Nýtt hjálpartæki í svefnherberginu.
22.11.2011 | 12:25
Það er svo margt dásamlegt sem fylgir því að vera á miðjum aldri. Í vikunni keypti ég til dæmis nýtt hjálpartæki í svefnhverbergið mitt sem gaf mér ástæðu til að sjá allt í nýju ljósi. Ein stærsta ástin í lífi mínu eru bækur. Á náttborðinu eru margar spennandi hugleiðingar og sögur sem veita mér góða inngöngu í svefnheima á hverju kvöldi. Undanfarið hafa orðin runnið til og setningarnar minnt á öldugang. Ég hef því þurft að sæta sjávarföllum í lestrinum og svo kom að því að ég varð að viðurkenna fyrir sjálfri mér að það væri ekki við bókaútgefendur að sakast (sem gefa út bækur með minna letri) heldur þyrfti ég að fá nýtt hjálpartæki. Ég arkaði niðrí bæ og keypti mér lesgleraugu og viti menn öldugangurinn hætti og orðin eru aftur farin að standa í stað. Ég sé líka manninn minn alveg í nýju ljósi! Ég hvet hann hins vegar til ekki að fá sér nærsýnisgleraugu.
Á miðjum aldri höfum við tækifæri - ef við erum heppin, til þess að sjá allt í nýju ljósi! Skilgreina lífið alveg upp á nýtt og leyfa sál okkar að hvísla að okkur hver við erum. Aftur! Þegar við erum unglingar þá snýst allt um að finna út hver við erum og svo taka hormónarnir völdin í nokkra áratugi! Hreiðurgerð verður sterkasta hvöt okkar og lífskrafturinn fer í að byggja upp hreiður á sem bestan veg fyrir alla sem þar eru með okkur. En á miðjum aldri um það bil á sama tíma og náttúran gefur okkur að sjá aðeins verr (enginn tilviljum það) þá kallar seinna kynþroskaskeið okkar á okkur. Hvað viltu núna? Hver ertu núna?
Þá er svo spennandi að sjá allt í nýju ljósi, að horfa á lífið og þá sem eru samferða manni í nýju ljósi. Maður skilur enn betur en áður að það er ekki sjálfgefið að fá þetta tækifæri til þess að endurskilgreina sig. Styrkurinn sem maður hefur safnað á undanförnum áratugum gefur manni kraft til að hlusta eftir því sem sálin hvíslar. Nýjar áskoranir og þor til að taka til í bakpokanum sem er oft fullur af því sem á eftir að horfast í augu við. Kjark til að standa með sjálfum sér og horfa fram á veginn. Ný lesgleraugu geta nefnilega gert það að verkum að maður sér betur að hið smáa skiptir mun meira máli en maður reiknaði með. Hið hversdagslega, það sem blasir við gefur manni gleði og góða tilfinningu fyrir því að vera á lífi og finna til og geta bætt það sem manni langar að bæta og látið hitt liggja á milli hluta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.