Hætt að fresta ... eða þannig!
27.3.2012 | 10:28
Í gær var "gera allt sem ég hef frestað" dagurinn hjá mér. Ég er að skrifa bók m.a. um frestunaráráttu og ég skoraði mig á hólm. Ég fór í bankann með pappíra sem voru orðnir svo útmáðir að það sást ekki lengur hvað stóð á þeim. Ég fór til endurskoðandans, ég fór til læknis og ég fór með gardínuna í viðgerð. Ég ætlaði að bóka mig á hótelið fyrir ráðstefnuna sem ég er að fara í í næsta mánuði. En.. það er einn dagur enn í "deadlinið" og ég get haldið áfram að kvíða fyrir því að nú séu öll herbergi bókuð og ég þurfi að sofa á götunni.... í New York!
Ég á enn eftir að panta tíma hjá tannlækninum og taka til í bílskúrnum og raða reikningunum og finna leið til að drasið safnist ekki saman ... en það var samt gott að gera það sem ég gerði þó á þessum "gera allt sem ég hef frestað" deginum. Næst verður það allt sem ég hef frestað vikan.
Orkan sem fer í að fresta er ótrúleg, alveg ótrúleg. Ég held ég hljóti að vera eina konan á Íslandi sem er svona. Þess vegna er best að ég hætti að fresta því að að skrifa og setjist niður og skrifi kaflann um frestunaráráttuna!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.