Hver er þinn Everest?

Ég fór á fyrirlestur með sænsku ævintýrakonunni  Renötu Chlumska í síðustu viku. Hún var heillandi og hafði frá mörgu að segja. Hún hefur hjólað frá Nepal til Svíþjóðar, klifið Everest, farið á hjóli og kajak í kringum Norður-Ameríku, ferð sem hún fór ein og var fjórtán mánuði að ljúka! Það var margt sem vakti athygli mína, á fyrirlestrinum, en eitt situr fast eftir. Renata sagði að fyrst þegar hún fór til Nepal þá var hún í grunnbúðunum í sjö vikur og kynntist þar fólki sem var að leggja á tindinn. Hún sagði að það að kynnast þeim tveimur konum sem reyndu við tindinn, á þeim tíma, hafi breytt lífi sínu. "Allt í einu sá ég að ég gæti farið á tindinn.". Hún hafði haft þá mynd í huganum að hún þyrfti að vera "stór, vöðvamikil og með hár á bringunni.." til að komast upp. Nú allt í einu uppgötvaði hún að hún GÆTI svo að myndinn varð til í huga hennar. Hún lagði mesta áhersls á það, eins og flestir sem láta drauma sína rætast, að hugurinn væri öflugasta tækið til að komast heill á leiðarenda.

Allt í einu varð myndinn til! Þannig varð það líka fyrir konur þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti, þegar íslendingur fékk nóbelsverðlaunin, þegar íþróttamenn ná afburðaárangri. Þegar einhver ákveður að láta drauma sína rætast þá er betra að hafa fyrirmynd. Hún eða hann gat það og þá get ég!

Núna þegar ég sit og skrifa bók um sköpunargleðina er ég minnt á að hver og einn á sér sinn Everest! Ég, til dæmis, hef lítin áhuga á að ganga á Everest í bókstaflegri merkingu, ekki minn draumur. Ég hef lítin áhuga á að verða afreksíþróttakona eða forseti. Ég sé ekki tilganginn í að ganga á 52 tinda á ári. Hins vegar gæti ég hugsað mér að lesa 52 bókmenntaverk ,að tala við 52 áhugaverða einstaklinga og að skapa 52 bækur, myndir og svo ég tali nú ekki um 52 ógleymaleg augnablik. Þetta eru mínir tindar. Þegar fólk nær árangri og klífur sína tinda þá hefur það alltaf lagt hart að sér. Ef maður ætlar að leggja hart að sér er betra að það sé í einhverju sem maður hefur ástríðu fyrir.

Hver er þinn Everest?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband