyra.", Ég hafði nú ekki alltaf verið sammála henni. Ég heyrði hana tilkynna vinkonu sinni að hún væri orðin hundleið á ástarmálum sínum, hver er það ekki reglulega, hugsaði ég. Rétt áður en við lentum voru vinkonurnar reglulega spenntar og týndu til öll kennileiti sem þær þekktu og svo var það "Víííííí vííííí.... við erum að lenda!! Um leið og lent var klöppuðu þær saman höndum og Engill augnabliksins leit á mig og sagði "velkomin í borg óttans!", ég var eitt spurningamerki í framan "já, það er Reykjavík".
Ég gékk úr vélinni, eftir þessa kennslustund, hjá Engli augnabliksins. Hún hafði kennt mér að njóta þess sem er núna! Gleyma ekki kraftaverki augnabliksins eins og í flugvél, að komast á loft og aftur niður og njóta þess sem fyrir augu ber. Hún hafði kennt mér að njóta þess hversdagslega eins og að drekka kaffi og borða súkkulaði í flugferðinni og finnast það vera besta kaffið í heiminum, af því að hún var viðstödd í augnblikinu. Ég sem venjulega flýg með það eitt í huga að komast niður og halda áfram að sinna þúsund verkefnum fékk kennslu frá Engli auganbliksins þessa flugferðina. Hún hefur rétt fyrir sér, kannski er borg óttans það ástand að vera aldrei staddurí nútíðinni, alltaf fortíð eða framtíð.
Ég náði ekki að kveðja hana enda var hún svo spennt að komast í næsta ævintýri að hún hefði ekki haft tíma til að tala við mig. Engill augnabliksins hafði hins vegar snert mig djúpt með kennslu sinni í að njóta augnabliksins óttalaus. Maður mætir englum og kennururm alls staðar - líka í háaloftunum. Ég vona að þú hittir einhverja fljótlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.