Sjö ráð til að vera yngri, grennri, fallegri og ríkari....
10.5.2012 | 21:05
"Það getur vel verið að við hér inni trúum því sem þú segir, en ekki fólkið hér fyrir utan þetta herbergi.." Hann leit á mig og hristi höfuðið, ég vissi ekki hvort hann væri að hrista höfuðið yfir vitleysunni í mér eða þeim þarna fyrir utan.
Í fyrirlestri mínum talaði ég um að það sem væri best til þess fallið að selja okkur eitthvað væri, fyrir konur eitthvað sem sneri að útlitinu en fyrir karla að standa sig! Ef ég segi konum nógu oft að það sé eitthvað að útliti þeirra ef þær eru ekki, ... ungar, grannar, háar, ljóshærðar, dökkhærðar eða rauðhærðar .. nú þá get ég selt eitthvað til að "laga málið". Oft þegar fjallað er um tískuna þá er sagt að "nú sé allt leyfilegt..", það þýðir á mannamáli að ef þú ferð eftir reglum dagsins í dag þá er í lagi með þig. Ef ekki þá.....
Í sama fyrirlestri var ég að tala um að ytri þættir eins og staða, völd, peningar og útlit hafi ekki mikil áhrif á hamingju eða velferð okkar sem einstaklinga.
Þrátt fyrir að vera of feit (miðað við hvað..), of gömul (miðað við..) og ekki falleg (miðað við..) og eiga takmarkaða peninga ..(munurinn á þeim sem á 50.000 bandríkja dali og þeim sem á 500.000 varðandi hamingju og vellíðan er mjög lítill..). þá getum við lifað fínu lífi. Alveg satt, barasta hreint frábæru og skemmtilegu og góðu lífi.
ps - ef þú vildir fá sjö ráðin þá biðst ég afsökunar á titlinum en heimasmíðuð væru þau:
1. Hættu að fókusa á útlitið og einbeittu þér að því að líða vel.
2. Ekki setja nærsýnisgleraugu á þig þegar þú horfir í spegilinn.
3. Hentu vigtinni, miðaðu við föt og konur í þinni fjölskyldu (genin) þegar þú hugsar um hvernig þitt vaxtalag er. Horfðu á hvernig mamma þín, amma, systur og frænkur eru og þá veistu svona nokk hverju þú átt von á og hvað er eðliegt fyrir þig.
4. Nærðu sál, líkama og anda. Líkamann með því að hreyfa þig eins og þú kannt best við, næra þig með góðum mat sem hentar þér og hvíla þig vel. Sálina með fegurð, með því að njóta samveru við aðra, njóta lista, njóta þess að eiga þinn stað í tilverunni. Andann með því að gera eitthvað nýtt reglulega.
5. Vertu þakklát.
6. Gerðu öðrum gott með því gerir þú þér sjálfri gott og hættir að einblína á hvað er að þér!
7. Aldrei, aldrei setja út á útlit annarrar konu eða setja út á foreldrahæfni hennar - þar erum við konur veikastar fyrir.
Tallíhó, Árelía Eydís
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.